31 mars, 2008

Lengi von á einum

Fékk skemmtilegt sms í morgunsárið, það var svo hljóðandi:

Pöntun tilbúin. Vinsamlega sækið sem fyrst.
Kveðja
Glerslípun og speglagerð.

Ég var svo hissa að ég hoppaði nánast hæð mína. Það var í byrjun desember sem ég og Gítarleikarinn gerðum okkur ferð í þessa ágætu verslun, til að panta spegil og borðplötu á fína baðherbergið okkar. Hittum á ágætis afgreiðslukonu sem teiknaði þetta upp með okkur og leysti úr öllum vandamálum jafn óðum. Klykkti svo út með því að þetta tæki viku.

VIKU, vá hvað við vorum glöð, yrðum komin með spegil og borðplötu fyrir jólin, þvílíkur lúxus. En í stutt máli, þá tókst okkur að grenja út blessaðan spegilinn einhverntíma um miðjan febrúar, með því skilyrði að Gítarleikarinn klastraði sjálfur saman festingum og ljósaapparati á bakhliðina. Eftir það höfum við hringt öðru hvoru til að spyrjast fyrir um borðplötuna. Hún er semsagt tilbúin í dag, 31.mars 2008. Fjórir mánuðir í bið, segiði svo að það borgi sig ekki að reka á eftir!

30 mars, 2008

Alf

Ruddalega gott lag. Keypti mér gamla góða Alf diskinn um daginn á Amazon, þar sem kassettan var löngu týnd og tröllum gefið. Þar sem Birgittu tókst að kenna mér að setja inn lag af YouTube - fáið þið þetta beint í æð...

27 mars, 2008

Blóm til mömmu

Innilegar hamingjuóskir á afmælisdaginn elsku mamma,
vonum að þú eigir góðan dag á Spáni!!

Í guðanna bænum...

.. viljið þið fara að klára þessar páskaeggjarestar svo ég geti farið að einbeita mér að einhverju öðru!

26 mars, 2008

Fleiri myndir frá páskadegi

Á páskadag var partý á Seljalandi. Ég og börnin ákváðum að labba þangað um eitt leytið, en þá var undirbúningur í fullum gangi. Við hreinlega neyddumst til að taka lengstu leið sem við gátum (en þetta er í rauninni mjög stutt), því að það þurfti að príla upp á hvern hól, njóta útsýnis og skjóta nokkrum myndum. Það jafnast fátt á við svona dag í faðmi fjalla blárra.
Stubbalingur að koma sér út úr húsi,
komumst þó fljótt að raun um að allur þessi klæðnaður var óþarfur
Úsýnið frá Búinu
Fjöllin og Bónus í baksýn
Miðjukrútt og fjöll
Of mikil sól í augun fyrir myndatöku,
svo systir bauð upp á húfu.

Þegar Hneta fann mjálmið

Get svo svarið það, þegar Gítarleikarinn kom heim með Hnetu í gær, hélt ég að hann væri að koma með vitlausan kött. Það var mjálmað út í eitt. Held nefnilega að Hneta hafi tapað mjálminu í einhverjum af svaðilförum sínum á yngri árum. Eftir að ég hitti Krúsí hennar Birgittu komst ég hreinlega á þá skoðun að kötturinn væri mállaus (mjálmlaus??).

En hún hefur greinilega fundið mjálmið í Hafnarfirðinum þar sem hún eyddi síðustu viku, meira utandyra en innan að mér skilst. Nema hún hafi verið að reyna að segja mér svæsnar kjaftasögur úr plássinu...

25 mars, 2008

Ísafjörður.... best í heimi!

Veðrið verður hvergi jafn yndislegt og á Ísafirði. Ferska fjallaloftið, lognið og sólin og maður er eins og kóngur í ríki sínu!

16 mars, 2008

Sunnudagur til sælu

Við erum blessuð hér í Sprengjuhöllinni, annað er ekki hægt að segja. Með Háteigskirkju á aðra hönd og Hallgrímskirkju á hina. Merkilegt, eins og ég er nú lítið gefin fyrir messuritúalið og margt sem fylgir þessari blessuðu trú, þá finnst mér alltaf jafn notalegt að heyra í kirkjuklukkunum á sunnudagsmorgnum. Ætli það minni mig ekki á þegar við systurnar, sem bjuggum í litlu sjávarþorpi fyrir vestan, skunduðum í kirkjuskólann á hverjum laugardagsmorgni. Þar var nú séra Jakob ekki að gera út af við okkur með helgislepjunni, ónei.

Áfram kristmenn krossmenn
kóngsmenn erum vér
fram í stríðið stefni
sterki æskuher...

(ég kann að sjálfsögðu minnst 2 erindi til viðbótar.

11 mars, 2008

Hrósur - góðar fyrir sálina!

