17 júní, 2006

mamma, pabbi, börn og bíll

Sögusvið: strákabíllinn 17.júní. Litli prinsinn situr í aftursætinu, vandlega festur í bílstólinn eins og lög gera ráð fyrir. Sætu systurnar eru þar líka í sínum beltum og mamman og pabbinn frammí, einnig í sínum beltum. Strákabíllinn rennir framúr strætisvagni. Litli prinsinn hefur orðið:

"Mamma, veistu hvað ég sá núna áðan í strætó? Það var kona á nærbuxunum að troða miða í rassinn á sér, mér finnst það ógisssslegt".

Hefur ÞÚ séð auglýsingarnar frá ogvodafone sem eru úti um allt? Kannski ekki svo erfitt að misskilja þær...

16 júní, 2006

Jahérna

Þetta hljómar eins og ég sé öfundsjúk út í gítar, skyldi þó aldrei vera. Held ég drífi mig bara út í sólina og góða veðrið og hugsi minn gang.

15 júní, 2006

Áhugamál

Maðurinn minn elskar vinnuna sína. Hann talar aldrei um að nenna ekki, alltaf spenntur að mæta á morgnana, alltaf erfitt að slíta sig frá henni. Oft skýst hann um helgar til hennar, mörg kvöld fara líka í hana.

Mér var farið að blöskra. Ef hann var ekki í vinnunni, sat hann heima í tölvunni. Að setja upp Excel-skjöl, búa til Power-Point sýningar eða bara skoða stöðuna á mörkuðunum og setja sig inn í málin. Ég tók þá ákvörðun að gefa honum áhugamál. Þegar næsta afmæli rann upp fékk ég mann með viti til að velja fyrir mig gítar fyrir byrjanda, þó nægilega góðan til að endast eitthvað. þarna renndi ég blint í sjóinn, en það sem ég hitti í mark - ó mæ -

Síðan er liðið 1 ár og 4 mánuðir og hann hefur tekið miklum framförum. Maðurinn sem valdi gítarinn er fjarkennari, ég er aðstoðarkennari en aðalkennarinn er netið (reyndar kemur Bubbi sterkur inn þessa dagana). Hann er orðinn þokkalega partýfær og æfir sig öllum stundum.

Stundum langar mig mest til að sturta helvítis gítarnum niður í klósettið...

14 júní, 2006

....

Síðasta einkunnin er komin en heilsan er farin. Leiðinlegt að eyða fríinu í veikindi, ekki að það sé hægt að vera úti í sólbaði svosem.. Svo ég er bara slöpp og fúl og hugsa um allt sem ég þarf og mig langar til að gera, annað en að liggja útaf og lufsast um íbúðina. Yngri börnin bæði komin í frí og lufsast með mér, hanga í tölvu og leikjatölvu - slæmt uppeldi! Kláraði allavega Ruth Rendell á milli höfuðverkjakasta og get farið að byrja á einhverju öðru úr bókabunkanum sem bíður á borðinu (ofstuðlun?).

Svo fæ ég engin comment af því að tryggi lesandinn er í útlöndum og kemst ekki í tölvu, nema að það sé bara út af því að ég er svo andlaus og leiðinileg - gæti líka alveg komið til greina!

12 júní, 2006

Mér finnst rigningin ekki góð!!

það er einstaklega ókvenlegt að vera kvefaður. Það suðar svo mikið inni í eyrunum á mér að ég er að missa heyrn, sjónin er farin að daprast og nefið á mér.. ó mæ. Ég sem er að fara til saumakonunnar á eftir með fína kjólinn minn til að láta hana fiffa hann pínulítið. Næ kannski bara að kúra og lesa í hálftíma áður en ég sæki krúttann, hann fær nefnilega að fara með!! En sá lúxus að vera í fríi...

..og enn bíð ég eftir síðustu einkunninni, átti að koma á föstudaginn, á föstudaginnn kom tilkynning um að hún kæmi á mánudaginn - og núna er klukkan orðin þrjú!!

