30 ágúst, 2006

Viðtal

Það gerist reyndar æ sjaldnar með árunum, veit ekki ástæðuna, að ég detti ofan í Vikuna, Mannlíf og önnur "glans" tímarit. Ef ég er stödd á biðstofu og tíminn er knappur, leita ég oft í stuttu greinarnar, stuttu viðtölin; Prófillinn, Smámyndin, Uppáhalds.. eða hvað þetta allt heitir. Hefur þú einhverntíma spáð í hvað þetta eru fáránlegar upplýsingar sem viðkomandi er að gefa um sjálfan sig? Ég hef stundum prófað að spyrja sjálfa mig þessara sömu spurninga og stend yfirleitt á gati.. Prófum:

-Hver er uppáhalds árstíðin þín? (mjög vinsælt á haustin og vorin)
-Hvaða skónúmer notar þú?
-Hver er mesti hamingjudagur lífs þíns? (ósköp væri maður nú fátækur ef hann væri bara einn)
-Hver er uppáhalds maturinn þinn? (Hvað má nefna mörg atriði..)
-Hvað er uppáhaldsflíkin þín?
-Uppáhalds hljómsveitin?
-Uppáhalds lagið? (hægt að gera endalaust af uppáhaldsspurningum)
-Við hvaða aðstæður líður þér best?
-Hvert fórstu í sumarfrí?
-Hvað er besta fríið sem þú hefur nokkrum sinnum farið í?
-Hvernig eru nærbuxurnar þínar á litinn?
-Hvaða ilmvatn notar þú?

Svona er endalaust hægt að halda áfram. Til hvers að sanka að sér svona óþörfum upplýsingum um ókunnugt fólk? Enginn tilgangur í því fyrir mig allavega því að ég er búin að gleyma þessu um leið og ég legg frá mér blaðið og mér er mjög illa við að eyða tímanum til einskis. Ef það er gluggi á biðstofunni getur verið miklu skemmtilegra að horfa út um hann, velja sér manneskju á götunni og taka viðtal við hana í huganum.. búa til spurningar og svör sjálfur. Einnig er hægt að notast við aðra viðskiptavini á biðstofunni.. bara í huganum þó, annars halda allir að maður sé enn ruglaðri en maður er.. Þetta örvar ímyndunaraflið, nóg er nú mötunin samt.

Ekki þar fyrir, þér er alveg óhætt að halda áfram að lesa glanstímarit á biðstofunum, ég verð síðasta manneskjan til að býsnast yfir því. Er aðallega að koma með hugmyndir að afþreyingu fyrir sjálfa mig.

26 ágúst, 2006

Fyllibyttur og fleira gott fólk!

-Hann er fyllibytta, sagði stubbalingur.
-Nú...fyllibytta, hvað er það? Spurði pabbinn um leið.
-Það er maður sem drekkur of mikinn bjór, sagði sá litli, glaður að vita svarið.
-Og hver sagði þér það? þurfti mamman að vita, og ekki stóð á svari:
-Eva sagði mér það!!

En að öðru, rosalega getur verið gaman að elda. Dagurinn hjá mér er búinn að fara í smá tiltekt, smá innkaup og svo bara elda. Er búin að skera ferskan ananas og leggja í romm, fylla kjúklingabringur og búa til vinaigrette, sjóða eggaldin en á eftir að setja fyllinguna í það já og svo er ég hálfnuð með að útbúa deigið í grillbrauð.. best að halda á spöðunum. Að sjálfsögðu verður svo hlutverk húsbóndans að grilla herlegheitin. Held að það sé bara kominn tími á rauðvínsglas. Gaman er að elda góðan mat en enn betra að fá góða gesti til að ét'ann. Gleðilegt laugardagsköld!!

24 ágúst, 2006

Frísk

Henda, henda, henda... gefa, gefa, gefa - Til hvers í ósköpunum er ég búin að vera að geyma þetta? Já rétt til getið. Tók geymsluna í nefið. Næst þegar ég tek til í henni verður það við flutninga, langar í stærra og garð (well, who doesn't?)

Er orðin sannfærð um að þetta var magapest sem lagðist einnig á sálina. Ótrúlegt hvað maður verður druslulegur þegar eitt líffæri er í ólagi. Ætla að fá mér langa pásu í veikindum núna og vera frísk a.m.k. fram yfir jól!

23 ágúst, 2006

Sko mig!

