30 ágúst, 2006

Viðtal

Það gerist reyndar æ sjaldnar með árunum, veit ekki ástæðuna, að ég detti ofan í Vikuna, Mannlíf og önnur "glans" tímarit. Ef ég er stödd á biðstofu og tíminn er knappur, leita ég oft í stuttu greinarnar, stuttu viðtölin; Prófillinn, Smámyndin, Uppáhalds.. eða hvað þetta allt heitir. Hefur þú einhverntíma spáð í hvað þetta eru fáránlegar upplýsingar sem viðkomandi er að gefa um sjálfan sig? Ég hef stundum prófað að spyrja sjálfa mig þessara sömu spurninga og stend yfirleitt á gati.. Prófum:

-Hver er uppáhalds árstíðin þín? (mjög vinsælt á haustin og vorin)
-Hvaða skónúmer notar þú?
-Hver er mesti hamingjudagur lífs þíns? (ósköp væri maður nú fátækur ef hann væri bara einn)
-Hver er uppáhalds maturinn þinn? (Hvað má nefna mörg atriði..)
-Hvað er uppáhaldsflíkin þín?
-Uppáhalds hljómsveitin?
-Uppáhalds lagið? (hægt að gera endalaust af uppáhaldsspurningum)
-Við hvaða aðstæður líður þér best?
-Hvert fórstu í sumarfrí?
-Hvað er besta fríið sem þú hefur nokkrum sinnum farið í?
-Hvernig eru nærbuxurnar þínar á litinn?
-Hvaða ilmvatn notar þú?

Svona er endalaust hægt að halda áfram. Til hvers að sanka að sér svona óþörfum upplýsingum um ókunnugt fólk? Enginn tilgangur í því fyrir mig allavega því að ég er búin að gleyma þessu um leið og ég legg frá mér blaðið og mér er mjög illa við að eyða tímanum til einskis. Ef það er gluggi á biðstofunni getur verið miklu skemmtilegra að horfa út um hann, velja sér manneskju á götunni og taka viðtal við hana í huganum.. búa til spurningar og svör sjálfur. Einnig er hægt að notast við aðra viðskiptavini á biðstofunni.. bara í huganum þó, annars halda allir að maður sé enn ruglaðri en maður er.. Þetta örvar ímyndunaraflið, nóg er nú mötunin samt.

Ekki þar fyrir, þér er alveg óhætt að halda áfram að lesa glanstímarit á biðstofunum, ég verð síðasta manneskjan til að býsnast yfir því. Er aðallega að koma með hugmyndir að afþreyingu fyrir sjálfa mig.

2 ummæli:

Syngibjörg sagði...

Frábær hugmynd af afþreyingu.
Ætla að nota hana næst þegar ég eyði tíma mínum í bið.

Nafnlaus sagði...

Hef nú ekki hugsað útí þetta fyrr en ég les þetta alltaf...
Get samt ekki sagt þér hvað er uppáhaldsmatur Magna í Rockstar, skóstærð Bubba né uppáhaldsárstími Siggu Beinteins. Semsagt algjörlega gagnslausar "upplýsingar".
B