11 júní, 2006

Þrútið var loft og þungur sjór

Ég er ekki mikið útivistarfólk. Tek mig samt til öðru hvoru, skelli í nestisbox og dreg fjölskylduna út fyrir bæjarmörkin. Miðað við hvað þetta gerist sjaldan, er alveg með ólíkindum hvað við fáum oft vont veður. Mér er minnistæð ein fjöruferðin okkar sem varla var stætt í fjöru fyrir roki af hafi og börnin mín fuku út um allar trissur. En semsagt: Ákváðum í gær að skreppa á Stokkseyri í dag og skoða Ævintýragarðinn. Loftið var svo sannarlega þrútið og þokudrungað vorið þegar ég stóð í eldhúsinu í morgun og smurði samlokur.. og auðvitað hellirigndi allan tímann og við slaufuðum ferðinni í Ævintýragarðinn! Kíktum þó ofan í Kerið og borðuðum nestið í Laugarvatnshelli. Hættum okkur ekki út úr bílnum á Þingvöllum því að þar var slagviðri.

Keypti mér brúnkukrem í Body Shop í gær, hef ekki enn játað mig sigraða í keppninni, enda nægur tími til stefnu.. Bestu kveðjur til Mallorca!!

07 júní, 2006

Buhuuu...

Netkærastan mín er að fara til útlanda á morgun, hvernig á ég að fara að? Hey.. viltu koma í brúnkukeppni Birgitta? þá hef ég að einhverju að stafna á meðan þú ert í burtu.

Æji samt, frekar vonlaust fyrir mig, ekki bara vegna alræmds sólarleysis á Íslandi yfirhöfuð. Gæti eiginlega alveg eins skorað á þig í krullukeppni... Hmmmm.. En allavega. góða ferð, hlakka til að sjá þig á Ísafirði - ekki seinna en í Júlí!!!

06 júní, 2006

Sé ekki skóginn fyrir trjám

það er nefnilega málið, hefur alltaf verið minn akkilesarhæll. Uppgötvaði í vetur að það er til enn flottara nafn yfir þetta vandamál, nefnilega skortur á Umhverfisgreind, hef notað það óspart síðan. Ég þekki enn ekki í sundur hægri og vinstri (þarf ýmist að máta mig við píanóið eða skoða þumalfingurna til að fatta hvort er hvað), og ekki veit ég enn í hvaða átt norður, suður, austur eða vestur er. Bíð eftir að uppgötva einhverja aulareglu til að nota við það.. Ég er glötuð í landafræði og er nýbúin að fatta hvar Egilsstaðir eru á landakortinu.

Mamma segir, að það sé óþarfi að vera góður í öllu og verkaskiptingu á heimilinu ætti að miða við það að hver geri það sem hann er góður í, nokkuð góð regla. Ef ég er góð í að elda en léleg í að vaska upp, sé ég bara um að eldamennskuna. Það er verst að ég er svo assgoti góð í öllum húsverkum, svo ég er farin að sjá að það er erfitt að heimfæra þessa reglu upp á mitt heimilishald. Samkvæmt þessu á tilvonandi eiginmaðurinn að sjá um að finna stystu leiðina á staðinn, skipuleggja ferðalögin og sjá um heimilisbókhaldið. Hann nennir reyndar ekki að sjá um heimilisbókhaldið (ekki ég heldur) en hann er alveg til í hitt. Þannig að... eldhúsið er á mér, ferðalögin á honum. Hvað er ég þá að gera til að kenna dætrum mínum jafnrétti í verki - nákvæmlega ekki neitt! Það er nefnilega ekki nóg að kenna jafnrétti í orði, það verður að vera á borði líka. Ef þú vilt að dæturnar og synirnir læri að mamma og pabbi séu jöfn, keyrðu þá fjölskyldubílinn.. ekki bara þegar pabbi er fullur!

Piff.. virkar ekki hjá mér (af því að ég rata ekki neitt), held ég læri frekar á borvélina, er örugglega með betri fínhreyfingar en kallinn. Umhverfisgreind er þó hægt að þjálfa, það er ég byrjuð að gera. Alltaf að skoða heimskortið og Íslandskortið, svo er ég meira að segja farin að rata í Árbæinn...

Bubbi kominn á fóninn, flottasta afmælisveisla sem ég hef farið í!!