Ég er aðeins að koma til. Það birtir, hægt og hægt. Samt er ég ekki búin að fá mér neitt súkkulaði.. sko mig! Reyndar súkkulaðiköku og -kex, sko mig! Ekki búin að afskrifa súkkulaði ennþá samt, sko mig! . Eldaði meira að segja kvöldmat, sko mig!

Hljómar svo asnalega þegar maður skrifar þetta svona oft, sko mig! Skómig. Hlakka til þegar ég verð aftur full af orku, þá verður sko aldeilis sko mig!!!!

22 ágúst, 2006

Mig langar

- að vera í góðu skapi
- að vera uppfull af orku
- að líða vel í maganum
- í nammi
- að vera aaaaaaaaalein
- að fara í heimsókn
- í bíl
- að vera í góðu skapi

Ég er frek og krefjandi

21 ágúst, 2006

Sviðsskrekkur

Á einhver birgðir af skapvonskupillum? Þá meina ég þessar sem hafa hemil á skapvonskunni. Endilega látið mig vita!!!

Langdregin spenna

Jiminn einasti. Hef lokið við bókina. Tók ekkert svo langan tíma, enda einstaklega spennandi flétta í spennubók. En þvílíkt orðagjálfur, smáatriðin ýkt og hverri einustu smápersónu lýst ofan í kjölinn, útliti sem innræti. Þýðingin þótti mér skrýtin. Má til með að koma með dæmi:

- Ólíkt stóru systur sinni var hún dökkhærð með stuttar strípur í alveg einstæðri klippingu.

Á einum stað í bókinni fyllist söguhetjan "úrræðakvíða" og klippingar eru höfundi hugleiknar þar sem karlpersónu er líst sem mjög myndarlegum með "glæsilega klippingu". Hefði eiginlega átt að vera með gula post-it miða þegar ég las bókina til að finna aftur alla staðina sem ég hló sem mest að.

Höfundur bókarinnar er sænsk og heitir Camilla Lackerberg (kann ekki að gera tvær bollur yfir a-ið). Ég hef lesið þónokkuð eftir landa hennar Lizu Marklund og þetta með smáatriðin og mannlýsingarnar virðist vera sér sænskt fyrirbrigði. Þá er gott að kunna að renna hratt í gegnum bullið til að ná aðalatriðunum án þess að spennnan detti. Ég er greinilega snillingur í því!!

18 ágúst, 2006

Liggaliggalá!

Ég er búin að skrá mig í kórinn sem ég komst ekki í s.l. vetur sökum anna - og fæ meira að segja 1 stk. einingu fyrir. Jiiiii hvað það verður gaman að far í kór.. loksins... Skora á þig Birgitta!!

17 ágúst, 2006

Konur eru frá MARS

Ég get alveg sleppt því að borða súkkulaði, það er EKKERT MÁL - svo framarlega sem það er ekki til á heimilinu. Ég get sleppt því að kaupa súkkulaði þegar ég fer í búðina, ég get sleppt því að fara sérferð í sjoppuna til að kaupa mér súkkulaði, en ef ég veit af súkkulaði í íbúðinni er ég friðlaus.. þangað til það er búið. Ég t.d. keypti of mikið mars í ostakökuna í gær. Það er búið að öskra á mig síðan ég vaknaði í morgun, svo ég át það í eftirmat núna áðan, fari það og veri. Núna er mér illt í maganum með loðnar tennur og sykurbindindi dagsins ónýtt. En ég byrja bara aftur á morgun :)

Heimaleikur

Ótrúlega gott að vera ein heima. Kom heim áðan, opnaði með lyklinum og hleypti mér inn. Eins og það er gaman þegar einhver tekur á móti manni þá er líka svo ljúft að geta stundum verið bara einn. Ekki það að ég sé að gera eitthvað sérstakt, kann bara að meta þetta þar sem það gerist svo sjaldan.

Nú þegar stubbalingur er byrjaður aftur í leikskólanum finnst mér ég vera að fá ljúflinginn minn til baka. Eftir tveggja mánaða sumarfrí er bara fínt að komast aftur í reglulegt prógramm. Hann er hættur að mótmæla öllu sem sagt er við hann, borðar matinn sinn og leikur í dótinu sínu (pissar m.a.s. inni!!). Ég hef aldrei séð þáttinn um hana Súper Nanný en hef heyrt af honum sögur, held að besta ráðið fyrir þessu ómögulegu börn sé hreinlega að skrá þau á leikskóla. Það þarf ekki einusinni að vera allur dagurinn, bara svona 5-6 tímar á dag og geðheilsunni er borgið!!

