18 september, 2007

Fuglakvak í morgunsárið

Fuglar eru ógeð, eða það finnst mér allavega. Ástæðan fyrir þessari skoðun minni er sú að í ófrágengna þakskegginu á nýja húsinu okkar eru heilu hrúgurnar af starrahreiðrum. Þeir sem til þekkja vita sjálfsagt að þeim fylgja lýs. Fyrstu bitin fékk ég í sumar þegar ég var að mála svaladyrnar. Síðan hef ég verið bitin reglulega en hef ekki getað rakið þau bit til útiveru, því miður. Ég veit ekki hvar þetta ógeð kemst inn í íbúðina mína, en ég hef fundið það út að það er einhversstaðar á neðri hæðinni, merkilegt nokk. Líklega í gegnum óþéttu og ónýtu gluggana (fyrirgefið, sagði ég "nýja" húsið okkar...). Svo að þegar ég vakna klukkan 6 á morgnana við fuglakvak rétt fyrir utan gluggann, þá fer um mig ógeðshrollur.
Tók þó steininn úr núna í morgun. Er búin að vera að heyra óvenju hátt í einhverri skríkjunni. Sem ég labba niður á neðri hæð, sé ég útundan mér hreyfingu í fínu kamínunni okkar. Í henni eru gluggar á þrjá vegu og starrafíflið skemmti sér við að klessa á þá til skiptis. Ógeðshrollur dauðans. Hvernig í andsk** á ég að koma vibbanum út?
Vopnuð pappakassa (jújú, nóg af þeim hérna) opnaði ég glerhurðina. Litla fíflið fattaði ekki að ég var að reyna að bjarga því með að koma því ofan í kassann, svo það flaug bara á sótugt bakið í ofninum, aftur og aftur. Loks smeygði hann sér fram hjá mér og kassanum og tók stefnuna beint á ... neinei, auðvitað ekki svaladyrnar sem ég var búin að opna, heldur háa gluggann beint á móti.
KRASSSSS.. árekstur við gluggann og lending á Pet Shop dótinu í gluggakistunni sem Stubbalingur og Miðjubarnið voru búin að raða svo fínt upp. Ekki ætlaði ég að fara að koma við þennan viðbjóð berum höndum, ábyggilega allur í lús og ógeði. Eftir smá stympingar og nokkrar klessur á stóru stofugluggana mína, tókst mér að beina illfyglinu út um svaladyrnar.

Spurning um að hringja í Blikkarann og heimta afslátt, strompurinn sem hann kom upp fyrir einhverja hundraðþúsundkalla er ekki fuglaheldur!

(Náðist ekki mynd af illfyglinu í ofninum, í glerinu speglaðist bara óttaslegið og ógeðsgrett andlit húsfreyjunnar með pappakassann)

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæl frænka! Fann síðuna þína á síðunni hennar Önnu systir. Ógeð þessir Starrar ég lenti í svona ævintýri á Grettisgötunni í gamla daga, minnir að það hafi endað í meindýraeyði og einhverjum framkvæmdum til að fyrirbyggja frekari vandræði. ég var einmitt öll í rauðum bitum með viðeigandi kláða..... En til hamingju með íbúðina, Þetta eru örugglega bara byrjunarerfiðleikar.

Nafnlaus sagði...

Það hefði nú verið gaman að fá mynd af þér, grimmdarlega á svip með pappakassann

Birgitta sagði...

Ég heimta myndina af húsfreyjunni hehe!
Alveg spurning um að hringja í meindýraeyði núna, þar sem starar eru friðaðir má bara fjarlægja hreiðrin þegar ekki eru í þeim egg eða ungar. Láta svo lúsaeitra húsið að utan og þú ættir að vera nokkuð góð.

Nafnlaus sagði...

Eitthvað Hitskokklegt við svona fuglafár. Vængjasláttur í návígi er krípí....