07 mars, 2008

Jahérna

Heimsóknum á síðuna mína hefur fjölgað all svakalega. Skrítið, ég sem hélt að það væru bara svona 5-10 á dag en teljarinn segir mér að það séu hátt í 40 á dag að meðaltali núna undanfarið. Fréttir af ritsnilld minni hljóta að vera farnar að breiðast út - kemur bara fátt annað til greina!

05 mars, 2008

Uppdeit

Jæja þá, ég er víst ekki óskeikul. Haldiði að það sé ekki bara heilt erindi sem ég mundi ekki eftir. En þökk sé Barmahlíðarbúum að ég get nú rifjað það upp og þið hin með. Þau sendu mér nefnilega þennan fína link:

http://www.kvikmynd.is/video.asp?land=&offset=0&ba=leita&leit=bru%F0ur&id=1439

Kærar þakkir í Barmahlíð og góða skemmtun þið hin!
Vá hvað barnið á mikið af buxum...

Bót...

..ekki í máli, heldur á buxum. Þegar Stubbalingur kom heim fjórða daginn í röð með gat á hné, fór mamman og keypti bætur. Í draslhornið voru þegar komnar þrennar buxur með gat á hné og einar náttbuxur sem voru orðnar kloflausar.
Búin að strauja bætur á fernar og festa í vél til öryggis, restinni verður rimpað saman í saumavélinni.
Átta buxur á dag koma skapinu svo sannarlega í lag !!

04 mars, 2008

Var einhver að kvarta yfir IKEA?

Æji, grenjandi rigning. Ekki er það nú gott ofan í vetrarblúsinn. Er samt loksins að lagast í maganum - svo eitthvað hefur rauðvínið haft að segja þó það tæki smá tíma.

Við Gítarleikarinn ákváðum að láta verða af því að kaupa okkur bókahillur úr IKEA í stofuna - þrátt fyrir andúð hans á því fyrirtæki. Ákvörðunin var tekin yfir pottunum á sunnudagseftirmiðdegi. Seinna um kvöldið kíki ég á ikea.is og sé að þeir eru með pöntunarþjónustu. Ókei, best að prófa.
Þetta var semsagt á sunnudagskvöldi, núna er þriðjudagsmorgun og hillurnar eru uppsettar í stofunni, á bara eftir að festa þær endanlega á vegginn og raða í. Ójá!

02 mars, 2008

Aumingi hvað?

Jæja. Ég er búin að vera furðu hraust í vetur. Sjö-níu-þrettán, knock on Wood og allt það. En undir lok seinni staðlotu með tilheyrandi verkefnaskilum og tímasóknum, sem kom nota bene í lok mikillar vinnutarnar sem hefur staðið sleitulaust síðan skólinn hófst í janúar, fékk ég magakveisu.
Hún er ömurlegt.
Mér finnst ég einhvernveginn ekki vera almennilega veik heldur meira svona aumingi. Bara illt í maganum og orkulaus og þreytt og langar bara að leggja mig og sofa og sofa. Og bara illt í maganum. Og sofa. Og aumingi.
Svo núna verður látið reyna á læknisráðið sem er heimatilbúið og mitt eigið, svo langt sem það nær. Minnug hausverksins sem hrjáði mig marga daga og tók ekkert mark á pilluáti og hvarf ekki fyrr en eftir rauðvínsdrykkju - þá hef ég nú opnað hina fínustu Merlot flösku og er byrjuð að súpa á. Skál!!

(Aumingja Snæfríður í "Stígur og Snæfríður" er líka veik. Hún er nú samt of ung fyrir rauðvín)
Held að ég flokkist sem frekar ópersónulegur bloggari. En hey, það er þá bara minn stíll...

28 febrúar, 2008

Bruðulagið - hver man ekki eftir því?

(Syngist af tilfinningu með Helgumöller röddinni)

ÞESSSAAAAAAAAAAAR
Grófu og fínu
bruður
skaltu fá þér!!
Hitaeiningarnar
ekki munu há þér
Þær bráðna'í munni'og maga
Þær geymst marga daga
Mundu bara'að hafa poka hjá þér

26 febrúar, 2008

6 ára Stubbalingur

Ég er óskaplega hugmyndasnauð þessa dagana og lítið fyrir að blogga. En Stubbalingur á afmæli í dag og því verður hann að sjálfsögðu að fá myndir af sér á síðuna okkar.


