30 apríl, 2008

..og ekki dauður enn (frekar en Pálmi Gunnars)

Nei þeir eru nú ekki alveg á því að gefast upp starrarnir þó svo að hér sé búið að múra upp í flest skotin þeirra. Það voru óttaleg læti og fyrirgangur hérna rétt áðan, sem endaði með óvenju miklu stuði í arninum mínum. Ég er að fatta það núna hvað arinninn var hreinn í hin skiptin sem ég þurfti að hleypa út fugli. Núna var hann fullur af ösku og hálfbrenndum pappírssnifsum. Ætli gítarleikarinn hafi verið að brenna leynipappíra... hummm....

Allavega, afraksturinn er óhreint parket, sem er nú lítið mál að ryksuga. Hér er mynd af vettvangi:


(Tupperware hnoðskálin kemur sér vel þegar þarf að koma út óæskilegum fiðruðum vinum)

En það sem verra er:
ÞAÐ ERU SÓTUG FÖR EFTIR FUGLSFÆTUR Í HVÍTA LOFTINU MÍNU!!







Þetta flokkast undir skrítnustu bletti sem ég hef þurft að þrífa á heimilinu, getur einhver toppað?

29 apríl, 2008

Dagurinn í dag

Það endaði með því að ég lagaði mér kaffi um hálf-tólf. Erfitt að vakna í morgun og þrátt fyrir langan labbitúr með börn í skóla og leikskóla var ég ekki enn vöknuð þegar ég kom heim. Erfitt að koma einhverju í verk með heilann hálf sofandi.
Annars er bara notalegt að sitja hérna með kaffibollann og ritgerðarlesefni, prjóna og útsaum við höndina. Það hvín í ónýtu gluggunum mínum og fyrir utan gluggann sé ég glitta í fánana sem hamast í rokinu fyrir utan Kjarvalsstaði.
Ætla sko á bílnum að sækja Stubbaling.

25 apríl, 2008

Thirty something blúsinn?

Einu sinni var ég ung móðir með eitt barn. Ég mætti samviskusamlega á alla fundi og uppákomur í leikskólanum. Mætti snemma til að hlusta á barnið syngja á opnu húsi, hún var dressuð upp í tilefni dagsins, gallasmekkbuxur, hvítur bolur og tíkarspenar (já þetta var löngu fyrir bleiku byltinguna). Ég var í skóla á þessum tíma eins og núna - hefði sko ekki látið próflestur eða annað húmbúkk koma í veg fyrir að ég ræktaði skyldu mína sem móðir. Allt skyldi vera eftir bókinni. Við mættum í sveitaferðina, með fötu og skóflu. Allir inn í fjós - prinsessan mín var ein sú ötulusta að skoða beljurnar og grísina, fitjaði ekki einusinni upp á nefið, fædd og uppalin á mölinni - já alvöru stelpa sko!! Svo út í rokið til að húka yfir grillinu, bíða eftir pulsum og svala.. namminamm - allir voða glaðir.

Annað barn fór á annan leikskóla, þar voru aðrar hefðir og skyldur. Allar jafn skemmtilegar og frábærar. Líka sveitaferðin. Best fannst mér tombólan á vorin sem foreldrafélagið stóð fyrir. Þá koma krakkarnir allir með 3 dót að heiman, vel með farið, sem þau eru hætt að leika með, og gefa á tombóluna. Svo eru góðir foreldrar sem sjá um að númera þetta og raða upp og hafa allt tilbúið fyrir litlu krílin á laugardagsmorgni að koma með hundraðkallinn sinn og kaupa miða og sjá hvað þau fá spennandi. Að auki koma foreldrar með kökur til að selja hvor öðrum og peningarnir fara í sjóð til að fara í sveitaferðir og útskriftarferðir með börnin. Ég lagði metnað í að barnið veldi dót af gaumgæfni, vel með farið, ekki of stórt, ekki of lítið. Síðan bakaði ég stríðstertu sem hæfði stöðu minni sem tveggja barna móðir, til að leggja á kökubasarinn. Og öll fjölskyldan mætti prúðbúin.

Þriðja barn fór á þennan sama leikskóla. Hann er á síðasta árinu sínu, ég er búin að vera í þessum bransa í fjórtán ár. Ég fór með hann í sveitaferðina s.l. vor. Mér varð allri lokið þegar ég stóð úti í grenjandi rigningu og reyndi að ná barninu inn í fjósið þangað sem var búið að færa pulsuveisluna. Minn sat grenjandi (í kapp við rigninguna) á bak við ruslatunnu, kvartaði yfir skítafýlunni og hafði engan áhuga á neinu nema ónýta traktornum sem stóð í mesta forarsvaðinu. Engar pulsur fyrir mig takk, engan svala og burt með þessi loðnu illa lyktandi óféti!!! Veit ekki alveg hvort ég mæti núna í maí...

