27 desember, 2007

Sykur lekur út um eyrun á mér

Sælgætislaus dagur í dag, eða hvað? Byrjaði vel á tei og skonsu. Smákaka í eftirrétt - það er ekki súkkulaði. En eftir smáköku er leiðin yfir í konfektkrukkuna ansi stutt, eða lakkrísskálina. Það er allavega til nóg af konfekti og lakkrís og smákökum og þá eru freistingarnar bara til að falla fyrir þeim. Gleðilega sælgætisdaga.

16 desember, 2007

Heiladauði punktur is

Ég er svo innilega þurrausin og innantóm og hugmyndasnauð, að þið tryggu tíu eða fimmtán lesendur (skv. sitemeter) verðið bara að njóta þess með mér. Er að bræða með mér hvort ég eigi að nenna í kremið á sörurnar eða bara fara að lesa Yosoy - hún er assgoti grípandi. Fann allavega jóladiskana í dag, eftir mikla leit. Borgardætur komnar á fóninn. Já, svona hljómar blogg hjá heiladauðum húsmæðrum í jólafríi. Værsogod.

14 desember, 2007

Einn alveg búin að fatta út á hvað þetta auglýsingaskrum gengur

Við Stubbalingur erum að baka, það er kveikt á útvarpinu. Einhver bankinn er að auglýsa í krafti Latabæjar, gjöf sem vex og vex..

Já ég veit hvað það er, það er blóm - það vex og vex!!

Vondaveðrið

Okkars eru heima í dag í vonda veðrinu - en ykkars?

11 desember, 2007

Glittir í frítíma!!

Jább. Ég er að komast í gegnum þetta eina ferðina enn. Styttist í annarlok. Skil á prófritgerð í fyrramálið, hún liggur næstum fullbúin við hliðina á mér. Síðasti yfirlestur í kvöld. Þá er ég komin í jólafríhíhíhíhí! Sýnist á ástandinu á mér í dag að fyrstu dagar fari bara í hvíld. Uss, ég á það alveg inni.

10 desember, 2007

Ritgerðasmíð

Váts.. klukkan orðin hálftólf, er ég virkilega búin að sitja í tæpa þrjá tíma yfir bókmenntafræði. Ég er allvega komin á annan kaffibollann (sem laga sjaldnast kaffi fyrir mig eina). Í þetta skipti er það dýrari týpan, með flóaðri mjólk, tveim konfektmolum og einni mandarínu. Maður verður jú að halda orkunni. Áfram með smjörið...

07 desember, 2007

Vetrardekkin


Þrjú þúsund krónunum sem ég borga Sólningu fyrir að geyma dekkin mín, er vel varið. Bakið á mér er vel þess virði.

05 desember, 2007

Uppdeit

Komin vaskur á baðið - þvoði mér samt um hendurnar í eldhúsinu áðan, er orðin svo vön því
Búin í setningafræðiprófi - Jibbí
Búin að skila verkmöppu í sjónlistum - Jibbí
Allt í drasli - þarf að fá Stubbaling til að skúra aftur!

02 desember, 2007

Sveitastrákur

Hann er bara svo mikið yndi að ég verð að leyfa ykkur að njóta með mér. Lagið hef ég aldrei heyrt nema í hans meðförum og þykist ég þó nokkuð fróð í þessum efnum. Hann gerir þetta allavega mjög vel.

Spenningurinn í hámarki

Það stefnir í sögulegan viðburð hjá heimilisfólki í dag. Eins og staðan er núna bendir allt til þess að í kvöld getum við burstað tennurnar á baðherberginu í fyrsta skipti í nýju íbúðinni okkar, það á semsagt að fara að setja upp og tengja baðvaskinn og blöndunartækin. Ekki bara það. Stefnir allt í að það verði komnar hurðar fyrir baðskápana líka (sem voru settir upp í síðustu og þarsíðustu vikur). Bara dekur og ekkert annað.

Fyrir þá sem furða sig á þolinmæði húsmóðurinnar hef ég eitt að segja:

Ég er píanókennari.

Uppdeit - þurfti að nýta restina af þolinmæðinni þar sem vaskurinn kom ekki í dag.. hún er semsagt búin og ríflega það :(

01 desember, 2007

Hneta

Á milli þess sem ég hlusta á fyrirlestur og geri verkefni í setningafræði er gott að hlaupa upp og niður stigana til að festast ekki í mjöðmunum. Hrikalega er maður orðinn gamall og stirður. En hérna er hún Hneta að fá sér vatnssopa í eldhúsglugganum - yfirleitt drekkur hún bara beint úr krananum en þarna var hún meira í stuði til að drekka úr glasi:

Krúttulegur köttur ;-)

28 nóvember, 2007

Talandi um súkkulaði..

... væri alveg til í einn góðan mola núna.

27 nóvember, 2007

Aumingjans ég

Við Stubbalingur "skautuðum" í leikskólann í hálkunni í morgun. Það glitraði og stirndi á héluna á götum og gangstéttum og við sáum saltbílinn sprauta salthnullungum á göturnar. Þegar við komum upp á Rauðu hrúguðust krakkarnir í dyrnar að taka á móti okkur. Einn sagði okkur frá svuntunni sem hann kom með í piparkökubaksturinn, annar sýndi okkur kúrekahattinn og ein stelpan sýndi okkur hvað bleika pilsið hennar var rosalega sítt. Mig langaði mest að fara inn og taka þátt í leiknum, perla og kubba og syngja. Á eftir á að baka piparkökur og svo verður farið í heimsókn á Droplaugarstaði.
Ég þurfti hinsvegar að hundskast heim og læra setningafræði og bókmenntafræði og.. stundum getur verið ömurlega leiðinlegt að vera fullorðinn :(

26 nóvember, 2007

Hneturaunir

Við höfum átt í smá basli með hana Hnetu síðan henni var skilað hingað í miðbæinn eftir hið sæla frelsi á Ísafirði. Já það er ekki auðvelt að vera kastað úr Paradís. Hún hefur alltaf getað gengið örna sinna þegar henni hentar þar sem inn og útgengi hefur verið frjálst - opinn gluggi og/eða stutt í útidyr.
Hérna í miðbæjarsollinum erum við hins vegar á annarri hæð, sem þýðir að ekki stekkur maður út um glugga, fyrir utan að til að komast að útidyrum þarf maður að ganga niður margar tröppur (allt fyrir líkamsræktina). Þar sem Hneta er með eindæmum klár köttur, hef ég ekki einusinni reynt að bjóða henni upp á hallærislegan sandkassa eins og hverju öðru ósjálfbjarga dýri. Kötturinn sem hefur fylgt fjölskyldunni í skóla og leikskóla í mörg ár, og hefur lært að fari hún yfir Miklubrautina þá týnist hún í nokkra daga, getur alveg látið vita þegar hún þarf að komast út og gera þarfir sínar. Núna hefur hún það þannig að þegar við Rökkvi löbbum á leikskólann, þá fylgir hún okkur yfir Miklatúnið og hinkrar svo í garðinum þangað til ég kem til baka og labbar þá með mér heim.
En það hafa nú verið einhver bakslög með blessað pisseríið. Stundum pissar hún í sturtubotninn.. sem er kannski það skásta, en það hefur komið fyrir tvisvar eða þrisvar að hún hefur fundið sér eitthvað á gólfinu, eins og t.d. íþróttatösku, til að míga í á morgnana. Síðast var ég svo reið að ég elti hana út um allt áður en ég henti henni út með formælingum sem hvaða sjóari hefði verið stoltur af. Ég sagði henni jafnframt að hún væri klárari en þetta, allir heima og minnsta málið að finna einhvern til að opna fyrir sig útidyrnar. Síðan þetta gerðist hef ég reynt að grípa hana á morgnana og koma henni út til að koma í veg fyrir slys, hún er mis ánægð með það að þurfa að fara út í rokið og rigninguna og myrkrið. Nú þykist hún vera búin að finna aðferð til að sleppa við það.

Í morgun kom ég að henni á klósettinu, þar sem hún stóð með afturfæturnar ofan í klósettinu, samt ekki ofan í vatninu, og framfæturna uppi á setunni. Sel það ekki dýrara en ég sá það. Treysti þessari nýju aðferð samt mátulega , heldur greip hana glóðvolga og setti hana út. Kettir míga úti, punktur!