Fínt að kíkja í BT blaðið á meðan maður hámar í sig grautinnEkki amalegt að hafa Miktlatúnið í bakgarðinum í þessari snjóatíð!!

21 febrúar, 2008

Sykurveikin

Ég er aftur dottin í súkkulaðipottinn, alveg á bólakaf. Ég sem var rétt ný búin að krafla mig upp á bakkann. Hefði átt að drulla mér alla leiðina upp á land. Ó, mig auma.

20 febrúar, 2008

Hófdrykkja

Mikill hausverkur í gær, engar pillur sem virkuðu. Svo ég þreif - ryksugaði og skúraði, jú kraftaverkin gerast enn! Eldaði fyrir börnin mín og mig, við gengum frá í sameiningu og svo bara hreint og fínt og kerti og kósíheit. Nema hausverkurinn sem engar pillur virkuðu á. Svo kom mamma "heim" og við fengum okkur rauðvín og spjölluðum til miðnættis. Svaf alveg rosalega vel og vaknaði eldhress og laus við allan hausverk. Rauðvín er töfralyf.

14 febrúar, 2008

Staðan

Bara smá uppfærsla á atferlismeðferðarprógrammi.
Á þriðja degi var staðan 2-1 fyrir foreldrum og kvöldið var einstaklega ljúft. Bara prógrammið, bursta-pissa-lesa-hlusta-kúra og síðan ekki múkk í Stubbi.

Á fjórða degi fóru foreldrar út að borða í tilefni af afmæli fagra gítarleikarans. Í stuttu máli þá rústaði Stubbalingur heimasætunni og íbúðinni í leiðinni. Svo nú í morgun voru góð ráð alls ekki ódýr. Foreldrar upphugsuðu ýmislegt sem þau áttu í pokahorninu til að barnið yrði að manni seinna meir en leiddist ekki út í óreglu og vesen vegna slaks uppeldis af þeirra hálfu.

Hvað gerir Stubbalingur þá - jú, hann teflir fram stærsta trompi barns í uppeldisbaráttu við foreldrana og tryggði sér þannig endanlega sigur í fyrstu lotu.

Það var hringt af leikskólanum fyrr í dag. Stubbalingur er veikur.

13 febrúar, 2008

Ammeli I

Þessi fagri Gítarleikari á afmæli í dag - til lukku!!

12 febrúar, 2008

Fugl á dag...

.. kemur skapinu í ólag. Annars fór hann beint að glugganum og ég náði að opna fyrir hann opnanlega fagið á meðan hann slóst við rúðuna. Óvenju stutt drama þarna, nema mamma fékk að fylgjast með í beinni í gegnum símtólið. Fyrirgefðu mamma ef ég blótaði mikið!

Annars er staðan í dag:

Stubbalingur - 1
Foreldrar - 1

En það er alfarið að þakka þolinmæði og stöðugleika Gítarleikarans sem stóð fastur á sínu sama hvað á bjátaði á meðan frúin skrapp að hitta vinkonurnar.

11 febrúar, 2008

Að þreyja Þorrann

Ég er voða dugleg að passa að ég deyi ekki úr hungri. Öllu má þó ofgera svo ég ákvað að hefja örlítið hollustuátak í morgun. Fékk mér grænt te, hrökkbrauð með smjöri og gúrku og ávaxtasafa. En þá mundi ég skyndilega eftir því að Gítarleikarinn hafði keypt Berlínarbollur í gær. Rjómabollur hvað? þær fara bara illa í maga, en Berlínarbollur - það er sko uppáhaldið mitt.
Svo ég át síðustu Berlínarbolluna í eftir-morgunmat. En Róm var heldur ekki byggð á einum degi, ég held bara áfram að byggja á morgun.

Í gær hófst hins vegar annað átak á heimilinu, massíft atferlisátak - Foreldrar vs. Stubbalingur. Gekk vel framan af, móðirin lempaði hvert vandamálið af öðru af miklum liðleika. Þegar klukkan var farin að ganga 12 og móðirin að lýjast gerði hún þau reginmistök að senda Gítarleikarann inn til Stubbalings. Það fór allt í háaloft. Svo staðan í dag er:

Stubbalingur - 1
Foreldrar - 0

En það er sama stefnan þar í gangi, Róm var ekki byggð á einum degi, hvað þá einu kvöldi...

