16 apríl, 2008

Hvessir

Vor æsku minnar á sér alveg sérstaka mynd í mínum huga. Ég að hjóla heim úr tónfræðiprófi í gaggó þar sem Sigga Ragnars (eldri) sat yfir (hún renndi alltaf yfir prófið þegar maður skilaði og benti á hitt og þetta sem mátti betur fara). Prófin voru haldin á laugardegi, trúlega í lok apríl eða í byrjun maí, því að þetta var á þeim árum sem börn fengu almennilegt sumarfrí - skólar voru ekki teygðir langt fram í júní.

Þessi frelsistilfinning á gamla DBS garminum, tónfræðipróf þýddi að tónlistarskóla var um það bil að ljúka fyrir sumarið og öllu hinu líka. Hlíðarvegurinn var orðinn auður. Nógu auður til að hægt væri að hjóla og fara úr kuldabomsunum.

Ég heyrði í fréttunum í gær að vorið væri komið. Það er öðruvísi þetta Reykvíska vor. Fattaði það allavega í dag að dagurinn í dag er það sem mér finnst vera týpískt fyrir reykvískt vor. Göturnar eru allar auðar, gangstéttirnar eru haugaskítugar eftir sandaustur vetursins og það er nógu hvasst til að óhreinindin takast á loft og fjúka í andlitið á manni, og hárið, og fötin. Einn og einn rigningardropi skellur á mann inn á milli. Trén eru nakin og drusluleg en eitt og eitt blóm farið að kíkja upp.

Ætli vorið sé virkilega komið?

5 ummæli:

Birgitta sagði...

Vorið er komið þegar yndislegu mennirnir hjá Borginni eru búnir að sópa burtu öllum sandinum og subbinu ;).

Meðalmaðurinn sagði...

Hvaða yndislegu menn? Ég sé enga :P

Anna Malfridur sagði...

Vá var einmitt að velta þessu með vorið fyrir mér í gær þar sem ég stóð með hundinn úti í garði og beið eftir að hann fyndi rétta staðinn til að pissa á. Það þarf nefnilega að fara að taka til eftir veturinn í garðinum og þar á meðal að raka gömul laufblöð í tonnavís... hvað er með það? Man aldrei eftir laufhrúgum í mínu uppeldi og þó áttum við hrikalega stóran garð sem maður var neyddur til að vinna í ???
Þetta er líklega annað dæmi um reykvískt vor...

Nafnlaus sagði...

Talandi um vor!!! Hér á Ísó var bara SUMAR í dag. Sól, logn, auðar götur og auðar skítugar stéttar (smá snjór í görðum)en hægt að sitja í sólinni út á svölum og prjóna. Allir krakkar komnir á hjólin sín og línuskauta. Þetta er ísfirska vorið.
KV Sóley Vet á Ísó

Syngibjörg sagði...

Váááá...ég fór alveg laaaangt aftur í tímann og upplifði tónfræðipróf og parís og snú snú......
Og VORIÐ er KOMIÐ.....pollurinn spegilsléttur og fólk hreinlega þyrpist út á hjólin og í göngutúrana.Yndislegt.