31 mars, 2006

Skortur á framtaksleysi

Vinkona mín var einusinni að vinna hjá verkalýðsfélagi úti á landi. Það átti litla íbúð í Reykjavík sem var leigð út til félagsmanna og starfsfólks. Dag einn var hún send við annan mann til borgarinnar, það átti að flikka aðeins upp á íbúðina - kaupa nýjar gardínur, sængurföt - svona aðeins að gera huggulegt. Þetta þótti nú bara spennandi verkefni, ágætis tilbreyting frá amstri hversdagsins. Stúlkan sem send var með í för var rólyndismanneskja - bauð af sér góðan þokka. Til að gera langa sögu stutta, var þessi stúlka algerlega frumkvæðislaus. Hún beið alltaf eftir að vinkonan ákvæði hvert ætti að fara hvað ætti að gera, hvað ætti að kaupa, borða, drekka.... bara allt. Vinkona mín var orðin mjög þreytt á þessu, enda sjálfstæð kona sem vill ekki stjórna öðrum, heldur sjá frumkvæði og framtakssemi í einstaklingnum. Hún ákvað að gera eitt lokapróf. Þær fóru í bíó og vinkonan ákvað að standa ekki upp úr sætinu eftir að myndinni lauk á undan stúlkunni, já svona var þetta orðið slæmt. Skemmst er frá því að segja að vinkonan gafst upp, hún ætlaði nú ekki að sitja í bíóinu langt fram yfir miðnætti.

Núna er ég í þessari aðstöðu. Sit uppi með að vinna mjög langdregið, vandasamt og erfitt verkefni með nákvæmlega svona manneskju. Sem betur erum við ekki bara tvær. Annars sæti ég ennþá í bíóinu, ég get verið svo þrjósk þegar ég bít eitthvað í mig.

Þetta sá ég heima hjá Birgittu um daginn, verð að koma því á framfæri:
það tekur aðeins um 20 mínútur að lækna nærsýni og fjarsýni,
væri ekki frábært ef það tæki líka 20 mínútur að lækna þröngsýni og skammsýni!

Lifið heil, sjálfstæð, ákveðin og skapandi

28 mars, 2006

103

Vá, allt í einu er teljarinn kominn yfir hundrað! Gleymi honum alltaf þarna neðst á síðunni. Kann ekki að setja hann á betri stað, eins og ég hafði nú mikið fyrir því að pota honum inn á síðuna. Ef einhver af þessum 3 lesendum er með imbahelda aðstoð.. þá bara já takk :)

Í dag heiti ég Júlía

Neinei, er ekki starfsorkan bara alveg að drepa mann eftir spennandi dag í vinnunni. Nei einmitt ekki. Er bara þreytt. Búin að kaupa í matinn og elda matinn, búin að sækja á leikskólann, skutla í fimleika og knúsa börnin, búin að skrifa dagbókina, á eftir að lesa kristinfræðina.. vei.. en það sem verra er, er ekkert byrjuð á verkefninu um Bernstein og Bordieu. Held ég byrji ekki úr þessu, er farin að þjást af sjónvarpsglápsskorti. Held ég bæti úr því í kvöld. Svo er BH ekki viðlátin, held að ég sé orðin háð henni, get bara ekki lært ef hún er ekki að læra líka, fínt að eiga það í afsökunarbankanum! Held það bara.. sjónvarpsgláp í kvöld, best væri þó að hafa ís til að narta í með...
Mér finnst Júlía svo fallegt nafn, held að það henti mér í dag að heita Júlía, maður verður svo þolinmóður og mjúkur að innan þegar maður heitir Júlía. Hefur þú prófað það?

27 mars, 2006

Undirbúningsvinna

Skyldi ég einhverntíma eiga eftir að verða kennari? Finnst bara að þegar maður fer í fyrsta skipti að kenna eigi maður að fá í hendurnar krúsídúllur í 2.bekk (veit þær geta líka verið óþekkar, krúsídúllurnar) sem finnst ennþá spennandi að vera í skóla. Held að verðandi unglingarnir okkar Birgittu eigi eftir að færa sig upp á skaftið eftir því sem líður á tímann, en þá er bara að vera tilbúinn að stíga á þá.. er það ekki? Ég er sko ekkert hrædd við verðandi unglinga, er miklu þrjóskari, frekari, lífsreyndari og skemmtilegri en þeir allir til samans - hljómar eins og ég sé að reyna að sannfæra einhvern hérna -

Nótta góð...

22 mars, 2006

Langir dagar

Mér leiðist þegar fólk þarf alltaf að vera að tala um hvað það er mikið að gera hjá því. Ætla mér ekki að detta sjálf í þann pytt, gæti orðið erfitt að komast upp úr honum. Þekki konuna í risinu lítillega og þá sjaldan ég rekst á hana er hún alltaf á innsoginu yfir því hvað sé mikið að gera hjá henni, hún er nefnilega í háskólanum og virðist bara vera í endalausum prófum. Þekki fleiri með þessa veiki, á misháu stigi. Svo þekki ég líka fólk sem er alltaf á fullu en kvartar aldrei, tekur bara því sem að höndum ber með bros á vör. Veit ekki hvorum hópnum ég tilheyri þar sem fjarlægðin er svo lítil.