10 febrúar, 2008

The hard way

Já ýmislegt lærir maður af reynslunni. Verandi sá andvökupúki sem ég er, lærði ég fyrir margt löngu að ekki skuli ég drekka kaffi eftir klukkan 7-8 vilji ég ná nætursvefni á innan við 2 klukkustundum. Með miklum þjáningum hef ég einni lært að Pepsi Max má ég líklega ekki drekka eftir klukkan 17, ætli ég að ná að sofna fyrir 3 að nóttu.

Í nótt kom svo til mín enn ein lexían, óumbeðin: Ekki lesa smásögu eftir Ástu Sigurðar fyrir háttinn - allavega ekki Frostrigningu eða Dýrasögu. Ég er nefnilega myrkfælin líka og gamla húsið mitt fullt af hljóðum. Og ýlfrandi hundar á neðri hæðinni.

Hér eftir verður Ásta Sigurðar lesin og kaffið drukkið í björtu!

05 febrúar, 2008

PÚMMMM

Í dag er sprengidagur (hjá mér eru reyndar allir dagar sprengidagar ef út í það er farið). Ég hef aldrei eldað saltkjöt, þrátt fyrir að hafa rekið heimili í hátt í 20 ár - samt finnst mér það voðalega gott. Stundum hef ég vælt út matarboð hjá máginum sem er ekki bara viljugur og góður kokkur, heldur líka duglegur að halda í hefðir. Oft hef ég bara sleppt því að borða saltkjöt.
Núna varð þörfin fyrir saltkjöt á sprengidag allt í einu svo yfirþyrmandi að ég hringdi í pabba gamla og fékk "uppskriftina". Gítarleikarinn skaust í búð eftir kjöti og baunum (hringdi reyndar og spurði hvort það ættu ekki örugglega að vera þessar grænu!!) og ég hanteraði á meðan hann fór með Stubbalingi að vígja skíðin á Miklatúni.

Játs, Stubbalingur fékk gefins gömul skíði í hitteðfyrra og við vorum að láta senda okkur þau að vestan, fínt að byrja að æfa fyrir páskaeggjakeppnina á Seljalandsdal um páskana.

Lyktin læðist um húsið - namminamm....

Sofa urtu börn

á útskerjum

Þegar ég skrönglaðist niður úr lærdómsskoti allt of seint í gærkvöldi, lá litli prinsinn á nærbuxunum öfugum einum fata, á samskeytunum í hjónarúminu með rifinn hauskúpukodda undir sér og ekkert ofan á. Við hliðina var Gítarleikarinn, vandlega innpakkaður í hvíta dúnsæng.

Sofa manna börn
í mjúku rúmi,
bía og kveða,
og babbi þau svæfir....

31 janúar, 2008

Taugarnar


Ég er eitthvað svo slæm á taugum eftir allar sprengingarnar hérna í nágrenninu. Enda er krafturinn í þeim að aukast ef eitthvað er, jörðin hristist undir fótunum á mér minnst 5 sinnum á dag (fer eftir því hvað ég er mikið heima), og alltaf hrekk ég jafnmikið í kút. Hvort sem þeir muna eftir að setja loftvarnarflautuna á áður eða ekki.

Held ég fari og kaupi mér eitthvað hjartastyrkjandi á kostnað verktaka, ætli það megi?

30 janúar, 2008

Meiri þvottur (nú fer stuðið að byrja)

Sko, ætlið þið virkilega að reyna að telja mér trú um það, að það sé í alvörualvöru til fólk sem startar heilbrigðu líferni strax í byrjun janúar? Þessir líkamsræktar- og hollustufrömuðir sem brosa í Fréttablaðinu, 24 stundum og Gestgjafanum, gefa okkur uppskriftir af hollum degi og hvernig eigi að koma sér af stað í ræktinni, er þetta alvöru fólk?

