22 október, 2008

Blehhh

Er svona álíka kröftug í blogginu og öllu öðru þessa dagana. Yngri börnin eru í vetrarfríi alla þessa viku á meðan mamman keppist við að þykjast vera kennari. Eftir að þeirra vetrarfríi lýkur þarf mamman svo að halda áfram í kennaraleik í 3 vikur í viðbót.
Efst á óskalistanum er hinsvegar að gera ekki neitt, sofa og borða súkkulaði. Jú og borða súkkulaði.

15 október, 2008

Long time...

Stubbalingur fékk lestrarbók heim í fyrsta skipti í gær. Hann kláraði hana í dag. Halllelúja... ég fékk loksins í hendurnar barn sem lærir sjálfkrafa að lesa án mikillar fyrirhafnar. Hann þarf hins vegar að eyða drjúgum tíma í að spá í innihald bókarinnar um leið og hann les. "Hva, er Lóló ekkert meira í sögunni? Hér eru bara Ari og Óli, hvert fóru Lóló og Sísí eiginlega?".

Já svo ákváðum við að hætta við síkið af því að við fengum ekki leyfi fyrir drekanum, gjaldeyrishöftin og allt það - þú skilur. Svo það var fyllt upp í allt heila klabbið. Nú lítur þetta bara út eins og hjá venjulegu fólki sem lét rífa allt upp en hafði svo ekki efni á að klára dæmið.

Annars bara allt gott :)

01 október, 2008

Framkvæmdir í Stigahöllinni



Þessar myndir eru teknar ofan af forsetasvölunum.

Já, það var eiginlega ekki seinna vænna að fara í framkvæmdir utanhúss, heimasætan löngu orðin gjafvaxta og Miðjan að skríða í þá átt líka svo það var orðið tímabært að drífa í að grafa síkið. Vindubrúin er í smíðum hjá Harðviðarvali og gengur verkefnið vel. Við vonumst til að geta fyllt upp með vatni á mánudaginn svo það verði búið að taka rétt hitastig á föstudaginn þegar drekinn kemur frá Rúmeníu.

Pósta myndum síðar þegar herlegheitin verða tilbúin.
(spurning um að fara að breyta nafninu í Stigakastalinn...)