28 janúar, 2007

Hvar er Birta?

Birta er alveg hætt að koma til mín. Er hún almennt hætt að koma eða er hún bara að sniðganga mig? Ég sakna hennar, mér finnst (fannst) hún alltaf svo skemmtileg.

25 janúar, 2007

Í mér leynist smiður

Alltaf gaman að gera eitthvað Í FYRSTA SKIPTI Á ÆVINNI! Fór í fyrsta smíðatímann minn í dag. Er nefnilega svo gömul að þegar ég var í grunnskóla hét hann barnaskóli og stelpur lærðu að sauma og prjóna en strákarnir fóru út í dularfulla skúrinn á skólalóðinni. Þangað kom ég aldrei inn.

Því var það með nokkrum spenningi sem ég steig inn í þetta dularfulla herbergi, stútfullt af tækjum og tólum með allskonar flóknum nöfnum. Í ljós kom að í hópnum var fólk mislangt á veg komið í smíðanámi og stelpur virðast vera að yfirtaka þetta eins og flest annað (nema nottla stjórnunarstörf). Við vorum fimm svona alveg dökkgræn, fjórar stelpur og einn strákur en ég var samt eina í hópnum sem hafði ekki einu sinni lært smíðar í grunn/barnaskóla. Þegar það var búið að segja okkur frá verkefnum vetrarins og kynna okkur fyrir græjunum fengum við að tálga. 10 mínútum síðar þurfti strákurinn að fara... okkur sýndist skurðurinn vera það djúpur að það þyrfti að sauma...

24 janúar, 2007

Nú er úti veður ljótt

Gangstéttirnar eru allar í sandi.
Göturnar eru blautar.
Skítugur snjór í ruðningum upp við gangstéttarbrúnir og í bílastæðum.
Drullupollar.
Rok.
Regnúði.
Bílar sem leggja upp á gangstéttum.
Skást að vera á ferð í myrkrinu því að eftir því sem birtir meira verður umhverfið ljótara og ljótara. Vill til að það birtir ekki almennilega í svona dumbungi.

En það er að hlýna og ég er þrátt fyrir allt bara í góðu skapi.

23 janúar, 2007

Rís

- þú átt það alltaf skilið!

Hvað á svona auglýsingamennska að þýða? Ég ákveð að brjótast inn í banka eina nóttina. Tekst ætlunarverkið og þegar ég kem út með lambhúshettuna (prjónaða eftir uppskrift frá Vestanpóstinum) og peningapokann, er það fyrsta sem ég sé þessi auglýsing:

RÍS - ÞÚ ÁTT ÞAÐ ALLTAF SKILIÐ

þá sannfærist ég um að ég hafi verið að gera rétt, því að núna á ég ekki bara skilið að fá Rís, heldur á ég nóg af peningum fyrir því líka. Jæja, best að halda áfram að lesa Siðfræðina.. en fyrst á ég skilið að fá mér Rís...

22 janúar, 2007

Stroktilraun númer tvö

Gítarleikarinn á heimilinu segir stundum frá því að hafa verið sendur á fyrsta degi í fyrsta bekk til skólastjóra. Hann er nokkuð stoltur af því að hafa verið prakkari. Held að Stubbalingur hafi skákað honum í dag. Hann var sendur til Leikskólastýru við annan mann, alveg að verða 5 ára. Þeir reyndu að strjúka, komust yfir fyrstu hindrun áður en þeir voru gripnir. Það var mjöööög erfitt að bæla hláturinn og brosið sem braust fram þegar hann sagði frá þessu. Það fylgdi með að þeir væru hættir að reyna eftir þessa lífsreynslu. Þetta var nefnilega ekki fyrsta tilraun heldur önnur, en í fyrra skiptið komust þeir ekki einusinni yfir fyrstu hindrun og því var ekki tekið eins alvarlega á málinu. Hláturinn kraumar enn ofan í mér.

21 janúar, 2007

Ritað við gítarundirleik

Í dag er "égnennekkineinu" dagurinn. Held ég haldi hann bara hátíðlegan og geri ekki neitt sem dags dagleg telst með viti. Sjónvarpið ómar í takt við gítarinn og börnin hoppa í sófanum. Semi-drasl dagur. Ekki allt í drasli og ekki fínt, bara svona mitt á milli. Óhreintaushrúgan akkúrat passleg til að láta hana eiga sig. Það er ljúft að vera heimavinnandi fjarnemi.