Meina, ekki veitir manni af fituforðanum í mesta kuldanum og myrkrinu í janúar. Enda læt ég svona predikanir ekkert á mig fá, fæ mér bara mitt Sviss Miss og ristað brauð með osti og sultu í hádeginu. Ekkert grænt með því takk.

Þvottadagur

Það er janúar í mannskapnum. Stubbalingur pirraður, erfitt að sofna, erfitt að vakna, erfitt að vera á leikskólanum, erfitt að vera heima, hann er líka búinn að vera svo kvefaður. Miðjukrúttið er ekki heldur upp á sitt besta, únglíngurinn er þreyttur.
Önnin í mínum skóla hófst af krafti strax í upphafi og það eru verkefnaskil og lestur og verkefnaskil, og smá útsaumur og aðeins að prjóna. En daginn lengir, hægt, hægt...

27 janúar, 2008

Smá sending..

... til Birgittu sem býr í landinu þar sem aldrei hreyfir vind.

Svo er bara að hækka í botn og loka augunum!!

22 janúar, 2008

Kósýhvað

Fátt afrekaði ég í langa jólafríinu mínu. Tókst þó að klambra saman þessu kósý horni fyrir Stubbaling, undir rúminu hans. Við vorum í smá stund eins og alvöru hjón, Gítarleikarinn skrúfaði upp lampa og stöng, húsmóðirin saumaði festingar á pullur, utan um gamla dýnu og skreytti svo pullurnar með efnarestum.
Hugmyndin kemur að sjálfsögðu úr IKEA og ætli þetta hafi ekki kostað svona.. tvöþúsundkall - samt kostaði IKEA ferðin mun meira....

Ó vei, ó svei...

Rigning og slagviðri á ný. Þetta var líka of gott til að vera satt. Og afmælisgjöf Stubbalings lögð af stað frá Ísafirði, óvenju snemma. Amma og afi ætla nefnilega að gefa honum útigalla til að nota í öllum snjónum.
SNIFF SNIFF...

19 janúar, 2008

Frumsýning

Hér gefur að líta fyrsta einleik Stubbalings. Hann sjálfur er höfundur, búningahönnuður, leikari og kóreógrafer. Húsmóðirin tók að sér leikstjórn. Njótið.

18 janúar, 2008

.. og eitt til

Miðjumúsin að kenna Músímúsinni á píanó í desember - efnilegar báðar tvær, finnst ykkur ekki?

Perlan

Perlan blasir við mér út um alla gluggana í húsinu sem að henni snúa á annað borð. Því get ég ekki annað en glaðst yfir því að jólin séu búin. Núna er hún upplýst með ólituðum ljósaperum. Rauði og græni liturinn sem hún fær á sig í desember minnir mig nefnilega meira á Sirku Geira Smart en jólin.

Allt stíflað

Það kom semsagt í ljós að tölvan mín var fárveik þegar hún lagðist inn á spítalann, ég sem hélt að þetta væri bara smá kvef. Þegar hún kom loks heim var búið að skipta um harða diskinn, setja nýtt stýrikerfi og nýtt lyklaborð. Váts.
Ég er rétt um það bil að ljúka við að setja inn öll forrit og kynnast tölvunni minni upp á nýtt. Ofan í það er ég auðvitað að setja mig inn í 5 ný fög í skólanum, hvert öðru meira spennandi og áhugaverðara. Núna er ég í tveimur textíláföngum, tveimur bókmenntaáföngum og einum málfræðiáfanga. Ég hef því engan tíma til að stunda útivist eða íþróttir, ég þarf nefnilega að lesa svo mikið af skemmtilegum bókum ;) Ekki slæm afsökun það!!

Þessi færsla er sett inn til að losa um alvarlega ritstíflu og bloggfælni, vona að það sé hér með frá.

12 janúar, 2008

Lasleiki

Tölvan mín er ennþá veik, ég fékk hana bara heim í helgarleyfi af spítalanum og fer með hana aftur á mánudagsmorgunin. Vona samt að hún komi stálslegin til baka eftir seinni lotuna.
Sjálf er ég ekki sú hressasta og segi ég alveg eins og svuntukjeddlingarnar í sögubókunum: Mjöðmin er bara alveg að drepa mig!
Held ég gleypi aðra íbúfen og leggist í flugvélarúmið - það er nefnilega stelpupartý hjá mér í kvöld.... jibbýjey!!

