31 janúar, 2008

Taugarnar


Ég er eitthvað svo slæm á taugum eftir allar sprengingarnar hérna í nágrenninu. Enda er krafturinn í þeim að aukast ef eitthvað er, jörðin hristist undir fótunum á mér minnst 5 sinnum á dag (fer eftir því hvað ég er mikið heima), og alltaf hrekk ég jafnmikið í kút. Hvort sem þeir muna eftir að setja loftvarnarflautuna á áður eða ekki.

Held ég fari og kaupi mér eitthvað hjartastyrkjandi á kostnað verktaka, ætli það megi?

30 janúar, 2008

Meiri þvottur (nú fer stuðið að byrja)

Sko, ætlið þið virkilega að reyna að telja mér trú um það, að það sé í alvörualvöru til fólk sem startar heilbrigðu líferni strax í byrjun janúar? Þessir líkamsræktar- og hollustufrömuðir sem brosa í Fréttablaðinu, 24 stundum og Gestgjafanum, gefa okkur uppskriftir af hollum degi og hvernig eigi að koma sér af stað í ræktinni, er þetta alvöru fólk?

Meina, ekki veitir manni af fituforðanum í mesta kuldanum og myrkrinu í janúar. Enda læt ég svona predikanir ekkert á mig fá, fæ mér bara mitt Sviss Miss og ristað brauð með osti og sultu í hádeginu. Ekkert grænt með því takk.

Þvottadagur

Það er janúar í mannskapnum. Stubbalingur pirraður, erfitt að sofna, erfitt að vakna, erfitt að vera á leikskólanum, erfitt að vera heima, hann er líka búinn að vera svo kvefaður. Miðjukrúttið er ekki heldur upp á sitt besta, únglíngurinn er þreyttur.
Önnin í mínum skóla hófst af krafti strax í upphafi og það eru verkefnaskil og lestur og verkefnaskil, og smá útsaumur og aðeins að prjóna. En daginn lengir, hægt, hægt...

27 janúar, 2008

Smá sending..

... til Birgittu sem býr í landinu þar sem aldrei hreyfir vind.

Svo er bara að hækka í botn og loka augunum!!

22 janúar, 2008

Kósýhvað

Fátt afrekaði ég í langa jólafríinu mínu. Tókst þó að klambra saman þessu kósý horni fyrir Stubbaling, undir rúminu hans. Við vorum í smá stund eins og alvöru hjón, Gítarleikarinn skrúfaði upp lampa og stöng, húsmóðirin saumaði festingar á pullur, utan um gamla dýnu og skreytti svo pullurnar með efnarestum.
Hugmyndin kemur að sjálfsögðu úr IKEA og ætli þetta hafi ekki kostað svona.. tvöþúsundkall - samt kostaði IKEA ferðin mun meira....

Ó vei, ó svei...

Rigning og slagviðri á ný. Þetta var líka of gott til að vera satt. Og afmælisgjöf Stubbalings lögð af stað frá Ísafirði, óvenju snemma. Amma og afi ætla nefnilega að gefa honum útigalla til að nota í öllum snjónum.
SNIFF SNIFF...

19 janúar, 2008

Frumsýning

Hér gefur að líta fyrsta einleik Stubbalings. Hann sjálfur er höfundur, búningahönnuður, leikari og kóreógrafer. Húsmóðirin tók að sér leikstjórn. Njótið.

18 janúar, 2008

.. og eitt til

Miðjumúsin að kenna Músímúsinni á píanó í desember - efnilegar báðar tvær, finnst ykkur ekki?

Perlan

Perlan blasir við mér út um alla gluggana í húsinu sem að henni snúa á annað borð. Því get ég ekki annað en glaðst yfir því að jólin séu búin. Núna er hún upplýst með ólituðum ljósaperum. Rauði og græni liturinn sem hún fær á sig í desember minnir mig nefnilega meira á Sirku Geira Smart en jólin.

Allt stíflað

Það kom semsagt í ljós að tölvan mín var fárveik þegar hún lagðist inn á spítalann, ég sem hélt að þetta væri bara smá kvef. Þegar hún kom loks heim var búið að skipta um harða diskinn, setja nýtt stýrikerfi og nýtt lyklaborð. Váts.
Ég er rétt um það bil að ljúka við að setja inn öll forrit og kynnast tölvunni minni upp á nýtt. Ofan í það er ég auðvitað að setja mig inn í 5 ný fög í skólanum, hvert öðru meira spennandi og áhugaverðara. Núna er ég í tveimur textíláföngum, tveimur bókmenntaáföngum og einum málfræðiáfanga. Ég hef því engan tíma til að stunda útivist eða íþróttir, ég þarf nefnilega að lesa svo mikið af skemmtilegum bókum ;) Ekki slæm afsökun það!!

Þessi færsla er sett inn til að losa um alvarlega ritstíflu og bloggfælni, vona að það sé hér með frá.