25 nóvember, 2007

Ánægjustuðullinn

Var að uppgötva hvað ég er einfaldur persónuleiki. Ef þvottahúsið, eldhúsið og gólfin eru svona nokkurnvegin undir kontról, þá er ég glöð. Þegar allt er í drasli og allt er óhreint og eldhúsvaskurinn fullur og uppþvottavélin líka, þá fyllist ég óyndi. Eins og flestir vita þá er spakmælið: Sé konan ánægð er fjölskyldan ánægð, enn í fullu gildi. Ef ég fæ jafnframt lágmark tvo tíma á laugardegi og aðra tvo á sunnudegi til að sinna skólanum (fer eftir álagi), er ég meira til í að föndra með krökkunum, baka skonsur eða leika við þau.
Svona þarf nú lítið til að gleðja mig, enda er ég einföld sál! Vona bara að Gítarleikarinn lesi þetta....

24 nóvember, 2007

Stelitími

Rosalega er heimanámið mikill tímaþjófur. Ég sé kannski fyrir mér tveggja tíma lotu, vá, tveir tímar í friði og ró að læra.. svo set ég mér áætlun. Og kemst ekki yfir nema eitt atriði af 5. Ég er til dæmis búin að sitja í dútli og frágangi á verkefnum og áður en ég veit af er klukkutími liðinn.
Hlakka til að klára öll verkefnin og prófin og komast í jólafrí. Eða stússifrí. Þá ætla ég að mála og pússa og lakka og sauma gardínur og ganga frá fullt af lausum endum í íbúðinni - já og halda saumaklúbb og matarboð og baka með börnunum og úbbossí.. undirbúa jólin. Vona að ég komist yfir svona 1/5 af því sem ég ætla mér, þá er ég ánægð.

23 nóvember, 2007

Labbitúr í góða veðrinu.

Ég er búin að vera nokkuð dugleg að skilja bílinn eftir síðan ég tók mig á og hef notað (annað) hvert tækifæri til að ganga. En í morgun blöskraði mér svo veðrið að ég ræsti bílinn til að skutla Miðjukrúttinu mínu í skólann. Nú fer Únglíngurinn fram á sama trít.. en það er aðeins meira úr leið fyrir mig :S
Allavega, í sönnum anda Íslendings get ég endalaust býsnast yfir veðrinu..

21 nóvember, 2007

Drama hvað??

Sá þetta hjá henni Birgittu og það átti svo ótrúlega vel við hana, svo ég prófaði auðvitað líka. Hvet ykkur hin til að gera það sama..Þú ert miðlungssteikt dramadrottning.

Ef dramadrottningar væru hamborgarar sem fengjust
"rare",
"medium rare",
"medium"
og "well done"
værir þú "medium". Miðlungssteiktar dramadrottningar eru konur meðalhófs. Þær eru skynsemisverur miklar, hafa sterka réttlætiskennd og vilja öllum vel. Í raun myndu flestar miðlungssteiktar dramadrottningar frekar vilja vera baunabuff en hamborgari því þá hefðu engin saklaus dýr þurft að líða fyrir samlíkinguna.Miðlungssteiktar dramadrottningar hafa algera stjórn á dramatíska hluta heilans. Í raun verður sjaldan vart dramatískrar hegðunar hjá hinni miðlungssteiktu. Ekki einu sinni slæmur hárdagur getur raskað ró hennar.Miðlungssteiktar dramadrottningar eru hæglátar, yfirvegaðar en fylgispakar. Þær eru trúar leiðtoga sínum sem er gjarnan léttsteikta dramadrottningin og fylgja henni oft í blindni. Þegar á reynir er hún hins vegar ekki tilbúin til að hvika frá sannfæringu sinni og á það til að vera samviska þeirrar léttsteiktu og halda henni á jörðinni.Hversu mikil dramadrottning ert þú?

19 nóvember, 2007

Á öðrum degi í veikindum fékk Stubbalingur nóg af vídeóglápi og ákvað að taka til hendinn á heimilinu. Ekki var vanþörf á að skúra, enda húsmóðirin með eindæmum skúrilöt. Því tók drengurinn sig til og skúraði alla neðri hæðina, megnið af tímanum söng hann við vinnuna til að auka móður sinni yndi.

14 nóvember, 2007

Bílamál

Það vantar á rúðupissið hjá mér, búið að vanta örugglega í 2 vikur eða svo. En það skiptir engu máli því að það er alltaf rigning. Þegar ég fór í skólann um hádegi voru rúðurnar óhreinar. Þegar ég fór heim aftur var búið að rigna. Spurning um að fara að selja ódýrari bíla hérna í Borg Óttans þar sem þessi fítus er ekki til staðar.

13 nóvember, 2007

Umsátursástand

Hneta situr fyrir utan þvottahúsið og mænir á dyrnar. Bíður eftir að komast inn. Húsmóðirin hins vegar er að reyna að koma henni út úr húsi, til að komast í þvottahúsið án þess að hún fylgi með. Í þvottahúsinu er betri von um bráð en úti í garði. Ef hún nær sér í fugl er hins vegar meiri líkur að fjölskyldan verði flóabitin, sem við erum búin að fá nóg af.

Húsmóðirin er líka stirð í kropnnum og ósofin eftir tvær veikindanætur með Stubbaling. Hann er eins og lítill bakaraofn með hósta, ansi hrædd um að við þurfum að sleppa fimleikunum í dag, sem annars er hápunktur vikunnar. Þessa stundina fæ ég reglulega spurningar eins og:
"mamma, hvað þýðir "höbí-dí-von", en "skrf-er-jú", mamma veistu ekkert í útlensku"? Hann er nefnilega að horfa á Star Wars, en ég er að reyna að læra. Svo hef ég ekki sömu þolinmæði og Gítarleikarinn, sem horfir stundum með honum á myndirnar og þýðir jafn óðum.

11 nóvember, 2007

Allt í flækju


Flækjustigið á vinnuborðunum mínum er orðið ansi hátt, eiginlega of hátt til að það sé hægt að einbeita sér að öðru en blogg- og fréttalestri þar. Já, ég bý svo vel að hafa tvö vinnuborð, eitt fyrir bóklegt og annað fyrir verklegt. Þvílíkur lúxus. Veit ekki hvernig ég hefði farið að þessu öllu saman í Mávahlíðinni.

Væri snjallt af mér að nýta kvöldið í tiltekt á borðunum og mæta fersk á "vinnustaðinn" minn stundvíslega klukkan 8:30 - er jú grasekkja fram á miðvikudag.. eða var það fimmtudagur? Fyrst ætla ég samt að bjóða ungunum mínum út að borða, namminamminamm....
(myndin er að sjálfsögðu tekin af verklega borðinu)

Losna ekki við þetta lag af heilanum!

Sofandi hér liggur hann og litla hvílir sál
Svefninn hefur sigrað þetta undurfagra bál
Sængin felur hvíta kinn en litli nebbinn sést
Samt finnast mér þó bláu augun best.

Þetta lag flutti Ruth Reginalds þegar hún var lítið krútt. Ég heyrði það á Barnarásinni á fimmtudaginn og það situr fast. Ég er orðin leið á því og ákvað að færa það hingað.

08 nóvember, 2007

Ónotatilfinning

Verð bara að skrifa mig frá þessu sjokki, er alveg með hraðan hjartslátt og örugglega væg einkenni ofsahræðslu!
Únglingurinn minn hringdi í mig í skólann í morgun og sagði að það væri AFTUR kominn fugl í þvottahúsið. Ég bað hana að fara inn og opna þakgluggann og fara svo bara út aftur. Hún ætlaði nú ekki að þora, ég er auðvitað búin að smita hana af fuglafóbíunni , en herti upp hugann, hetjan mín!
Þegar ég kom heim var hún farin. Ég kíkti inn í þvottahús og sá hvorki kött né fugl, þorði samt ekki að loka glugganum alveg strax. Svo fóru að heyrast hljóð. Mér fannst eins og það kæmi úr herbergi Únglingsins og fékk alvega taugaáfall. Svo fannst mér eins og það kæmi innan úr veggnum og sá fyrir mér Starra, lifandi og dauða sem einangrun í fína húsið mitt. Ég hætti mér inn í Únglingaherbergið og gekk á hljóðið - fann sem betur fer ekki neitt, en hljóðið kom akkúrat frá veggnum sem liggur að þvottahúsinu.
Nújæja.
Ég fór niður, skellti mér í hettupeysu sem er rennd upp að höku og setti á mig hettuna. Síðan fór ég í vettlinga og uppreimaða skó og réðst til inngöngu. Upp við einn vegginn er reist stór masónít plata og þar á milli hafði ungaræksni dottið og komst hvorki lönd né strönd. Ég ýtti aðeins við plötunni, svo hann gat flogið upp - og beint í gluggann fyrir ofan, svo ég opnaði hann (þetta var sko hinn glugginn, ekki þakglugginn) og út flaug ógeðið. Er ekki frá því að þetta sé sami fuglinn og í gær, hann hafi kannski bara pompað þarna niður og Hneta ekki náð í stélið á honum. En allavega.

