02 mars, 2006

Lítill fugl

Ég man ekkert hvað ég var gömul, en afmælið var í fullum gangi þegar mamma náði í mig og sagði mér að koma og heilsa upp á ömmu. Amma var komin í afmælið og sat frammi í eldhúsi með kaffibollann. Amma faðmaði mig að sér og óskaði mér til hamingju með afmælið, rétti mér svo afmælispakka eins og lög gera ráð fyrir. Ég opnaði pakkann og í honum var Barbie-dúkka. Ég varð svo himinsæl og glöð, flaug upp um hálsinn á ömmu og spurði hana, hvernig vissir þú að þetta var það sem mig langaði mest í? Og amma svarði að það hefði lítill fugl hvíslað því að henni, það fannst mér skrítið...

Ég man ekki til þess að hafa eignast Barbie-dúkku, hvorki fyrr né síðar, getur samt vel verið þar sem ég er ekki mjög minnug manneskja. En þessi var allavega alveg spes. Hún var með liðamót og beygjufætur og svo var hún líka dökk á hörund með kolsvart sítt hár, ótrúlega flott!! En kannski er það líka af því að ég átti svo yndislega ömmu...

Engin ummæli: