26 maí, 2008

Miðjumús

Unglingurinn fattaði svo skemmtilegan fídus á myndavélinni okkar um daginn, eða var reyndar búin að fatta hann en var að finna almennilega út úr honum. Af því tilefni tók hún heila myndasyrpu af systur sinni og eru margar þeirra ansi góðar. Fyrstu myndina á ég reyndar.
Klárir þessir unglingar ;)





20 maí, 2008

Hvernig getur verið "Hádegistilboð allan daginn"??
Það hlýtur þá að heita heilsdagstilboð - eða bara tilboð - nú nema að það sé hádegi allan daginn á veitingastaðnum....

19 maí, 2008

Heppnasta mamma í heimi

Miðjumúsin mín bjó til bókamerki fyrir mig þegar ég var í útlöndum. Það er grænt og efst stendur:
Mamma námsfúsa
Síðan er mynd af mér, brosandi, í rauðri peysu, svörtu pilsi og rauðum skóm. Ég sit í fína skrifborðsstólnum mínum, með báðar hendur á tölvunni sem stendur á borðinu fyrir framan mig.
Á borðinu stendur líka stóra tekrúsin mín, greinilega með rjúkandi tei og bók. Bókin heitir: Skugga Baldur.

Allt í smáatriðum hjá henni krúsinni minni.

Ó nei!!

Las í Vikunni að gallapils væru bara EKKI HEIT og EKKI INNI í dag. Ég verð greinilega að henda mínu lengst inn í skáp á meðan þetta líður hjá. Ekki vill ég detta úr tísku!!

Próflok

Jæja, næstu daga fá æstir lesendur að fylgjast með heimilisstörfum húsmóðurinnar. Til að koma í veg fyrir samviskubit yfir að vera ein heima í fríi (jibbýýý), hef ég ákveðið að vera ræstitæknir og iðnaðarmaður á eigin heimili næstu vikurnar. Ég held að ég þurfi enga sérstaka menntun til að kalla mig ræstitækni, en ég veit að ekki má ég kalla mig iðnaðarmann - það er lögverndað starfsheiti. Kannski ég fái bara lánaðan Stússaratitilinn hans pabba, hlýt allavega að vera með réttu genin!

Ég hóf m.a.s. störf í gær, á sunnudegi (hátíðartaxti, græddi helling) og þreif ísskápinn. Í morgun réðist ég á vaskborðið og hillurnar, eilífðarvinna með juðaranum og hendin á mér víbrar. Stefni á að klára það og olíubera og þá ætti ég að vera komin með kennaralaun fyrir daginn og vel það. Ef mér tekst að massa stóru eyjuna (sem Gítarleikarinn segir reyndar að sé nes en ekki eyja) á morgun, fara upphandleggirnir vonandi að mótast. Ég hlakka til.

Góðar kveðjur
Stússarinn

10 maí, 2008

Muna að tala skýrt!

Stubbalingur þeytist um á hlaupahjólinu á meðan mamman og miðjan stússa í pizzugerð. Hann býður ítrekað fram skutl og aðstoð. Endar með að mamman segir ofan í deigið:
- Já takk fyrir það, en ég ætl'að fá'að kall'í'ðig
- Ha??
- Ég ætl'að fá'a kall'íðig ef mig vantar hjálp
- Ha???
(mamman sem sótti uppeldisnámskeið í vetur ákvað að nota taktana frekar en að missa sig, snýr sér að drengnum og horfir á hann á meðan hún segir hátt og skýrt):
- Ég ætlA að fá aÐ kallA í þig EF ég þarf hjálp
- Ahh, já, hehe, já, kalla í mig, ég hélt þú hefðir verið að segja að þú ætlaðir að fá kall í mig, þú veist, svona eins og aksjón kall eða þannig.....

03 maí, 2008

Læridagur

Detox te og suðusúkkulaði, er það ekki fín samsetning?
Skil ekkert í mér, hugsa bara um hvað ég eigi að fá mér næst að borða á meðan ég reyni að böggla saman ritgerð. Bögg.

02 maí, 2008

Grasa-Gudda


Búin að safna grasi í 8 daga. Hreinlega farið að vaxa gras út úr eyrunum á mér. Þegar maður er allur í grasi er jú nóg að gera. Innkaup, skutl, uppeldi, skutl, eldamennska, skutl, eldhústiltektir, þvottur, skutl - svo reyni ég að læra inni á milli. En svo kom Gítarleikarinn.

Og fór.

Og ég er aftur orðin gras.

En í þetta skiptið tók hann báða Stubbana með sér. Og hvað gera bændur þá? (allt grasið, skilurðu).
Ég veit ekki hvað þú mundir gera, ég fór í bíltúr niður Laugaveginn um það leiti sem ég er vanalega að byrja að elda. Lagði ólöglega við Iðu húsið á meðan heimasætan ljúfa sótti sushi. Fór svo í langan göngutúr í sólinni á meðan Gítarleikarinn barðist í ófærðinni á Hestakleifinni, og hafði betur. Tók ekki einu sinni eftir menguninni og bílaniðnum fyrir vorinu.

Fór svo heim og teygði á bakinu áður en ég settist niður með heimasætu í sushi veislu. Átti akkúrat í eitt hvítvínsglas í ísskápnum, en horfði löngunaraugum á fínu flöskuna sem Arna og Nína Rakel færðu mér í morgun.
Hvað þýðir annars þetta orð "grasekkja"? Ekki safna ég mosa á meðan kallin er í burtu, svo mikið er víst.

01 maí, 2008

1.maí

Klukkan 8 í morgun var næsta fórnarlamb mætt í arininn. Þessi var þó öllu rólegri en sá í gær svo hann fékk að húka í glerbúrinu til 10. Ekki alveg mætt í veiðigallann svo snemma dags á frídegi. Tupperware skálin virkaði ekki sem skyldi og þessi annars friðsami fugl slapp upp í ris. Þar náði hann að klessa svona tuttugu sinnum á stóra gluggann áður en mér tókst að fanga hann í net og koma út um gluggann. Hneta var í viðbragðsstöðu allan tímann.

Þetta með að Starrar séu svo gáfaðir.. það hlýtur bara að vera stórlega ýkt, nema það sé nýflutt hingað fjölskylda úr öðru bæjarfélagi og starrarnir sem hafa búið hérna lengur en ég ekki náð að segja henni (fjölskyldunni)af glerbúrinu inni hjá tröllunum.

Ég frábið mér hér með fleiri slíkar heimsóknir. (Þessi staðhæfing er fyrir þá gáfuðu starra sem halda sig í bloggheimum, bið þá vinsamlegast að koma þessu á framfæri til síns ættflokks).