Ykkur finnst þetta kannski lítil og ómerkileg saga, en vitið þið ekki hvernig mér leið á eftir. Ég skellti aftur báðum gluggum á herberginu, hljóp út og skellti á eftir mér. Reif af mér hettu og vettlinga og hélt að hjartað ætlaði að hamast út úr brjóstinu á mér. Þessi samskipti mín við Starrana undanfarið hafa fyllt mig af svo mikilli fuglahræðslu að ég á líklega aldrei eftir að jafna mig. Núna klæjar mig allstaðar eins og ég sé nýbúin að fá fréttir af lúsafaraldri.
Spurning um að fara að leita sér að áfallahjálp?

Blámann

Nú þarf ég að leita ráða hjá ykkur, kæru lesendur!´
Málið er það að ég keypti mér þessar fínu gallabuxur í GAP þegar ég var í útlöndum. Snilldarbuxur og eins og sniðnar á mig. Nema, þær eru alveg dökkbláar og var varað við að þær gætu látið lit. Núna er ég búin að þvo buxurnar þrisvar eða fjórum sinnum og enn eru þær að lita. Hendurnar verða bláar og ekki get ég verið í ljósu að ofan. Tók líka eftir því áðan að eldhússtóllinn sem ég sit oftast í var kominn með bláa slikju, ekki gott. Vona að einhver kunni gott ráð!

07 nóvember, 2007

Sagan endalausa

Heyrast skruðningar úr þvottahúsi.
Húsmóðir kíkir inn fyrir.
Fugl í glugganum.
Lokað í hvelli.
Meiri skruðningar og læti.
Hvar er kötturinn?
Held að hann sé úti.
Hjúkkitt.
Kíkt inn 2 tímum síðar.
Skyldi húsmóðir ná að taka úr vél og stinga í þurrkara?
Á móti hennar skokkar kötturinn.
Með sælusvip.
Núna er trúlega lík í þvottahúsinu.
Og kötturinn allur í flóm.
Ojbarasta.
Vona að meindýraeyðirinn komst fyrir helgina.

Letihrúgan ég

Bíllinn minn hefur óneitanlega verið besti vinurinn undanfarnar vikur. Ég sem státa af því að búa nálægt leikskólanum og skólanum labba ekki lengra en út á gangstétt þar sem bíllinn er. Reyndar labba ég helst ekki í búð því að bakið mitt á erfitt með að bera þunga poka og ég versla alltaf svo hrikalega mikið.
Veðrið hefur auðvitað haft sitt að segja, t.d. býð ég ekki Stubbaling að labba með hann í leikskólann þegar honum er varla stætt í rokinu og regnið lemur líkamann. En ég er fullorðin, á föt og hef enga afsökun fyrir því að labba ekki í skólann sem er nánast í næsta húsi (allavega á Reykjavíkurmælikvarða). Í morgun var hið ljúfasta veður, aldrei slíku vant og við Stubbalingur fengum okkur göngutúr. Samt er ég þreytt og mygluð og langar mest að skríða upp í aftur. En, hér með lofa ég sjálfri mér því að ganga meira, allavega á meðan ekki er manndrápshálka - enginn er verri þótt hann vökni!

06 nóvember, 2007

Vetur úti..

..og núna ætla ég að fara að elda vetrarsúpuna góðu, skyldi hún verða jafn góð hjá mér og Syngibjörgu?

Hvusslags erðetta eiginlega?

Svo ég noti orð Tóta afa hérna í denn, þá er ég bara alveg BIT á þessu veðri. Hver dagurinn af öðrum tekur á móti manni með úrhellis rigningu, slagviðri og roki. Ég er ekki dyggur hlustandi veðurfrétta, en finnst ég alltaf heyra "búist er við stormi...", þegar ég kveiki á útvarpinu. Eins gott að ég komst aðeins í snjóinn þarna fyrir vestan, annars væri ég líklega farin að grænka á endunum.

Og þetta með að vera bit, eru fleiri sem kannast við þetta orðatiltæki? Man eiginlega bara eftir að hafa heyrt afa nota þetta.

01 nóvember, 2007

Varúð

Sem ég kúrði í turninum á Seljalandi í veðri svo brjáluðu að rúmið hristist, varð mér hugsað til starranna minna á Háteigsveginum. Sá þá fyrir mér í álíka veðri, fjúkandi til og frá, lamdir sundur og saman af hagléli og slyddu, frosnir á tá og trýni.
Frostbarðir fuglar. Hvergi skjól að fá.
Síðan ég kom heim um miðjan dag í gær, hef ég ekki heyrt eitt einasta fuglstíst. Held svei mér þá að mér hafi tekist að drepa þá með hugarorkunni einni saman.

...passið ykkur bara!!

30 október, 2007

Aflýst


Í gær þegar ég tók þessa skemmtilegu mynd var hið fínasta veður. Núna er hríðarbylur og vetrarlegt um að litast. Vona að ég komist heim á morgun, þarf að mæta í skólann eftir hádegi. Þangað til er bara framlenging á dekri :)

29 október, 2007

Andvaka kaka

Klukkan á tölvunni minni sýnir 23:12 og Lubbastingur enn í fullu fjöri. Held að Miðjunni minni hafi tekist að festa svefn þrátt fyrir non-stop spjall þarna inni í herbergi.. eða hvað, er hún kannski að tala við hann?
Allavega, hann segist ekki kunna neina aðferð sem virkar til að sofna. Þegar ég sagði honum að prófa að loka augunum og hugsa um eitthvað fallegt/gott/skemmtilegt. Þá sagði hann bara: "nei mamma, ég er búinn að prófa þá brellu og hún virkar ekki" og hvenær prófaðirðu hana, spurði ég, "Þegar Birgitta sagði mér frá henni fyrst og þá virkaði hún ekki heldur"!! Svo hann vakir bara áfram....

28 október, 2007

Bíó

Ísafjarðarletin hefur gripið mig. Það er svo notalegt að gera sem minnst hérna. Mamma og pabbi sjá um að ákveða hvað á að vera í matinn, kaupa í hann, elda, vaska upp.. ég tek bara þátt í því sem mig langar þá stundina. Kíki svo í bæinn, í heimsókn, í bók. Nema, að þegar mamma ákveður eitthvað, er eins gott að hlýða því og í dag bauð hún mér í bíó. Ég hristi af mér letigallann og druslaðist með henni. Sé sko ekki eftir því. Við fórum nefnilega að sjá Óbeislaða fegurð. Alger snilld, bara snilld, mæli með henni ef þið rekist einhversstaðar á hana. Takk fyrir bíóferðina mamma!

26 október, 2007

Skrítið

Gott að vera sest niður rúmlega 8 og byrjuð að læra, vitandi það að ég fer í skólann eftir hádegi og svo til Ísafjarðar. Jibbí. Skrítið samt að logga sig inn á WebCT og vera þar ein í báðum fögunum sem ég tek í fjarnámi. Bara eins og að sitja ein í kennslustofunni! En þetta er nú bara af því að Birgitta er fjórum tímum á eftir mér, svo að núna sefur hún sem fastast á sínu græna eyra.. eða var það blátt? Best að halda áfram að hlusta á fyrirlestur í setningafræði (birrrrr...)

Skítaveður, skítaveður, skítaveður - það verður orðið gott þegar ég flýg af stað með ungana mína seinnipartinn.

24 október, 2007

mmmmmmmmm

Mér finnst skinka vond. Slepjuleg og bragðlaus. Get hinsvegar alveg látið ofan í mig svokallaða lúxus-skinku og niðursneiddan hamborgarhrygg og þannig fínerí. Ég er lúxusdýr.

23 október, 2007

Jamm

Veturinn hefur hreiðrað um sig í kroppinum mínum. Ég vil bara vera í sokkabuxum, síðermabolum, ullarpeysum, þykkum sokkum og safna hári.. allstaðar. Munninn langar í sætt, magann langar í feitt. Heitt sviss miss og ristað brauð með miklum osti. Feitt kjöt með matarmiklum sósum. Fiskibollur með lauksmjöri og kartöflum. Ekkert grænt með því takk.
Svosem gott og blessað, mér er alltaf kalt svo það hentar mér vel að vera í hlýjum fötum. Öllu verra með mataræðið, kroppurinn minn hefur ekki yfir að ráða meltingarstarfsemi sem orkar svona. Húðin verður óhrein og maginn bólgnar með tilheyrandi óþægindum. Æji mér er illt í maganum. Koma tímar koma ráð, á meðan ég hlýði frekar munni og maga en heilanum, verð ég bara að lifa við þetta. Bon appetit!

