30 október, 2007

Aflýst


Í gær þegar ég tók þessa skemmtilegu mynd var hið fínasta veður. Núna er hríðarbylur og vetrarlegt um að litast. Vona að ég komist heim á morgun, þarf að mæta í skólann eftir hádegi. Þangað til er bara framlenging á dekri :)

29 október, 2007

Andvaka kaka

Klukkan á tölvunni minni sýnir 23:12 og Lubbastingur enn í fullu fjöri. Held að Miðjunni minni hafi tekist að festa svefn þrátt fyrir non-stop spjall þarna inni í herbergi.. eða hvað, er hún kannski að tala við hann?
Allavega, hann segist ekki kunna neina aðferð sem virkar til að sofna. Þegar ég sagði honum að prófa að loka augunum og hugsa um eitthvað fallegt/gott/skemmtilegt. Þá sagði hann bara: "nei mamma, ég er búinn að prófa þá brellu og hún virkar ekki" og hvenær prófaðirðu hana, spurði ég, "Þegar Birgitta sagði mér frá henni fyrst og þá virkaði hún ekki heldur"!! Svo hann vakir bara áfram....

28 október, 2007

Bíó

Ísafjarðarletin hefur gripið mig. Það er svo notalegt að gera sem minnst hérna. Mamma og pabbi sjá um að ákveða hvað á að vera í matinn, kaupa í hann, elda, vaska upp.. ég tek bara þátt í því sem mig langar þá stundina. Kíki svo í bæinn, í heimsókn, í bók. Nema, að þegar mamma ákveður eitthvað, er eins gott að hlýða því og í dag bauð hún mér í bíó. Ég hristi af mér letigallann og druslaðist með henni. Sé sko ekki eftir því. Við fórum nefnilega að sjá Óbeislaða fegurð. Alger snilld, bara snilld, mæli með henni ef þið rekist einhversstaðar á hana. Takk fyrir bíóferðina mamma!

26 október, 2007

Skrítið

Gott að vera sest niður rúmlega 8 og byrjuð að læra, vitandi það að ég fer í skólann eftir hádegi og svo til Ísafjarðar. Jibbí. Skrítið samt að logga sig inn á WebCT og vera þar ein í báðum fögunum sem ég tek í fjarnámi. Bara eins og að sitja ein í kennslustofunni! En þetta er nú bara af því að Birgitta er fjórum tímum á eftir mér, svo að núna sefur hún sem fastast á sínu græna eyra.. eða var það blátt? Best að halda áfram að hlusta á fyrirlestur í setningafræði (birrrrr...)

Skítaveður, skítaveður, skítaveður - það verður orðið gott þegar ég flýg af stað með ungana mína seinnipartinn.

24 október, 2007

mmmmmmmmm

Mér finnst skinka vond. Slepjuleg og bragðlaus. Get hinsvegar alveg látið ofan í mig svokallaða lúxus-skinku og niðursneiddan hamborgarhrygg og þannig fínerí. Ég er lúxusdýr.

23 október, 2007

Jamm

Veturinn hefur hreiðrað um sig í kroppinum mínum. Ég vil bara vera í sokkabuxum, síðermabolum, ullarpeysum, þykkum sokkum og safna hári.. allstaðar. Munninn langar í sætt, magann langar í feitt. Heitt sviss miss og ristað brauð með miklum osti. Feitt kjöt með matarmiklum sósum. Fiskibollur með lauksmjöri og kartöflum. Ekkert grænt með því takk.
Svosem gott og blessað, mér er alltaf kalt svo það hentar mér vel að vera í hlýjum fötum. Öllu verra með mataræðið, kroppurinn minn hefur ekki yfir að ráða meltingarstarfsemi sem orkar svona. Húðin verður óhrein og maginn bólgnar með tilheyrandi óþægindum. Æji mér er illt í maganum. Koma tímar koma ráð, á meðan ég hlýði frekar munni og maga en heilanum, verð ég bara að lifa við þetta. Bon appetit!