Í fyrramálið er tombólan. Jú, ég fékk hann reyndar til þess daginn fyrir sumardaginn fyrsta að velja úr dótafjallinu eitthvað til að gefa. En núna er klukkan orðin korter í tólf og ég er ekki byrjuð að baka. Sit hérna í góða skrifborðsstólnum mínum með hitapoka á mjóbakinu sem fór í baklás fyrr í kvöld, eina ferðina enn. Held að það verði bara skellt í möffins í fyrramálið. Ég er greinilega farin að reskjast - en kommonn.. sumir eiga gott betur en 3 börn, sem öll eru á leikskóla með tilheyrandi sveitaferðum og fjáröflunum. Kannski er galdurinn að hafa aðeins styttra á milli barna?

Ég prófa það þá bara í næsta lífi. Of seint núna - bakið er ónýtt!

23 apríl, 2008

Hefnd starranna

Nei ekki enn og vonandi aldrei sem ég þarf að skrifa þennan pistil. Finnst þetta bara flottur titill. En það var óvenju hljótt í fjölbýlishúsinu í morgunsárið, eitt og eitt ráðleysislegt fuglakvak. Þeiru eru að ráða ráðum sínum, svo mikið er víst - spurning hvort þeir eru að ræða hefnd eða næsta hreiðurstæði.

Biðjið fyrir mér kæru vinir...

22 apríl, 2008

Flóabardagi

Ekkert gerist utanhúss annað en að starrarnir eru búnir að vera á fullu í hreiðurgerð í þakskegginu okkar. Birgitta benti mér á að þetta væri ekki þríbýli heldur fjölbýli, mikið til í því. Er ekki viss um að ég vilji vita hvað það búa mörg hjón í þakinu sem eru að undirbúa fjölgun.

Allavega, fólkið á neðri hæðinni er fólk framkvæmda, eins og áður hefur komið fram. Í gærkvöldi ræsti Neðrihæðarmaðurinn út eitt stykki Gítarleikara, nú skyldi ráðist til atlögu. Til stóð að henda út hreiðrum og fylla upp í göt og glufur. Neðrihæðarmaðurinn er búinn að vera upp og niður stiga í allan dag (eiginlega bara fleirihæðarmaður) og í kvöld bættist Gítarleikarinn við. Reyndar tekst sjaldnast að ná til hreiðranna, heldur er bara sprautað kvoðu í götin svo að fuglarnir komist ekki í þau. En hvað svo? Ég er hræddust um að nú sé komið að meiri háttar flóabardaga, flærnar leiti inn á við þegar fuglinn er horfinn. En ég treysti á að fjólublái spreybrúsinn frá Ameríku geri sitt gagn og að flærnar hafi stuttan líftíma án hitans frá fuglunum.

Ég lagði málstaðnum lið með því að sjá Fló á skinni á Akureyri s.l. laugardagskvöld. Núna á ég hins vegar að vera að leggja lokahönd á heimaprófið sem á að skila á morgun. Gangi mér vel, já takk.

16 apríl, 2008

Lúxusvara?

...og ég keypti 3 appelsínur í Hagkaupum og þær kostuðu litlar 344 krónur!!!

Er ekki allt í lagi?

Hvessir

Vor æsku minnar á sér alveg sérstaka mynd í mínum huga. Ég að hjóla heim úr tónfræðiprófi í gaggó þar sem Sigga Ragnars (eldri) sat yfir (hún renndi alltaf yfir prófið þegar maður skilaði og benti á hitt og þetta sem mátti betur fara). Prófin voru haldin á laugardegi, trúlega í lok apríl eða í byrjun maí, því að þetta var á þeim árum sem börn fengu almennilegt sumarfrí - skólar voru ekki teygðir langt fram í júní.

Þessi frelsistilfinning á gamla DBS garminum, tónfræðipróf þýddi að tónlistarskóla var um það bil að ljúka fyrir sumarið og öllu hinu líka. Hlíðarvegurinn var orðinn auður. Nógu auður til að hægt væri að hjóla og fara úr kuldabomsunum.

Ég heyrði í fréttunum í gær að vorið væri komið. Það er öðruvísi þetta Reykvíska vor. Fattaði það allavega í dag að dagurinn í dag er það sem mér finnst vera týpískt fyrir reykvískt vor. Göturnar eru allar auðar, gangstéttirnar eru haugaskítugar eftir sandaustur vetursins og það er nógu hvasst til að óhreinindin takast á loft og fjúka í andlitið á manni, og hárið, og fötin. Einn og einn rigningardropi skellur á mann inn á milli. Trén eru nakin og drusluleg en eitt og eitt blóm farið að kíkja upp.

Ætli vorið sé virkilega komið?

