18 júní, 2008

Takk fyrir kaffið

Húsmóðirin í Kópó hringdi í mig eftir síðustu færslu og sagði mér að best væri að vera á Rútstúni á 17.júní. Ég hafði reyndar heyrt þetta áður svo við ákváðum að kíkja, stóra útgáfan af fjölskyldunni.

Eftir því sem styttist í Kópavoginn þéttist umferðin.
Bílum lagt meðfram öllum götum og uppi á túnum.
Massíf mannmergð í kringum sundhöllina.
Brjáluð kássa á Rútstúni.
Mætti halda að téð húsmóðir hafi hringt í ansi marga því að samkvæmt mbl.is hefur aldrei verið annar eins fjöldi á skemmtidagskránni í Kópavogi. Við í fjölskyldunni erum öll jafnmiklir sveitaplebbar því að enginn þorði að fara lengra. Við hröðuðum okkur því stystu leið út úr bænum og rúlluðum út á Álftanes. Þar voru þrír hoppukastalar og engin röð, andlitsmálun, dagskrá og sölutjald. Auk þess var mágkonan á Álftanesi búin að bjóða í þjóðhátíðarkaffi.
Þar fékkst endanleg sönnun þess að matreiðslu- og bökunarhæfileikar karla þykja mun merkilegri en kvenna. Hefst þá sagan:

Þegar mágkonan bauð í kaffi, bauðst Gítarleikarinn til að koma með köku um leið og hann gjóaði augunum á betri helminginn (allavega í eldhúsinu). Ég sagði honum að hann mætti alveg skella í eina stríðstertu, enda legg ég áherslu á að allir sem vilja elda eða baka í eldhúsinu mínu mega það án minnstu afskipta frá mér. Um tveim tímum fyrir brottför minnti ég hann á loforðið. Hann ráfaði áttavilltur um stóru og miklu eldhússkápana okkar, týndist á milli bökunar-, kaffi- og áhaldarekkanna og spurði í sífellu um leiðbeiningar.
Á endanum fann ég fyrir hann uppskrift og það nauðsynlegasta sem vantaði og hann henti í einfalda eplaköku.

Þegar í kaffiboðið kom var þetta sko Alvöru Þjóðhátíðarkaffi og ekkert minna en það. Húsmóðirin var búin að baka risa Pavlovu, jarðarberjaostaköku, bananabrauð og fíneríis hjónabandssælu. Auk þess voru á borðum ostar, kex og tilbehör. En hvað var það sem fékk mestu athyglina hjá ömmunum og frænkunum.... þið megið geta einu sinni og vísbendingin er þessi: það var ekki flotta Pavlovan sem hafði víst aldrei tekist eins vel og EKKI BAKAÐ AF KVENMANNI!!!

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Blessuð.

Segið svo að heimavinnandi húsmæður séu ekki vel tengdar :-) Nei reyndar eftir að vera orðin um 20% Kópavogsbúi miðað við kenninguna góðu sem segir að ég sé þá 60% Ísfirðingur (bjó í millitíðini 20% í Reykjavík ) hef ég aldrei séð annan eins fjölda á Rútstúni en veðrið var svo gott að ég tillti mér bara niður innan um aðra brottlutta vestfirðinga át lopa og hlustaði á tónlistina eins og maður á að gera.

kv út Kópo

Meðalmaðurinn sagði...

já þú ert greinilega meiri hetja og minni vestfirðingur en ég - reynum aftur að ári og verðum þá tímanlega á ferðinni :)

Birgitta sagði...

Svoldið týpískt þetta með kökurnar. Tek sko ofan fyrir kökugerðarmeistaranum (þessum kvenkyns sem átti Pavlovuna!).

Nafnlaus sagði...

Reyndi við Rútstúnið í fyrra. Endaði ekki betur en svo að minnsti maður endaði í geðveikikasti undir söng Skoppu og Skrýtlu og var dreginn öfugur af túninu. Við hétum því að sækja aldrei aftur samkomur af þessu tagi og fórum því út úr bænum þann 17:)!