30 apríl, 2007

Upprifjun

Á 6. degi í grasekkjustandi er það að rifjast upp fyrir mér, hvað var erfiðast við að vera einstæð móðir hérna í den. Það voru ekki fjármálin, ekki fyrirhöfnin, ekki allur kvöldlesturinn og knúsið og ekki það að vera alltaf einn á vaktinni.

Það var maturinn.

Lesið á umbúðir

"This product may contain traces of nut"
Það ætla ég bara rétt að vona, þetta er nú einu sinni hnetusmjör!

26 apríl, 2007

Litli snillingurinn

Eftir kvöldlesturinn, sem var einn kafli í Fíusól, sagði litli snillingurinn mér að hann ætti stundum átta nöfn. Þetta gerðist þegar hann segði nafnið sitt hratt og svo rétti hann upp einn og einn putta (talnaskilningurinn í góðum gír), sagði mér hvert nafn og taldi um leið með puttunum:

RÖKK-VI-SIG-URÐ-UR-ÓL-AF-SON = 8

Rétt ný orðinn 5 ára og farinn að telja atkvæði - alveg er ég viss um að tónmenntakennarinn í leikskólanum á heiðurinn af þessu, engu að síður gladdi þetta (verðandi) kennarahjartað.

Krútt


"Æji mamma, ertu ekki fegin að ég er kominn til þín"?

Sagði Stubbalingur klukkan 06:30 í morgun þegar hann kom upp í rúm til mömmu sinnar og áttaði sig á að hún var þar alein. Auðvitað var ég voða fegin...

25 apríl, 2007

Fegurð

Einhverntíma gaf ég Gítarleikaranum snyrtitösku. Var orðin leið á þessum pokadruslum þegar við fórum í ferðalög. Hann var einstaklega hrifinn af þessari gjöf og hafði orð á því hvað taskan væri karlmannleg. Stór, tvö hólf, dökkblá og rúsínan í pylsuendanum - það var mynd af akkeri framan á töskunni. Það fyndna er, að hann kallar þessa karlmannlegu tösku aldrei annað en "bjútí-box". Greinilega er mjög mjúkt fyrir innan hörðu skelina, ójá.

24 apríl, 2007

Sannleikurinn

Ég er í massívu heilsuátaki þessa dagana... eða ekki

Ég er búin að vera duglegri að hreyfa mig
Ég borða meira grænmeti
Ég drekk meira vatn
Ég borða kökur og sætindi
Ég nota hvert tækifæri til að fá mér eitthvað djúsí

Ókei, þrír af fimm, er það ekki bara þokkalegt? Það er þá bara sjálfri mér að kenna að maginn lagast ekki og unglingabólurnar mínar lifa góðu lífi - eins og vanalega!!

Tek mig á eftir prófin.. eða ekki...

21 apríl, 2007

Barnalán

Venst aldrei þessum mömmu og pabbahelgum. Mér finnst alltaf jafn skrítið þegar hlutfall barna á heimilinu fer niður fyrir hlutfall fullorðinna. Eða núna þegar únglíngurinn er orðinn það stór að hún er farin að ráða sér sjálf og fer bara til pabbans þegar henni henter, það er ennþá skrítnara. Þá hef ég alltaf á tilfinningunni að ég sé að gleyma einu barni, sé búin að týna miðjukrúttinu mínu - hin tvö eru jú bæði á sínum stað!

Í morgun fór hin fullkomna blanda í safapressuna -
eitt grænt epli
ein stór appelsína
ein feit gulrót
einn góður biti af engiferrót

...mátulegur skammtur fyrir mig :)

19 apríl, 2007

Staðfestist hér með að..



Í tilefni af því að við hjónin þurfum brátt að innrétta ekki bara eitt baðherbergi heldur tvö, þá skelltum við okkur í "leiðangur" í síðustu viku. Hvað í heiminum getur verið skemmtilegra en að eyða hálfum klukkutíma eða svo með elskunni sinni, að skoða klósett, blöndunartæki og baðker?
Ansi margt, finnst mér allavega. Við gengum þarna um eins og fílar í postulínsbúð, eða kannski frekar postulín í fílabúð og vissum ekkert hverju við vorum að leita að. Jú, við sáum ýmislegt sem við vorum ekki að leita að og hugguðum okkur við að geta útilokað margt sem okkur fannst bara ljótt.
En svo sá ég baðkarið. Jiminn, baðkar er bara baðkar, hugsar þú núna, en.. þetta var sko Baðkar með stóru B-i. Það var nefnilega smart. Ég potaði í eiginmanninn og við fikruðum okkur nær þessum fagra hlut til að skoða hann ögn betur, og viti menn, var ekki þarna verðmiði sem slökkti fljótt vonina um betra bað í brjóstum okkar beggja (dónalega ofstuðlað, ég veit)

Baðkarið kostaði rúmlega áttahundruðogfimmtíuþúsund - takkfyrirtakk -
Svo það staðfestist hér með að ég er með dýran smekk

14 apríl, 2007





Þið sem ekki voruð búin að fatta, núna vitið þið hvaðan Lynette Scavo er upprunnin!

13 apríl, 2007

Afmælisstelpur



Það vill svo skemmtilega til að það eru tvær vinkonur mínar sem eiga afmæli í dag. Önnur þeirra ber titilinn "nýjasta" og hin er "með þeim elstu" (þó hún sé alls ekki gömul)

Elsku Birgitta og Anna til hamingju með daginn ykkar. Vona að það skíni sól á þig Birgitta í Barcelona, þó ég búist við að sama rokið og rigningin lemji okkur Önnu.

11 apríl, 2007

Einmanaleiki




Mikið er ég orðin háð þessu tæki. Þurfti að fara með gersemina mína í viðgerð í gærmorgun og var sagt að það tæki 3 daga. Ég var miður mín, vægt til orða tekið. Um hálf-þrjú í dag (semsagt einum og hálfum sólahring síðar) var hringt frá EJS til að tilkynna mér að græjan væri tilbúin. Síðast þegar ég þurfti að fara með hana voru þeir líka svona snöggir að þessu. Í bæði skiptin voru þetta atriði sem féllu undir ábyrgð svo ég hef ekkert þurft að borga heldur. Ég sýni fyrirækinu þakklæti í verki með því að punta færslu dagsins með merki þeirra.

Ég var svo einmana í morgun þegar ég sat við borðið mitt að LÆRA (já ég geri það líka stundum) að ég kveikti á útvarpinu til að fá félagsskap. Það er mjög sjaldgæft.

(og íbúðin mín er enn til sölu.. anyone??)

08 apríl, 2007

Gleðilega páska !!



Þar sem ég hef aldrei átt digital myndavél og á ekki enn, get ég því miður ekki sett inn páskamynd af Stubbaling í stuði. Í staðinn kemur þessi hoppandi kanína. Páskakveðja.

06 apríl, 2007

Til sölu

Þegar ég sýndi íbúðina s.l. miðvikudag í 12. sinna (á 18 dögum), gerði ég það algjörlega með því hugarfari að þetta væri fólkið sem kæmi til með að kaupa íbúðina okkar og léti sér líða þar vel næstu árin. Ekki það að ég hafi verið neitt að streitast á móti með hin 11 skiptin... En allavega, ef orkustraumarnir hafa ekki virkað sem skyldi, þá er sko alveg á hreinu að þeir sem koma næst, kaupa íbúðina. Ég er nefnilega búin að þrífa útidyrahurðina, svalirnar og svefnherbergisgluggann (gítarleikarinn er úti að skrúbba rest af gluggum).

Værum við hinsvegar að láta svona smáatriði skipta máli þegar við fjárfestum nokkra tugi milljóna, værum við ekki búin að kaupa íbúðina sem við keyptum. Það var drasl þar þegar við fórum að skoða - en þegar við fórum aftur í gær til að kíkja á herlegheitin eftir undirritun kaupsamnings, var allt vægast sagt í rúst. Hvergi sá í auðan bletta fyrir rusli og drasli. En mér er sko nokk sama um það, íbúðin er rosalega falleg og ruslið og draslið verður farið áður en ég flyt inn. Hlakka svooo til.

04 apríl, 2007

Matur

Ég er búin að vera svo matlöt undanfarið. Ristað brauð í morgunmat, langloka í hádegismat, drasla eitthvað yfir daginn, Tapas-bar á mánudagskvöld, Ruby Tuesday á þriðjudagskvöld og Aktu Taktu í kvöld - leiðin liggur semsagt niður á við. Svona mataræði kallar bara á.. MEIRA SÚKKULAÐI!!

Er að vonast til að einhver góðhjartaður fari að bjóða mér í mat áður en ég fer að éta úr ruslatunnunum - ekki nenni ég að elda sjálf.