26 febrúar, 2007
Hann á afmæli í dag....
Bara af því að Stubbalingur á afmæli í dag get ég ekki einbeitt mér að lærdómnum. Get ég virkilega ekki bæði lært og undirbúið afmæli í leiðinni? Svei mér þá, held ég sé bara að breytast í karlmann!!
25 febrúar, 2007
Ætti nú ekki annað eftir..
Æji nei mamma, nú ertu búin að drepa mig... í leiknum! En ef ég fæ svona snakk þá fæ ég meiri orku og get haldið áfram, má ég það?
23 febrúar, 2007
Kvöldverkin
Á meðan maður burstar tennurnar er hægt að labba fram á gang, skella útidyrahurðinni í lás, slökkva í stofunni, kíkja á börnin, opna uppþvottavélina (ef hún er búin) og margt fleira. Þegar maður er hinsvegar að flossa, þá eru báðar hendur uppteknar og lítið hægt að gera, í mesta lagi kíkja á börnin og horfa á sjálfan sig í speglinum (ófögur sjón á þessum tíma dags). Svo að ef ég horfi ekkert á sjónvarpið það kvöldið, þá gleymi ég að flossa. Ég er kona - þess vegna hef ég þörf fyrir að multitaska.
22 febrúar, 2007
Fegurð
Horfði á mjög menningarlegan tónlistarþátt á ríkissjónvarpinu. Viðmælandinn var að tala um "ljóta" tónlist, ekkert skæri eins í eyrun. Hann bar það saman við "ljótt" landslag, sem væri mun þolanlegra. Nú er ég á þeirri skoðun að það sé ekki til neitt sem er hægt að kalla ljótt landslag. Ef það er eitthvað ljótt í umhverfinu þá er það yfirleitt af mannavöldum. Kannski hefur maðurinn verið að meina ljótt útsýni, það hlýtur að vera. Semsagt, það er ekki hægt að tala um ljótt útsýni frekar en ljót börn, því að eins og við vitum eru öll börn falleg. Enda er börn jafn saklaus og óspillt náttúra - ætli það sé sakleysið sem ber þessa fegurð?
14 febrúar, 2007
Tölvutrítill
Þessa dagana eru gangstéttarnar með tvennskonar áferð: svellbunka og auðar. Stubbalingur vill helst labba á leikskólann, því að á meðan getur hann verið kallinn í tölvuleiknum. Hann má bara labba á svellbunkanum því að annars missir hann líf. Á leiðinni getur hann náð sér í aukalíf með því að hoppa upp í greinarnar sem slúta út á gangstéttirnar og stundum þarf ég að lyfta honum til að hann nái þeim. Svo breytast líka reglurnar þegar við löbbum yfir götu og þá má bara labba á auðu. Samt er þetta greinilega mikil hættuför því að hann byrjar með c.a. fimmþúsund líf, eftir 7 mínútna labb erum við komin á leikskólann og þá er hann yfirleitt búinn með þau öll. Þrátt fyrir öll aukalífin á leiðinni. Held að ég eða pabbinn ættum að drífa okkur á fyrirlesturinn um netfíkn sem verður í Hlíðaskóla í kvöld. Hann er reyndar ætlaður unglingaforeldrum en hvernig er þetta með máltækið um barnið og brunninn...
(Er farin að íhuga að breyta nafninu á blogginu mínu í: Sögur af Stubbaling..)
(Er farin að íhuga að breyta nafninu á blogginu mínu í: Sögur af Stubbaling..)
12 febrúar, 2007
Rétta blandan
Það er ekki hægt að saka mig um ýkjur þegar ég segi að Stubbalingur sé með lítið hjarta. Ég keypti nýja diskinn hans Ladda fyrir fjölskylduna og hóf hann ferðina í gamla geislaspilaranum hans Stubbalings. Hann var hræddur við Jón Spæjó. Þegar kemur að knúsi og keleríi er hann hinsvegar með stórt hjarta, alltaf til í svoleiðis. Er þetta ekki akkúrat rétta blandan?
03 febrúar, 2007
Hárið
Já, soldið fyndið þetta með klippinguna. Ég fór semsagt í klippingu í síðustu viku, á föstudegi. Aftur orðin frekar dökkhærð, fór í aðeins ljóst í millitíðinni og toppurinn á mér hefur ALDREI verið svona stuttur eins og núna. Svo ég sé alveg mun. En ekki gítarleikarinn, hann tók ekki eftir neinu. Ég bjóst svosem ekki við því heldur og minntist ekkert á það við hann, fyrr en í gær,en þá var liðin vika frá klippingunni. Stubbalingur var nefnilega í fríi á leikskólanum þann dag og ég ákvað þarna um morguninn að plata hann í klippingu. Hann átti að fá að koma við í vídeóleigunni í bakaleiðinni og velja sér spólu. Þegar gítarleikarinn kom heim eftir vinnu var nýklippti Stubbalingurinn það fyrsta sem hann kommentaði á, samt var nú bara svona verið að snyrta á honum hárið en ekki að verið að gera neinar stórvægilegar breytingar.
Þarna sé ég fyrir mér að hægt sé að velja um þrjár skýringar:
1 - Ég sést ekki jafn vel og Stubbalingur (er meira svona blörrý í bakgrunninum)
2 - Athyglisbrestur Gítarleikarans beinist aðallega að eiginkonunni
3 - Karlmenn taka frekar eftir hárgreiðslu á öðrum karlkyns verum.
Þarna sé ég fyrir mér að hægt sé að velja um þrjár skýringar:
1 - Ég sést ekki jafn vel og Stubbalingur (er meira svona blörrý í bakgrunninum)
2 - Athyglisbrestur Gítarleikarans beinist aðallega að eiginkonunni
3 - Karlmenn taka frekar eftir hárgreiðslu á öðrum karlkyns verum.
02 febrúar, 2007
Kökumeik
Á föstudögum fer ég í sturtu. Blæs svo á mér hárið og slétta það með sléttujárninu þangað til það er eins og nýstraujaður dúkur. Svo set ég á mig dökka meikið mitt og sólarpúðrir, gott að nota maskarann allhressilega í dag. Svo fer ég í þröngu gallabuxurnar og támjóu stígvélin. Að ofan er það ýmist þröngur bolur eða töff skyrta og svo léttur jakki yfir. Punkturinn yfir i-ið er nýja, breiða leðurbeltið mitt. Sko til, núna er ég tilbúin í Kringluröltið. Þú hefur örugglega hitt mig þar. Nokkrum sinnum. Ég er önnur hver manneskja í Kringlunni á góðum degi.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)