29 september, 2008

Hugsanalestur

Ég veit ekki hvort ég sagði frá því hérna í sumar, en þá sá ég bók í Nexus sem mig langaði að eignast. Þetta var teiknimyndaútgáfa af Kóralínu eftir Neil Gaiman sem mér leist svona assgoti vel á, en fór engu að síður tómhent heim.
Daginn eftir kom póstur frá amazon.com þar sem mælt var sérstaklega með þessari bók fyrir mig.

Ég er búin að vera að íhuga undanfarið hvort við Miðjan eigum að segja upp áskriftinni að Galdrastelpum, en ekki búin að koma því í verk.
Í dag kom pakki til Miðjunnar, Galdrastelpudagbókin, þar sem henni var boðin þessi fallega heimsenda bók að gjöf með þakklæti fyrir trúmennskuna.

Ég er farin að halda að það sé einhver alheimsandi sem les hugsanir mínar og sé að stríða mér. Kannski að benda mér á að ég eyði of miklum tíma á netinu....

24 september, 2008

Hlekkjur

Lét loksins verða af því að setja inn tvær nýjar hlekkjur. Það var ekki mjög flókið. Sóley og Arndís, velkomnar í hópinn - vona að þið viljið yfir höfuð vera í honum ;)

22 september, 2008

Vissir þú...

.. að það byrjaði ekki að rigna fyrr en eftir klukkan þrettán í dag í Borg Óttans? Síðan þá hefur hins vegar rignt linnulaust á réttláta og rangláta. Gat ekki verið að þetta yrði regnlaus dagur.

17 september, 2008

Leki

Forsetasvalirnar fylltust af regnvatni í nótt. Vatnið lak svo inn með hurðinni og lagði af stað niður stigann, komst alla leið niður í andyri. Manni hefnist fyrir að vera með forsetasvalir þó maður sé ekki forseti. Verra varð það þó í kjallaranum þar sem húsmóðirin steig í poll þegar hún fór fram úr rúminu. Hjá henni stíflaðist niðurfallið við dyrnar út í garð og íbúðin fór öll á flot. Samt er hún ekkert að þykjast með neinar forsetasvalir.

Hvaðan í ósköpunum kemur allt þetta vatn?

16 september, 2008

Allir að missa sig af því að einhver mjóna sem á frægan fótboltakall er komin með drengjakoll, só... ég líka!

14 september, 2008

Enn eitt klukkið

Hún Rakel klukkaði mig. Þar sem klukkan er núna korter í tólf á sunnudegi, Mamma Mia hljómar úr næsta herbergi og ég er að þykjast læra, er tilvalið að gera þetta núna:

Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina:
  1. Netabætingar
  2. Selja rækjuborgara í Vitanum
  3. Pressa buxur og strauja skyrtur
  4. Kenna á píanó

Fjórar bíómyndir sem ég held upp á:

  1. Shawshank Redemption
  2. Grease (ójá)
  3. man ekki meir...
  4. hef aldrei verið mikil bíómyndakona...

Fjórir staðir sem ég hef búið á:

  1. Hlíðarvegur 29, Ísafirði
  2. Háteigsvegur (tvö húsnúmer)
  3. Drápuhlíð (líka tvö húsnúmer)
  4. Mávahlíð

Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:

  1. Friends
  2. Desperate Houswifes
  3. Sex and the City
  4. Hljófyrirlestrar á Blakki (hehe)

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:

  1. Ardsley, NY
  2. Swakopmund, Namibia
  3. Canterbury, Kent
  4. Álaborg, Danmörk

(allt staðir sem ég fór að heimsækja kæra vini)

Fjórar síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg:

  1. Blakkur
  2. mbl.is
  3. gmail.com
  4. Ugla

Fernt sem ég held upp á matarkyns:

  1. Kjúklingur
  2. kjúklingur
  3. kjúklingur
  4. fiskur

Fjórar bækur sem ég hef lesið oft:

  1. Hundrað ára einsemd e. Gabriel Garcia Marques
  2. The Hundred Secret Senses e. Amy Tan (humm.. allt eitthvað hundrað)
  3. 12 smásögur og Veisla undir grjótvegg e. Svövu Jakobsóttur
  4. Flestar Harry Potter bækurnar (ekki oft reyndar, en oftar en einu sinni)

Fjórir bloggarar sem ég klukka:

  1. Birgitta borubratta
  2. Syngibjörg Söngvina
  3. Sóley sæta
  4. Arndís ofurbloggari


10 september, 2008

Besti staður í heimi



Það er svo gott að búa hérna í Stigahöllinni, að á bestu dögunum rignir gimsteinum og glimmeri fyrir framan húsið. Þetta sést ágætlega á myndinn hjá mér en veit ekki hvort það póstast almennilega þarna út í kaosið. Veit ekki einu sinni hvort þið getið stækkað myndina.



Þarna var heimasætan (sem jafnframt er afmælisbarn dagsins í dag) komin út á svalirnar með regnhlíf til að fá ekki allt glimmerið í hausinn á meðan hún mundaði sína vél. Kannski eru hennar myndir flottari en mínar...

06 september, 2008

Einn léttur í morgunsárið

Stubbur þolir illa mjólkurvörur, það lærðum við The hard way. Þess vegna notum við aðallega rice og soyja vörur fyrir hann, þó svo að ostbiti og smjörklípa af og til skipti minna máli. Oft skapar þetta umræður og hann spyr hvort hann megi fá þetta og hitt. Við morgunverðarborðið lýsti besti vinur aðal því yfir að hann elskaði bleika mjólk, þá sneri Stubbur sér að mömmu sinni og spurði: Hey mamma, en svona Stuðmjólk, má ég fá þannig?

05 september, 2008

Tvær stjörnur

Tíminn flýgur áfram
og hann teymir mig á eftir sér....

Raulaði Stubbur fyrir munni sér þegar við gengum í skólana okkar í morgun, hann, ég og miðjan. Síðan þá er ég búin að vera með þennan notalega eyrnaorm í hlustunum.
Ætli ég hætti einhverntíma að tárast þegar ég heyri þetta lag?
Segi bara eins og Tóti afi: maður er orðinn svo meyr á gamals aldri.

04 september, 2008

Success!!

Your blog post published successfully!
Þetta gleður mig alltaf jafn mikið, gott að maður getur gert eitthvað skammlaust ;)

Reglubundið eftirlit

Manneskjan
Frá fyrsta grun um að líf hafi kviknað í kviði, er fylgst grannt með móður.
Reglubundið eftirlit eykst eftir því sem fóstrið stækkar og er mest síðustu vikurnar fyrir fæðingu.
Eftir að barnið fæðist er það skoðað nokkrum sinnum á sólahring, síðan daglega, þá vikulega, mánaðarlega, með nokkurra mánaða millibili og svo framvegis.
Reglubundnu eftirliti lýkur svo til eftir 5 ára skoðun.

Bíllinn
Frá því að framleiðsluferli hefst er fylgst grannt með öllum búnaði og vélum.
Þegar bíllinn kemur nýr á götuna er honum treyst til að ganga rétt næstu þrjú árin.
Eftir þrjú ár er bílnum ekki lengur treyst fyrir eigin ágæti og hefst þá reglubundið árlegt eftirlit, svo lengi sem bíllinn keyrir um göturnar.

Samantekt
Nú veit ég að margt er ólíkt með bíl og manneskju. Er samt ekki eðlilegt að manneskja sem gengur á sama líkama, alla daga ársins, allan ársins hring, fari að láta á sjá eftir ákveðinn tíma? Fer ekki ýmislegt að gefa sig smátt og smátt?
Er ekki alveg ástæða til að halda úti reglubundnu eftirliti með líkamlegri og andlegri heilsu manneskjunnar, til dæmis árlega?

Það finnst mér allavega. Engin ástæða til að treysta manneskjunni sjálfri fyrir því. Bara eina aðalskoðun takk og límmiða á ennið. Árlega.