Sumt er of gott til að stela því EKKI


Linda Evangelista:
„Það var Guð sem gerði mig svona fallega. Ef ég væri það ekki þá hefði ég orðið kennari."...........og þá vitiði þið af hverju ég er í kennara-háskólanum!

22 október, 2007

Vá hvað tíminn flýgur. Október er bara að hverfa út í buskann, enda nóg að gera. Verkefnaskil, Ameríkuferð, staðlota, meiri verkefnaskil og svo er ég að fara til Ísafjarðar um næstu helgi með yngra hollið.. og þá er bara kominn nóvember. Ósköp verður nú notalegt að komast til mömmu og pabba.
Ójá...

21 október, 2007

Nína Rakel og Arna

Fékk svo góða heimsókn í vikunni. Veit ekki hvað það er með þessa litlu dömu, held að við hljótum að hafa verið systur í fyrra lífi, mér finnst ég eiga svo mikið í henni.

Náði m.a.s. þessari fínu mynd af þeim mæðgum saman.
Henni fannst Rökkvi auðvitað samt skemmtilegastur. Hann fékk að halda á henni áður en þær fóru heim.

Myndablogg frá Ameríku

Þetta er ekki bara garðurinn hennar Birgittu, heldur líka útsýnið úr lærdómsaðstöðunni hennar í Ameríku. Mesta furða að við lærðum ekki meira...

Stóðum okkur aðeins betur inni á Manhattan heldur en í moll-leiðangrinum okkar.


Það er miklu skemmtilegra að ráfa á milli búða í miðbænum og kíkja svo á pöbb til að hvíla lúna fætur áður en haldið er áfram.


Fengum okkur að borða á Bubba Gump Shrimps. Minnir að maturinn hafi verið fínn, en kokkteilarnir voru geðveikir!!

17 október, 2007

Stubbalingur og StubbalínaMátti til með að setja inn þessa mynd sem ég fékk senda frá leikskólanum. Þvílík innlifun!

16 október, 2007

sungið við undirleik

"sorpritin selja ófarir náungans" syngur Stubbalingur inni í herbergi á milli þess sem hann hnerrar. Aðrir sálmar aftur komnir í uppáhald. Ákvað að hafa hann heima þar sem hann hóstaði í alla nótt og það á víst að vera mjög kalt í dag. Honum leist vel á það, takk fyrir að leyfa mér að vera heima elsku mamma mín! Gott að honum leiðist ekki einum með mömmu gömlu.

..veit að þið eruð orðin leið á þessum fuglafærslum..

..en ef ég ætti haglabyssu (og kynni á hana) myndi ég sko stökkva út á svalir núna og skjóta alla starra sem ég sæi til. Friðaðir hvað! Ég þoli ekki að heyra þetta tísta hérna innan um allt þakskegg hjá mér. Sérstaklega ekki eftir að ég komst að því að þeim tekst að troða sér með þakskegginu inn í þvottahúsið (sem er auðvitað ekki frágengið). Við Hneta erum saman í liði og hún náði einum þannig og í sameiningu tókst okkur að hrekja hinn út sömu leið. Eftir þetta er alltaf kyrfilega lokað inn í þvottahús.
Djö*** ófriður af þessu liði!!

15 október, 2007

Sykursjokk

Vá hvað ég svaf illa í nótt. Vaknaði og bylti mér og dreymdi mikið, var á fullu að flytja, klára og skila verkefnum. Þetta er það sem hann Tóti afi heitinn kallaði "draumarugl". En mér hefndist semsagt fyrir allt sykurátið í gær og byrja daginn í dag full fyrirheita. Kannski ég reyni bara að taka einn dag í einu.

Í dag ætla ég ekki að borða sykur (nema sem hluta af eðilegum matarskammti).

14 október, 2007

Snilldartaktar!

Byrjaði daginn á bakstri fyrir afmæli minnar kæru frænku. Agalega fín ostakaka með oreo kexi, smjöri og pecan hnetum í botninum. Ofan á það fer skyr, rjómi, rjómaostur og vanillubúðingur eftir kúnstarinnar reglum. Allt fer þetta í réttum lögum ofan í gamla lúna smelluformið mitt. Sem ég er að forfæra gúmmulaðið af eldhúsbekknum yfir í ísskápinn, verður mér á að reka puttann lítillega upp undir botninn á forminu. Við það gerir tertan sér lítið fyrir og hoppar upp úr forminu og skellur á gólfinu..

AAARRRRGGGHHHH!!

En betur fór en á horfðist. Ég hafði nefnilega sett ríkulega af bökunarpappír í botninn og það fór ekki svo mikið sem sletta út fyrir hann. Svo ég raðaði tertunni eftir bestu getu ofan af pappírnum og í formið aftur og inn í ísskáp. Hef ekki treyst mér enn til að skoða hvort hún er afmælishæf.
Get ekki annað en pælt í hvort að ég hafi verið skjálfhent af völdum morgunverðarins. Hann samanstóð af einu súkkulaðihúðuðu oreo kexi (hefðu orðið fleiri ef fjölskyldan hefði ekki fengið sinn skammt og restin farið í kökuna), tveim lúkum af Hrís kúlum og einni eða tveim að súkkulaðirúsinum. Svo sleikti ég auðvitað restina innan úr skyr/rjóma/vanillubúðings/rjómaosts skálinni og hvolfi í mig úr tveim vatnsglösum með þessu. Kannski ekki það staðbesta, en vatnið er allavega hollt!

Annars bara óska ég afmælisstelpum dagsins innilega til hamingju, en það eru:
Eva Baldursdóttir 10 ára
Anna Borg Friðjónsdóttir 13 ára
Kartín María Gísladóttir 16 ára.

Allt rosalega flottar stelpur!!!

12 október, 2007

Úr fuglahúsinu

Ég veit að málshátturinn: betri er einn fugl í hendi en tveir í skógi, er ekki beint um fugla heldur meira svona myndlíking. Ég vil samt breyta honum í: betri er enginn fugl í húsi en hundrað í skógi, og þá er ég að meina fugla hundraðprósent.. engin myndlíking. Er að bræða með mér hvort ég eigi að herða mig upp og hleypa út úr arninum eða bara bíða eftir Gítarleikaranum...

Ást í poka

Ég spurði stubbaling af hverju hann ætlaði að giftast Snædísi og það stóð ekki á svari. Af því að hún er sæt og skemmtileg. Og er það ekki bara besta ástæða í heimi?

10 október, 2007

Áminning

Iðullega verða utanlandsferðir mér sem kennslustund í kurteisi. Ekki það að ég sé neitt sérlega ókurteis ung kona. Þegar ég kem á kassa í Bónus með yfirfullafimmmannafjölskyldukörfu, þá hleypi ég bólugrafna unglingnum með kók og samloku fram fyrir mig. Eða heilsufríkinu sem er með Egils Kristal og orkustöng. En ég er samt íslenskur víkingur í vígaham inn við beinið. Þegar ég er í matvöruverslun er þetta hugsanagangurinn:
- æji ég dríf mig bara og verð komin á kassann á undan
- hann hlýtur að víkja, ég er að flýta mér
- heilsa sko ekki ókunnugum
- spjalla ekki við manninn á kassanum því að við erum bæði að flýta okkur svo mikið
- bið engan um aðstoð og aðstoða engan á móti.
Í Bandaríkjunum virðist þetta vera allt öðruvísi. Þar er innkaupaferð í matvörubúðina meira eins og gönguferð í garðinum. Ekkert leiðinlegt sem maður þarf að drífa af. Allir brosa og enginn er í kerrukappakstri. Hvað þá þetta stress að drífa sig að henda öllu sem hraðast ofan í pokann til að næsti komist að. Sinn er siður í landi hverju, þannig er þetta bara! Mér sýndist þeir reyndar lítið skárri en við í umferðinni blessaðir Bandaríkjamennirnir, en það er annar handleggur.

03 október, 2007

Ferðalag og klipping

Skrítið að knúsa krúttin sín í morgun og vita að maður fær ekki að knúsa þau aftur fyrr en eftir 6 daga, vá.. ekki fyrr en næsta þriðjudag! En þau verða í góðum höndum, og ég líka.