09 janúar, 2008

Skortur á sambandsleysi

Tölvan mín er í yfirhalningu áður en næsta vertíð hefst. Á meðan er ég sambandslaus við umheiminn (lesist: Birgittu, skítt með rest).
Á meðan les ég Óreiðu á striga og gúffa Nóa konfekt (eins og Rakel) - rakst óvart á óopnaðan kassa uppi í skáp og asnaðist til að opna hann. Þá er ekki aftur snúið. Fæ reyndar til mín góðan hóp á laugardaginn og stefni á að geyma nokkra mola fyrir þær. Lofa engu.
Þetta er ritað á smátölvu Gítarleikarans, hún er svo lítil að ég sé hana varla.

07 janúar, 2008

Nojts...

Mér var nær að kvarta. Það eru sko byrjaðar ALVÖRU spreningar í næstu götu við mig. Loftvarnarflautur og alles. Ég sat í sófanum í morgun þegar ég þeyttist allt í einu hátt upp í loft við mikinn hvell, bæði brá mér við hvellinn og eins var dynkurinn svo mikill að þyngdaraflið lét undan. Þegar sjokkið hjaðnaði minntist ég þess að hafa fengið miða inn um lúguna með jólakortaflóðinu. Honum er ég búin að týna. En það stóð á honum eitthvað á þá leið að nú færu sprengingar að hefjast í nýbyggingarreitnum hérna í næstu götu, þetta á víst að standa einhverja mánuði. Jibbíjey. Hjartað nú þegar skroppið helling saman eftir 3 spreningar í dag (á meðan ég var heima við allavega) og verður væntanlega lítið eftir af því með vorinu. Kennaranemi með uppþornar hjarta.. hljómar ekki vel.

p.s. Hvernig gengur ykkur að hætta í óhollustunni? Mér gengur ekki baun og er langt komin með karamellufylltu Birgittukossana :P

06 janúar, 2008

Alveg að springa

Hrikalega er ég orðin ógeðslega viðbjóðslega leið á öllum þessum sprengingum hérna í borginni. Fer þetta ekki bara að verða gott?

Ópersónuleg færsla

Auglýsing frá einhverri prentþjónustu hljómar í sjónvarpinu, klikkt út með "persónuleg þjónusta". Miðjukrúttið spyr: "mamma, hvað er persónuleg þjónusta"?
Ég veit það eiginlega ekki.. meina, er ekki öll þjónusta persónuleg? Hvernig er hægt að vera í samskiptum við aðra manneskju án þess að það verði persónulegt? Eru samskipti tveggja manneskja ekki alltaf persónuleg?
Þessi bloggsíða mín er allavega orðin miklu persónulegri en hún átti að verða í upphafi :P

03 janúar, 2008

AAAAAAAAAAAAndvaka

Síðustu nótt leysti ég heimsmálin, fjármálin og mjúku málin.

- ég var andvaka

Ég samdi mörg snilldarblogg, lengdin hefur væntanlega skagað hátt í þokkalega skáldsögu.

- ég var andvaka

Mig verkjaði í mjaðmirnar, bakið, hnén, bakið mjaðmirnar.

- ég var andvaka

Margt fleira flaug í gegnum hug minn, sem ég er þó blessunarlega búin að gleyma núna.

Í dag var ég þreytt af því að ég var andvaka alla síðustu nótt. Núna ætla ég að hoppa upp í rúm og verða aðeins meira andvaka.. eða ekki.

02 janúar, 2008

Á nýju ári

Á morgun verður...
..ísskápurinn tæmdur
..jólaölinu hellt niður
..smákökudunkarnir tæmdir út í ruslatunni
..konfektrestum sturtað niður í klósettið

Síðan fer húsmóðirin í dýrustu matvöruverslanir landsins. Skáparnir verða fylltir af lífrænt ræktuðum baunum og fræjum og ísskápurinn af soja mjólk og tófú. Eftir heljarinnar skúringar og afþurrkun verður rokið í líkamsræktarstöðina í nágrenninu og hamast í eróbikk.

DJÓK!!

