13 nóvember, 2007

Umsátursástand

Hneta situr fyrir utan þvottahúsið og mænir á dyrnar. Bíður eftir að komast inn. Húsmóðirin hins vegar er að reyna að koma henni út úr húsi, til að komast í þvottahúsið án þess að hún fylgi með. Í þvottahúsinu er betri von um bráð en úti í garði. Ef hún nær sér í fugl er hins vegar meiri líkur að fjölskyldan verði flóabitin, sem við erum búin að fá nóg af.

Húsmóðirin er líka stirð í kropnnum og ósofin eftir tvær veikindanætur með Stubbaling. Hann er eins og lítill bakaraofn með hósta, ansi hrædd um að við þurfum að sleppa fimleikunum í dag, sem annars er hápunktur vikunnar. Þessa stundina fæ ég reglulega spurningar eins og:
"mamma, hvað þýðir "höbí-dí-von", en "skrf-er-jú", mamma veistu ekkert í útlensku"? Hann er nefnilega að horfa á Star Wars, en ég er að reyna að læra. Svo hef ég ekki sömu þolinmæði og Gítarleikarinn, sem horfir stundum með honum á myndirnar og þýðir jafn óðum.

3 ummæli:

Birgitta sagði...

Nú vantar hann sko eitt stykki "Árna frænda" til að horfa með honum - uppáhaldsmyndirnar hans ;).

Syngibjörg sagði...

ég get boðið þér Daða frænda, ef þú vilt. ´Hefur mikið dálæti á Star Wars skal ég segja þér:O)

Meðalmaðurinn sagði...

já ósköp væri nú gott að hafa einn svona strákafrænda núna á þriðja degi í veikindum. Systurnar hafa lítinn áhuga á Darth Vader og félögum!