Fór með yngri krúttin í klippingu í gær og tók fyrir/eftir myndir. Miðjukrúttið fékk reyndar fastar fléttur eftir klippinguna svo það sést ekki alveg hvað það var tekið mikið af hárinu á henni. Stubbalingur fékk gel. Best ég skelli inn myndunum...

02 október, 2007

Pomppp...


Málarinn er að vinna niðri og hóaði í mig áðan til að spyrja hvort við værum búin að breyta arninum í fuglabúr. Og viti menn, litla stýrið hafði ratað niður. Ekki eins fjörmikill að klessa á glerið eins og sá fyrri, enda þrekaður eftir tveggja daga veru í rörunum. Tók því ekki að grilla hann svo við slepptum honum út. Jæja, hvenær skyldi svo næsti detta niður...(Þessi kom m.a. þegar ég gúgglaði starra. Aldrei mundi ég skýra son minn Starra)

Vængjasláttur í stromprennum

Við Hneta erum alveg með það á hreinu að það er óvættur í strompnum. Hneta er mikill veiðiköttur og veit sínu viti í þessum málum. Þetta er meira svona tíst og þrusk en strigabassa ho-ho-hó, svo jólasveinninn er ekki inni í myndinni. Gítarleikarinn verður settur í nefnd á meðan ég hef það gott í NY.

Þeir sem vilja fleiri sögur af Hnetu er bent á að lesa tvær færslur á þessari síðu. Önnur heitir: Kisa mín og hin: Ég vatna músum. Snilldarfærslur!

01 október, 2007

Til Birgittu í USA

Ég er í textíláfanga í vetur sem heitir vélsaumur og efnisfræði. Þar hafa verið lögð fyrir okkur ýmis skemmtileg verkefni sem við höfum leyst með aðstoð saumavélarinnar. Eitt af verkefnunum var að gera dýr eða fígúrur sem gætu hentað fyrir börn á yngsta stigi og upp úr, úr mismunandi efni og með mismunandi aðferðum. Ég ákvað að gera drauga. Hana Birgittu í Ameríku langaði svo að sjá hvað ég var alltaf að bardúsa í saumavélinni svo ég skelli hérna mynd af draugakrúttunum mínum.

Þarna sitja þeir allir stilltir og prúðir í stofuglugganum í risinu. Flott útsýni.
Önnur uppstilling, þarna hanga þeir sem eiga að hanga, hinir sitja sem fastast.
Þarna var Rauði draugurinn kominn í fýlu og vildi ekki vera á fleiri myndum, svo þú sérð hvað hann er huggulegur að aftan.

Svo sjáumst við bara eftir 2 daga Birgitta mín. Varstu ekki örugglega búin að taka upp rauðvínsglösin?


(Hver er sætastur?)

hrollllllur..

Jább, er orðin nokkuð viss um að strompurinn sé stíflaður af ógeði. Líklega ekki eins skynsömu og fyrra eintakinu þar sem þetta ratar ekki niður í kamínuna, sem er líklega eina leiðin út. Ojbarasta. Þurfti að henda Hnetu út því að hún pissaði á gólfið. Margt að gerast í morgunsárið.

The Birds 2?

Ætla rétt að vona að það sé ekki einhver ógeðsfuglinn búinn að finna sér leið inn til mín. Þá tryllist ég. Er búin að heyra einhver dularfull hljóð hérna uppi í risi í morgun. Tvisvar. Finn samt ekki neitt. Hneta var líka mjög skrítin í morgun og starði í sífellu upp eftir kamínunni. Ég sá nú ekkert þar, kannski eitthvað ógeðið sé fast í strompnum. Ef svo er, þá fær Gítarleikarinn sko að grilla það á morgun þegar hann kemur frá útlöndum. Sko eins gott að kenna þessu liði í eitt skipti fyrir öll, hvað það getur haft í för með sér að villast inn til Geðveiku Hitchcock Húsmóðurinnar. Læt vita ef eitthvað markvert gerist. Vonandi ekki.

29 september, 2007

Aðlögunarhæfni

Það er ekki langt síðan ég komst bara þokkalega af með að fara í sturtu annan hvern dag. Það kom jafnvel fyrir að það liðu hátt í 3 dagar á milli baðferða. Og ég var bara ekkert skítug eða illa lyktandi þrátt fyrir það (held ég..) En eftir að sturtan okkar komst loksins í lag, er ég ómöguleg ef ég fer ekki í sturtu minnst einu sinni á dag. Merkilegt.

26 september, 2007

Brúðarbjöllur hljóma...

Stubbalingur sagði mér áðan í bílnum að hann væri ekki enn búinn að læra nýja heimilisfangið sitt. Svo ég sagði honum það og hann endurtók nokkrum sinnum upphátt. Hann þarf sko að vita, svo hann geti sagt Snædísi. Þá gæti hún nefnilega fundið símanúmerið hans og hringt í hann ef hún ákveður hvenær þau ætla að giftast. Svo ætlar hann að fá hennar heimilisfang til að geta gert það sama ef hann ætlar að ákveða dagsetninguna.
"Núna er ég nefnilega búinn að ákveða að ég ætli að giftast Snædísi, það er svo gott að vera búinn að ákveða hverjum maður ætlar að giftast nefnilega"! Og þar hafið þið það!

23 september, 2007

Friður og ró

Gott að koma heim. Samt er allt í drasli. Þarf að fara að eyða eins og einni helgi heima hjá mér og sjá hvort að draslið minnki ekki. Gæti virkað.

19 september, 2007

Teflt á tæpasta vað

Já, ég lifi hættulegu lífi. Ég hef nefnilega bitið það í mig að áframsenda aldrei póst sem hótar mér óhamingju, örkumli og vinamissi, áframsendi ég hann EKKI. Samt er ég mjög hamingjusöm, á fullt af vinum og nóg af peningum. En ef það fer að halla á ógæfuhliðina hjá mér, þá vitið þið hvers vegna....

18 september, 2007

Klikkun

Stend hérna yfir pottunum á þriðjudegi að malla gúllas ofan í ungana mína, er að spá í að skella í kartöflumús líka, nei ekki úr pakka! Gítarleikarinn í útlöndum, eflaust farinn út að borða á einhvern ægilega flottan stað og þarf hvorki að elda né vaska upp. En, mest langar mig í rauðvínsglas. Hvort er ég klikkuð eða rugluð? Eða var ég kannski Frakki í fyrra lífi? Tekur því allavega ekki að opna flösku fyrir mig eina svona á þriðjudegi, bíð með það eitthvað frameftir vikunni.
Og er ekki Nigella farin að elda í sjónvarpinu mínu, ekki var það nú til að minnka löngunina. Hún er nefnilega einstaklega rauðvínsleg kjellan!

Fuglakvak í morgunsárið

Fuglar eru ógeð, eða það finnst mér allavega. Ástæðan fyrir þessari skoðun minni er sú að í ófrágengna þakskegginu á nýja húsinu okkar eru heilu hrúgurnar af starrahreiðrum. Þeir sem til þekkja vita sjálfsagt að þeim fylgja lýs. Fyrstu bitin fékk ég í sumar þegar ég var að mála svaladyrnar. Síðan hef ég verið bitin reglulega en hef ekki getað rakið þau bit til útiveru, því miður. Ég veit ekki hvar þetta ógeð kemst inn í íbúðina mína, en ég hef fundið það út að það er einhversstaðar á neðri hæðinni, merkilegt nokk. Líklega í gegnum óþéttu og ónýtu gluggana (fyrirgefið, sagði ég "nýja" húsið okkar...). Svo að þegar ég vakna klukkan 6 á morgnana við fuglakvak rétt fyrir utan gluggann, þá fer um mig ógeðshrollur.
Tók þó steininn úr núna í morgun. Er búin að vera að heyra óvenju hátt í einhverri skríkjunni. Sem ég labba niður á neðri hæð, sé ég útundan mér hreyfingu í fínu kamínunni okkar. Í henni eru gluggar á þrjá vegu og starrafíflið skemmti sér við að klessa á þá til skiptis. Ógeðshrollur dauðans. Hvernig í andsk** á ég að koma vibbanum út?
Vopnuð pappakassa (jújú, nóg af þeim hérna) opnaði ég glerhurðina. Litla fíflið fattaði ekki að ég var að reyna að bjarga því með að koma því ofan í kassann, svo það flaug bara á sótugt bakið í ofninum, aftur og aftur. Loks smeygði hann sér fram hjá mér og kassanum og tók stefnuna beint á ... neinei, auðvitað ekki svaladyrnar sem ég var búin að opna, heldur háa gluggann beint á móti.
KRASSSSS.. árekstur við gluggann og lending á Pet Shop dótinu í gluggakistunni sem Stubbalingur og Miðjubarnið voru búin að raða svo fínt upp. Ekki ætlaði ég að fara að koma við þennan viðbjóð berum höndum, ábyggilega allur í lús og ógeði. Eftir smá stympingar og nokkrar klessur á stóru stofugluggana mína, tókst mér að beina illfyglinu út um svaladyrnar.