Stefni á að skúra á morgun og nota svo restina af árinu í að láta mér líða vel. Hæfilegur skammtur af óhollustu og hreyfingarleysi er þar efst á blaði. Enn er líka nokkrar eðalbækur ólesnar á náttborðinu, en þeim þarf helst að ljúka áður en skólinn hefst að nýju.

GLEÐILEGT ÁR KÆRU VINIR og munið að gleyma ykkur ekki í áramótaheitunum!

27 desember, 2007

Sykur lekur út um eyrun á mér

Sælgætislaus dagur í dag, eða hvað? Byrjaði vel á tei og skonsu. Smákaka í eftirrétt - það er ekki súkkulaði. En eftir smáköku er leiðin yfir í konfektkrukkuna ansi stutt, eða lakkrísskálina. Það er allavega til nóg af konfekti og lakkrís og smákökum og þá eru freistingarnar bara til að falla fyrir þeim. Gleðilega sælgætisdaga.

16 desember, 2007

Heiladauði punktur is

Ég er svo innilega þurrausin og innantóm og hugmyndasnauð, að þið tryggu tíu eða fimmtán lesendur (skv. sitemeter) verðið bara að njóta þess með mér. Er að bræða með mér hvort ég eigi að nenna í kremið á sörurnar eða bara fara að lesa Yosoy - hún er assgoti grípandi. Fann allavega jóladiskana í dag, eftir mikla leit. Borgardætur komnar á fóninn. Já, svona hljómar blogg hjá heiladauðum húsmæðrum í jólafríi. Værsogod.

14 desember, 2007

Einn alveg búin að fatta út á hvað þetta auglýsingaskrum gengur

Við Stubbalingur erum að baka, það er kveikt á útvarpinu. Einhver bankinn er að auglýsa í krafti Latabæjar, gjöf sem vex og vex..

Já ég veit hvað það er, það er blóm - það vex og vex!!

Vondaveðrið

Okkars eru heima í dag í vonda veðrinu - en ykkars?

11 desember, 2007

Glittir í frítíma!!

Jább. Ég er að komast í gegnum þetta eina ferðina enn. Styttist í annarlok. Skil á prófritgerð í fyrramálið, hún liggur næstum fullbúin við hliðina á mér. Síðasti yfirlestur í kvöld. Þá er ég komin í jólafríhíhíhíhí! Sýnist á ástandinu á mér í dag að fyrstu dagar fari bara í hvíld. Uss, ég á það alveg inni.

10 desember, 2007

Ritgerðasmíð

Váts.. klukkan orðin hálftólf, er ég virkilega búin að sitja í tæpa þrjá tíma yfir bókmenntafræði. Ég er allvega komin á annan kaffibollann (sem laga sjaldnast kaffi fyrir mig eina). Í þetta skipti er það dýrari týpan, með flóaðri mjólk, tveim konfektmolum og einni mandarínu. Maður verður jú að halda orkunni. Áfram með smjörið...

07 desember, 2007

Vetrardekkin


Þrjú þúsund krónunum sem ég borga Sólningu fyrir að geyma dekkin mín, er vel varið. Bakið á mér er vel þess virði.

05 desember, 2007

Uppdeit

Komin vaskur á baðið - þvoði mér samt um hendurnar í eldhúsinu áðan, er orðin svo vön því
Búin í setningafræðiprófi - Jibbí
Búin að skila verkmöppu í sjónlistum - Jibbí
Allt í drasli - þarf að fá Stubbaling til að skúra aftur!

02 desember, 2007

Sveitastrákur

Hann er bara svo mikið yndi að ég verð að leyfa ykkur að njóta með mér. Lagið hef ég aldrei heyrt nema í hans meðförum og þykist ég þó nokkuð fróð í þessum efnum. Hann gerir þetta allavega mjög vel.

Spenningurinn í hámarki

Það stefnir í sögulegan viðburð hjá heimilisfólki í dag. Eins og staðan er núna bendir allt til þess að í kvöld getum við burstað tennurnar á baðherberginu í fyrsta skipti í nýju íbúðinni okkar, það á semsagt að fara að setja upp og tengja baðvaskinn og blöndunartækin. Ekki bara það. Stefnir allt í að það verði komnar hurðar fyrir baðskápana líka (sem voru settir upp í síðustu og þarsíðustu vikur). Bara dekur og ekkert annað.

