27 júní, 2007
Skortur á kunnáttu
Langaði að setja inn vídeó af Stubbaling að syngja en kann það bara alls ekki - og nenni ekki að leit lengur að upplýsingum. Langar frekar að lesa og kannski fá mér smá rauðvín (jú það má víst eftir klukkan fjögur!). Ef einhver kann þá gæti borgað sig að setja inn imbaprúf upplýsingar í komment, þetta er nefnilega óborganlegt...
26 júní, 2007
Valdabarátta
Ég úti í dyrum á náttkjólnum klukkan hálf-eitt eftir miðnætti, að henda sykurpúðum eins langt út á götuna og ég dríf með handafli einu saman. Á bak við mig stendur Stubbalingur rauðeygður og svo agndofa að hann fattar ekki að byrja að grenja aftur fyrr en eftir að ég hef lokað hurðinni. Ætli ég þurfi að fara að leita mér aðstoðar....
25 júní, 2007
Púff
Löngu og ströngu ferli lokið. Loksins þegar búið var að pakka, þrífa, smíða vegg, skipta um rúðu, tæma geymslu, koma öllu úr húsi og afhenda (já, allt samdægurs) - var klukkan farin að ganga níu. Við vorum hálf heimilislaus hjónin, reyndar bara með eitt barn að svo stöddu. Á H 18 var risið fullt af húsgögnum og hæðin tilbúin undir tréverk - hvorki eldhús né klósett, hvað þá rennandi vatn í nýju íbúðinni okkar. Svo það var ekkert annað í stöðunni en að bruna bara til Akureyrar, þar beið okkur bústaður, bjór, hvítt og rautt. Síðan renndum við áleiðis vestur með viðkomu í Djúpuvík, þar sem við gistum í þessu húsi. Núna erum við komin á Búið, þar er gott að vera.
11 júní, 2007
Breytt skipulag
Jæja, loksins þegar við erum búin að kaupa fleiri tugi lítra af málningu, lakki, grunni og spartli að ógleymdum sandpappír í metravís, pússikubbum og málningarhönskum - er ég komin í gírinn. En þá er það sumarhátíðin og í lok hennar er Stubbalingur allt í einu kominn í rokna fýlu (af því að hann vildi ekki lengur vera blettatígur, heldur spædermann). Eina sem hann vill gera er að fara heim í Hlíðina sína, úr öllum fötum og horfa á vídeó umkringdur sængum og koddum. Þar sem hann er einkabarn þessa dagana er það að sjálfsögðu látið eftir honum. Ég pakka þá bara í nokkra kassa og skelli mér í málningargallann á morgun þegar hann fer á leikskólann. Það er nefnilega ekki alltaf þannig að sá sem er stærstur fái að ráða.
08 júní, 2007
Grænn morgunverður
Ég hef verið einstaklega slöpp og hægvirk undanfarna daga og litlu komið í verk. Svo ég ákvað að taka ráði Bjargar, skella mér í Yggdrasil og ná mér í Spirulina. Ég keypti líka próteinduft þar sem ég átti í fórum mínum uppskrift frá Kolbrúnu grasalækni af morgundrykk. Í blandarann fóru jarðarber, hrísgrjónamjólk, möndlur og sesamfræ og þá var komið að duftnu góða. Fyrst opnaði ég risadunkinn af prótíninu og setti út í (ekki allt samt) og síðan undraduftið Spirulina. Ég hef heyrt marga tala um þetta og oftar en einu sinni, en enginn hafði sagt mér að duftið væri FAGURGRÆNT á litinn!
Svo ég sit hérna með stórt glas, fullt af grænum vökva ...
Svo ég sit hérna með stórt glas, fullt af grænum vökva ...
07 júní, 2007
Kominn tími á eina...
Sem ég sit í tölvunni minni (einu sinni sem oftar) og er að kommenta á einhverja færsluna, þá hringir klukkan á bakaraofninum - hrísgrjónin tilbúin. Heyrist ekki í Stubbaling sem situr á ganginum með kubbana sína: "mamma, þú átt að hætta í tölvunni"!! (og brosir prakkaralega).
Honum er nefnilega skammtaður hálftími í tölvunni og oftast notum við ofnklukkuna til að fylgjast með hvað tímanum líður...
Honum er nefnilega skammtaður hálftími í tölvunni og oftast notum við ofnklukkuna til að fylgjast með hvað tímanum líður...
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)