14 ágúst, 2006

Stökkbreytur

Flestar konur sem ég þekki eru það hæfileikaríkar að geta verið með mörg járn í eldinum í einu. Þær eru að fylgjast með barninu í baði, elda matinn, ganga frá þvottinum og fylgjast með fréttunum allt í einu. Það þekkja allir svona dæmi og þetta er orðin svo fræg staðreynd að það hafa verið skrifaðar margar greinar og bækur um fyrirbærið og jafnvel búnir til heilu sjónvarpsþættirnir um þetta efni. Merkilegt nokk!!

En þar sem ég var á ljóshraða að undirbúa afmæli í gær, útbúa heita réttinn, fylgjast með kökunni í ofninum og gera túnfisksalat, þá skaut því upp í huga mér hvað kvenbúkurinn er í raun illa útbúinn. Miðað við allt sem fram fór í huganum á mér á þessum tíma, hefði ég alveg getað notast við a.m.k. 2 hendur í viðbót.

Maðurinn minn stendur í þeirri meiningu að mannslíkaminn sé enn að þroskast og hann eigi stöðugt eftir að laga sig að aðstæðum. Hann telur t.d. að einn daginn eigi eftir að fæðast stökkbreytt barn sem verður gætt þeim hæfileika að geta lokað eyrunum (án þess að nota hendurnar). Miðað við hvernig þjóðfélag karla og kvenna hefur fúnkerað í áraraðir og erfitt virðist vera að breyta, þá mundi ég halda að stökkbreytingin yrði þannig að litlir strákar fæðast með loku sem þeir geta skotið fyrir eyrun að eigin vild og litlar stelpur fæðast með fjórar hendur.

12 ágúst, 2006

..og ein fyrir þá sem fylgjast með Magna

Gestur:Jæja, sáuð þið Magna, hafið þið verið að fylgjast með honum?
Stubbalingur að ganga framhjá: Nei, Magni er á Ísafirði.

(hey mamma, rock superstar nova er í sjónvarpinu!)

Sögur af Stubbaling

Stubbalingur við mömmu sína: Hey, á ég að segja þér brandara? Sko, það var maður sem hitti annan mann og þá sagði hinn maðurinn: hey, hvaða bóla er á þér? Þá fer hinn maðurinn að gá alveg:"hvar, hvar, hvar, hvar" (á meðan hann segir þetta klappar hann með flötum lófum um allt andlitið á sér), þá segir hinn maðurinn, æ nei, þetta er bara hausinn á þér!

Amma og afi Stubbalings voru að koma keyrandi frá Ísafirði og voru svo sæt að kippa með sér hjólinu hans sem hafði orðið eftir þar. Stubbalingur er að koma gangandi heim til sín með uppáhaldsfrænkunum og rekur augun í hjólið fyrir utan húsið: Hey, hjólið mitt er komið! Rétt í sama mund rekur hann augun í tvö önnur hjól, aðeins stærri og segir þá: Nei sjáðu, amma og afi hafa komið hjólandi frá Ísafirði!!!

Það er ekki eins og blessaður drengurinn sé búinn að keyra örugglega tíu sinnum þessa leið, fram og til baka!!

11 ágúst, 2006

Tiltekt

Ég er ekki skúringartýpan. Ekki týpan sem finnst ekkert mál að "renna yfir gólfin", mér finnst það nefnilega meiriháttar aðgerð. Heyri stundum konur segja si svona: Þegar ég kom heim úr vinnunni blöskraði mér svo draslið að ég tók til í eldhúsinu, þurrkaði af öllu, ryksugaði og skúraði gólfin. Jiminn góður, þetta er spurning um svona minnst 10 tíma prósess hjá mér og alls ekki verkefni sem ég skutla mér í eftir vinnu. Mér finnst allt í lagi að þurrka af og taka til, píni mig stundum til að ryksuga en þá er líka nóg komið, meika ekki að skúra. Enda er parketið mitt alveg einstaklega vel með farið, skítablettir og ryk fara nefnilega mun betur með parkett en skúringaruskan.

