28 nóvember, 2007

Talandi um súkkulaði..

... væri alveg til í einn góðan mola núna.

27 nóvember, 2007

Aumingjans ég

Við Stubbalingur "skautuðum" í leikskólann í hálkunni í morgun. Það glitraði og stirndi á héluna á götum og gangstéttum og við sáum saltbílinn sprauta salthnullungum á göturnar. Þegar við komum upp á Rauðu hrúguðust krakkarnir í dyrnar að taka á móti okkur. Einn sagði okkur frá svuntunni sem hann kom með í piparkökubaksturinn, annar sýndi okkur kúrekahattinn og ein stelpan sýndi okkur hvað bleika pilsið hennar var rosalega sítt. Mig langaði mest að fara inn og taka þátt í leiknum, perla og kubba og syngja. Á eftir á að baka piparkökur og svo verður farið í heimsókn á Droplaugarstaði.
Ég þurfti hinsvegar að hundskast heim og læra setningafræði og bókmenntafræði og.. stundum getur verið ömurlega leiðinlegt að vera fullorðinn :(

26 nóvember, 2007

Hneturaunir

Við höfum átt í smá basli með hana Hnetu síðan henni var skilað hingað í miðbæinn eftir hið sæla frelsi á Ísafirði. Já það er ekki auðvelt að vera kastað úr Paradís. Hún hefur alltaf getað gengið örna sinna þegar henni hentar þar sem inn og útgengi hefur verið frjálst - opinn gluggi og/eða stutt í útidyr.
Hérna í miðbæjarsollinum erum við hins vegar á annarri hæð, sem þýðir að ekki stekkur maður út um glugga, fyrir utan að til að komast að útidyrum þarf maður að ganga niður margar tröppur (allt fyrir líkamsræktina). Þar sem Hneta er með eindæmum klár köttur, hef ég ekki einusinni reynt að bjóða henni upp á hallærislegan sandkassa eins og hverju öðru ósjálfbjarga dýri. Kötturinn sem hefur fylgt fjölskyldunni í skóla og leikskóla í mörg ár, og hefur lært að fari hún yfir Miklubrautina þá týnist hún í nokkra daga, getur alveg látið vita þegar hún þarf að komast út og gera þarfir sínar. Núna hefur hún það þannig að þegar við Rökkvi löbbum á leikskólann, þá fylgir hún okkur yfir Miklatúnið og hinkrar svo í garðinum þangað til ég kem til baka og labbar þá með mér heim.
En það hafa nú verið einhver bakslög með blessað pisseríið. Stundum pissar hún í sturtubotninn.. sem er kannski það skásta, en það hefur komið fyrir tvisvar eða þrisvar að hún hefur fundið sér eitthvað á gólfinu, eins og t.d. íþróttatösku, til að míga í á morgnana. Síðast var ég svo reið að ég elti hana út um allt áður en ég henti henni út með formælingum sem hvaða sjóari hefði verið stoltur af. Ég sagði henni jafnframt að hún væri klárari en þetta, allir heima og minnsta málið að finna einhvern til að opna fyrir sig útidyrnar. Síðan þetta gerðist hef ég reynt að grípa hana á morgnana og koma henni út til að koma í veg fyrir slys, hún er mis ánægð með það að þurfa að fara út í rokið og rigninguna og myrkrið. Nú þykist hún vera búin að finna aðferð til að sleppa við það.

Í morgun kom ég að henni á klósettinu, þar sem hún stóð með afturfæturnar ofan í klósettinu, samt ekki ofan í vatninu, og framfæturna uppi á setunni. Sel það ekki dýrara en ég sá það. Treysti þessari nýju aðferð samt mátulega , heldur greip hana glóðvolga og setti hana út. Kettir míga úti, punktur!

25 nóvember, 2007

Ánægjustuðullinn

Var að uppgötva hvað ég er einfaldur persónuleiki. Ef þvottahúsið, eldhúsið og gólfin eru svona nokkurnvegin undir kontról, þá er ég glöð. Þegar allt er í drasli og allt er óhreint og eldhúsvaskurinn fullur og uppþvottavélin líka, þá fyllist ég óyndi. Eins og flestir vita þá er spakmælið: Sé konan ánægð er fjölskyldan ánægð, enn í fullu gildi. Ef ég fæ jafnframt lágmark tvo tíma á laugardegi og aðra tvo á sunnudegi til að sinna skólanum (fer eftir álagi), er ég meira til í að föndra með krökkunum, baka skonsur eða leika við þau.
Svona þarf nú lítið til að gleðja mig, enda er ég einföld sál! Vona bara að Gítarleikarinn lesi þetta....

