31 mars, 2006

Skortur á framtaksleysi

Vinkona mín var einusinni að vinna hjá verkalýðsfélagi úti á landi. Það átti litla íbúð í Reykjavík sem var leigð út til félagsmanna og starfsfólks. Dag einn var hún send við annan mann til borgarinnar, það átti að flikka aðeins upp á íbúðina - kaupa nýjar gardínur, sængurföt - svona aðeins að gera huggulegt. Þetta þótti nú bara spennandi verkefni, ágætis tilbreyting frá amstri hversdagsins. Stúlkan sem send var með í för var rólyndismanneskja - bauð af sér góðan þokka. Til að gera langa sögu stutta, var þessi stúlka algerlega frumkvæðislaus. Hún beið alltaf eftir að vinkonan ákvæði hvert ætti að fara hvað ætti að gera, hvað ætti að kaupa, borða, drekka.... bara allt. Vinkona mín var orðin mjög þreytt á þessu, enda sjálfstæð kona sem vill ekki stjórna öðrum, heldur sjá frumkvæði og framtakssemi í einstaklingnum. Hún ákvað að gera eitt lokapróf. Þær fóru í bíó og vinkonan ákvað að standa ekki upp úr sætinu eftir að myndinni lauk á undan stúlkunni, já svona var þetta orðið slæmt. Skemmst er frá því að segja að vinkonan gafst upp, hún ætlaði nú ekki að sitja í bíóinu langt fram yfir miðnætti.

Núna er ég í þessari aðstöðu. Sit uppi með að vinna mjög langdregið, vandasamt og erfitt verkefni með nákvæmlega svona manneskju. Sem betur erum við ekki bara tvær. Annars sæti ég ennþá í bíóinu, ég get verið svo þrjósk þegar ég bít eitthvað í mig.

Þetta sá ég heima hjá Birgittu um daginn, verð að koma því á framfæri:
það tekur aðeins um 20 mínútur að lækna nærsýni og fjarsýni,
væri ekki frábært ef það tæki líka 20 mínútur að lækna þröngsýni og skammsýni!

Lifið heil, sjálfstæð, ákveðin og skapandi

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Púff, eins gott að ég er þarna líka til að bjarga þér úr bíósætinu, annars værir þú þar fram að jólum - alveg pottþétt!!!

Nafnlaus sagði...

Eins gott mar!!

Nafnlaus sagði...

Nohhh, var svona gaman í rauðvíninu :o) - bara á blogginu klukkan 2 um nótt!!

Þú manst að þú ert PÖNTUÐ á föstudaginn næsta - þú mun aldrei bíða þess bætur ef þú svíkur mig ;).

B

Nafnlaus sagði...

Fínt að kíkja á nokkur blogg meðan maður burstar tennurnar - þegar enginn á heimilinu hefur haft rænu á að drepa tölvuna fyrir háttinn!