28 febrúar, 2008

Bruðulagið - hver man ekki eftir því?

(Syngist af tilfinningu með Helgumöller röddinni)

ÞESSSAAAAAAAAAAAR
Grófu og fínu
bruður
skaltu fá þér!!
Hitaeiningarnar
ekki munu há þér
Þær bráðna'í munni'og maga
Þær geymst marga daga
Mundu bara'að hafa poka hjá þér

26 febrúar, 2008

6 ára Stubbalingur

Ég er óskaplega hugmyndasnauð þessa dagana og lítið fyrir að blogga. En Stubbalingur á afmæli í dag og því verður hann að sjálfsögðu að fá myndir af sér á síðuna okkar.


Fínt að kíkja í BT blaðið á meðan maður hámar í sig grautinnEkki amalegt að hafa Miktlatúnið í bakgarðinum í þessari snjóatíð!!

21 febrúar, 2008

Sykurveikin

Ég er aftur dottin í súkkulaðipottinn, alveg á bólakaf. Ég sem var rétt ný búin að krafla mig upp á bakkann. Hefði átt að drulla mér alla leiðina upp á land. Ó, mig auma.

20 febrúar, 2008

Hófdrykkja

Mikill hausverkur í gær, engar pillur sem virkuðu. Svo ég þreif - ryksugaði og skúraði, jú kraftaverkin gerast enn! Eldaði fyrir börnin mín og mig, við gengum frá í sameiningu og svo bara hreint og fínt og kerti og kósíheit. Nema hausverkurinn sem engar pillur virkuðu á. Svo kom mamma "heim" og við fengum okkur rauðvín og spjölluðum til miðnættis. Svaf alveg rosalega vel og vaknaði eldhress og laus við allan hausverk. Rauðvín er töfralyf.

14 febrúar, 2008

Staðan

Bara smá uppfærsla á atferlismeðferðarprógrammi.
Á þriðja degi var staðan 2-1 fyrir foreldrum og kvöldið var einstaklega ljúft. Bara prógrammið, bursta-pissa-lesa-hlusta-kúra og síðan ekki múkk í Stubbi.

Á fjórða degi fóru foreldrar út að borða í tilefni af afmæli fagra gítarleikarans. Í stuttu máli þá rústaði Stubbalingur heimasætunni og íbúðinni í leiðinni. Svo nú í morgun voru góð ráð alls ekki ódýr. Foreldrar upphugsuðu ýmislegt sem þau áttu í pokahorninu til að barnið yrði að manni seinna meir en leiddist ekki út í óreglu og vesen vegna slaks uppeldis af þeirra hálfu.

Hvað gerir Stubbalingur þá - jú, hann teflir fram stærsta trompi barns í uppeldisbaráttu við foreldrana og tryggði sér þannig endanlega sigur í fyrstu lotu.

Það var hringt af leikskólanum fyrr í dag. Stubbalingur er veikur.

13 febrúar, 2008

Ammeli I

Þessi fagri Gítarleikari á afmæli í dag - til lukku!!

12 febrúar, 2008

Fugl á dag...

.. kemur skapinu í ólag. Annars fór hann beint að glugganum og ég náði að opna fyrir hann opnanlega fagið á meðan hann slóst við rúðuna. Óvenju stutt drama þarna, nema mamma fékk að fylgjast með í beinni í gegnum símtólið. Fyrirgefðu mamma ef ég blótaði mikið!

Annars er staðan í dag:

Stubbalingur - 1
Foreldrar - 1

En það er alfarið að þakka þolinmæði og stöðugleika Gítarleikarans sem stóð fastur á sínu sama hvað á bjátaði á meðan frúin skrapp að hitta vinkonurnar.

11 febrúar, 2008

Að þreyja Þorrann

Ég er voða dugleg að passa að ég deyi ekki úr hungri. Öllu má þó ofgera svo ég ákvað að hefja örlítið hollustuátak í morgun. Fékk mér grænt te, hrökkbrauð með smjöri og gúrku og ávaxtasafa. En þá mundi ég skyndilega eftir því að Gítarleikarinn hafði keypt Berlínarbollur í gær. Rjómabollur hvað? þær fara bara illa í maga, en Berlínarbollur - það er sko uppáhaldið mitt.
Svo ég át síðustu Berlínarbolluna í eftir-morgunmat. En Róm var heldur ekki byggð á einum degi, ég held bara áfram að byggja á morgun.

Í gær hófst hins vegar annað átak á heimilinu, massíft atferlisátak - Foreldrar vs. Stubbalingur. Gekk vel framan af, móðirin lempaði hvert vandamálið af öðru af miklum liðleika. Þegar klukkan var farin að ganga 12 og móðirin að lýjast gerði hún þau reginmistök að senda Gítarleikarann inn til Stubbalings. Það fór allt í háaloft. Svo staðan í dag er:

Stubbalingur - 1
Foreldrar - 0

En það er sama stefnan þar í gangi, Róm var ekki byggð á einum degi, hvað þá einu kvöldi...

10 febrúar, 2008

The hard way

Já ýmislegt lærir maður af reynslunni. Verandi sá andvökupúki sem ég er, lærði ég fyrir margt löngu að ekki skuli ég drekka kaffi eftir klukkan 7-8 vilji ég ná nætursvefni á innan við 2 klukkustundum. Með miklum þjáningum hef ég einni lært að Pepsi Max má ég líklega ekki drekka eftir klukkan 17, ætli ég að ná að sofna fyrir 3 að nóttu.

Í nótt kom svo til mín enn ein lexían, óumbeðin: Ekki lesa smásögu eftir Ástu Sigurðar fyrir háttinn - allavega ekki Frostrigningu eða Dýrasögu. Ég er nefnilega myrkfælin líka og gamla húsið mitt fullt af hljóðum. Og ýlfrandi hundar á neðri hæðinni.

Hér eftir verður Ásta Sigurðar lesin og kaffið drukkið í björtu!

05 febrúar, 2008

PÚMMMM

Í dag er sprengidagur (hjá mér eru reyndar allir dagar sprengidagar ef út í það er farið). Ég hef aldrei eldað saltkjöt, þrátt fyrir að hafa rekið heimili í hátt í 20 ár - samt finnst mér það voðalega gott. Stundum hef ég vælt út matarboð hjá máginum sem er ekki bara viljugur og góður kokkur, heldur líka duglegur að halda í hefðir. Oft hef ég bara sleppt því að borða saltkjöt.
Núna varð þörfin fyrir saltkjöt á sprengidag allt í einu svo yfirþyrmandi að ég hringdi í pabba gamla og fékk "uppskriftina". Gítarleikarinn skaust í búð eftir kjöti og baunum (hringdi reyndar og spurði hvort það ættu ekki örugglega að vera þessar grænu!!) og ég hanteraði á meðan hann fór með Stubbalingi að vígja skíðin á Miklatúni.

Játs, Stubbalingur fékk gefins gömul skíði í hitteðfyrra og við vorum að láta senda okkur þau að vestan, fínt að byrja að æfa fyrir páskaeggjakeppnina á Seljalandsdal um páskana.

Lyktin læðist um húsið - namminamm....

Sofa urtu börn

á útskerjum

Þegar ég skrönglaðist niður úr lærdómsskoti allt of seint í gærkvöldi, lá litli prinsinn á nærbuxunum öfugum einum fata, á samskeytunum í hjónarúminu með rifinn hauskúpukodda undir sér og ekkert ofan á. Við hliðina var Gítarleikarinn, vandlega innpakkaður í hvíta dúnsæng.

Sofa manna börn
í mjúku rúmi,
bía og kveða,
og babbi þau svæfir....