Síðan ég kom heim eftir sex vikna útlegð í sveitinni hef ég verið haldin tiltektarveikinni. Hjá mér felst hún einna helst í því að því meira sem ég tek til, því meira drasl verður í kringum mig. Ég þarf nefnilega að rífa út úr öllum skápum og breyta skipulaginu í leiðinnni þegar ég er í þessum ham. Þetta herjar yfirleitt á mig í nokkra daga (uppsveifla) svo þegar ég sé að ekkert haggast gefst ég upp og leggst í leti (niðursveifla). Með reynslunni hef ég lært að best er að leyfa letinni að ríkja um stund. Ég lenti nefnilega í því eftir síðasta kast að fá svo hrikalega í bakið að ég hélt ég væri bara á leið í aðgerð...

Besta leiðin til að halda bakheilsu meðfram tiltektarveikinni er semsagt að hvíla sig inn á milli (t.d. með því að setjast við tölvuna), eiga letidag og síðast en ekki síst; sleppa því að skúra. Verð samt að ljúka þessari tiltekt áður en haustið fellur á með sínar skyldur... og geymslan er enn eftir.

10 ágúst, 2006

Lægð

Hef ákveðið að gera ekkert í dag nema ég nenni því, það er sko bara ofdekur! Fór með stubbaling hálfvælandi á leikskólann í morgun, býst við að ná honum ekki með mér heim á eftir. Við krúsímús löbbuðum svo í myndavélaland og sóttum tvær filmur í framköllun og fórum með eina. Settumst svo inn í bakarí og fengum okkur morgunkaffi. Ósköp var það nú notalegt.

Síðan þá hef ég ekki gert baun. Langaði mest að fara í vídeóleiguna og ná mér í mynd til að liggja yfir í letikastinu mínu, en fannst það slæm fyrirmynd fyrir ungviðið sem er að leika sér. Þær færðu mér hálfa samloku (hornskorna) með pítusósu og gúrku á diski, og ribena djús í glasi inn í tölvu áðan, í forrétt fékk ég örbylgjupopp í poka. Núna eru þær að búa til kókoskúlur svo að ég veit hvað ég fæ í eftirrétt... namminamm!! Bestu frænkur í heimi, ekki spurning. Þær eru líka svo dæmalaust fegnar að fá loksins að leika sér saman bara tvær, stubbalingur ekki að heimta að fá að vera með og stelpurnar í nágrannahlíðinni fjarri góðu gamni. Ég ætla að lauma mér inn í sófa með bókina mína og halda áfram að vera löt í svona klukkutíma í viðbót.

Það er gott að gera ekki neitt....

09 ágúst, 2006

Híhíhohohaha

Stundum þarf ég bara frið og ró. Núna til dæmis er það bara alls ekki í boði, akkúrat þegar ég væri mest í stuði til að kasta mér út af og gleyma mér.

Stubbalingur byrjar aftur í leikskólanum á morgun eftir langt sumarfrí. Það verður ágætis hvíld fyrir okkur bæði. Þá ætla ég að fá mér góðan göngutúr og reyna að viðra úr mér ólundina - kannski verður hressilegt Reykjavíkurrok í boði!! Held ég sé komin með inniveikina.

08 ágúst, 2006

Teningunum hefur verið kastað

Hringdi í vinnuna í dag og lét vita að mín væri ekki að vænta þar í haust. Bossinn var nottla upptekinn svo ég talaði við deildarbossinn (sem er reyndar uppáhalds hjá mér) og hún ætlaði að tala við Bossinn og heyra aftur í mér á morgun. Ó mæ hvað það verður ljúft að geta sinnt náminu á morgnana þegar börnin eru í skólanum........

Kláraði að lesa Dóttir Ávítarans í gærkvöldi, hún var mjög fljótlesin eftir bókina á undan, Sushi for Beginners. Enda er sú bók tæpar 600 bls. og stafirnir litlir. Enn eru einhverjar bækur í skúffunni og á náttborðinu sem bíða lestrar, eins gott að drífa sig áður en námsbækurnar fara að hrúgast inn. Svo sit ég bara hérna og skrifa þegar ég ætti að vera að lesa......farin........

Bleikt

Stelpurnar mínar hafa aldrei verið mikið fyrir bleikt, hvorug þeirra. Sem ég hef alltaf verið mjög sátt við því að mér fannst bleikt alltaf hræðilega væminn og leiðinlegur litur... jájá, sjálfsagt hef ég átt minn þátt í því að þær voru ekkert mikið að heimta bleikt. Núna erum við að lagfæra herbergi frumburðarins og þar sem hún er stödd í öðrum landshluta treysti hún móður sinni til að velja lit á herbergið. Hún vildi fá það hvítt og einn vegg bleikan.. BLEIKAN... Hún lýsti fyrir mér bleika litnum með því að vitna í púða og sitthvað fleira og ég af stað í málningarbúðina.

