19 maí, 2008

Próflok

Jæja, næstu daga fá æstir lesendur að fylgjast með heimilisstörfum húsmóðurinnar. Til að koma í veg fyrir samviskubit yfir að vera ein heima í fríi (jibbýýý), hef ég ákveðið að vera ræstitæknir og iðnaðarmaður á eigin heimili næstu vikurnar. Ég held að ég þurfi enga sérstaka menntun til að kalla mig ræstitækni, en ég veit að ekki má ég kalla mig iðnaðarmann - það er lögverndað starfsheiti. Kannski ég fái bara lánaðan Stússaratitilinn hans pabba, hlýt allavega að vera með réttu genin!

Ég hóf m.a.s. störf í gær, á sunnudegi (hátíðartaxti, græddi helling) og þreif ísskápinn. Í morgun réðist ég á vaskborðið og hillurnar, eilífðarvinna með juðaranum og hendin á mér víbrar. Stefni á að klára það og olíubera og þá ætti ég að vera komin með kennaralaun fyrir daginn og vel það. Ef mér tekst að massa stóru eyjuna (sem Gítarleikarinn segir reyndar að sé nes en ekki eyja) á morgun, fara upphandleggirnir vonandi að mótast. Ég hlakka til.

Góðar kveðjur
Stússarinn

1 ummæli:

Birgitta sagði...

juði juði juði juði
meira svona sjónvarpstæknir á stefnunni hérna megin hafsins ;)