Spurning um að hringja í Blikkarann og heimta afslátt, strompurinn sem hann kom upp fyrir einhverja hundraðþúsundkalla er ekki fuglaheldur!

(Náðist ekki mynd af illfyglinu í ofninum, í glerinu speglaðist bara óttaslegið og ógeðsgrett andlit húsfreyjunnar með pappakassann)

Bros dagsins

17 september, 2007

Ellin farin að færast yfir?

Ó mig auman. Ósköp er ég þreytt og rytjuleg í dag. Bakið er lúið og geyspinn ekki langt undan. Ekki alveg mín deild að sofa uppi á sviði, á dýnu sem er 150 cm á lengd, með 4 konur í kringum mig og 15 ellefu ára stelpur á næsta palli. Vaknaði við minnsta hóst og brölt. Best að vinna í að ná upp svefninum fljótlega. Ekki hægt að vera svona.

13 september, 2007

Litagleði


Ósköp var ljúft að koma út í morgun, engin rigning sem lamdi andlitið og ekkert rok sem skók líkamann. Notalegt að labba í skólann í fylgd Miðjubarnsins, við erum svo heppnar að skólarnir okkar eru á sama punktinum. Hún var eins og lítið litaspjald, í gulu buxunum sínum, grænum regnstakk með neongræna húfu og græna skólatösku, skórnir túrkisbláir. Enda er hún mikið fyrir glaðlega liti og grænt er uppáhaldsliturinn hennar. Mamman í öllu grænu nema skónum sem eru appelsínugulir. jájá, skrautlegar mæðgur. Myndina af þessum fallegu berjum tók ég hins vegar úti í garði hjá mér í vikunni.

12 september, 2007

Innkaupalistinn

Húsmóðirin og Únglíngurinn sátu við eldhúsborðið og settu saman innkaupalista fyrir afmæli. Stubbaling sárvantaði athygli svo hann dró stóra hægindastólinn að endanum á borðinu og tók að hoppa í honum af öllum kröftum. Sem hann veit að hann má ekki. Húsmóðirin ákvað að vera ekki með neitt hálfkák og tuð, heldur áminna á áhrifaríkan hátt. Hún lagði frá sér pennann, leit upp, og horfði beint á Stubbinn og sagði mjög ákveðið: Rjómi, RJÓMI!! þú veist þú mátt ekki... Svo sprungum við öll úr hlátri.

Hver var það aftur sem sagði að konur gætu gert tvennt í einu?

07 september, 2007

Superwoman

Ég er búin að vera í leiðindagír undanfarna daga. Nenni ekki neinu. Þegar ég ætla að hrista þetta af mér og gera eitthvað, fer tíminn í að pirra mig yfir því sem þarf að gera ÁÐUR en ég geri það sem ég get gert. Svo ég geri bara ekki neitt. Er búin að hanga þeim mun meira í tölvunni, eins og lesendur hafa líklega orðið varir við. Veit að þetta bráðnar af mér á morgun, þá fletti ég upp skyrtunni og stóra essið á bringunni kemur í ljós, gleraugun hrökkva af nefinu á mér og lærin verða vöðvastælt. Þá verður sko tekið á málunum. Þangað til ætla ég að hanga í tölvunni og borða allt súkkulaði og allan ís sem ég finn í íbúðinni. Jebb, thank God it's Friday!!

06 september, 2007

Píanóið mitt

Mamma og pabbi gáfu mér nýtt og fínt píanó.. minnir að það hafi verið þegar ég var í kringum 15 ára aldurinn. Síðan þá hefur það fylgt mér í allar mínar íbúðir í Reykjavík, og þær hafa nú verið nokkrar. Eitt eða tvö sumur var það m.a.s. geymt heima hjá Svenna frænda í Karfavoginum til að forða því frá flutningum á milli landshluta. Mest var mér þó blótað þegar ég flutti með það í litlu sætu risíbúðina mína, en upp í hana lá mjór stigi í sveigjum. Fjórir fílefldir píanóflutningamenn fóru grátandi frá mér daginn þann. Ekki var gleði þeirra mikil þegar ég hringdi í þá rúmum tveimur árum síðar og bað þá vinsamlegast að bera það niður aftur. Vanir menn og allt það!
Núna erum við búin að vera píanólaus í allt sumar, enda hefur íbúðin ekki verið við hæfi virðulegs hljóðfæris fyrr en nýlega. Stóri dagurinn rann svo upp á mánudaginn, en þá var það borið í hús með mikilli viðhöfn við almennan fögnuð heimilisfólks (aðallega móður og miðjubarns). Að sjálfsögðu var það tekið inn um forsetasvalirnar á annarri hæð, annað væri vart við hæfi. Myndir segja meira en mörg orð:
Alrei hefur píanóið mitt komist jafn örugglega jafn hátt upp með jafnlítilli fyrirhöfn. Vantar reyndar mynd af risakrananum sem sá um verkið...
(Mér telst svo til að píanóið mitt verið í 8 íbúðum eftir að það flutti með mér til Reykjavíkur)

05 september, 2007

Lubbastingurinn minn
Eftir að ég uppgötvaði nýjustu og árangursríkustu aðferðina til að svæfa Stubbaling, bíð ég í enn meiri óþreyju eftir að hann sofni á kvöldin. Er nefnilega loksins búin að komast að því að hann er víst meira fyrir tónlistina en þögnina (alveg eins og Gítarleikarinn). Svo að þegar seremónían "hátta, bursta, pissa, lesa" er búin, þá er bara að drífa sig fram og setja útvarpið eða sjónvarpið í botn. Svo geng ég um gólf og geri ekkert að viti fyrr en hann er sofnaður og ég get lækkað.
(Hann hefur það nefnilega frá mömmu sinni að eiga erfitt með að sofna á kvöldin).
Ég get bara ekki einbeitt mér að neinu í svona látum, ekki einu sinni að setja í uppþvottavélina. Það eina sem ég get gert í hávaða er að skúra, og það geri ég andskotakornið ekki á kvöldin.
(Eða bara ekki yfir höfuð, sýnist mér hafa tekist að fá mér það sem alla skúrilata og skúriníska dreymir um - SKÚRIFRÍTT PARKET!!)

En allavega, hér er Stubbalingur eldferskur í morgunmat í morgun. Hann er sjaldnast komin í fötin þegar sú athöfn fer fram, en þarna fékk ég hann til að klæða sig áður með því að bjóða hafgraut.. Kannski var þetta líka skikkjunni að þakka þar sem hún kom upp úr kassa í gærkvöldi (og er því nánast ný á ný) og fór óneitanlega betur við fötin en nærfötin.

Á morgun fáið þið svo væntanlega söguna af Píanóinu Fljúgandi í máli og myndum (kannski aðallega myndum) ef góðar vættir lofa. So stay Tuned!!

Morgunpirr

Ég tel mig í hópi raunsærra. Verð þó að viðurkenna að ég hefði aldrei trúað því að það tæki svona langan tíma að koma einni íbúð í stand (ekki strand). Sá það aldrei fyrir mér að í byrjun september þegar allir skólar væru komnir á fullt, ættum við ennþá mörg bretti af kössum úti í bæ sem ætti eftir að taka heim og uppúr. Pennaveskið mitt er enn týnt.

Múrarinn er verkefnalaus á baðinu af því að flísarnar eru búnar. Það vantar svona 5-6 flísar til að klára. Þær koma eftir 10 daga með skipi. Vona að ég haldi geðheilsu þangað til...

ARRRRGHHHH
(bannað að kommenta um að "þetta verði nú allt tilbúið fyrir jól"

03 september, 2007

Nokkuð til í því

Ég baðst undan því að blása upp risastóra blöðru fyrir Stubbaling. Afsakaði mig með því að ég væri eitthvað svo slöpp og bara loftlaus. Nú, sagði hann, hvernig getur maður verið loftlaus en samt andað??

..svona af því að ég á að vera byrjuð að læra...

Komið nýtt teppi og nýr köttur, nýji kötturinn í húsinu var vant viðlátinn...