24 nóvember, 2007

Stelitími

Rosalega er heimanámið mikill tímaþjófur. Ég sé kannski fyrir mér tveggja tíma lotu, vá, tveir tímar í friði og ró að læra.. svo set ég mér áætlun. Og kemst ekki yfir nema eitt atriði af 5. Ég er til dæmis búin að sitja í dútli og frágangi á verkefnum og áður en ég veit af er klukkutími liðinn.
Hlakka til að klára öll verkefnin og prófin og komast í jólafrí. Eða stússifrí. Þá ætla ég að mála og pússa og lakka og sauma gardínur og ganga frá fullt af lausum endum í íbúðinni - já og halda saumaklúbb og matarboð og baka með börnunum og úbbossí.. undirbúa jólin. Vona að ég komist yfir svona 1/5 af því sem ég ætla mér, þá er ég ánægð.

23 nóvember, 2007

Labbitúr í góða veðrinu.

Ég er búin að vera nokkuð dugleg að skilja bílinn eftir síðan ég tók mig á og hef notað (annað) hvert tækifæri til að ganga. En í morgun blöskraði mér svo veðrið að ég ræsti bílinn til að skutla Miðjukrúttinu mínu í skólann. Nú fer Únglíngurinn fram á sama trít.. en það er aðeins meira úr leið fyrir mig :S
Allavega, í sönnum anda Íslendings get ég endalaust býsnast yfir veðrinu..

21 nóvember, 2007

Drama hvað??

Sá þetta hjá henni Birgittu og það átti svo ótrúlega vel við hana, svo ég prófaði auðvitað líka. Hvet ykkur hin til að gera það sama..Þú ert miðlungssteikt dramadrottning.

Ef dramadrottningar væru hamborgarar sem fengjust
"rare",
"medium rare",
"medium"
og "well done"
værir þú "medium". Miðlungssteiktar dramadrottningar eru konur meðalhófs. Þær eru skynsemisverur miklar, hafa sterka réttlætiskennd og vilja öllum vel. Í raun myndu flestar miðlungssteiktar dramadrottningar frekar vilja vera baunabuff en hamborgari því þá hefðu engin saklaus dýr þurft að líða fyrir samlíkinguna.Miðlungssteiktar dramadrottningar hafa algera stjórn á dramatíska hluta heilans. Í raun verður sjaldan vart dramatískrar hegðunar hjá hinni miðlungssteiktu. Ekki einu sinni slæmur hárdagur getur raskað ró hennar.Miðlungssteiktar dramadrottningar eru hæglátar, yfirvegaðar en fylgispakar. Þær eru trúar leiðtoga sínum sem er gjarnan léttsteikta dramadrottningin og fylgja henni oft í blindni. Þegar á reynir er hún hins vegar ekki tilbúin til að hvika frá sannfæringu sinni og á það til að vera samviska þeirrar léttsteiktu og halda henni á jörðinni.Hversu mikil dramadrottning ert þú?

19 nóvember, 2007

Á öðrum degi í veikindum fékk Stubbalingur nóg af vídeóglápi og ákvað að taka til hendinn á heimilinu. Ekki var vanþörf á að skúra, enda húsmóðirin með eindæmum skúrilöt. Því tók drengurinn sig til og skúraði alla neðri hæðina, megnið af tímanum söng hann við vinnuna til að auka móður sinni yndi.

14 nóvember, 2007

Bílamál

Það vantar á rúðupissið hjá mér, búið að vanta örugglega í 2 vikur eða svo. En það skiptir engu máli því að það er alltaf rigning. Þegar ég fór í skólann um hádegi voru rúðurnar óhreinar. Þegar ég fór heim aftur var búið að rigna. Spurning um að fara að selja ódýrari bíla hérna í Borg Óttans þar sem þessi fítus er ekki til staðar.

13 nóvember, 2007

Umsátursástand

Hneta situr fyrir utan þvottahúsið og mænir á dyrnar. Bíður eftir að komast inn. Húsmóðirin hins vegar er að reyna að koma henni út úr húsi, til að komast í þvottahúsið án þess að hún fylgi með. Í þvottahúsinu er betri von um bráð en úti í garði. Ef hún nær sér í fugl er hins vegar meiri líkur að fjölskyldan verði flóabitin, sem við erum búin að fá nóg af.

