03 júní, 2008

Mesta furða...

Veit ekki af hverju, en það rifjaðist upp fyrir mér í gær þegar ég var rúmlega tvítug og ólétt. Hvað morgunógleðin olli mér miklu hugarangri og hvað ljósurnar voru ótrúlega þolinmóðar að hlusta á vælið í mér og hughreysta mig og koma með tillögur til úrbóta. Í dag finnst mér þetta óttalegt húmbúkk og skil ekkert í því hvað ég var viðkvæm fyrir sjálfri mér.

Í gær horfði ég líka á gamlar ræmur sem pabbi setti á DVD hérna eitt árið og gaf okkur systrum. Á þessum myndbrotum er ég á aldrinum eins til þriggja ára, elsta systirin tveim árum eldri og sú yngsta einu og hálfu ári yngri en ég (svo hún er skiljanlega ekki á fyrstu myndbrotunum).

Það merkilega er, að stóra systir er alltaf að sópa og stússa og vesenast. Ég er hins vegar oftast grenjandi einhversstaðar hjálparlaus. Var rétt að byrja að staulast um á tveim fótum (skilst ég hafi ekki farið að labba almennilega fyrr en eins og hálfs), en stóra systir alltaf tilbúin að rétt hjálparhönd og styðja litla pirripúkann yfir hindranir lífsins. Hjálpa honum niður tröppurnar, draga hann á snjóþotunni, styðja hann á fætur eftir byltu á skíðum. Getur svosem verið að það hafi bara verið fyrir framan myndavélina og þess á milli hafi ég verið dregin bakvið hurð og hárreitt, held samt ekki....

Svo kemur minnsta dýrið til sögunnar og það er svona duglegt eins og það stærsta. Alltaf eitthvað að stússast og krúttast úti í garði og lætur ekkert hefta sig eða trufla. Held svona ályktað í fljótu bragði, að ég sé eina barnið á myndbandinu með skeifu og tár - og það oftar en tvisvar eða þrisvar...

Mikið rosalega hefur verið erfitt að vera miðjubarn. Alveg merkilegt hvað hefur ræst úr mér!

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Aumingja Marta miðja

Nafnlaus sagði...

Kannast við þetta miðjubarnaheilkenni! Að vera í miðjunni af þremur systrum!!!
En miðjubröltið hefur sennilega bara hert þig og gert þig að því sem þú ert í dag. Bara FLOTT!
Kv Sóley Vet (sem er líka miðja)

Birgitta sagði...

Sko, ég er elstabarn og er líka svona ferlega flott. Það hlýtur eiginlega að þýða að það séu bara yngstu börnin sem verða ekki svona flott eins og elstu og mið ;).

Nafnlaus sagði...

Gott að taka bara vælið út á þessum árum - ekki satt?:)

Nafnlaus sagði...

Marta Hlín Magnadóttir!!!! mikið rosalega er gaman að fá fréttir af þér. mér hlýnaði um hjartarætur við skilaboðunum þínum svei mér þá :)

Anna Malfridur sagði...

Ég held að miðjubarnið hafi nú ekkert alltaf verið skælandi og ódugleg. Ég man ekki betur en að ég hafi hneykslast mikið á því þegar litla krúttið byrjaði í 6 ára bekk þá þurftir þú alltaf að bíða eftir henni til að fylgjast með henni heim úr skólanum. Ég reyndi svona pent að benda þér á að þú hefðir nú labbað ein heim úr skólanum árinu áður... enda ég sem yngsta barn ekki með nokkurn skilning á því að taka tillit til yngri systkina :)