Fyrir og eftir

Mátti til með að setja inn myndir af eldhúsinu fyrir og eftir. Erum svo ánægð með hversu vel tókst til með að poppa upp innréttinguna - hún er nánast óþekkjanleg. Rimlarnir fengu líka að halda sér eftir yfirhalningu í baðkarinu hjá tengdamömmu, mér finnst þeir smart!25 ágúst, 2007

Grettir

Stubbalingur og ég vorum að horfa á bíómyndina um Gretti. Undir lokin segir Lísa við Jón að hún vilji að þau verði MEIRA en vinir.
"Ohhh, ég veit hvað það er", segir Stubbalingur, "það er ást, það er miklu meira en vinir"!!

Hann veit þetta sko allt greinilega.

24 ágúst, 2007

(Ó)gleðidagur

Eftir vel heppnaða heimsókn á hárgreiðslustofuna, langar mig oft að bruna beint í búð og kaupa mér eitthvað nýtt í stíl við nýja hárið.
Ekki í dag.
Ég brunaði bara heim og fór beint undir sæng. Þar veltist ég í ógleðikvölum í sex klukkutíma, þartil mér tókst að æla.
Ekki gott.
Eftir það líður mér ögn betur, nógu vel til að blogga um hryllinginn. Vona að þetta verði búið, í síðasta lagi á morgun.
Hárið hefur það fínt.

23 ágúst, 2007

Ekkert merkilegt

Ég hlusta stundum á Bylgjuna í bílnum. Undanfarið hef ég þurft að skipta yfir á einhvern annan ófögnuð þegar auglýsingarnar byrja, því að stúlkan sem les þær notar alltaf flugfreyjutóninn (syngjandi upp og niður.. skilljú?). Ég held að maðurinn sem leikles fréttir og tilkynningar sé á sömu stöð. Það hljómar mjög skringilega.

20 ágúst, 2007

Namminamm...


Jújú, við mæðgurnar deilum sívaxandi áhuga á sushi og hún sendi mér þessa fínu mynd. Greinilega einhver álíka gráðugur og við sem gat ekki beðið eftir að fisksalinn opnaði og fór bara í fiskabúrið.
Girnilegt!!


19 ágúst, 2007

Framhald (skoðið fyrst færsluna fyrir neðan)

Veðrið var frábært alla ferðina. Þarna erum við í útsýnisferð um sýki Kaupmannahafnar (að sjálfsögðu erum við að skoða borgina og bygginarnar, en ekki sýkin).
Eftir langan dag í búðum, siglingum, búðum og labbi, var mikil rekistefna um kvöldmat. Rökkvi vildi ís, Katla vildi djúpsteiktar rækjur og Magna eitthvað gott. Við enduðum á frábærum sushi stað seint um kvöld. Fengum frábæran mat og enn betri þjónustu. Eigandinn var einstaklega hrifinn af Stubbaling. Staðurinn heitir Damindra, mælum með honum, öll fjölskyldan.

Afmælsdegi Kötlukrúttsins eyddum við í Tivoli. Sól og hiti, rússíbanar og Hard Rock. Þarna er hún í bangsabúðinni þar sem Doddi Draumaland varð til og bættist í fjölskylduna.
Þið sem viljið skoða fleiri myndir verðið bara að koma í heimsókn.

Til mömmu og pabba

Í tilefni af því að foreldrar mínir hafa bæst í hóp dyggra lesenda, ætla ég að setja inn nokkrar myndir úr Danmerkurferðinni okkar. Þið hin megið líka skoða :)
Rússíbanar voru mjög vinsælir í ferðinni, hvort sem var í Legolandi eða Tívolí.
Candyfloss var líka vinsælt á báðum stöðum..
Namminamm, fullt af bleikum sykri :P
Gíraffarnir í Givskud Zoo voru svo vinalegir að þeir kíktu næstum inn um bílgluggann hjá okkur.

Þarna hefur einhver annar en húsmóðirin kominst í myndavélina. Í fjarskanum hægra megin á myndinni sést glytta í svarta górillu, ef þessar tvær hvítu skyggja ekki of mikið á!

Það er ekki hægt að setja inn fleiri en 5 myndir í einu svo nú skipti ég um kafla.

15 ágúst, 2007

Grrrrrrrrr...

Ég hef löngum talið þolinmæðina með mínum stærstu kostum. Núna er ég bara á síðustu dropunum. Ég veit að það er ótrúlega mikið búið að gerast hérna hjá okkur þessa rúma 2 mánuði síðan við fengum afhent en...
 • Matarstellið samanstendur enn af pappadiskum, plastglösum, hnífapörum og nokkrum alvöru kaffibollum
 • Hvorki er búið að tengja ofn né helluborð
 • Tannburstun fer fram í eldhúsvaski
 • Gólfhiti ekki farinn að virka
 • Engin sturta
 • Engin þvottavél
 • Stofan er í rúst og það sem verra er, Kötlu herbergi líka
 • Allir gluggar á hæðinni gætu enn sómt sér í hryllingsmynd
 • Ég er með ógisslegt skordýrabit í hægri hnésbótinni, er hrædd um að einhver hafi týnt broddinum (og vonandi lífinu líka) við að narta í mig í Tívolí.

En á morgun kemur nýr dagur. Þá vopnast ég tuskum og gúmmíhönskum, jafnvel sandpappír og gluggasparsli og eyði svo kvöldinu í að taka upp úr kössum.. ef Gítarleikarinn verður svo sætur að færa mér nokkra af lagernum. Ef einhver vill vera með í tuskubardaga og/eða kassaupptíningi, verður kaffi, te og rauðvín á boðstólum (úr fínu, túrkísbláu plastglösunum frá Kolbrúnu í Amríku ef kristallinn kemur ekki upp úr téðum kössum).

Ég er enn á dönskum tíma svo að klukkan er farin að nálgast 2 hjá mér, held það sé kominn tími á kafbát................... (jebb, punktar og svigar í miklu uppáhaldi í kvöldruglinu) .

Þetta finnst mér fyndið!

Leitaðu á netinu með eins lítilli fyrirhöfn og leitað er í póstinum; (og núna kemur fyndni parturinn):

náðu í Google Tólastiku með sprettigluggavörn.

Sumt verður bara óheyrilega fyndið þegar því er snarað yfir á ástkæra ylhýra - það er kostur.. er það ekki?

08 ágúst, 2007

Fúlt

Þegar allt er í drasli er mikil afturför að missa eina rennandi vatnið í íbúðinni (fyrir utan klósettkassann :)). Vona að píparinn nái að kíkja við í dag - helst bara strax og NÚNA!!

07 ágúst, 2007

Klúkk

Ég hef verið tvíklukkuð, bæði af Rakel og Syngibjörgu. Ætla samt ekki að þreyta ykkur með sextán staðreyndum um mig, heldur reyni við átta:
 1. Í staðinn fyrir að fá mér aðra brauðsneið, gúffaði ég í mig tveim stykkjum af súkkulaðihúðuðu Oreo.
 2. ...samt er ég heilsufíkill og finnst best að borða grænmeti og fisk.
 3. Ég er í ljótum brúnum sokkum með málningarslettum.
 4. Mér finnst rauðvín gott.
 5. Börnin mín eru það fallegasta og besta sem á á.
 6. Þegar ég var lítil nagaði ég á mér táneglurnar, get það ekki lengur en velti því fyrir mér hvort það sé ástæðan fyrir skökku og skældu baki í dag???
 7. Ég þarf nauðsynlega að drekka rauðvín með Birgittu sem fyrst
 8. ...allt í einu eru Oreo kexin orðin 4 :)

Ætli það sé ekki bara best að klukka Birgittu, svo væri nú gaman að heyra frá Eitruðum Prjónum og Þresti - og bara þeim sem lesa þessa snilld!!

05 ágúst, 2007

Verslunarmannahelgi?

Eftir þriggja vikna dvöl í sumarhöllinni var ég orðin svo brún af útiveru að ég var orðin samkeppnisfær við móður mína.
Svo fór ég suður.
Þar tóku við þrjár samfelldar vikur sem ég var hulin steypuryki, sagi og málningarslettum. Þegar ég náði loks að þrífa það af mér tók ég eftir að brúnkan mín var ekki bara rykfallin, heldur nánast horfin út í buskann.
Fúlt.
En við erum blessunarlega flutt inn, svo brúnkan fór ekki fyrir lítið. Gólfin eru falleg, veggirnir hálf málaðir, klósettið hurðar- og sturtulaust, svefnherbergið ekki tilbúið, ísskápurinn er tengdur en ekki frystiskápurinn, borðplatan er komin upp en ómeðhöndluð, ofn og helluborð ótengd en grillið stendur úti á svölum, enn er búið við skrínukost.
Allir gluggar á hæðinni eru ljótari en mygluð pizza.

