29 september, 2007

Aðlögunarhæfni

Það er ekki langt síðan ég komst bara þokkalega af með að fara í sturtu annan hvern dag. Það kom jafnvel fyrir að það liðu hátt í 3 dagar á milli baðferða. Og ég var bara ekkert skítug eða illa lyktandi þrátt fyrir það (held ég..) En eftir að sturtan okkar komst loksins í lag, er ég ómöguleg ef ég fer ekki í sturtu minnst einu sinni á dag. Merkilegt.

26 september, 2007

Brúðarbjöllur hljóma...

Stubbalingur sagði mér áðan í bílnum að hann væri ekki enn búinn að læra nýja heimilisfangið sitt. Svo ég sagði honum það og hann endurtók nokkrum sinnum upphátt. Hann þarf sko að vita, svo hann geti sagt Snædísi. Þá gæti hún nefnilega fundið símanúmerið hans og hringt í hann ef hún ákveður hvenær þau ætla að giftast. Svo ætlar hann að fá hennar heimilisfang til að geta gert það sama ef hann ætlar að ákveða dagsetninguna.
"Núna er ég nefnilega búinn að ákveða að ég ætli að giftast Snædísi, það er svo gott að vera búinn að ákveða hverjum maður ætlar að giftast nefnilega"! Og þar hafið þið það!

23 september, 2007

Friður og ró

Gott að koma heim. Samt er allt í drasli. Þarf að fara að eyða eins og einni helgi heima hjá mér og sjá hvort að draslið minnki ekki. Gæti virkað.

19 september, 2007

Teflt á tæpasta vað

Já, ég lifi hættulegu lífi. Ég hef nefnilega bitið það í mig að áframsenda aldrei póst sem hótar mér óhamingju, örkumli og vinamissi, áframsendi ég hann EKKI. Samt er ég mjög hamingjusöm, á fullt af vinum og nóg af peningum. En ef það fer að halla á ógæfuhliðina hjá mér, þá vitið þið hvers vegna....

18 september, 2007

Klikkun

Stend hérna yfir pottunum á þriðjudegi að malla gúllas ofan í ungana mína, er að spá í að skella í kartöflumús líka, nei ekki úr pakka! Gítarleikarinn í útlöndum, eflaust farinn út að borða á einhvern ægilega flottan stað og þarf hvorki að elda né vaska upp. En, mest langar mig í rauðvínsglas. Hvort er ég klikkuð eða rugluð? Eða var ég kannski Frakki í fyrra lífi? Tekur því allavega ekki að opna flösku fyrir mig eina svona á þriðjudegi, bíð með það eitthvað frameftir vikunni.
Og er ekki Nigella farin að elda í sjónvarpinu mínu, ekki var það nú til að minnka löngunina. Hún er nefnilega einstaklega rauðvínsleg kjellan!

Fuglakvak í morgunsárið

Fuglar eru ógeð, eða það finnst mér allavega. Ástæðan fyrir þessari skoðun minni er sú að í ófrágengna þakskegginu á nýja húsinu okkar eru heilu hrúgurnar af starrahreiðrum. Þeir sem til þekkja vita sjálfsagt að þeim fylgja lýs. Fyrstu bitin fékk ég í sumar þegar ég var að mála svaladyrnar. Síðan hef ég verið bitin reglulega en hef ekki getað rakið þau bit til útiveru, því miður. Ég veit ekki hvar þetta ógeð kemst inn í íbúðina mína, en ég hef fundið það út að það er einhversstaðar á neðri hæðinni, merkilegt nokk. Líklega í gegnum óþéttu og ónýtu gluggana (fyrirgefið, sagði ég "nýja" húsið okkar...). Svo að þegar ég vakna klukkan 6 á morgnana við fuglakvak rétt fyrir utan gluggann, þá fer um mig ógeðshrollur.
Tók þó steininn úr núna í morgun. Er búin að vera að heyra óvenju hátt í einhverri skríkjunni. Sem ég labba niður á neðri hæð, sé ég útundan mér hreyfingu í fínu kamínunni okkar. Í henni eru gluggar á þrjá vegu og starrafíflið skemmti sér við að klessa á þá til skiptis. Ógeðshrollur dauðans. Hvernig í andsk** á ég að koma vibbanum út?
Vopnuð pappakassa (jújú, nóg af þeim hérna) opnaði ég glerhurðina. Litla fíflið fattaði ekki að ég var að reyna að bjarga því með að koma því ofan í kassann, svo það flaug bara á sótugt bakið í ofninum, aftur og aftur. Loks smeygði hann sér fram hjá mér og kassanum og tók stefnuna beint á ... neinei, auðvitað ekki svaladyrnar sem ég var búin að opna, heldur háa gluggann beint á móti.
KRASSSSS.. árekstur við gluggann og lending á Pet Shop dótinu í gluggakistunni sem Stubbalingur og Miðjubarnið voru búin að raða svo fínt upp. Ekki ætlaði ég að fara að koma við þennan viðbjóð berum höndum, ábyggilega allur í lús og ógeði. Eftir smá stympingar og nokkrar klessur á stóru stofugluggana mína, tókst mér að beina illfyglinu út um svaladyrnar.

