25 ágúst, 2007

Grettir

Stubbalingur og ég vorum að horfa á bíómyndina um Gretti. Undir lokin segir Lísa við Jón að hún vilji að þau verði MEIRA en vinir.
"Ohhh, ég veit hvað það er", segir Stubbalingur, "það er ást, það er miklu meira en vinir"!!

Hann veit þetta sko allt greinilega.

24 ágúst, 2007

(Ó)gleðidagur

Eftir vel heppnaða heimsókn á hárgreiðslustofuna, langar mig oft að bruna beint í búð og kaupa mér eitthvað nýtt í stíl við nýja hárið.
Ekki í dag.
Ég brunaði bara heim og fór beint undir sæng. Þar veltist ég í ógleðikvölum í sex klukkutíma, þartil mér tókst að æla.
Ekki gott.
Eftir það líður mér ögn betur, nógu vel til að blogga um hryllinginn. Vona að þetta verði búið, í síðasta lagi á morgun.
Hárið hefur það fínt.

23 ágúst, 2007

Ekkert merkilegt

Ég hlusta stundum á Bylgjuna í bílnum. Undanfarið hef ég þurft að skipta yfir á einhvern annan ófögnuð þegar auglýsingarnar byrja, því að stúlkan sem les þær notar alltaf flugfreyjutóninn (syngjandi upp og niður.. skilljú?). Ég held að maðurinn sem leikles fréttir og tilkynningar sé á sömu stöð. Það hljómar mjög skringilega.

20 ágúst, 2007

Namminamm...


Jújú, við mæðgurnar deilum sívaxandi áhuga á sushi og hún sendi mér þessa fínu mynd. Greinilega einhver álíka gráðugur og við sem gat ekki beðið eftir að fisksalinn opnaði og fór bara í fiskabúrið.
Girnilegt!!


19 ágúst, 2007

Framhald (skoðið fyrst færsluna fyrir neðan)

Veðrið var frábært alla ferðina. Þarna erum við í útsýnisferð um sýki Kaupmannahafnar (að sjálfsögðu erum við að skoða borgina og bygginarnar, en ekki sýkin).
Eftir langan dag í búðum, siglingum, búðum og labbi, var mikil rekistefna um kvöldmat. Rökkvi vildi ís, Katla vildi djúpsteiktar rækjur og Magna eitthvað gott. Við enduðum á frábærum sushi stað seint um kvöld. Fengum frábæran mat og enn betri þjónustu. Eigandinn var einstaklega hrifinn af Stubbaling. Staðurinn heitir Damindra, mælum með honum, öll fjölskyldan.

Afmælsdegi Kötlukrúttsins eyddum við í Tivoli. Sól og hiti, rússíbanar og Hard Rock. Þarna er hún í bangsabúðinni þar sem Doddi Draumaland varð til og bættist í fjölskylduna.
Þið sem viljið skoða fleiri myndir verðið bara að koma í heimsókn.

Til mömmu og pabba

Í tilefni af því að foreldrar mínir hafa bæst í hóp dyggra lesenda, ætla ég að setja inn nokkrar myndir úr Danmerkurferðinni okkar. Þið hin megið líka skoða :)
Rússíbanar voru mjög vinsælir í ferðinni, hvort sem var í Legolandi eða Tívolí.
Candyfloss var líka vinsælt á báðum stöðum..
Namminamm, fullt af bleikum sykri :P
Gíraffarnir í Givskud Zoo voru svo vinalegir að þeir kíktu næstum inn um bílgluggann hjá okkur.

Þarna hefur einhver annar en húsmóðirin kominst í myndavélina. Í fjarskanum hægra megin á myndinni sést glytta í svarta górillu, ef þessar tvær hvítu skyggja ekki of mikið á!

Það er ekki hægt að setja inn fleiri en 5 myndir í einu svo nú skipti ég um kafla.

15 ágúst, 2007

Grrrrrrrrr...

Ég hef löngum talið þolinmæðina með mínum stærstu kostum. Núna er ég bara á síðustu dropunum. Ég veit að það er ótrúlega mikið búið að gerast hérna hjá okkur þessa rúma 2 mánuði síðan við fengum afhent en...
  • Matarstellið samanstendur enn af pappadiskum, plastglösum, hnífapörum og nokkrum alvöru kaffibollum
  • Hvorki er búið að tengja ofn né helluborð
  • Tannburstun fer fram í eldhúsvaski
  • Gólfhiti ekki farinn að virka
  • Engin sturta
  • Engin þvottavél
  • Stofan er í rúst og það sem verra er, Kötlu herbergi líka
  • Allir gluggar á hæðinni gætu enn sómt sér í hryllingsmynd
  • Ég er með ógisslegt skordýrabit í hægri hnésbótinni, er hrædd um að einhver hafi týnt broddinum (og vonandi lífinu líka) við að narta í mig í Tívolí.

