20 apríl, 2009

Segi ekki meir...

Segi nú bara eins og Rakel, þetta fésbókardót fær allt of mikinn tíma. Reyndar skrifa ég ritgerðir, kaupi í matinn, þríf og prjóna líka. Kannski ekki svo slæmt.

20 janúar, 2009

AP 1 (Andvökupistill 1)

"Detta útaf", "dotta yfir sjónvarpinu", "sofna um leið og lagst er á koddann". Þessar orðræður og fleiri í sama stíl þekki ég aðeins af afspurn. Segi það ekki, er nú ekki alsaklaus af því að hafa dottað létt í stórum fyrirlestrarsal þar sem loftið er þungt... . Ég þarf að setja mig í svefnstellingar til að sofna en oft dugar það ekki til. Núna undanfarið bara alls ekki.

Það versta við að blogga í huganum á andvökunóttum, er að það er oftast gleymt daginn eftir. Einhverjar hugmyndir á ég þó í handraðanum og kannski kem ég þeim hingað inn ef ég næ að slíta mig nógu lengi af facebook.
Ég hugga mig við að þetta sé tengt árstíð og núna sé "skammdegisruglið" í hámarki eins og pabbi kallar það.

19 janúar, 2009

Kostur

Einn af kostunum við að vera í fjarnámi er sá að maður getur notað "frímínúturnar" til að taka úr vélinni og stinga í þá næstu. Maður þarf sko ekki að eyða helgunum í stórþvotta.

18 janúar, 2009

Gleðilegt ár!!

Það er ekki að spyrja að mikilmennskubrjálæði þjóðarsálarinnar frekar en fyrri daginn.

Já þvílík bilun. Íslendingar eru ekki að laga sig að staðháttum í landinu sínu, nei frekar að storka náttúruöflunum og reyna að laga þau að sér. Með réttu ættum við að minnka vinnu- og skólaskyldu í desember og janúar. Allavega í janúar. Dagurinn ætti að byrja klukkan 10 og allir búnir í skóla og vinnu ekki seinna en 16. Þegar skammdegið er svona mikið eigum við að sofa eins og birnir í hýði.

Neinei, ekki Íslendingar. Í janúar, þegar myrkrið og skammdegið og eftirjólablúsinn er í hámarki - þá eru allir að Takáðí. Vakna eldsnemma á morgnana og drífa sig í átak og jóga, nú eða lengja daginn ófhóflega með því að gera þetta eftir vinnu/skóladag. Ég tek alveg þátt í þessu á fullu, enda Íslendingur í allar áttir.

Mér finnst þetta samt bilun.

28 nóvember, 2008

...

Mamman: Nei Óli kemur bráðum og þá ætlar hann að skutla þér heim
Nýji vinur: Ha, hver er Óli?
Stubbur: Það er pabbi minn. Sko, pabbi minn heitir ÓLI og mamma mín heitir MARTA. Þá veistu það ef þú þarft eitthvað að tala við þau eða svoleiðis.

(Held að drengurinn verði kennari, hann er svo góður að útskýra)

26 nóvember, 2008

Eldur

Það er að kólna svo hressilega úti að ég fór upp í skáp og gróf út gömlu lúnu dúnúlpuna mína. Núna er hún að veltast í þurrkaranum. Svo kveikti ég á öllum kertum og fór í ullarsokkana sem ég stal óvart frá Höllu. Og kveikti upp í arninum. Held ég fari niður að lesa eitthvað óspennandi námsefni, það hlýtur að verða skemmtilegt í svona notalegheitum!

25 nóvember, 2008

Píanókennarahúmor

Heyrði þessa auglýsingu á Rás 2 núna áðan og er enn að hlæja að henni:

Nýkomið mikið úrval af ótrúlega leiðinlegum fingraæfingum fyrir píanó.

Tónastöðin

Já þeir kunna svo sannarlega að vekja á sér athygli í Tónastöðinni.

14 nóvember, 2008

Tek strútinn á þetta um helgina



Ég ætla bara að gera eins og þessi í nokkra daga. Sneiða hjá mbl.is og visi.is nema til að skoða slúðrið. Býst ekki við að mér takist að sneiða hjá sjónvarps- og útvarpsfréttum en það má alltaf stinga puttum í eyru og loka augunum - og stinga höfðinu í sandinn. Þið megið eiga fréttirnar á meðan.