Spurning um að hringja í Blikkarann og heimta afslátt, strompurinn sem hann kom upp fyrir einhverja hundraðþúsundkalla er ekki fuglaheldur!

(Náðist ekki mynd af illfyglinu í ofninum, í glerinu speglaðist bara óttaslegið og ógeðsgrett andlit húsfreyjunnar með pappakassann)

Bros dagsins

17 september, 2007

Ellin farin að færast yfir?

Ó mig auman. Ósköp er ég þreytt og rytjuleg í dag. Bakið er lúið og geyspinn ekki langt undan. Ekki alveg mín deild að sofa uppi á sviði, á dýnu sem er 150 cm á lengd, með 4 konur í kringum mig og 15 ellefu ára stelpur á næsta palli. Vaknaði við minnsta hóst og brölt. Best að vinna í að ná upp svefninum fljótlega. Ekki hægt að vera svona.

13 september, 2007

Litagleði


Ósköp var ljúft að koma út í morgun, engin rigning sem lamdi andlitið og ekkert rok sem skók líkamann. Notalegt að labba í skólann í fylgd Miðjubarnsins, við erum svo heppnar að skólarnir okkar eru á sama punktinum. Hún var eins og lítið litaspjald, í gulu buxunum sínum, grænum regnstakk með neongræna húfu og græna skólatösku, skórnir túrkisbláir. Enda er hún mikið fyrir glaðlega liti og grænt er uppáhaldsliturinn hennar. Mamman í öllu grænu nema skónum sem eru appelsínugulir. jájá, skrautlegar mæðgur. Myndina af þessum fallegu berjum tók ég hins vegar úti í garði hjá mér í vikunni.

12 september, 2007

Innkaupalistinn

Húsmóðirin og Únglíngurinn sátu við eldhúsborðið og settu saman innkaupalista fyrir afmæli. Stubbaling sárvantaði athygli svo hann dró stóra hægindastólinn að endanum á borðinu og tók að hoppa í honum af öllum kröftum. Sem hann veit að hann má ekki. Húsmóðirin ákvað að vera ekki með neitt hálfkák og tuð, heldur áminna á áhrifaríkan hátt. Hún lagði frá sér pennann, leit upp, og horfði beint á Stubbinn og sagði mjög ákveðið: Rjómi, RJÓMI!! þú veist þú mátt ekki... Svo sprungum við öll úr hlátri.

Hver var það aftur sem sagði að konur gætu gert tvennt í einu?

07 september, 2007

Superwoman

Ég er búin að vera í leiðindagír undanfarna daga. Nenni ekki neinu. Þegar ég ætla að hrista þetta af mér og gera eitthvað, fer tíminn í að pirra mig yfir því sem þarf að gera ÁÐUR en ég geri það sem ég get gert. Svo ég geri bara ekki neitt. Er búin að hanga þeim mun meira í tölvunni, eins og lesendur hafa líklega orðið varir við. Veit að þetta bráðnar af mér á morgun, þá fletti ég upp skyrtunni og stóra essið á bringunni kemur í ljós, gleraugun hrökkva af nefinu á mér og lærin verða vöðvastælt. Þá verður sko tekið á málunum. Þangað til ætla ég að hanga í tölvunni og borða allt súkkulaði og allan ís sem ég finn í íbúðinni. Jebb, thank God it's Friday!!