12 janúar, 2008

Lasleiki

Tölvan mín er ennþá veik, ég fékk hana bara heim í helgarleyfi af spítalanum og fer með hana aftur á mánudagsmorgunin. Vona samt að hún komi stálslegin til baka eftir seinni lotuna.
Sjálf er ég ekki sú hressasta og segi ég alveg eins og svuntukjeddlingarnar í sögubókunum: Mjöðmin er bara alveg að drepa mig!
Held ég gleypi aðra íbúfen og leggist í flugvélarúmið - það er nefnilega stelpupartý hjá mér í kvöld.... jibbýjey!!

09 janúar, 2008

Skortur á sambandsleysi

Tölvan mín er í yfirhalningu áður en næsta vertíð hefst. Á meðan er ég sambandslaus við umheiminn (lesist: Birgittu, skítt með rest).
Á meðan les ég Óreiðu á striga og gúffa Nóa konfekt (eins og Rakel) - rakst óvart á óopnaðan kassa uppi í skáp og asnaðist til að opna hann. Þá er ekki aftur snúið. Fæ reyndar til mín góðan hóp á laugardaginn og stefni á að geyma nokkra mola fyrir þær. Lofa engu.
Þetta er ritað á smátölvu Gítarleikarans, hún er svo lítil að ég sé hana varla.

07 janúar, 2008

Nojts...

Mér var nær að kvarta. Það eru sko byrjaðar ALVÖRU spreningar í næstu götu við mig. Loftvarnarflautur og alles. Ég sat í sófanum í morgun þegar ég þeyttist allt í einu hátt upp í loft við mikinn hvell, bæði brá mér við hvellinn og eins var dynkurinn svo mikill að þyngdaraflið lét undan. Þegar sjokkið hjaðnaði minntist ég þess að hafa fengið miða inn um lúguna með jólakortaflóðinu. Honum er ég búin að týna. En það stóð á honum eitthvað á þá leið að nú færu sprengingar að hefjast í nýbyggingarreitnum hérna í næstu götu, þetta á víst að standa einhverja mánuði. Jibbíjey. Hjartað nú þegar skroppið helling saman eftir 3 spreningar í dag (á meðan ég var heima við allavega) og verður væntanlega lítið eftir af því með vorinu. Kennaranemi með uppþornar hjarta.. hljómar ekki vel.

p.s. Hvernig gengur ykkur að hætta í óhollustunni? Mér gengur ekki baun og er langt komin með karamellufylltu Birgittukossana :P

06 janúar, 2008

Alveg að springa

Hrikalega er ég orðin ógeðslega viðbjóðslega leið á öllum þessum sprengingum hérna í borginni. Fer þetta ekki bara að verða gott?

Ópersónuleg færsla

Auglýsing frá einhverri prentþjónustu hljómar í sjónvarpinu, klikkt út með "persónuleg þjónusta". Miðjukrúttið spyr: "mamma, hvað er persónuleg þjónusta"?
Ég veit það eiginlega ekki.. meina, er ekki öll þjónusta persónuleg? Hvernig er hægt að vera í samskiptum við aðra manneskju án þess að það verði persónulegt? Eru samskipti tveggja manneskja ekki alltaf persónuleg?
Þessi bloggsíða mín er allavega orðin miklu persónulegri en hún átti að verða í upphafi :P

03 janúar, 2008

AAAAAAAAAAAAndvaka

Síðustu nótt leysti ég heimsmálin, fjármálin og mjúku málin.

- ég var andvaka

Ég samdi mörg snilldarblogg, lengdin hefur væntanlega skagað hátt í þokkalega skáldsögu.

- ég var andvaka

Mig verkjaði í mjaðmirnar, bakið, hnén, bakið mjaðmirnar.

- ég var andvaka

Margt fleira flaug í gegnum hug minn, sem ég er þó blessunarlega búin að gleyma núna.

Í dag var ég þreytt af því að ég var andvaka alla síðustu nótt. Núna ætla ég að hoppa upp í rúm og verða aðeins meira andvaka.. eða ekki.

02 janúar, 2008

Á nýju ári

Á morgun verður...
..ísskápurinn tæmdur
..jólaölinu hellt niður
..smákökudunkarnir tæmdir út í ruslatunni
..konfektrestum sturtað niður í klósettið

Síðan fer húsmóðirin í dýrustu matvöruverslanir landsins. Skáparnir verða fylltir af lífrænt ræktuðum baunum og fræjum og ísskápurinn af soja mjólk og tófú. Eftir heljarinnar skúringar og afþurrkun verður rokið í líkamsræktarstöðina í nágrenninu og hamast í eróbikk.

DJÓK!!

Stefni á að skúra á morgun og nota svo restina af árinu í að láta mér líða vel. Hæfilegur skammtur af óhollustu og hreyfingarleysi er þar efst á blaði. Enn er líka nokkrar eðalbækur ólesnar á náttborðinu, en þeim þarf helst að ljúka áður en skólinn hefst að nýju.

GLEÐILEGT ÁR KÆRU VINIR og munið að gleyma ykkur ekki í áramótaheitunum!