27 maí, 2007

...

Eftir að við vorum búin að passa Nínu Rakel - sem var mjög þæg og góð - brunuðum við til Ísafjarðar.

Á Seljalandi...
.. fær maður alltaf eitthvað gott að borða. Sjálfpillaðar rækjur með mjúkri sósu og ristuðu brauði í forrétt á pallinum. Hina réttina fengum við að borða inni. Allur matur grillaður eða steiktur á múrikkunni.. nema fína salatið sem mamma útbjó í eldhúsinu. Ég er bara ennþá södd!!

22 maí, 2007

Parlez Vous Francais?


Þetta er ústýnið úr hótelglugganum okkar. Sel það ekki dýrara en ég keypti það. Fengum morgunmat upp á herbergi eins og kóngafólki sæmir. Fór svo út að labba meðfram vatninu, kíkja í búðir og sóla mig (hitinn er núna 27 gráður og klukkan að verða hálfsjö).
Morgundagurinn fer í ferðalög - sé þó fram á að geta dúllast í sælunni í Montreux fram að hádegi. Lífið ER gott!

20 maí, 2007

...

Arrrg.. þetta er allt á þýsku, get ekki lagað linkinn á síðuna hennar Rakelar - hann er hérna til hliðar. Stefni á að henda inn mynd á morgun... (ekki samt af Rakel :P)

Jebb

Eftir ríflega þriggja tíma flug frá Íslandi á ókristilegum tíma er maður ekki beint í stuði fyrir vesen. En þegar ég sá alla sætu flugþjónana og rúmgóðu sætin lagaðist skapið aðeins. Það var samt ekki fyrr en ég sá matinn sem ég fyrirgaf British Airwais alla biðina og leiðindin á flugvellinum. Ekki nóg með að borðbúnaðurinn væri úr gleri og stáli heldur samanstóð maturinn af fersku salati, kokteiltómötum, reyktum laxi og rjómaosti. Með þessu fylgdi sítrónu „infused“ ólífuolía í pínulítilli krukku. Pínulítilli! Einnig var boðið upp á nokkra tegundir af heitum bollum, grófum og fínum. Þegar ég bað um hvítvín voru tvær tegundir í boði.
Með tilliti til morgunverðarins sem ég fékk hjá Icelandair var ég síst að skilja í öllum þessum fínheitum. Það var ekki fyrr en ég sneri mér aðeins í sætinu og kíkti aftur fyrir mig að ég rak augun í tjaldið – Ég veit að ég hefði átt að fatta þetta þegar ég fékk heita klútinn fyrir matinn, get bara alveg stundum verið soldil Rakel í mér...

18 maí, 2007

Manikjúr

Settist niður með naglaþjalir, aceton og naglalakk. Ég fór nefnilega í handsnyrtingu fyrir viku síðan og ætla að halda þessu aðeins við.
Pússaði smá - en mundi þá eftir að þvottavélin var búin.
Ég labbaði fram í þvottahús - á leiðinni þangað sá ég að uppþvottavélin var líka búin svo ég breytti um stefnu.
Opnaði uppþvottavélina, gekk frá safapressunni og þurrkaði af borðum áður en ég hélt áfram leið minni í þvottahúsið (já, alla þessa leið).
Þvottavélin er staðsett á baðherberginu svo ég notaði tækifærið og pissaði og sá þá að klósettið var orðið óþarflega skítugt (fyrir konu sem er í fríi).
Þreif klósettið og tók aðeins til inni á baði áður en ég tók úr þvottavélinni.
Fór með þvottinn út á svalir og hengdi upp.
Rak þá augun í dósir og drasl á svölunum svo ég tók til þar.
Ég veit alveg afhverju ég er aldrei með naglalakk - ég finn mér alltaf eitthvað þarfara að gera. Fyrir nú utan að þau fáu skipti sem ég læt verða af því að smella á mig lakki, þá skemmi ég það yfirleitt með því gefa því ekki tíma til að þorna.
Marta - best ólökkuð!!