Sumt er of gott til að stela því EKKI


Linda Evangelista:
„Það var Guð sem gerði mig svona fallega. Ef ég væri það ekki þá hefði ég orðið kennari."...........og þá vitiði þið af hverju ég er í kennara-háskólanum!

22 október, 2007

Vá hvað tíminn flýgur. Október er bara að hverfa út í buskann, enda nóg að gera. Verkefnaskil, Ameríkuferð, staðlota, meiri verkefnaskil og svo er ég að fara til Ísafjarðar um næstu helgi með yngra hollið.. og þá er bara kominn nóvember. Ósköp verður nú notalegt að komast til mömmu og pabba.
Ójá...

21 október, 2007

Nína Rakel og Arna

Fékk svo góða heimsókn í vikunni. Veit ekki hvað það er með þessa litlu dömu, held að við hljótum að hafa verið systur í fyrra lífi, mér finnst ég eiga svo mikið í henni.

Náði m.a.s. þessari fínu mynd af þeim mæðgum saman.
Henni fannst Rökkvi auðvitað samt skemmtilegastur. Hann fékk að halda á henni áður en þær fóru heim.

Myndablogg frá Ameríku

Þetta er ekki bara garðurinn hennar Birgittu, heldur líka útsýnið úr lærdómsaðstöðunni hennar í Ameríku. Mesta furða að við lærðum ekki meira...

Stóðum okkur aðeins betur inni á Manhattan heldur en í moll-leiðangrinum okkar.


Það er miklu skemmtilegra að ráfa á milli búða í miðbænum og kíkja svo á pöbb til að hvíla lúna fætur áður en haldið er áfram.


Fengum okkur að borða á Bubba Gump Shrimps. Minnir að maturinn hafi verið fínn, en kokkteilarnir voru geðveikir!!

17 október, 2007

Stubbalingur og StubbalínaMátti til með að setja inn þessa mynd sem ég fékk senda frá leikskólanum. Þvílík innlifun!

16 október, 2007

sungið við undirleik

"sorpritin selja ófarir náungans" syngur Stubbalingur inni í herbergi á milli þess sem hann hnerrar. Aðrir sálmar aftur komnir í uppáhald. Ákvað að hafa hann heima þar sem hann hóstaði í alla nótt og það á víst að vera mjög kalt í dag. Honum leist vel á það, takk fyrir að leyfa mér að vera heima elsku mamma mín! Gott að honum leiðist ekki einum með mömmu gömlu.

..veit að þið eruð orðin leið á þessum fuglafærslum..

..en ef ég ætti haglabyssu (og kynni á hana) myndi ég sko stökkva út á svalir núna og skjóta alla starra sem ég sæi til. Friðaðir hvað! Ég þoli ekki að heyra þetta tísta hérna innan um allt þakskegg hjá mér. Sérstaklega ekki eftir að ég komst að því að þeim tekst að troða sér með þakskegginu inn í þvottahúsið (sem er auðvitað ekki frágengið). Við Hneta erum saman í liði og hún náði einum þannig og í sameiningu tókst okkur að hrekja hinn út sömu leið. Eftir þetta er alltaf kyrfilega lokað inn í þvottahús.
Djö*** ófriður af þessu liði!!

15 október, 2007

Sykursjokk

Vá hvað ég svaf illa í nótt. Vaknaði og bylti mér og dreymdi mikið, var á fullu að flytja, klára og skila verkefnum. Þetta er það sem hann Tóti afi heitinn kallaði "draumarugl". En mér hefndist semsagt fyrir allt sykurátið í gær og byrja daginn í dag full fyrirheita. Kannski ég reyni bara að taka einn dag í einu.

Í dag ætla ég ekki að borða sykur (nema sem hluta af eðilegum matarskammti).

14 október, 2007

Snilldartaktar!

Byrjaði daginn á bakstri fyrir afmæli minnar kæru frænku. Agalega fín ostakaka með oreo kexi, smjöri og pecan hnetum í botninum. Ofan á það fer skyr, rjómi, rjómaostur og vanillubúðingur eftir kúnstarinnar reglum. Allt fer þetta í réttum lögum ofan í gamla lúna smelluformið mitt. Sem ég er að forfæra gúmmulaðið af eldhúsbekknum yfir í ísskápinn, verður mér á að reka puttann lítillega upp undir botninn á forminu. Við það gerir tertan sér lítið fyrir og hoppar upp úr forminu og skellur á gólfinu..

