Einu sinni var ég ung móðir með eitt barn. Ég mætti samviskusamlega á alla fundi og uppákomur í leikskólanum. Mætti snemma til að hlusta á barnið syngja á opnu húsi, hún var dressuð upp í tilefni dagsins, gallasmekkbuxur, hvítur bolur og tíkarspenar (já þetta var löngu fyrir bleiku byltinguna). Ég var í skóla á þessum tíma eins og núna - hefði sko ekki látið próflestur eða annað húmbúkk koma í veg fyrir að ég ræktaði skyldu mína sem móðir. Allt skyldi vera eftir bókinni. Við mættum í sveitaferðina, með fötu og skóflu. Allir inn í fjós - prinsessan mín var ein sú ötulusta að skoða beljurnar og grísina, fitjaði ekki einusinni upp á nefið, fædd og uppalin á mölinni - já alvöru stelpa sko!! Svo út í rokið til að húka yfir grillinu, bíða eftir pulsum og svala.. namminamm - allir voða glaðir.
Annað barn fór á annan leikskóla, þar voru aðrar hefðir og skyldur. Allar jafn skemmtilegar og frábærar. Líka sveitaferðin. Best fannst mér tombólan á vorin sem foreldrafélagið stóð fyrir. Þá koma krakkarnir allir með 3 dót að heiman, vel með farið, sem þau eru hætt að leika með, og gefa á tombóluna. Svo eru góðir foreldrar sem sjá um að númera þetta og raða upp og hafa allt tilbúið fyrir litlu krílin á laugardagsmorgni að koma með hundraðkallinn sinn og kaupa miða og sjá hvað þau fá spennandi. Að auki koma foreldrar með kökur til að selja hvor öðrum og peningarnir fara í sjóð til að fara í sveitaferðir og útskriftarferðir með börnin. Ég lagði metnað í að barnið veldi dót af gaumgæfni, vel með farið, ekki of stórt, ekki of lítið. Síðan bakaði ég stríðstertu sem hæfði stöðu minni sem tveggja barna móðir, til að leggja á kökubasarinn. Og öll fjölskyldan mætti prúðbúin.
Þriðja barn fór á þennan sama leikskóla. Hann er á síðasta árinu sínu, ég er búin að vera í þessum bransa í fjórtán ár. Ég fór með hann í sveitaferðina s.l. vor. Mér varð allri lokið þegar ég stóð úti í grenjandi rigningu og reyndi að ná barninu inn í fjósið þangað sem var búið að færa pulsuveisluna. Minn sat grenjandi (í kapp við rigninguna) á bak við ruslatunnu, kvartaði yfir skítafýlunni og hafði engan áhuga á neinu nema ónýta traktornum sem stóð í mesta forarsvaðinu. Engar pulsur fyrir mig takk, engan svala og burt með þessi loðnu illa lyktandi óféti!!! Veit ekki alveg hvort ég mæti núna í maí...
Í fyrramálið er tombólan. Jú, ég fékk hann reyndar til þess daginn fyrir sumardaginn fyrsta að velja úr dótafjallinu eitthvað til að gefa. En núna er klukkan orðin korter í tólf og ég er ekki byrjuð að baka. Sit hérna í góða skrifborðsstólnum mínum með hitapoka á mjóbakinu sem fór í baklás fyrr í kvöld, eina ferðina enn. Held að það verði bara skellt í möffins í fyrramálið. Ég er greinilega farin að reskjast - en kommonn.. sumir eiga gott betur en 3 börn, sem öll eru á leikskóla með tilheyrandi sveitaferðum og fjáröflunum. Kannski er galdurinn að hafa aðeins styttra á milli barna?
Ég prófa það þá bara í næsta lífi. Of seint núna - bakið er ónýtt!
25 apríl, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
5 ummæli:
Elskan mín Betty Crocker svíkur engan, Jói Fel bakar ágætiskökur og svo fást líka bara sæmilegustu múffur í Bónus :P. Ég dáist alveg að þér að ætla yfir höfuð að "skella í" eitthvað!
Vona að við litla fjölskyldan höfum ekki farið með mjóbakið...?
Ég var einmitt að hugsa um það í gær hvað ég var alltaf að passa mig að gera allt rétt með frumburðinn. Núna leyfi ég örverpinu að vera úti lengur en til 8 ef það er gott veður og hann var frekar ungur þegar hann lærði sjálfur að kveikja á sjónvarpinu.
Það eh. að baka má maður ekki bara borga?
Enn hvað ég skil þig, þegar að Salaskóli byrjaði árið 2001 átti ég barn í 2. bekk ég var að fatta að ég verð með barn i Salaskóla til 2022, sem betur fer ekki sama barnið :-)
kv úr Kópo
Börnin þín eru heppnust að eiga svona frábæra mömmu!
Langar hann nokkuð á tombóluna...með þriðja barn reynir maður að sleppa við eins mikið og maður getur...:)
Skrifa ummæli