17 maí, 2007

Uppstigningadagur

Ekki nóg með að það hafi verið grenjandi slagviðri, rok og rigning og allt það, heldur hafði Stubbalingur ekki minnsta áhuga á dýrunum á bænum. Inni í fjárhúsin var ein ærin að bera, nei ekki hélst hann við þar litli prinsinn, það var svo vond lykt! Í hinu húsinu voru litlir hvolpar og kettlingar, kanínur og kanínuungar, hani og hrúga af litlum krúttlegum "páskaungum" - þar var líka vond lykt (ekki fann ég hana). Hann sat bara úti í rigningunni, kúrði sig upp að ruslafötunni og heimtaði að Harpa frænka kæmi á bílnum að sækja hann!
Ég sem hélt að ég væri að gera honum greiða með því að fara í sveitaferðina - hann lét hins vegar eins og hann hefði verið að gera MÉR greiða!!
Ósköp er ég glöð að bekkur miðjukrúttsins er hættur við að hittast í Öskuhlíðinni seinna í dag og ætlar að hittast í skólanum í staðinn. Skelf inn að beini!!

15 maí, 2007

Sorteringar

Já það er leiðinlegt að pakka, svo mikið er víst. Eitthvað svo mikill tvíverknaður - troða öllu ofan í kassa bara til að taka það upp aftur.
Svo ég ákvað að byrja á því leiðinlegasta, en ég er búin að lofa sjálfri mér því að fara í gegnum alla pappíra, myndir og dót sem mér finnst vera út um allt hús í misstórum hrúgum. Hugmyndin var sú að vera með nokkra skókassa og sortera í þá þetta smotterí. Svo gæti ég þá keypt mér passlega IKEA kassa og merkt þá snyrtilega með svörtum penna
"MYNDIR"
"EINKUNNIR"
"REIKNINGAR"
þessu gæti ég svo raðað huggulega í nýja skápa í nýju húsi þar sem aldrei verður drasl eða óregla frekar en í IKEA bæklingi.
Ég byrjaði á að finna ágætan skókassa til að setja í fyrsta einkunnaspjaldið sem ég fann á flækingi. Síðan opnaði ég fyrstu skúffuna. Efst í henni voru tvær bækur, önnur eftir Arnald Indriðason sem ég er að hugsa um að skila ólesinni, og hin eftir Yrsu Sigurðar. Ég kastaði mér upp í óumbúið rúmið og byrjaði á Yrsu. Hún lofar góðu. Sortera meira á morgun - kannski finn ég fleiri bækur :P

13 maí, 2007

Líf eftir prófin

Ég er óttalega dofin í hausnum. Finn að prófvitneskjan er að leka út hægt og hægt. Það er bara notaleg tilfinning vitandi að það sem er virkilega merkilegt situr örugglega eftir. Hinu get ég flett upp ef ég þarf.
Held ég leyfi mér bara að vera dofin og geyspin í dag, best að finna sér eitthvað til að lesa eða glápa - eða bæði. Eða bara liggja og horfa út í loftið, það er líka gott.

08 maí, 2007

Algjört prump

Magic er ekki að gera neitt fyrir mig. Þurfti bara að taka aukaferð á klósettið. Get alveg eins drukkið jurtateið mitt. Kannski virkar þetta ekki fyrir svona þroskaðar konur sem hafa fært þrjú börn í heiminn.

07 maí, 2007

Máttur auglýsinganna


"Nú verður þú að segja bless við blettina" sagði Stubbalingur í Bónus um leið og hann rak framan í andlitið á móður sinni væna, bleika dós af Vanish Oxi action. Ég spurði hann af hverju ég þyrfti þess og hann sagði mér að ef ég keypti svona þá yrði grái þvotturinn minn skjannahvítur!


06 maí, 2007

Styttist í próflok...

Hin níu stig djamms

1. Farðu í sturtu eða burstaðu af þér mesta skítinn með öðrum leiðum (frjálst val)
2. Settu allt sem þú finnur í baðskápunum á líkamann og restina í hárið
3. Tíndu skemmtilegust fötin út úr skápnum, mátaðu þau með öllu sem þér dettur í hug, skildu þau svo eftir í hrúgu á gólfinu eða rúminu (frjálst val) og farðu í sama djammgalla og vanalega
4. Mættu á staðinn, a.m.k. 15 mínútum of snemma af því að þú ert hvort eð er búin að vera að telja niður í minnst tvær vikur fyrir atburðinn
5. Fordrykkur
6. Aðaldrykkur
7. Eftirdrykkur
8. Ef þú vilt halda heilsu fyrir júróvissjónpartýið með fjölskyldunni á morgun gæti verið ráðlagt að fá sér eitthvað að borða núna
9. NÓTTIN ER UNG