28 júlí, 2008

Gítarleikarinn spyr mig stundum um svo skrítna hluti að ég get ekki einu sinni munað það. Þýðir lítið að bera fyrir sig minnisleysi úr frumbersku þar sem þetta hefur ágerst síðustu árin. Ég man þó eitt atriði, eins og gerst hafi í gær (enda gerðist það í gær):

Við vorum að keyra heimleiðis til Reykjavíkur frá Ísafirði, slatti af börnum í bílnum, hjól, golfsett, basilika og Hneta í búri. Hnetu annaðhvort leiðist í bíl eða er bílveik, veit ekki hvort er. Hún mjálmar samfellt lengst neðan úr iðrum allan tímann sem hún er vakandi og pirrar samferðarfólk. Stubburinn var orðinn leiður á þessum óhljóðum, enda ekki með tröllaheyrnartól á eyrunum eins og stóra systir. Þegar Gítarleikarinn var orðinn leiður á þessu stöðuga murri og tuði úr aftursætinu, rykkti hann hausnum í átt til mín þar sem ég sat alsaklaus í framsætinu og spurði:

G: Áttu ekki svona þarna.... (hann er mjög gjarn að byrja á spurningu og klára hana ekki)
É: Hvað?
G: Æji svona þarna þú veist...
É: (hvæsandi) nei ég veit ekki
G: ..svona svampa til að setja í eyrun
É: Ha, eyrnatappa?
G: Já einmitt, áttu ekki eyrnatappa fyrir hann svo hann þurfi ekki að hlusta á mjálmið í kettinum?

Ég var alveg stúmp - ég hef aldrei á ævinni átt eða notað eyrnatappa. Svo spyr hann mig eins og þetta sé jafn sjálfsagður hlutur og tyggjó.
Hann heldur greinilega að ég sé Mary Poppins.

26 júlí, 2008

Minnistap

Keyrði fram hjá húsi áðan merktu Tónlistarskóla Bolungarvíkur. Fór þá að rifja upp þegar ég var að kenna við þann skóla, haustið 1990. Ég keyrði frá Ísafirði til Bolungarvíkur tvisvar til þrisvar í viku í fjóra mánuði. Samt get ég ómögulega munar hvað skólinn var til húsa þá. Ég man eftir stofunni og píanóinu sem ég kenndi á, nokkrum nemendum (sumir eftirminnilegri en aðrir eins og gengur) og stofunni þar sem við kenndum tónfræði. Mest man ég þó eftir hvað Skólastjórinn var alltaf með flottan rauðan varalit.

Hverju er um að kenna? Ötulli rauðvínsdrykkju í sumarfríinu eða bara því að þetta gerðist fyrir síðustu aldamót. Mérlístekkertá'etta..............

18 júlí, 2008

Ég kíkti í garnbúðina hérna í firðinum fagra fyrir einhverjum 2 vikum með litlu systur sem er prjónainspírasjónin mín. Ég ákvað þarna á staðnum að slá tvær flugur í einu höggi, prjóna í fyrsta skipti lopapeysu og í fyrsta skipti á Gítarleikarann.




Það var glaður og stoltur Gítarleikari sem stóð á tröppunum í hádeginu í nýrri peysu á leiðinni á golfmót.

Það fyndna er, að ég fattaði þegar ég var langt komin með peysuna að þetta munstur var ég ekki að gera í fyrsta skipti. Ég valdi það nefnilega fyrr í vetur úr gamalla munsturbók, til að sauma litla prufu með gamla íslenska krosssaumnum. Á meira að segja mynd af henni í tölvunni minni því til staðfestingar:




Hvað ætli það verði næst... kannski veggteppi með áttblaðarósinni?

17 júlí, 2008

Hvar er sólin sem ég ætlaði að baða mig í í dag?
Svik og prettir.....

16 júlí, 2008

Suðurfirðirnir



Stubbalingur steinasafnari stillir sér upp hjá Dynjanda. Veðrið var hlýtt og gott og flugan í banastuði.




Hipparnir á tjaldstæðinu í Flókalundi. Með því að glamra nógu hátt á gítarinn, syngja með fullum hálsi og prjóna í takt, tókst okkur að halda besta spottinu að mestu út af fyrir okkur og ferðafélagana. Gítarleikarinn er með kíkinn á lærinu því að þarna erum við einmitt að bíða eftir ferðafélögunum sem villtust á leiðinni í Vatnsfjörðinn. Blessuð borgarbörnin.



Fallegt útsýni af tjaldstæðinu okkar.



Þarna eru ferðafélagarnir komnir í leitirnar. Við höfðum þau fyrir aftan okkur það sem eftir lifði ferðar. Til öryggis.




Hvesta í Arnarfirði, fallegasta staður á landinu, og þótt víðar væri leitað.



Þar var farið í landamæraparís og keppnisskap pabbanna var svo mikið að það náði næstum að drepa áhugann hjá börnunum.

15 júlí, 2008

Bakað á Búinu

Ég byrja á að tína út úr búrinu það sem ég held að sé nothæft. Kveiki svo á ofninum sem er arfur frá heiðurshjónunum á Flankastöðum og dreg fram gamla og beyglaða vog. Engin uppskrift.

Fínmalað spelt.. set svona 200 gr. En þegar það er rétt komið upp í 200 skutlar mælirinn sér allt í einu á 270 - vogin greinilega ekki alveg upp á sitt besta.
Svo ég byrja að moka upp úr skálinni með skeið. Er akkúrat komin í 200 aftur þegar ég fatta að ég hef mokað speltinu ofan í tröllahafrapokann - svo það er ekki annað í stöðunni en að hella speltinu aftur út í skálina, auk tröllahafranna og láta vogina ráða för (og minn klaufaskap).

Síðan er sett vínsteinslyftiduft sem rann út fyrir c.a. 2 árum - 4 teskeiðar, hljómar það ekki bara vel?

Pekan hnetur sem ég veit ekkert hvenær voru keyptar.... hvað þá sólblómafræin.

Smá hunang og salt og ólífuolía.

Bleytt með AB mjólk - hnoðað í bollur og skellt í ofninn sem er hálfgert ólíkindatól.

Fyrirtaksbollur svo ekki sé meira sagt!

(að sjálfsögðu voru engin hörfræ í eftirmat hjá litlu systur, bara fínerís eplakaka með ís sem ég gúffaði í mig með góðri samvisku)

14 júlí, 2008

Tveggja plana dagur

Við fjölskyldan ákváðum seint í gærkvöldi að dagurinn í dag yrði helgaður fjallgöngu og sundferð. Dagurinn heilsaði okkur hinsvegar ekki bara með rigningarúða heldur þoku sem nær nánast niður í fjöru. Svo börnin eru bara að horfa á Harry Potter, Gítarleikarinn að undirbúa golfmót og ég að ekkertast (sem er annað nafn yfir að sinna börnum, heimilisstörfum, prjónaskap, bóklestri, tölvukíkki....)

Hitt planið var mitt eigins, að halda sykurlausan dag hátíðlegan. Eina sem gæti skemmt það er matarboðið hjá litlu systur í kvöld. Sjáum hvað setur.

12 júlí, 2008

Lúxusblogg

Segi það nú ekki - auðvitað þarf ég að versla í matinn og jafnvel elda af og til. Þó það nú væri, með þessa fínu aðstöðu hérna í Sumarhöllinni. Mitt helsta lúxusvandamál þessa dagana er þó hvort ég eigi að lesa í bók eða prjóna. Eða jafnvel fara í heimsókn með pjónana og kjafta í leiðinni sem er enn betra. Ekki amalegt það.