Segi bara eins og Bubbi: "Dagarnir fæðast andvana". Allavega er það tilfinningin sem ég hef þessa dagana, finnst mér ekki verða neitt úr verki. Kannski ætla ég mér bara of mikið.
Veit ekki.
Þarf að byrja aftur á Hrósunum sem við Birgitta störtuðum í mesta skammdeginu. Mæli með þeim fyrir alla, konur og kalla. Finna eitthvað á hverjum degi til að hrósa sjálfum sér fyrir í staðinn fyrir að vera alltaf að eltast við það sem maður ætlaði að gera en gerði ekki. Jákvæð styrking, eins og þeir tala um í uppeldisbókunum.
Held að ég fái Hrósur í dag fyrir að hafa komið við í Suðurveri í morgun og keypt mér góðan kaffibolla eftir foreldraviðtal vegna Stubbalings.
Heitt kaffi í pappamáli í köldum bíl - hrikalega gott! Svo var líka alveg ástæða til að fagna eftir þetta fína viðtal, drengurinn er auðvitað snillingur og ekkert annað.

Þeir sem vilja gefa sjálfum sér Hrósur í kommentakerfinu mínu, er það velkomið!

09 mars, 2008

Lán í (ó)láni

Hljóp á snærið hjá minni. Sem ég rápaði í gegnum risastóra ranghalda grænmetisganga Bónuss, ákvað ég í hjarta mínu að taka eina hollustuviku fyrir páska. Gítarleikarinn byrjaði í síðustu viku og er búinn að smita mig. Helvískur.
EN.
Þurfti auðvitað að endurraða í ísskápinn til að koma öllu þessu fyrirferðarmiklu grænmeti fyrir. Fann þá m.a. næstum fullan poka af súkkulaðihúðuðum cashew-hnetum, sem er uppáhaldið mitt.
Hann er búinn núna.
Á morgun byrjar hollustan.... vonandi :P

07 mars, 2008

Jahérna

Heimsóknum á síðuna mína hefur fjölgað all svakalega. Skrítið, ég sem hélt að það væru bara svona 5-10 á dag en teljarinn segir mér að það séu hátt í 40 á dag að meðaltali núna undanfarið. Fréttir af ritsnilld minni hljóta að vera farnar að breiðast út - kemur bara fátt annað til greina!

05 mars, 2008

Uppdeit

Jæja þá, ég er víst ekki óskeikul. Haldiði að það sé ekki bara heilt erindi sem ég mundi ekki eftir. En þökk sé Barmahlíðarbúum að ég get nú rifjað það upp og þið hin með. Þau sendu mér nefnilega þennan fína link:

http://www.kvikmynd.is/video.asp?land=&offset=0&ba=leita&leit=bru%F0ur&id=1439

Kærar þakkir í Barmahlíð og góða skemmtun þið hin!
Vá hvað barnið á mikið af buxum...

Bót...

..ekki í máli, heldur á buxum. Þegar Stubbalingur kom heim fjórða daginn í röð með gat á hné, fór mamman og keypti bætur. Í draslhornið voru þegar komnar þrennar buxur með gat á hné og einar náttbuxur sem voru orðnar kloflausar.
Búin að strauja bætur á fernar og festa í vél til öryggis, restinni verður rimpað saman í saumavélinni.
Átta buxur á dag koma skapinu svo sannarlega í lag !!

04 mars, 2008

Var einhver að kvarta yfir IKEA?

Æji, grenjandi rigning. Ekki er það nú gott ofan í vetrarblúsinn. Er samt loksins að lagast í maganum - svo eitthvað hefur rauðvínið haft að segja þó það tæki smá tíma.

Við Gítarleikarinn ákváðum að láta verða af því að kaupa okkur bókahillur úr IKEA í stofuna - þrátt fyrir andúð hans á því fyrirtæki. Ákvörðunin var tekin yfir pottunum á sunnudagseftirmiðdegi. Seinna um kvöldið kíki ég á ikea.is og sé að þeir eru með pöntunarþjónustu. Ókei, best að prófa.
Þetta var semsagt á sunnudagskvöldi, núna er þriðjudagsmorgun og hillurnar eru uppsettar í stofunni, á bara eftir að festa þær endanlega á vegginn og raða í. Ójá!

02 mars, 2008

Aumingi hvað?

Jæja. Ég er búin að vera furðu hraust í vetur. Sjö-níu-þrettán, knock on Wood og allt það. En undir lok seinni staðlotu með tilheyrandi verkefnaskilum og tímasóknum, sem kom nota bene í lok mikillar vinnutarnar sem hefur staðið sleitulaust síðan skólinn hófst í janúar, fékk ég magakveisu.
Hún er ömurlegt.
Mér finnst ég einhvernveginn ekki vera almennilega veik heldur meira svona aumingi. Bara illt í maganum og orkulaus og þreytt og langar bara að leggja mig og sofa og sofa. Og bara illt í maganum. Og sofa. Og aumingi.
Svo núna verður látið reyna á læknisráðið sem er heimatilbúið og mitt eigið, svo langt sem það nær. Minnug hausverksins sem hrjáði mig marga daga og tók ekkert mark á pilluáti og hvarf ekki fyrr en eftir rauðvínsdrykkju - þá hef ég nú opnað hina fínustu Merlot flösku og er byrjuð að súpa á. Skál!!

(Aumingja Snæfríður í "Stígur og Snæfríður" er líka veik. Hún er nú samt of ung fyrir rauðvín)
Held að ég flokkist sem frekar ópersónulegur bloggari. En hey, það er þá bara minn stíll...