AAARRRRGGGHHHH!!

En betur fór en á horfðist. Ég hafði nefnilega sett ríkulega af bökunarpappír í botninn og það fór ekki svo mikið sem sletta út fyrir hann. Svo ég raðaði tertunni eftir bestu getu ofan af pappírnum og í formið aftur og inn í ísskáp. Hef ekki treyst mér enn til að skoða hvort hún er afmælishæf.
Get ekki annað en pælt í hvort að ég hafi verið skjálfhent af völdum morgunverðarins. Hann samanstóð af einu súkkulaðihúðuðu oreo kexi (hefðu orðið fleiri ef fjölskyldan hefði ekki fengið sinn skammt og restin farið í kökuna), tveim lúkum af Hrís kúlum og einni eða tveim að súkkulaðirúsinum. Svo sleikti ég auðvitað restina innan úr skyr/rjóma/vanillubúðings/rjómaosts skálinni og hvolfi í mig úr tveim vatnsglösum með þessu. Kannski ekki það staðbesta, en vatnið er allavega hollt!

Annars bara óska ég afmælisstelpum dagsins innilega til hamingju, en það eru:
Eva Baldursdóttir 10 ára
Anna Borg Friðjónsdóttir 13 ára
Kartín María Gísladóttir 16 ára.

Allt rosalega flottar stelpur!!!

12 október, 2007

Úr fuglahúsinu

Ég veit að málshátturinn: betri er einn fugl í hendi en tveir í skógi, er ekki beint um fugla heldur meira svona myndlíking. Ég vil samt breyta honum í: betri er enginn fugl í húsi en hundrað í skógi, og þá er ég að meina fugla hundraðprósent.. engin myndlíking. Er að bræða með mér hvort ég eigi að herða mig upp og hleypa út úr arninum eða bara bíða eftir Gítarleikaranum...

Ást í poka

Ég spurði stubbaling af hverju hann ætlaði að giftast Snædísi og það stóð ekki á svari. Af því að hún er sæt og skemmtileg. Og er það ekki bara besta ástæða í heimi?

10 október, 2007

Áminning

Iðullega verða utanlandsferðir mér sem kennslustund í kurteisi. Ekki það að ég sé neitt sérlega ókurteis ung kona. Þegar ég kem á kassa í Bónus með yfirfullafimmmannafjölskyldukörfu, þá hleypi ég bólugrafna unglingnum með kók og samloku fram fyrir mig. Eða heilsufríkinu sem er með Egils Kristal og orkustöng. En ég er samt íslenskur víkingur í vígaham inn við beinið. Þegar ég er í matvöruverslun er þetta hugsanagangurinn:
- æji ég dríf mig bara og verð komin á kassann á undan
- hann hlýtur að víkja, ég er að flýta mér
- heilsa sko ekki ókunnugum
- spjalla ekki við manninn á kassanum því að við erum bæði að flýta okkur svo mikið
- bið engan um aðstoð og aðstoða engan á móti.
Í Bandaríkjunum virðist þetta vera allt öðruvísi. Þar er innkaupaferð í matvörubúðina meira eins og gönguferð í garðinum. Ekkert leiðinlegt sem maður þarf að drífa af. Allir brosa og enginn er í kerrukappakstri. Hvað þá þetta stress að drífa sig að henda öllu sem hraðast ofan í pokann til að næsti komist að. Sinn er siður í landi hverju, þannig er þetta bara! Mér sýndist þeir reyndar lítið skárri en við í umferðinni blessaðir Bandaríkjamennirnir, en það er annar handleggur.

03 október, 2007

Ferðalag og klipping

Skrítið að knúsa krúttin sín í morgun og vita að maður fær ekki að knúsa þau aftur fyrr en eftir 6 daga, vá.. ekki fyrr en næsta þriðjudag! En þau verða í góðum höndum, og ég líka.