10 nóvember, 2008

Þrjár októbermyndir


Katla og snjókallinn


Hneta leikur sér með LEGO



Kokkarnir mínir :)

Varúð: Vitringar!!!

Hinn ofurskemmtilegi Súperstubbur er að læra á píanó. Fékk fyrsta jólalagið í síðustu viku og vill ekki spila neitt annað. Svo syngur hann hástöfum með:

Bjart er yfir Betlehem,
blikar jólastjarna
Stjarnan mín og stjarnan þín,
stjarna allra barna.

Varúð, varúð Vitringar...

09 nóvember, 2008

ojbara, ullabjakk, erðanú.



Ætlaði hins vegar að eyða deginum í eldhúsinu því að það er mun skemmtilegra en að þrífa. Var rétt búin að stinga Dillonskökunni í ofninn (sem á að vera í eftirmat) og ætlaði að fara að stússa í Lasagne gerð þegar bakið sagði stopp. Þess vegna húki ég hér fyrir framan tölvuna, kökuilminn farið að leggja um húsið, og bíð eftir að íbúfen virki. Nenni ekki að bíða lengur, farin að finna bakbeltið...

(Vantar íslensk orð yfir Lasanja - lagpasta með kjötsósu?)

Sólarglenna

Nú skín sólin glatt í borginni og fallegt um að litast. Úti.. ekki inni. Rúðurnar eru skítugar og gólfin rykug. Sem útivinnandi manneskja í skóla með hrúgu af börnum og upptekinn mann (engin ástæða til að draga neitt úr), hef ég ekki tíma til að liggja í þrifum um helgar. Vona bara að það fari að rigna sem fyrst aftur.

08 nóvember, 2008

Jákvæðni

Æji ég er bara fegin að það rignir. Nenni ekki að setja á rúðupissið.

07 nóvember, 2008

Speki 2

Mamma þú átt fjársóð, veistu hvað það er?
Njahh... eru það ekki börnin mín?
Jú, alveg rétt hjá þér. En veistu hver er mesti fjársóðurinn?
Nei, eruð þið ekki öll þrjú jafnmiklir fjársóðir? Það finnst mér.
Neinei, sko ÉG er mesti fjársóðurinn af því að ég er minnstur. Það er nefnilega kosturinn við að vera lítill, eftir því sem maður er minni þá er maður meiri fjársóður¨.

RSÓ 6 ára

Speki 1

Ormar eru með tíu hjörtu.
Maður getur nefnilega slitið orm í marga búta en samt lifir hann áfram af því að það er hjarta í hverjum bút.
Kettir borða orma.
Þess vegna eru kettir með mörg líf.

RSÓ 6 ára.

22 október, 2008

Blehhh

Er svona álíka kröftug í blogginu og öllu öðru þessa dagana. Yngri börnin eru í vetrarfríi alla þessa viku á meðan mamman keppist við að þykjast vera kennari. Eftir að þeirra vetrarfríi lýkur þarf mamman svo að halda áfram í kennaraleik í 3 vikur í viðbót.
Efst á óskalistanum er hinsvegar að gera ekki neitt, sofa og borða súkkulaði. Jú og borða súkkulaði.

15 október, 2008

Long time...

Stubbalingur fékk lestrarbók heim í fyrsta skipti í gær. Hann kláraði hana í dag. Halllelúja... ég fékk loksins í hendurnar barn sem lærir sjálfkrafa að lesa án mikillar fyrirhafnar. Hann þarf hins vegar að eyða drjúgum tíma í að spá í innihald bókarinnar um leið og hann les. "Hva, er Lóló ekkert meira í sögunni? Hér eru bara Ari og Óli, hvert fóru Lóló og Sísí eiginlega?".

Já svo ákváðum við að hætta við síkið af því að við fengum ekki leyfi fyrir drekanum, gjaldeyrishöftin og allt það - þú skilur. Svo það var fyllt upp í allt heila klabbið. Nú lítur þetta bara út eins og hjá venjulegu fólki sem lét rífa allt upp en hafði svo ekki efni á að klára dæmið.

Annars bara allt gott :)