11 febrúar, 2008

Að þreyja Þorrann

Ég er voða dugleg að passa að ég deyi ekki úr hungri. Öllu má þó ofgera svo ég ákvað að hefja örlítið hollustuátak í morgun. Fékk mér grænt te, hrökkbrauð með smjöri og gúrku og ávaxtasafa. En þá mundi ég skyndilega eftir því að Gítarleikarinn hafði keypt Berlínarbollur í gær. Rjómabollur hvað? þær fara bara illa í maga, en Berlínarbollur - það er sko uppáhaldið mitt.
Svo ég át síðustu Berlínarbolluna í eftir-morgunmat. En Róm var heldur ekki byggð á einum degi, ég held bara áfram að byggja á morgun.

Í gær hófst hins vegar annað átak á heimilinu, massíft atferlisátak - Foreldrar vs. Stubbalingur. Gekk vel framan af, móðirin lempaði hvert vandamálið af öðru af miklum liðleika. Þegar klukkan var farin að ganga 12 og móðirin að lýjast gerði hún þau reginmistök að senda Gítarleikarann inn til Stubbalings. Það fór allt í háaloft. Svo staðan í dag er:

Stubbalingur - 1
Foreldrar - 0

En það er sama stefnan þar í gangi, Róm var ekki byggð á einum degi, hvað þá einu kvöldi...

Engin ummæli: