20 apríl, 2009

Segi ekki meir...

Segi nú bara eins og Rakel, þetta fésbókardót fær allt of mikinn tíma. Reyndar skrifa ég ritgerðir, kaupi í matinn, þríf og prjóna líka. Kannski ekki svo slæmt.

20 janúar, 2009

AP 1 (Andvökupistill 1)

"Detta útaf", "dotta yfir sjónvarpinu", "sofna um leið og lagst er á koddann". Þessar orðræður og fleiri í sama stíl þekki ég aðeins af afspurn. Segi það ekki, er nú ekki alsaklaus af því að hafa dottað létt í stórum fyrirlestrarsal þar sem loftið er þungt... . Ég þarf að setja mig í svefnstellingar til að sofna en oft dugar það ekki til. Núna undanfarið bara alls ekki.

Það versta við að blogga í huganum á andvökunóttum, er að það er oftast gleymt daginn eftir. Einhverjar hugmyndir á ég þó í handraðanum og kannski kem ég þeim hingað inn ef ég næ að slíta mig nógu lengi af facebook.
Ég hugga mig við að þetta sé tengt árstíð og núna sé "skammdegisruglið" í hámarki eins og pabbi kallar það.

19 janúar, 2009

Kostur

Einn af kostunum við að vera í fjarnámi er sá að maður getur notað "frímínúturnar" til að taka úr vélinni og stinga í þá næstu. Maður þarf sko ekki að eyða helgunum í stórþvotta.

18 janúar, 2009

Gleðilegt ár!!

Það er ekki að spyrja að mikilmennskubrjálæði þjóðarsálarinnar frekar en fyrri daginn.

Já þvílík bilun. Íslendingar eru ekki að laga sig að staðháttum í landinu sínu, nei frekar að storka náttúruöflunum og reyna að laga þau að sér. Með réttu ættum við að minnka vinnu- og skólaskyldu í desember og janúar. Allavega í janúar. Dagurinn ætti að byrja klukkan 10 og allir búnir í skóla og vinnu ekki seinna en 16. Þegar skammdegið er svona mikið eigum við að sofa eins og birnir í hýði.

Neinei, ekki Íslendingar. Í janúar, þegar myrkrið og skammdegið og eftirjólablúsinn er í hámarki - þá eru allir að Takáðí. Vakna eldsnemma á morgnana og drífa sig í átak og jóga, nú eða lengja daginn ófhóflega með því að gera þetta eftir vinnu/skóladag. Ég tek alveg þátt í þessu á fullu, enda Íslendingur í allar áttir.

Mér finnst þetta samt bilun.