Enginn iðnaðarmaður hefur komið hérna inn fyrir dyr eftir að Gunnar kraftaverkasmiður og parketpússararnir fóru héðan um miðjan dag á fimmtudag. Við fjölskyldan höfum nýtt tímann síðan þá í að hreiðra um okkur og gengur það bara vel.
Þrátt fyrir góðan anda í húsinu og gleði í hjarta fjölskyldumeðlima er Stubbalingur farinn að hend dóti niður stigann. Best að tékka hvað er í gangi...

18 júlí, 2007

Enn á vergangi

Í dag er ég búin að:
pússa
grunna
lakka
mála
olíubera
Þessi fjölbreytta verklýsing gefur aðeins veika mynd af verkefnunum á nýja staðnum. Þriðji dagur í puði og bakið er orðið ansi lúið. Auk þess sem á undan er talið er ég búin að vera að henda rusli, taka til, ryksuga og þrífa eftir iðanaðarmenn. Núna er það bjór, íbúfen og góð sturta fyrir háttinn.
Í íbúðinni sem við erum svo heppin að fá að gista í er nýleg tölva. Hins vegar er nettengingin sú allra mest gamaldags - símainnhringing!! Ég fer því bara í tölvuna í neyð, eins og til að borga iðnaðarmönnum og þannig. Tók mig til dæmis ríflega korter að borga flutningabílstjóranum á netbankanum. Er sko ekki að nenna þessu...

10 júlí, 2007

Meiri sól, meiri sól, meiri sól


Á Íslandi er það bara þannig, að á meðan sólin skín er maður úti, nema maður sé að vinna inni (eða pakka eins og Birgitta). Það er vegna þess að sólin stoppar yfirleitt stutt við, í dögum talið. Núna skín sólin bara dag eftir dag eftir dag. Þegar ég kem inn úr sólinni eftir langa útiveru (og smá vinnu), er ég svo þreytt að eina sem ég geri er að lesa Harry Potter og koma svo börnunum í ró til að geta haldið áfram að lesa Harry Potter. Ég rétt marði það í gær að stinga í tvær vélar, að öðru leyti er heimilishaldið í rúst.

En ég gefst ekki upp á biðinni. Hér í Sumarhöllinni verður sko ekki þrifið fyrr en það fer að rigna. Og hananú!!

02 júlí, 2007

Ekki missa af...
Fann mig knúna til að setja inn fleiri myndir frá fallegasta stað á íslandi. Fyrstu tvær myndirnar eru teknar í Hvestu en þar er hvítur sandur, falleg fjallasýn og nægilega hlýtt til að sulla á góðum degi. Sú síðasta er tekin á safni Samúels Samúelssonar í Selárdal, það er magnaður staður. Ég vona að enginn Íslendingur láti það eftir sér að deyja án þess að hafa farið á Vestfirðina, og þá sérstaklega þarna á Barðaströndina. Rosalega fínt tjaldstæði á Tálknafirði við hliðina á sundlauginni, bara drífa sig!!

Sykurpúðinn minnAugljóslega hafa heilladísirnar verið mjög nálægt og í góðu skapi þegar Stubbalingur fæddist. Hann er nefnilega svo mörgum kostum búinn að mér hefði aldrei dottið til hugar að biðja um þá alla, hvað þá í einum pakka! Ég man það eins og gerst hafi í gær, að þegar ég var ólétt af honum bar ég í brjósti óskina um að barnið sem var væntanlegt hlyti einn ákveðinn hæfileika: Hæfileikann til að sofna án áreynslu. Sá hæfileiki er hins vegar nánast sá eini sem ég hef saknað í hans fari. Hins vegar erfði hann andvökugen móður sinna, sem hún erfði frá föður sínum. Þetta finnst mér mjög óréttlátt þar sem ég var þegar búin að koma því geni til frumburðarins sem einnig ber nafn afa sína.

Hins vegar dugir ekki að tala bara um það sem miður fer, enda er mér bæði ljúft og skylt að tilkynna það að Stubbalingur hefur verið eins og ljós eftir "Sykurpúðaslaginn mikla". Hann á að sjálfsögðu ennþá erfitt með að sofna á kvöldin með öll þessi andvökugen, en hann fer betur með það en þetta örlagakvöld í lífi okkar mæðginanna.

27 júní, 2007

Skortur á kunnáttu

Langaði að setja inn vídeó af Stubbaling að syngja en kann það bara alls ekki - og nenni ekki að leit lengur að upplýsingum. Langar frekar að lesa og kannski fá mér smá rauðvín (jú það má víst eftir klukkan fjögur!). Ef einhver kann þá gæti borgað sig að setja inn imbaprúf upplýsingar í komment, þetta er nefnilega óborganlegt...

26 júní, 2007

Valdabarátta

Ég úti í dyrum á náttkjólnum klukkan hálf-eitt eftir miðnætti, að henda sykurpúðum eins langt út á götuna og ég dríf með handafli einu saman. Á bak við mig stendur Stubbalingur rauðeygður og svo agndofa að hann fattar ekki að byrja að grenja aftur fyrr en eftir að ég hef lokað hurðinni. Ætli ég þurfi að fara að leita mér aðstoðar....

25 júní, 2007

Púff


Löngu og ströngu ferli lokið. Loksins þegar búið var að pakka, þrífa, smíða vegg, skipta um rúðu, tæma geymslu, koma öllu úr húsi og afhenda (já, allt samdægurs) - var klukkan farin að ganga níu. Við vorum hálf heimilislaus hjónin, reyndar bara með eitt barn að svo stöddu. Á H 18 var risið fullt af húsgögnum og hæðin tilbúin undir tréverk - hvorki eldhús né klósett, hvað þá rennandi vatn í nýju íbúðinni okkar. Svo það var ekkert annað í stöðunni en að bruna bara til Akureyrar, þar beið okkur bústaður, bjór, hvítt og rautt. Síðan renndum við áleiðis vestur með viðkomu í Djúpuvík, þar sem við gistum í þessu húsi. Núna erum við komin á Búið, þar er gott að vera.


11 júní, 2007

Breytt skipulag

Jæja, loksins þegar við erum búin að kaupa fleiri tugi lítra af málningu, lakki, grunni og spartli að ógleymdum sandpappír í metravís, pússikubbum og málningarhönskum - er ég komin í gírinn. En þá er það sumarhátíðin og í lok hennar er Stubbalingur allt í einu kominn í rokna fýlu (af því að hann vildi ekki lengur vera blettatígur, heldur spædermann). Eina sem hann vill gera er að fara heim í Hlíðina sína, úr öllum fötum og horfa á vídeó umkringdur sængum og koddum. Þar sem hann er einkabarn þessa dagana er það að sjálfsögðu látið eftir honum. Ég pakka þá bara í nokkra kassa og skelli mér í málningargallann á morgun þegar hann fer á leikskólann. Það er nefnilega ekki alltaf þannig að sá sem er stærstur fái að ráða.

08 júní, 2007

Grænn morgunverður

Ég hef verið einstaklega slöpp og hægvirk undanfarna daga og litlu komið í verk. Svo ég ákvað að taka ráði Bjargar, skella mér í Yggdrasil og ná mér í Spirulina. Ég keypti líka próteinduft þar sem ég átti í fórum mínum uppskrift frá Kolbrúnu grasalækni af morgundrykk. Í blandarann fóru jarðarber, hrísgrjónamjólk, möndlur og sesamfræ og þá var komið að duftnu góða. Fyrst opnaði ég risadunkinn af prótíninu og setti út í (ekki allt samt) og síðan undraduftið Spirulina. Ég hef heyrt marga tala um þetta og oftar en einu sinni, en enginn hafði sagt mér að duftið væri FAGURGRÆNT á litinn!
Svo ég sit hérna með stórt glas, fullt af grænum vökva ...

07 júní, 2007

Kominn tími á eina...

Sem ég sit í tölvunni minni (einu sinni sem oftar) og er að kommenta á einhverja færsluna, þá hringir klukkan á bakaraofninum - hrísgrjónin tilbúin. Heyrist ekki í Stubbaling sem situr á ganginum með kubbana sína: "mamma, þú átt að hætta í tölvunni"!! (og brosir prakkaralega).
Honum er nefnilega skammtaður hálftími í tölvunni og oftast notum við ofnklukkuna til að fylgjast með hvað tímanum líður...

27 maí, 2007

...

Eftir að við vorum búin að passa Nínu Rakel - sem var mjög þæg og góð - brunuðum við til Ísafjarðar.