En á morgun kemur nýr dagur. Þá vopnast ég tuskum og gúmmíhönskum, jafnvel sandpappír og gluggasparsli og eyði svo kvöldinu í að taka upp úr kössum.. ef Gítarleikarinn verður svo sætur að færa mér nokkra af lagernum. Ef einhver vill vera með í tuskubardaga og/eða kassaupptíningi, verður kaffi, te og rauðvín á boðstólum (úr fínu, túrkísbláu plastglösunum frá Kolbrúnu í Amríku ef kristallinn kemur ekki upp úr téðum kössum).

Ég er enn á dönskum tíma svo að klukkan er farin að nálgast 2 hjá mér, held það sé kominn tími á kafbát................... (jebb, punktar og svigar í miklu uppáhaldi í kvöldruglinu) .

Þetta finnst mér fyndið!

Leitaðu á netinu með eins lítilli fyrirhöfn og leitað er í póstinum; (og núna kemur fyndni parturinn):

náðu í Google Tólastiku með sprettigluggavörn.

Sumt verður bara óheyrilega fyndið þegar því er snarað yfir á ástkæra ylhýra - það er kostur.. er það ekki?

08 ágúst, 2007

Fúlt

Þegar allt er í drasli er mikil afturför að missa eina rennandi vatnið í íbúðinni (fyrir utan klósettkassann :)). Vona að píparinn nái að kíkja við í dag - helst bara strax og NÚNA!!

07 ágúst, 2007

Klúkk

Ég hef verið tvíklukkuð, bæði af Rakel og Syngibjörgu. Ætla samt ekki að þreyta ykkur með sextán staðreyndum um mig, heldur reyni við átta:
  1. Í staðinn fyrir að fá mér aðra brauðsneið, gúffaði ég í mig tveim stykkjum af súkkulaðihúðuðu Oreo.
  2. ...samt er ég heilsufíkill og finnst best að borða grænmeti og fisk.
  3. Ég er í ljótum brúnum sokkum með málningarslettum.
  4. Mér finnst rauðvín gott.
  5. Börnin mín eru það fallegasta og besta sem á á.
  6. Þegar ég var lítil nagaði ég á mér táneglurnar, get það ekki lengur en velti því fyrir mér hvort það sé ástæðan fyrir skökku og skældu baki í dag???
  7. Ég þarf nauðsynlega að drekka rauðvín með Birgittu sem fyrst
  8. ...allt í einu eru Oreo kexin orðin 4 :)

Ætli það sé ekki bara best að klukka Birgittu, svo væri nú gaman að heyra frá Eitruðum Prjónum og Þresti - og bara þeim sem lesa þessa snilld!!

05 ágúst, 2007

Verslunarmannahelgi?

Eftir þriggja vikna dvöl í sumarhöllinni var ég orðin svo brún af útiveru að ég var orðin samkeppnisfær við móður mína.
Svo fór ég suður.
Þar tóku við þrjár samfelldar vikur sem ég var hulin steypuryki, sagi og málningarslettum. Þegar ég náði loks að þrífa það af mér tók ég eftir að brúnkan mín var ekki bara rykfallin, heldur nánast horfin út í buskann.
Fúlt.
En við erum blessunarlega flutt inn, svo brúnkan fór ekki fyrir lítið. Gólfin eru falleg, veggirnir hálf málaðir, klósettið hurðar- og sturtulaust, svefnherbergið ekki tilbúið, ísskápurinn er tengdur en ekki frystiskápurinn, borðplatan er komin upp en ómeðhöndluð, ofn og helluborð ótengd en grillið stendur úti á svölum, enn er búið við skrínukost.
Allir gluggar á hæðinni eru ljótari en mygluð pizza.

Enginn iðnaðarmaður hefur komið hérna inn fyrir dyr eftir að Gunnar kraftaverkasmiður og parketpússararnir fóru héðan um miðjan dag á fimmtudag. Við fjölskyldan höfum nýtt tímann síðan þá í að hreiðra um okkur og gengur það bara vel.
Þrátt fyrir góðan anda í húsinu og gleði í hjarta fjölskyldumeðlima er Stubbalingur farinn að hend dóti niður stigann. Best að tékka hvað er í gangi...