Húsmóðirin er líka stirð í kropnnum og ósofin eftir tvær veikindanætur með Stubbaling. Hann er eins og lítill bakaraofn með hósta, ansi hrædd um að við þurfum að sleppa fimleikunum í dag, sem annars er hápunktur vikunnar. Þessa stundina fæ ég reglulega spurningar eins og:
"mamma, hvað þýðir "höbí-dí-von", en "skrf-er-jú", mamma veistu ekkert í útlensku"? Hann er nefnilega að horfa á Star Wars, en ég er að reyna að læra. Svo hef ég ekki sömu þolinmæði og Gítarleikarinn, sem horfir stundum með honum á myndirnar og þýðir jafn óðum.

11 nóvember, 2007

Allt í flækju


Flækjustigið á vinnuborðunum mínum er orðið ansi hátt, eiginlega of hátt til að það sé hægt að einbeita sér að öðru en blogg- og fréttalestri þar. Já, ég bý svo vel að hafa tvö vinnuborð, eitt fyrir bóklegt og annað fyrir verklegt. Þvílíkur lúxus. Veit ekki hvernig ég hefði farið að þessu öllu saman í Mávahlíðinni.

Væri snjallt af mér að nýta kvöldið í tiltekt á borðunum og mæta fersk á "vinnustaðinn" minn stundvíslega klukkan 8:30 - er jú grasekkja fram á miðvikudag.. eða var það fimmtudagur? Fyrst ætla ég samt að bjóða ungunum mínum út að borða, namminamminamm....
(myndin er að sjálfsögðu tekin af verklega borðinu)

Losna ekki við þetta lag af heilanum!

Sofandi hér liggur hann og litla hvílir sál
Svefninn hefur sigrað þetta undurfagra bál
Sængin felur hvíta kinn en litli nebbinn sést
Samt finnast mér þó bláu augun best.

Þetta lag flutti Ruth Reginalds þegar hún var lítið krútt. Ég heyrði það á Barnarásinni á fimmtudaginn og það situr fast. Ég er orðin leið á því og ákvað að færa það hingað.

08 nóvember, 2007

Ónotatilfinning

Verð bara að skrifa mig frá þessu sjokki, er alveg með hraðan hjartslátt og örugglega væg einkenni ofsahræðslu!
Únglingurinn minn hringdi í mig í skólann í morgun og sagði að það væri AFTUR kominn fugl í þvottahúsið. Ég bað hana að fara inn og opna þakgluggann og fara svo bara út aftur. Hún ætlaði nú ekki að þora, ég er auðvitað búin að smita hana af fuglafóbíunni , en herti upp hugann, hetjan mín!
Þegar ég kom heim var hún farin. Ég kíkti inn í þvottahús og sá hvorki kött né fugl, þorði samt ekki að loka glugganum alveg strax. Svo fóru að heyrast hljóð. Mér fannst eins og það kæmi úr herbergi Únglingsins og fékk alvega taugaáfall. Svo fannst mér eins og það kæmi innan úr veggnum og sá fyrir mér Starra, lifandi og dauða sem einangrun í fína húsið mitt. Ég hætti mér inn í Únglingaherbergið og gekk á hljóðið - fann sem betur fer ekki neitt, en hljóðið kom akkúrat frá veggnum sem liggur að þvottahúsinu.
Nújæja.
Ég fór niður, skellti mér í hettupeysu sem er rennd upp að höku og setti á mig hettuna. Síðan fór ég í vettlinga og uppreimaða skó og réðst til inngöngu. Upp við einn vegginn er reist stór masónít plata og þar á milli hafði ungaræksni dottið og komst hvorki lönd né strönd. Ég ýtti aðeins við plötunni, svo hann gat flogið upp - og beint í gluggann fyrir ofan, svo ég opnaði hann (þetta var sko hinn glugginn, ekki þakglugginn) og út flaug ógeðið. Er ekki frá því að þetta sé sami fuglinn og í gær, hann hafi kannski bara pompað þarna niður og Hneta ekki náð í stélið á honum. En allavega.

