11 ágúst, 2006

Tiltekt

Ég er ekki skúringartýpan. Ekki týpan sem finnst ekkert mál að "renna yfir gólfin", mér finnst það nefnilega meiriháttar aðgerð. Heyri stundum konur segja si svona: Þegar ég kom heim úr vinnunni blöskraði mér svo draslið að ég tók til í eldhúsinu, þurrkaði af öllu, ryksugaði og skúraði gólfin. Jiminn góður, þetta er spurning um svona minnst 10 tíma prósess hjá mér og alls ekki verkefni sem ég skutla mér í eftir vinnu. Mér finnst allt í lagi að þurrka af og taka til, píni mig stundum til að ryksuga en þá er líka nóg komið, meika ekki að skúra. Enda er parketið mitt alveg einstaklega vel með farið, skítablettir og ryk fara nefnilega mun betur með parkett en skúringaruskan.

Síðan ég kom heim eftir sex vikna útlegð í sveitinni hef ég verið haldin tiltektarveikinni. Hjá mér felst hún einna helst í því að því meira sem ég tek til, því meira drasl verður í kringum mig. Ég þarf nefnilega að rífa út úr öllum skápum og breyta skipulaginu í leiðinnni þegar ég er í þessum ham. Þetta herjar yfirleitt á mig í nokkra daga (uppsveifla) svo þegar ég sé að ekkert haggast gefst ég upp og leggst í leti (niðursveifla). Með reynslunni hef ég lært að best er að leyfa letinni að ríkja um stund. Ég lenti nefnilega í því eftir síðasta kast að fá svo hrikalega í bakið að ég hélt ég væri bara á leið í aðgerð...

Besta leiðin til að halda bakheilsu meðfram tiltektarveikinni er semsagt að hvíla sig inn á milli (t.d. með því að setjast við tölvuna), eiga letidag og síðast en ekki síst; sleppa því að skúra. Verð samt að ljúka þessari tiltekt áður en haustið fellur á með sínar skyldur... og geymslan er enn eftir.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Heyr heyr... Sammála, sammála, sammála og já aftur sammála

Nafnlaus sagði...

Ég tek ráðum þínum, er búin að vera að rífa út úr geymslunni í fjóra klukkutíma og er alveg komin með nóg, bíð nú eftir bílnum til að renna með draslið á haugana, vonandi kemur hann fljótt svo ég fari ekki að finna meira til að henda (verður að nota ferðina skiluru)

Meðalmaðurinn sagði...

Dugleg ertu, hrós, hrós, hrós, hrós!! Hér fer helgin í gestamóttöku og bakstur, eins og mig langar miiiiiikið til að taka geymsluna....NOT..

Syngibjörg sagði...

Tiltekt er fín....í hófi.
Þegar ég bjó í húsinu með engri geymslu lærði ég að henda, sortera og gefa. Frelsaðist fyrir lífstíð af söfnunaráráttunni og er það þá eina góða sem kom í kjölfarið af verunni í húsinu.