06 september, 2007

Píanóið mitt

Mamma og pabbi gáfu mér nýtt og fínt píanó.. minnir að það hafi verið þegar ég var í kringum 15 ára aldurinn. Síðan þá hefur það fylgt mér í allar mínar íbúðir í Reykjavík, og þær hafa nú verið nokkrar. Eitt eða tvö sumur var það m.a.s. geymt heima hjá Svenna frænda í Karfavoginum til að forða því frá flutningum á milli landshluta. Mest var mér þó blótað þegar ég flutti með það í litlu sætu risíbúðina mína, en upp í hana lá mjór stigi í sveigjum. Fjórir fílefldir píanóflutningamenn fóru grátandi frá mér daginn þann. Ekki var gleði þeirra mikil þegar ég hringdi í þá rúmum tveimur árum síðar og bað þá vinsamlegast að bera það niður aftur. Vanir menn og allt það!
Núna erum við búin að vera píanólaus í allt sumar, enda hefur íbúðin ekki verið við hæfi virðulegs hljóðfæris fyrr en nýlega. Stóri dagurinn rann svo upp á mánudaginn, en þá var það borið í hús með mikilli viðhöfn við almennan fögnuð heimilisfólks (aðallega móður og miðjubarns). Að sjálfsögðu var það tekið inn um forsetasvalirnar á annarri hæð, annað væri vart við hæfi. Myndir segja meira en mörg orð:
Alrei hefur píanóið mitt komist jafn örugglega jafn hátt upp með jafnlítilli fyrirhöfn. Vantar reyndar mynd af risakrananum sem sá um verkið...
(Mér telst svo til að píanóið mitt verið í 8 íbúðum eftir að það flutti með mér til Reykjavíkur)

05 september, 2007

Lubbastingurinn minn




Eftir að ég uppgötvaði nýjustu og árangursríkustu aðferðina til að svæfa Stubbaling, bíð ég í enn meiri óþreyju eftir að hann sofni á kvöldin. Er nefnilega loksins búin að komast að því að hann er víst meira fyrir tónlistina en þögnina (alveg eins og Gítarleikarinn). Svo að þegar seremónían "hátta, bursta, pissa, lesa" er búin, þá er bara að drífa sig fram og setja útvarpið eða sjónvarpið í botn. Svo geng ég um gólf og geri ekkert að viti fyrr en hann er sofnaður og ég get lækkað.
(Hann hefur það nefnilega frá mömmu sinni að eiga erfitt með að sofna á kvöldin).
Ég get bara ekki einbeitt mér að neinu í svona látum, ekki einu sinni að setja í uppþvottavélina. Það eina sem ég get gert í hávaða er að skúra, og það geri ég andskotakornið ekki á kvöldin.
(Eða bara ekki yfir höfuð, sýnist mér hafa tekist að fá mér það sem alla skúrilata og skúriníska dreymir um - SKÚRIFRÍTT PARKET!!)

En allavega, hér er Stubbalingur eldferskur í morgunmat í morgun. Hann er sjaldnast komin í fötin þegar sú athöfn fer fram, en þarna fékk ég hann til að klæða sig áður með því að bjóða hafgraut.. Kannski var þetta líka skikkjunni að þakka þar sem hún kom upp úr kassa í gærkvöldi (og er því nánast ný á ný) og fór óneitanlega betur við fötin en nærfötin.

Á morgun fáið þið svo væntanlega söguna af Píanóinu Fljúgandi í máli og myndum (kannski aðallega myndum) ef góðar vættir lofa. So stay Tuned!!

Morgunpirr

Ég tel mig í hópi raunsærra. Verð þó að viðurkenna að ég hefði aldrei trúað því að það tæki svona langan tíma að koma einni íbúð í stand (ekki strand). Sá það aldrei fyrir mér að í byrjun september þegar allir skólar væru komnir á fullt, ættum við ennþá mörg bretti af kössum úti í bæ sem ætti eftir að taka heim og uppúr. Pennaveskið mitt er enn týnt.

Múrarinn er verkefnalaus á baðinu af því að flísarnar eru búnar. Það vantar svona 5-6 flísar til að klára. Þær koma eftir 10 daga með skipi. Vona að ég haldi geðheilsu þangað til...

ARRRRGHHHH
(bannað að kommenta um að "þetta verði nú allt tilbúið fyrir jól"

03 september, 2007

Nokkuð til í því

Ég baðst undan því að blása upp risastóra blöðru fyrir Stubbaling. Afsakaði mig með því að ég væri eitthvað svo slöpp og bara loftlaus. Nú, sagði hann, hvernig getur maður verið loftlaus en samt andað??

..svona af því að ég á að vera byrjuð að læra...

Komið nýtt teppi og nýr köttur, nýji kötturinn í húsinu var vant viðlátinn...

Fyrir og eftir

Mátti til með að setja inn myndir af eldhúsinu fyrir og eftir. Erum svo ánægð með hversu vel tókst til með að poppa upp innréttinguna - hún er nánast óþekkjanleg. Rimlarnir fengu líka að halda sér eftir yfirhalningu í baðkarinu hjá tengdamömmu, mér finnst þeir smart!