Gítarleikarinn búinn að vera gítarlaus í 5 daga og keppist í ofboði við að vinna upp tapaðar samverustundir. Geri mér engar grillur, veit að hann saknaði gítarins meira þessa daga en hann á nokkurn tíma eftir að sakna mín. Ég veit líka alveg ástæðuna. Ég er honum bara ekki jafn undirgefin og gítarinn. Enda held ég að hann mundi varla nenna að eiga mig fyrir konu ef ég væri það. Jájá, þessi færsla er alveg í stíl við letidaginn minn.

18 janúar, 2007

Pæling

Hvað er málið með klósetthreinsi? Ég fer aldrei sérstaklega í búð til að kaupa mér klósetthreinsi, hvað þá að ég leiti í hillunum eftir akkúrat þessum eina rétta. Ekki ligg ég heldur yfir klósettinu og horfi ofan í það til að sjá hversu vel nýji sjálfvirki klósetthreinsinn minn virki. Nú eða bjóði saumaklúbbnum inn á bað að finna nýju lyktina. Bara búin að liggja í sjónvarpsglápi í kvöld....

Geðslagið


Ósköp er ég nú þakklát fyrir snjóinn. Reddaði mér í morgun, einu sinni sem oftar. Stubbalingur var ekki bara þreyttur heldur afskaplega úrilllur líka og rak heimilisfólk út úr herberginu jafn óðum og það kom inn til hans að freista þess að koma honum framúr. Svo ég freistaði hans með rauða sleðanum. Sá var nú ekki lengi að taka við sér, vippaði sér framúr og gleypti í sig morgunmatinn.

Núna stendur yfir ljósahátið á leikskólanum. Á morgun er vasaljósadagur. Þá er það helgin. Svo fer nú brátt myrkrið og úrillskan að víkja fyrir birtu og bjartri lund. Höldum okkur gangandi á því.

16 janúar, 2007

No regrets!!

Ég er loksins að fatta þetta. Enda komin á fertugsaldurinn og ekki seinna vænna. Ég veit af hverju konur klæða sig í óþægileg föt. Ég set þægindin ávallt í fyrsta sæti, en hef komist að því að það getur sko komið manni í koll. Tökum laugardagskvöldið sem dæmi. Ég fór auðvitað í kjól sem er nógu víður yfir ístruna til að ég geti borðað allt sem fram er borið og drukkið allt þetta góða vín með. Engar nælonsokkabuxur með því takk. Ég fer í skóna mína sem eru ekki bara uppreimaðir, sléttbotna og með breiðri tá, heldur líka nógu stórir til að innleggin mín passi í þá. Með þessu móti get ég dansað eins og fífl án nokkurra hafta eins lengi og mig lystir. En ég læt þetta ekki duga því að ég set líka í kæruleysisgírinn um leið og ég geng inn í salinn og ákveð með sjálfri mér að þetta kvöld sé ég með skemmtilegri manneskjum í húsinu sem helst enginn megi missa af að taka eftir.

Svona eftir á að hyggja, miðað við kreðsuna sem ég var að djamma með, hefði ég betur troðið mér í shock-up upp að brjóstum, verið í támjóum háhæla skóm og fengið mér gerfineglur. Þá hefði ég líklega verið þess eins megnug að hanga í handlegg eiginmannsins megnið af kvöldinu og mesta áræðnin hefði verið að kreista fram bros þegar ég var kynnt náðarsamlegast fyrir einhverju mikilmenninu úr fjármálageiranum. Vona bara að hann verði ekki rekinn úr þessari annars ágætu vinnu fyrir að eiga svona ósettlega konu.

15 janúar, 2007

Á dauða mínum átti ég von!

Ég er komin inn í gamla martröð. Þessu ætlaði ég aldrei að lenda í. Örlög flestra mæðra sem ala börn og búa í borginni, en ekki mín, nei aldrei. Svo vakna ég upp við það einn daginn að

ÉG ER SKUTLMAMMA...

12 janúar, 2007

Stór áfangi í lífi Stubbalings

Hann kom hlaupandi inn í herbergi til mín (þar sem ég sat við tölvuna að læra), á nærbuxunum og spóaleggjunum sínum.

"Hey mamma, ég gat klætt mig alveg sjálfur í nærbuxurnar
ÁN ÞESS AÐ SETJAST Á GÓLFIÐ"

(og svo hoppaði hann aðeins á öðrum fætinum til að sýna hvernig það væri gert)

Ætla að taka mér hann til fyrirmyndar og vera stolt af litlu sigrunum í lífi mínu.

10 janúar, 2007

Eftirmáli (ekki regndropanna)

Ég vil ítreka það að þrátt fyrir tuðið hérna fyrir neðan þá er ég mjög meðvituð um hvað ég er mikil forréttindapíka sem fæ nánast allt sem mig vantar upp í hendurnar. Ef það kemur ekki þá vantar mig það ekki nógu mikið. Svo á ég líka bestu fjölskyldu í heimi og bestu vini í heimi. Geri aðrir betur.

Mamma, hvað er í matinn?

Stundum bara nenni ég alls ekki að elda. En geri það samt af því að ég vil ekki borða ristað brauð í kvöldmatinn. Tel mér alltaf trú um að ég sé svona góð mamma að gera þetta fyrir börnin mín. Oftast finnst mér gaman að elda en þegar þetta er svona kvöð marga daga í röð (rímar) og öllum finnst það svooo sjálfsagður hlutur, þá finnst mér ekkert gaman lengur. Vill til að ég á Pepsi Max, best að fá sér einn gúllsopa og sjá hvort ég hressist ekki eins og Steinríkur á töfraseyðinu góða.

Bless, farin að elda...

08 janúar, 2007

Hvað dettur þér í hug?

Keyrði fyrir aftan bíl áðan, númerið á honum var BLAKA. Fyrst datt mér í hug að þetta væri eitilharður blakari, eins og t.d. mágkona mín, síðan kom Stubbalingur upp í hugann, með alla sína ást á Batman. En skyndilega stóð fyrir hugskotssjónum mínum ljóslifandi ljósmynd og hún er svona:

- Stórt einbýlishús
- Þrefaldur bílskúr
- Einn bíll fyrir framan hverja bílskúrshurð
- Allir með sérnúmer, og þau eru:

BÍBÍ OG BLAKA

Eins gott ég keyrði ekki aftan á bílinn í öllu þessum hugrenningum. Enn ein sönnun þess að ég hlýt að vera kvenmaður þar sem ég get gert svo margt í einu.

06 janúar, 2007

Á morgun segir sá lati..

Sko, ef maður klikkar á einhverju í jólahaldinu þá gerir maður það bara eftir jól. Allavega ég. Þessvegna fóru tveir dagar á milli jóla og nýjárs í jólaþrif hjá mér, AF FÚSUM OG FRJÁLSUM VILJA, nota bene!!

Í dag er ég hinsvegar að baka smákökur. Tvær sortir. Búin að smakka svo mikið að mér er orðið illt í maganum. Sko Halla, Siggakökurnar tókust fínt, en Daim kökurnar láku út um allt og eru frekar linar, en alveg hrikalega góðar!! Ætla sko að vera dugleg að troða þessum kökum í matargesti morgundagsins og svo í gesti og gangandi, annars háma ég þetta allt í mig sjálf (og kemst ekki í kjólinn á næstu helgi).

04 janúar, 2007

Árangur gærdagsins


Jæja. Yndislegi únglíngurinn minn sá til þess að ég færi ekki of geist í niðurátið. Hún bakaði þessa líka frábærtu súkkulaðiköku í gær, namminamm...
Yngri systkinin sáu svo til þess að ég færi ekki að sofa fyrr en langt eftir miðnætti sem endaði nottla með því að ég braut 2.reglu, því að loksins þegar Stubbalingur var sofnaður var ég orðin svo andvaka að ég bara neyddist til að fara fram og fá mér kökubita og mjólkursopa. Það var nú ljúft.

En í dag er nýr dagur og enn er til nóg af köku!!

03 janúar, 2007

Niðurát

Og þá er bara að borða sig niður. Það getur nefnilega verið hættulegt að hætta of snögglega, það er allavega mín speki þessa dagana. Ég ætla að byrja á að:

1. Hætta að éta súkkulaði eins og mér sé borgað fyrir það (frekar eins og ég borgi fyrir það)
2. Hætta alfarið að borða eftir miðnætti.
3. Minnka át á unnum kjötvörum, s.s. hamborgarhryggjum og hangiketi

Kannski ég kóróni bara heilsuátakið með því að fara að sofa FYRIR miðnætti, það eykur líkurnar á að mér takist að halda 2.reglu.