Mikið hlakka ég nú til að prinsessan mín komi heim og flytji inni í fína herbergið sitt með tyggjókúlubleika veggnum. Og mikið held ég að hún eigi eftir að vera ánægð og knúsa mig mikið.. ef ekki verður hún bara sjálf að mála yfir bleika vegginn. (Það er enginn litur í litakortinu hérna á blogginu nægilega bleikur, verð að láta þennan duga)

Miss you baby!!

04 ágúst, 2006

frh...

Las um daginn pistil í einhverju blaði þar sem höfundur kvartaði sárlega undan þáttum sem aldrei taka enda. Nefndi hann t.d. Lost, uppáhaldsþáttinn minn, 24, sem ég hef aldrei séð og Prison Break sem ég hef bara séð 1 þátt af. Hann sagðist alltaf verða fyrir vonbrigðum með lokaþáttinn þar sem hann vísaði bara í eitthvað meira og aldrei tækist að ljúka sögunni og koma upp um aðalplottið. Einnig nefndi téður pistlahöfundur bíómyndina Pirates of the Carribean, Dead Man's Chest, sem dæmi um þetta og sagðist hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með hana.

Þessi pistill rifjaðist upp fyrir mér í gærkvöldi þegar ég fór að sjá þessa mynd. Eftir að hafa séð myndina og fylgst spennt með Lost á ég eitt heilræði í fórum mínum fyrir þennan vonsvikna mann sem hann ætti að hafa í huga næst þegar hann fylgist með framhaldsþætti/bíómynd:

It's the Journey, not the Destination!

03 ágúst, 2006

Hár...

... er höfuðprýði - en hvergi annarsstaðar. Konur eiga að vera með sítt og mikið hár, fagurlitað og ræktarlegt með glans. En afhverju vex hár undir höndunum á okkur? Hvaða tilgangi þjónar það? Ekki er það til að halda á okkur hita því að undir höndunum er hvort eð er alltaf hlýtt og notalegt eins og á öðrum loftlausum stöðum. Öðru máli gegnir um útlimina, það er alveg hægt að færa rök fyrir því að hár á löppum haldi hita, en til hvers er ég með 2-3 strá á stóru tánni? Oft hef ég tuðað yfir því hvers vegna ég þurfi að raka mig undir höndum og vaxa á mér leggina á meðan maðurinn minn getur gengið um kafloðinn (m.a.s. á bakinu) án þess að neinn geri athugasemd. Ég er samt allt of mikil pempía til að fara í hárkeppni við hann - enda er ég ekki, þrátt fyrir allt, loðin á bakinu og mundi því eflaust tapa.

Svo fór ég í handsnyrtingu í fyrsta skipti á ævinni um daginn. Vissi bæ ðö vei ekki að til væru svona margar tegundir af kremum og skrúbbum sérhönnuðum fyrir neglur. Mér fannst ég agalega fín og flott, með nýpússaðar og lakkaðar neglur og steinhætti að kroppa og naga. En hvað er eiginlega í gangi.. ég hef ekki undan að pússa þær niður, ekki má víst klippa þær. Neglurnar mínar eru í þvílíkum vaxtarkipp að þær bara lengjast og lengjast því að ekki nenni ég að vera sípússandi, hef sko nóg annað að gera!! Æji, nóg komið af fegurðarraunum í bili, en þá er það spurning dagsins:

Á ég að hætta í vinnunni?

02 ágúst, 2006

Kostakaup

Núna á ég svo fínan búrhníf að ég sker mig í hvert skipti sem ég elda. Kostirnir við beittan hníf: fljótlegra og skemmtilegra að saxa, ókostirnir: litlir skurðir á puttum.

Held ég fái mér bara vettlinga með góðu gripi, samt ekki gúmmíhanska.

01 ágúst, 2006

Hunang

Jibbí!!!
Ég er aftur komin í fast netsamband. Þetta var erfið afeitrun og virkaði ekki neitt. En núna er ég að fara að þrífa í öðru húsi, ég sem þríf helst ekki heima hjá mér vegna bakverkja - best að panta að fá að vera í afþurrkunardeildinni, skúringar eru killer!!