02 maí, 2008

Grasa-Gudda


Búin að safna grasi í 8 daga. Hreinlega farið að vaxa gras út úr eyrunum á mér. Þegar maður er allur í grasi er jú nóg að gera. Innkaup, skutl, uppeldi, skutl, eldamennska, skutl, eldhústiltektir, þvottur, skutl - svo reyni ég að læra inni á milli. En svo kom Gítarleikarinn.

Og fór.

Og ég er aftur orðin gras.

En í þetta skiptið tók hann báða Stubbana með sér. Og hvað gera bændur þá? (allt grasið, skilurðu).
Ég veit ekki hvað þú mundir gera, ég fór í bíltúr niður Laugaveginn um það leiti sem ég er vanalega að byrja að elda. Lagði ólöglega við Iðu húsið á meðan heimasætan ljúfa sótti sushi. Fór svo í langan göngutúr í sólinni á meðan Gítarleikarinn barðist í ófærðinni á Hestakleifinni, og hafði betur. Tók ekki einu sinni eftir menguninni og bílaniðnum fyrir vorinu.

Fór svo heim og teygði á bakinu áður en ég settist niður með heimasætu í sushi veislu. Átti akkúrat í eitt hvítvínsglas í ísskápnum, en horfði löngunaraugum á fínu flöskuna sem Arna og Nína Rakel færðu mér í morgun.
Hvað þýðir annars þetta orð "grasekkja"? Ekki safna ég mosa á meðan kallin er í burtu, svo mikið er víst.

2 ummæli:

Birgitta sagði...

æji þetta er eitthvað með sjóinn vs. grasið. Ekkjan á grasinu (mölinni) meðan kallinn er á sjónum (golfinu).

Nafnlaus sagði...

EF kallinn er lengi í burtu má kannski nota mosalíkinguna...eða hvað!