Fór með yngri krúttin í klippingu í gær og tók fyrir/eftir myndir. Miðjukrúttið fékk reyndar fastar fléttur eftir klippinguna svo það sést ekki alveg hvað það var tekið mikið af hárinu á henni. Stubbalingur fékk gel. Best ég skelli inn myndunum...

02 október, 2007

Pomppp...


Málarinn er að vinna niðri og hóaði í mig áðan til að spyrja hvort við værum búin að breyta arninum í fuglabúr. Og viti menn, litla stýrið hafði ratað niður. Ekki eins fjörmikill að klessa á glerið eins og sá fyrri, enda þrekaður eftir tveggja daga veru í rörunum. Tók því ekki að grilla hann svo við slepptum honum út. Jæja, hvenær skyldi svo næsti detta niður...(Þessi kom m.a. þegar ég gúgglaði starra. Aldrei mundi ég skýra son minn Starra)

Vængjasláttur í stromprennum

Við Hneta erum alveg með það á hreinu að það er óvættur í strompnum. Hneta er mikill veiðiköttur og veit sínu viti í þessum málum. Þetta er meira svona tíst og þrusk en strigabassa ho-ho-hó, svo jólasveinninn er ekki inni í myndinni. Gítarleikarinn verður settur í nefnd á meðan ég hef það gott í NY.

Þeir sem vilja fleiri sögur af Hnetu er bent á að lesa tvær færslur á þessari síðu. Önnur heitir: Kisa mín og hin: Ég vatna músum. Snilldarfærslur!

01 október, 2007

Til Birgittu í USA

Ég er í textíláfanga í vetur sem heitir vélsaumur og efnisfræði. Þar hafa verið lögð fyrir okkur ýmis skemmtileg verkefni sem við höfum leyst með aðstoð saumavélarinnar. Eitt af verkefnunum var að gera dýr eða fígúrur sem gætu hentað fyrir börn á yngsta stigi og upp úr, úr mismunandi efni og með mismunandi aðferðum. Ég ákvað að gera drauga. Hana Birgittu í Ameríku langaði svo að sjá hvað ég var alltaf að bardúsa í saumavélinni svo ég skelli hérna mynd af draugakrúttunum mínum.

Þarna sitja þeir allir stilltir og prúðir í stofuglugganum í risinu. Flott útsýni.
Önnur uppstilling, þarna hanga þeir sem eiga að hanga, hinir sitja sem fastast.
Þarna var Rauði draugurinn kominn í fýlu og vildi ekki vera á fleiri myndum, svo þú sérð hvað hann er huggulegur að aftan.

Svo sjáumst við bara eftir 2 daga Birgitta mín. Varstu ekki örugglega búin að taka upp rauðvínsglösin?


(Hver er sætastur?)

hrollllllur..

Jább, er orðin nokkuð viss um að strompurinn sé stíflaður af ógeði. Líklega ekki eins skynsömu og fyrra eintakinu þar sem þetta ratar ekki niður í kamínuna, sem er líklega eina leiðin út. Ojbarasta. Þurfti að henda Hnetu út því að hún pissaði á gólfið. Margt að gerast í morgunsárið.

The Birds 2?

Ætla rétt að vona að það sé ekki einhver ógeðsfuglinn búinn að finna sér leið inn til mín. Þá tryllist ég. Er búin að heyra einhver dularfull hljóð hérna uppi í risi í morgun. Tvisvar. Finn samt ekki neitt. Hneta var líka mjög skrítin í morgun og starði í sífellu upp eftir kamínunni. Ég sá nú ekkert þar, kannski eitthvað ógeðið sé fast í strompnum. Ef svo er, þá fær Gítarleikarinn sko að grilla það á morgun þegar hann kemur frá útlöndum. Sko eins gott að kenna þessu liði í eitt skipti fyrir öll, hvað það getur haft í för með sér að villast inn til Geðveiku Hitchcock Húsmóðurinnar. Læt vita ef eitthvað markvert gerist. Vonandi ekki.