Ykkur finnst þetta kannski lítil og ómerkileg saga, en vitið þið ekki hvernig mér leið á eftir. Ég skellti aftur báðum gluggum á herberginu, hljóp út og skellti á eftir mér. Reif af mér hettu og vettlinga og hélt að hjartað ætlaði að hamast út úr brjóstinu á mér. Þessi samskipti mín við Starrana undanfarið hafa fyllt mig af svo mikilli fuglahræðslu að ég á líklega aldrei eftir að jafna mig. Núna klæjar mig allstaðar eins og ég sé nýbúin að fá fréttir af lúsafaraldri.
Spurning um að fara að leita sér að áfallahjálp?

Blámann

Nú þarf ég að leita ráða hjá ykkur, kæru lesendur!´
Málið er það að ég keypti mér þessar fínu gallabuxur í GAP þegar ég var í útlöndum. Snilldarbuxur og eins og sniðnar á mig. Nema, þær eru alveg dökkbláar og var varað við að þær gætu látið lit. Núna er ég búin að þvo buxurnar þrisvar eða fjórum sinnum og enn eru þær að lita. Hendurnar verða bláar og ekki get ég verið í ljósu að ofan. Tók líka eftir því áðan að eldhússtóllinn sem ég sit oftast í var kominn með bláa slikju, ekki gott. Vona að einhver kunni gott ráð!

07 nóvember, 2007

Sagan endalausa

Heyrast skruðningar úr þvottahúsi.
Húsmóðir kíkir inn fyrir.
Fugl í glugganum.
Lokað í hvelli.
Meiri skruðningar og læti.
Hvar er kötturinn?
Held að hann sé úti.
Hjúkkitt.
Kíkt inn 2 tímum síðar.
Skyldi húsmóðir ná að taka úr vél og stinga í þurrkara?
Á móti hennar skokkar kötturinn.
Með sælusvip.
Núna er trúlega lík í þvottahúsinu.
Og kötturinn allur í flóm.
Ojbarasta.
Vona að meindýraeyðirinn komst fyrir helgina.

Letihrúgan ég

Bíllinn minn hefur óneitanlega verið besti vinurinn undanfarnar vikur. Ég sem státa af því að búa nálægt leikskólanum og skólanum labba ekki lengra en út á gangstétt þar sem bíllinn er. Reyndar labba ég helst ekki í búð því að bakið mitt á erfitt með að bera þunga poka og ég versla alltaf svo hrikalega mikið.
Veðrið hefur auðvitað haft sitt að segja, t.d. býð ég ekki Stubbaling að labba með hann í leikskólann þegar honum er varla stætt í rokinu og regnið lemur líkamann. En ég er fullorðin, á föt og hef enga afsökun fyrir því að labba ekki í skólann sem er nánast í næsta húsi (allavega á Reykjavíkurmælikvarða). Í morgun var hið ljúfasta veður, aldrei slíku vant og við Stubbalingur fengum okkur göngutúr. Samt er ég þreytt og mygluð og langar mest að skríða upp í aftur. En, hér með lofa ég sjálfri mér því að ganga meira, allavega á meðan ekki er manndrápshálka - enginn er verri þótt hann vökni!

06 nóvember, 2007

Vetur úti..

..og núna ætla ég að fara að elda vetrarsúpuna góðu, skyldi hún verða jafn góð hjá mér og Syngibjörgu?

Hvusslags erðetta eiginlega?

Svo ég noti orð Tóta afa hérna í denn, þá er ég bara alveg BIT á þessu veðri. Hver dagurinn af öðrum tekur á móti manni með úrhellis rigningu, slagviðri og roki. Ég er ekki dyggur hlustandi veðurfrétta, en finnst ég alltaf heyra "búist er við stormi...", þegar ég kveiki á útvarpinu. Eins gott að ég komst aðeins í snjóinn þarna fyrir vestan, annars væri ég líklega farin að grænka á endunum.

Og þetta með að vera bit, eru fleiri sem kannast við þetta orðatiltæki? Man eiginlega bara eftir að hafa heyrt afa nota þetta.

01 nóvember, 2007

Varúð

Sem ég kúrði í turninum á Seljalandi í veðri svo brjáluðu að rúmið hristist, varð mér hugsað til starranna minna á Háteigsveginum. Sá þá fyrir mér í álíka veðri, fjúkandi til og frá, lamdir sundur og saman af hagléli og slyddu, frosnir á tá og trýni.
Frostbarðir fuglar. Hvergi skjól að fá.
Síðan ég kom heim um miðjan dag í gær, hef ég ekki heyrt eitt einasta fuglstíst. Held svei mér þá að mér hafi tekist að drepa þá með hugarorkunni einni saman.

...passið ykkur bara!!