01 apríl, 2008

Fyndnir feðgar

Ég er ósköp hrekklaus sál, svo hrekklaus að oft jaðrar við ljósku. Held að ég gæti aldrei látið neinn hlaupa apríl. Hins vegar finnst Gítarleikaranum það ómissandi athöfn á 1.apríl að velja sér fórnarlamb til að hringja í. Takmarkið er að ná viðkomandi yfir sem flesta þröskulda, ætli það sé einhver austurrísk hefð?
Hann vakti mig í morgun með því að segja mér að þegar hann kom fram í morgun hefði verið fugl í eldhúsinu. Sem gæti auðvitað alveg gerst, þeir komast inn í þvottahús og þangað inn er opið því að þar er líka kattarsandurinn. Svo sagði hann mér að fuglinn væri enn niðri, hann næði honum ekki út. Hann lét þetta þó duga í plati í bili, ég slapp með skrekkinn og þurfti ekkert að hlaupa, hann fór í vinnuna.
Næst var það Stubbalingur. Hann kom hlaupandi innan úr eldhúsi og kallaði:
"Mamma, Hneta er búin að kúka á gólfið!!" Þarna vissi ég nú hvað var í gangi en lék með, enda fannst mér þetta ótrúlega vel til fundið hjá drengnum. Dæturnar eru hins vegar álíka hrekklausar og móðirin og ég býst ekki við að þær séu að atast í fólki á svona dögum.

En ef þú færð hringingu frá Gítarleikaranum í dag, ættirðu að vera á varðbergi!

3 ummæli:

Birgitta sagði...

Svo sætt þegar þessar litlu elskur eru að reyna að gabba mann. Verra þegar gabbið hefur eitthvað með kóngulær að gera :s.

Nafnlaus sagði...

Danskan var víst aprílgabb hjá barnalandi! Hélstu kannski að ég væri svona rosalega dönsk eftir helgarferð til Köben... ha ha

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir okkur í dag.. alltaf gaman að koma í heimsókn í stigahöllina :) Vona að það hafi gengið vel að tjalda!