En undanfarna daga hef ég þó verið að kvarta undan of fáum tímum í sólarhring viðurkenni það alveg. Held ég fari bara að hringja í konuna í risinu, svei mér þá....

18 mars, 2006

enn um kosti

Minn stærsti kostur er óendanleg þolinmæði. Ég hef skilning þegar aðrir eru að pirrast yfir fólki sem er erfitt í umgengni, ég geri það alveg sjálf, en mér finnst ekki taka því að láta það ergja mig inn að beini. Það er líka mjög erfitt að reita mig til reiði. Það er líklega fylgifiskur þolinmæðinnar.

En eins og með flesta kosti, er þetta líka ókostur. Með því að sýna endalausa þolinmæði býður maður fólki að ganga á lagið. Það er ekki gott. Það er líka nauðsynlegt að geta staðið upp og sagt nú er nóg komið, þegar nóg er komið! Það er líka gott að bera málefni undir fólk sem er traustsins vert, vega og meta þeirra skoðun til að fá aðra hlið á málinu. Það er fátt jafn dýrmætt í lífinu og góður vinur, svo mikið er víst.

17 mars, 2006

Pepp

Ég er snillingur!! ótrúlega klár og sniðug, góð í eiginlega öllu sem ég tek mér fyrir hendur. Verst hvað mér er illt í maganum...

15 mars, 2006

Dagdraumar

Mundi örugglega henta mér að vera nunna, búa í klaustri, mála á kerti, rækta grænmeti og syngja. Þá eru alltaf ákveðnir matmálstímar og þvottadagar og allt í skorðum, sem ég mundi ekki þurfa að búa til sjálf. Held að það henti mér að vera í ramma þó ég geti ekki smíðað hann hjálparlaust. Er búin að biðja um aðstoð við rammasmíði hjá góðri vinkonu sem segist halda uppi Hitlers aga á sínu heimili. Hún vildi ekki hjálpa mér. Mundi samt ekki nenna að safna péning, boða guðsblessun eða iðka trúna, svo klaustrið er sennilega útúr myndinni. Held að ég mundi sakna Óla, þrátt fyrir allt, og auðvitað barnanna... enn meira útúr myndinni.

Kaupi mér bara gamalt niðurnítt hús, með þykkum útveggjum, verð með fífla og sóleyjar í glugganum sem börnin hafa fært mér syngjandi í sólskininu. Ég inni að baka eplaköku (úr eplunum sem vaxa á trjánum fyrir utan gluggann) á meðan þau skottast úti hlæjandi. Svo kemur Óli heim af akrinum, útitekinn og hraustlegur þegar ég er tilbúin með ferskt salat, speltbrauð og gufusoðinn lax sem hann veiddi í gær...

... og ég náföl með bauga af allri inniverunni og eldamennskunni - það er eitthvað sem er ekki alveg að ganga upp í þessari draumsýn. Ég veit alveg hvað það er
ÉG ER ALLT OF HE.... RAUNSÆ!!!!

11 mars, 2006

Plogg

Æ mér finnst bara miklu skemmtilegra að lesa annarra manna blogg en að skrifa mitt eigið. Ætli það sé vegna þess að ég tjái mig svo mikið dags daglega en gefi mér engan tíma til að hlusta á aðra? Held nú ekki... kannski er ég bara svona hugmyndasnauð.

07 mars, 2006

Fargan

Hvað er eiginlega með þetta dagblaðafargan inn á heimilin. Er þetta eitthvað sem tíðkast í hinum siðmenntaða heimi eða er þetta bara svona hjá okkur hérna á Íslandi? Hver er eiginlega meiningin með að senda manni ekki bara eitt frítt blað óumbeðið, heldur tvö!!! Svo þáðum við fría mogga-áskrift í mánuð og maður er hreinlega að drukkna. Fyrir nú utan alla yndislegu auglýsingabæklingana......

02 mars, 2006

Lítill fugl

Ég man ekkert hvað ég var gömul, en afmælið var í fullum gangi þegar mamma náði í mig og sagði mér að koma og heilsa upp á ömmu. Amma var komin í afmælið og sat frammi í eldhúsi með kaffibollann. Amma faðmaði mig að sér og óskaði mér til hamingju með afmælið, rétti mér svo afmælispakka eins og lög gera ráð fyrir. Ég opnaði pakkann og í honum var Barbie-dúkka. Ég varð svo himinsæl og glöð, flaug upp um hálsinn á ömmu og spurði hana, hvernig vissir þú að þetta var það sem mig langaði mest í? Og amma svarði að það hefði lítill fugl hvíslað því að henni, það fannst mér skrítið...

Ég man ekki til þess að hafa eignast Barbie-dúkku, hvorki fyrr né síðar, getur samt vel verið þar sem ég er ekki mjög minnug manneskja. En þessi var allavega alveg spes. Hún var með liðamót og beygjufætur og svo var hún líka dökk á hörund með kolsvart sítt hár, ótrúlega flott!! En kannski er það líka af því að ég átti svo yndislega ömmu...