26 nóvember, 2007

Hneturaunir

Við höfum átt í smá basli með hana Hnetu síðan henni var skilað hingað í miðbæinn eftir hið sæla frelsi á Ísafirði. Já það er ekki auðvelt að vera kastað úr Paradís. Hún hefur alltaf getað gengið örna sinna þegar henni hentar þar sem inn og útgengi hefur verið frjálst - opinn gluggi og/eða stutt í útidyr.
Hérna í miðbæjarsollinum erum við hins vegar á annarri hæð, sem þýðir að ekki stekkur maður út um glugga, fyrir utan að til að komast að útidyrum þarf maður að ganga niður margar tröppur (allt fyrir líkamsræktina). Þar sem Hneta er með eindæmum klár köttur, hef ég ekki einusinni reynt að bjóða henni upp á hallærislegan sandkassa eins og hverju öðru ósjálfbjarga dýri. Kötturinn sem hefur fylgt fjölskyldunni í skóla og leikskóla í mörg ár, og hefur lært að fari hún yfir Miklubrautina þá týnist hún í nokkra daga, getur alveg látið vita þegar hún þarf að komast út og gera þarfir sínar. Núna hefur hún það þannig að þegar við Rökkvi löbbum á leikskólann, þá fylgir hún okkur yfir Miklatúnið og hinkrar svo í garðinum þangað til ég kem til baka og labbar þá með mér heim.
En það hafa nú verið einhver bakslög með blessað pisseríið. Stundum pissar hún í sturtubotninn.. sem er kannski það skásta, en það hefur komið fyrir tvisvar eða þrisvar að hún hefur fundið sér eitthvað á gólfinu, eins og t.d. íþróttatösku, til að míga í á morgnana. Síðast var ég svo reið að ég elti hana út um allt áður en ég henti henni út með formælingum sem hvaða sjóari hefði verið stoltur af. Ég sagði henni jafnframt að hún væri klárari en þetta, allir heima og minnsta málið að finna einhvern til að opna fyrir sig útidyrnar. Síðan þetta gerðist hef ég reynt að grípa hana á morgnana og koma henni út til að koma í veg fyrir slys, hún er mis ánægð með það að þurfa að fara út í rokið og rigninguna og myrkrið. Nú þykist hún vera búin að finna aðferð til að sleppa við það.

Í morgun kom ég að henni á klósettinu, þar sem hún stóð með afturfæturnar ofan í klósettinu, samt ekki ofan í vatninu, og framfæturna uppi á setunni. Sel það ekki dýrara en ég sá það. Treysti þessari nýju aðferð samt mátulega , heldur greip hana glóðvolga og setti hana út. Kettir míga úti, punktur!

4 ummæli:

Syngibjörg sagði...

hahahaha......maður fyllist nú bara aðdáun á sjáfsbjargarviðleitni kattarins. Svei mér þá alla daga....

Nafnlaus sagði...

Váááá! Hún er snillingur! Spurning um að fá svona míníkló handa henni, það er örugglega til hérna í Amríkunni ;).

Nafnlaus sagði...

Hvar var myndavélin?????

Meðalmaðurinn sagði...

Nákvæmlega það sem ég hugsaði eftir á Rakel, en mér lá svo á að grípa hana glóðvolga og henda henni út :P