15 apríl, 2008

Strumpurinn í mér

Óttalega er ég innantóm og hægvirk. Hef samt verið að næra strumpinn í mér og afrekaði í dag litla prufu með harðangri og klaustri. Það lærði ég hérna:

http://www.needlework-tips-and-techniques.com/beginner-guide-to-hardanger.html

Veit ekki hvort ég á eftir að verða stórvirk á þessu sviði, sjáum til ;)

10 apríl, 2008

Jájá


Sól í dag

Hitastigið í íbúðinni hækkar jafnt og þétt eftir því sem líður á daginn. Það eru risastórir gluggar í stofunni og frekar stór í borðstofunni - engin gluggatjöld, ekki einu sinni gardínustangir.
Blessuð sólin elskar allt...

09 apríl, 2008

Hvaða snjór er þetta eiginlega?

Þegar þetta hvíta fór að frussast ofan af himninum í gærkvöldi, var ég nokkuð viss um að það yrði horfið þegar ég vaknaði. Eða farið á hádegi í síðasta lagi. Var ekki eins viss í morgun þegar við löbbuðum út í morguninn, í kuldaskóm og með útigalla á öxl. Ég slapp allavega við "bannnaðaðstíga'ástrik" en teygði mig í grýlukerti á umferðarljósi í staðinn.


Mig langar í Gamla bakaríið....



(Fékk myndina lánaða hjá Ásthildi Cecil, af því að hún er svo flottur ljósmyndari og ég á enga mynd af þessu frábæra bakaríi í fórum mínum)

08 apríl, 2008

ooooog ég stóðst auðvitað ekki mátið og tók strumpaprófið. Ég er voðalega sátt við niðurstöðuna svo ég ætla að birta hana hér:


Ekki er sopið kálið..

Ég sagði þér um daginn frá langþráðu borðplötunni sem er loksins komin í hús og á að fara á baðið. Hún stendur enn upp við vegginn.

Í nóvember voru sérpantaðir hurðahúnar í Brynju, alveg eins og voru í öllum húsum sem voru byggði í kringum 1950. Þeir voru komnir í hús í byrjun desember. Þeir eru ennþá í kassa uppi í skáp, nema sá sem fór á baðherbergið - ég er reyndar hætt að taka eftir því að það eru engir hurðarhúnar hjá mér, nema þegar kassinn er að þvælast fyrir mér.

Sturtuhausinn stóri og dýri á samt metið. Hann er búinn að liggja í þessum sama skáp síðan í nóvember held ég bara. Erum að spara hann og notum bara þennan bráðabirgða á meðan. jájá.

En það er byrjað að klæða hryllingsherbergið, sem þýðir að efri hæðin er í rúst. Ekki fleiri fugla hingað inn, takk fyrir!

05 apríl, 2008

Vorverkin

Ég Marta, meðstjórnandi í Innipúkafélaginu (sem verður vonandi stofnað með pompi og prakt í sumar), dreif mig út í garð klukkan 10 í morgun að staðartíma og jarðíkornaðist þar í þrjá tíma. Auðvitað fann ég ekki upp á því sjálf, en fór þó sjálfviljug.

Vonandi verð ég ekki rekin úr félaginu, njahh, slepp kannski bara með sekt.

04 apríl, 2008

Vor í lofti?

Leið eins og ég væri stödd í stórborg í sólinni í morgun. Þegar ég beið eftir að komast yfir Miklubrautina á gönguljósum var ég allt í einu föst inni í hrúgu af mannfólki, tveir á hjólum, hjón með hund, maður með bakpoka og ég. Hver ætli sé ástæðan, vor í lofti, hátt bensínverð.. maður spyr sig!

01 apríl, 2008

Fyndnir feðgar

Ég er ósköp hrekklaus sál, svo hrekklaus að oft jaðrar við ljósku. Held að ég gæti aldrei látið neinn hlaupa apríl. Hins vegar finnst Gítarleikaranum það ómissandi athöfn á 1.apríl að velja sér fórnarlamb til að hringja í. Takmarkið er að ná viðkomandi yfir sem flesta þröskulda, ætli það sé einhver austurrísk hefð?
Hann vakti mig í morgun með því að segja mér að þegar hann kom fram í morgun hefði verið fugl í eldhúsinu. Sem gæti auðvitað alveg gerst, þeir komast inn í þvottahús og þangað inn er opið því að þar er líka kattarsandurinn. Svo sagði hann mér að fuglinn væri enn niðri, hann næði honum ekki út. Hann lét þetta þó duga í plati í bili, ég slapp með skrekkinn og þurfti ekkert að hlaupa, hann fór í vinnuna.
Næst var það Stubbalingur. Hann kom hlaupandi innan úr eldhúsi og kallaði:
"Mamma, Hneta er búin að kúka á gólfið!!" Þarna vissi ég nú hvað var í gangi en lék með, enda fannst mér þetta ótrúlega vel til fundið hjá drengnum. Dæturnar eru hins vegar álíka hrekklausar og móðirin og ég býst ekki við að þær séu að atast í fólki á svona dögum.

En ef þú færð hringingu frá Gítarleikaranum í dag, ættirðu að vera á varðbergi!