05 júní, 2008

Allt er þá þrennt er?

Ég gerði það að umtalsefni hér á síðunni fyrr í vetur að Stubbalingur ætti kærustu, sú varð fyrir valinu af því að hún var bæði: "skemmtileg OG sæt" að hans dómi.

Ég tók eftir því undir vor að hann var alveg hættur að minnast á kærustuna, hana S, svo ég spurði hann einn daginn hvort hún væri ekki lengur kærastan hans (eðlileg forvitni móður). Nei var svarið - hún er ekki lengur kærastan mín. Ástæðan: "Æji, hún vildi alltaf vera að kyssa mig". Þannig fór um sjóferð þá.

Nokkrum dögum fyrir útskrift í síðustu viku er ég að sækja hann og þá kemur ein krúttan hlaupandi til hans og spyr hvort hann ætli ekki að segja mömmu sinni... Undir feimnislegum augngotum stúlkunnar sem stóð álengdar, hvíslaði hann því að mér að hann ætlaði að giftast J - hún væri nýja kærastan hans. Þar sem hún er besta vinkona S, spurði ég hvað S fyndist um þetta. Hann sagði að henni væri bara alveg sama, enda væri hún núna kærasta besta vinar hans.

Núna leið ekki nema tæp vika þar til ég fékk tilkynningu um nýja kærustu. "Mamma, núna er BK kærastan mín". BK er líka algjört krútt, eins og hinar tvær. En hvað með J?, spurði ég. "Æji mamma, hún var alltaf að monta sig og segja öllum að hún ætti kærasta og ég væri kærastinn hennar. Svo vildi hún alltaf að ég sæti hjá henni í sögustund".

Þegar ég fór með hann í morgun var sögustund að hefjast og allir sestir í hring. Þegar ég fylgdi honum inn var BK fljót að koma auga á hann og byrjaði strax bendingar um að hann ætti að koma og sitja hjá sér. Hann lét sér fátt um finnast og settist á endann hjá einhverjum stráknum. Skyldi BK falla í ónáð við þetta?

Það fyndna er að í gær var ég einmitt að skoða myndir frá áðurnefndri útskrift. Þar stendur minn maður í fremri röð, með S sér á hægri hönd, BK á vinstri hönd og beint fyrir aftan hann stendur J (sem var einmitt kærastan hans þá). Gat ekki að því gert, en mér duttu í hug línur úr gömlu dægurlagi:

Ég er umvafinn kvenfólki
það get ég svarið
svo minna gagn gera má..........

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Enda er hann algjör sjarmör :) Kann sko alveg að heilla dömurnar!

Birgitta sagði...

Úff hvernig endar þetta ;).

Syngibjörg sagði...

vááá...þú átt ekki von á góðu ef þetta er svona núna, jemundur minn.

(en krúttlegt er þetta)