18 júlí, 2007

Enn á vergangi

Í dag er ég búin að:
pússa
grunna
lakka
mála
olíubera
Þessi fjölbreytta verklýsing gefur aðeins veika mynd af verkefnunum á nýja staðnum. Þriðji dagur í puði og bakið er orðið ansi lúið. Auk þess sem á undan er talið er ég búin að vera að henda rusli, taka til, ryksuga og þrífa eftir iðanaðarmenn. Núna er það bjór, íbúfen og góð sturta fyrir háttinn.
Í íbúðinni sem við erum svo heppin að fá að gista í er nýleg tölva. Hins vegar er nettengingin sú allra mest gamaldags - símainnhringing!! Ég fer því bara í tölvuna í neyð, eins og til að borga iðnaðarmönnum og þannig. Tók mig til dæmis ríflega korter að borga flutningabílstjóranum á netbankanum. Er sko ekki að nenna þessu...

10 júlí, 2007

Meiri sól, meiri sól, meiri sól


Á Íslandi er það bara þannig, að á meðan sólin skín er maður úti, nema maður sé að vinna inni (eða pakka eins og Birgitta). Það er vegna þess að sólin stoppar yfirleitt stutt við, í dögum talið. Núna skín sólin bara dag eftir dag eftir dag. Þegar ég kem inn úr sólinni eftir langa útiveru (og smá vinnu), er ég svo þreytt að eina sem ég geri er að lesa Harry Potter og koma svo börnunum í ró til að geta haldið áfram að lesa Harry Potter. Ég rétt marði það í gær að stinga í tvær vélar, að öðru leyti er heimilishaldið í rúst.

En ég gefst ekki upp á biðinni. Hér í Sumarhöllinni verður sko ekki þrifið fyrr en það fer að rigna. Og hananú!!

02 júlí, 2007

Ekki missa af...




Fann mig knúna til að setja inn fleiri myndir frá fallegasta stað á íslandi. Fyrstu tvær myndirnar eru teknar í Hvestu en þar er hvítur sandur, falleg fjallasýn og nægilega hlýtt til að sulla á góðum degi. Sú síðasta er tekin á safni Samúels Samúelssonar í Selárdal, það er magnaður staður. Ég vona að enginn Íslendingur láti það eftir sér að deyja án þess að hafa farið á Vestfirðina, og þá sérstaklega þarna á Barðaströndina. Rosalega fínt tjaldstæði á Tálknafirði við hliðina á sundlauginni, bara drífa sig!!

Sykurpúðinn minn



Augljóslega hafa heilladísirnar verið mjög nálægt og í góðu skapi þegar Stubbalingur fæddist. Hann er nefnilega svo mörgum kostum búinn að mér hefði aldrei dottið til hugar að biðja um þá alla, hvað þá í einum pakka! Ég man það eins og gerst hafi í gær, að þegar ég var ólétt af honum bar ég í brjósti óskina um að barnið sem var væntanlegt hlyti einn ákveðinn hæfileika: Hæfileikann til að sofna án áreynslu. Sá hæfileiki er hins vegar nánast sá eini sem ég hef saknað í hans fari. Hins vegar erfði hann andvökugen móður sinna, sem hún erfði frá föður sínum. Þetta finnst mér mjög óréttlátt þar sem ég var þegar búin að koma því geni til frumburðarins sem einnig ber nafn afa sína.

Hins vegar dugir ekki að tala bara um það sem miður fer, enda er mér bæði ljúft og skylt að tilkynna það að Stubbalingur hefur verið eins og ljós eftir "Sykurpúðaslaginn mikla". Hann á að sjálfsögðu ennþá erfitt með að sofna á kvöldin með öll þessi andvökugen, en hann fer betur með það en þetta örlagakvöld í lífi okkar mæðginanna.