14 febrúar, 2007

Tölvutrítill

Þessa dagana eru gangstéttarnar með tvennskonar áferð: svellbunka og auðar. Stubbalingur vill helst labba á leikskólann, því að á meðan getur hann verið kallinn í tölvuleiknum. Hann má bara labba á svellbunkanum því að annars missir hann líf. Á leiðinni getur hann náð sér í aukalíf með því að hoppa upp í greinarnar sem slúta út á gangstéttirnar og stundum þarf ég að lyfta honum til að hann nái þeim. Svo breytast líka reglurnar þegar við löbbum yfir götu og þá má bara labba á auðu. Samt er þetta greinilega mikil hættuför því að hann byrjar með c.a. fimmþúsund líf, eftir 7 mínútna labb erum við komin á leikskólann og þá er hann yfirleitt búinn með þau öll. Þrátt fyrir öll aukalífin á leiðinni. Held að ég eða pabbinn ættum að drífa okkur á fyrirlesturinn um netfíkn sem verður í Hlíðaskóla í kvöld. Hann er reyndar ætlaður unglingaforeldrum en hvernig er þetta með máltækið um barnið og brunninn...

(Er farin að íhuga að breyta nafninu á blogginu mínu í: Sögur af Stubbaling..)

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hann sonur þinn er auðvitað bara yndislegur :). Þú ættir að halda dagbók um uppátækin hans.

Nafnlaus sagði...

ekki hægt að kvarta yfir skort á hugmyndaflugi... hann er yndislegur!

Nafnlaus sagði...

Story of my life.....notalegt að heyra að fleiri lifa í heimi aukalífa og lífa sem hægt er að "missa".....

Minns ætti kannski að hitta þíns?

Meðalmaðurinn sagði...

Endar með því að ég stofna bara aukasíðu fyrir hann til að halda utan um þetta.

Já Rakel, ætli þeir mundu ekki bara smella eins og Knoll og Tott!

Nafnlaus sagði...

Blessuð börnin lifa í eigin heimi.
Algerlega á valdi hugarflugsins. Sonur minn Fróði hendist stundum á milli herbergisveggjanna, með alls konar hljóðum og skvabbi. Hann er að kljúfa í herðar niður framandi verur. Einn með sjálfum sér. Á meðan sniglast Steinn, um húsið aðfram komin af eirðarleysi og veit ekki baun hvað gera skal.