Fyrir þá sem furða sig á þolinmæði húsmóðurinnar hef ég eitt að segja:

Ég er píanókennari.

Uppdeit - þurfti að nýta restina af þolinmæðinni þar sem vaskurinn kom ekki í dag.. hún er semsagt búin og ríflega það :(

01 desember, 2007

Hneta

Á milli þess sem ég hlusta á fyrirlestur og geri verkefni í setningafræði er gott að hlaupa upp og niður stigana til að festast ekki í mjöðmunum. Hrikalega er maður orðinn gamall og stirður. En hérna er hún Hneta að fá sér vatnssopa í eldhúsglugganum - yfirleitt drekkur hún bara beint úr krananum en þarna var hún meira í stuði til að drekka úr glasi:

Krúttulegur köttur ;-)

28 nóvember, 2007

Talandi um súkkulaði..

... væri alveg til í einn góðan mola núna.

27 nóvember, 2007

Aumingjans ég

Við Stubbalingur "skautuðum" í leikskólann í hálkunni í morgun. Það glitraði og stirndi á héluna á götum og gangstéttum og við sáum saltbílinn sprauta salthnullungum á göturnar. Þegar við komum upp á Rauðu hrúguðust krakkarnir í dyrnar að taka á móti okkur. Einn sagði okkur frá svuntunni sem hann kom með í piparkökubaksturinn, annar sýndi okkur kúrekahattinn og ein stelpan sýndi okkur hvað bleika pilsið hennar var rosalega sítt. Mig langaði mest að fara inn og taka þátt í leiknum, perla og kubba og syngja. Á eftir á að baka piparkökur og svo verður farið í heimsókn á Droplaugarstaði.
Ég þurfti hinsvegar að hundskast heim og læra setningafræði og bókmenntafræði og.. stundum getur verið ömurlega leiðinlegt að vera fullorðinn :(

26 nóvember, 2007

Hneturaunir

Við höfum átt í smá basli með hana Hnetu síðan henni var skilað hingað í miðbæinn eftir hið sæla frelsi á Ísafirði. Já það er ekki auðvelt að vera kastað úr Paradís. Hún hefur alltaf getað gengið örna sinna þegar henni hentar þar sem inn og útgengi hefur verið frjálst - opinn gluggi og/eða stutt í útidyr.
Hérna í miðbæjarsollinum erum við hins vegar á annarri hæð, sem þýðir að ekki stekkur maður út um glugga, fyrir utan að til að komast að útidyrum þarf maður að ganga niður margar tröppur (allt fyrir líkamsræktina). Þar sem Hneta er með eindæmum klár köttur, hef ég ekki einusinni reynt að bjóða henni upp á hallærislegan sandkassa eins og hverju öðru ósjálfbjarga dýri. Kötturinn sem hefur fylgt fjölskyldunni í skóla og leikskóla í mörg ár, og hefur lært að fari hún yfir Miklubrautina þá týnist hún í nokkra daga, getur alveg látið vita þegar hún þarf að komast út og gera þarfir sínar. Núna hefur hún það þannig að þegar við Rökkvi löbbum á leikskólann, þá fylgir hún okkur yfir Miklatúnið og hinkrar svo í garðinum þangað til ég kem til baka og labbar þá með mér heim.
En það hafa nú verið einhver bakslög með blessað pisseríið. Stundum pissar hún í sturtubotninn.. sem er kannski það skásta, en það hefur komið fyrir tvisvar eða þrisvar að hún hefur fundið sér eitthvað á gólfinu, eins og t.d. íþróttatösku, til að míga í á morgnana. Síðast var ég svo reið að ég elti hana út um allt áður en ég henti henni út með formælingum sem hvaða sjóari hefði verið stoltur af. Ég sagði henni jafnframt að hún væri klárari en þetta, allir heima og minnsta málið að finna einhvern til að opna fyrir sig útidyrnar. Síðan þetta gerðist hef ég reynt að grípa hana á morgnana og koma henni út til að koma í veg fyrir slys, hún er mis ánægð með það að þurfa að fara út í rokið og rigninguna og myrkrið. Nú þykist hún vera búin að finna aðferð til að sleppa við það.

Í morgun kom ég að henni á klósettinu, þar sem hún stóð með afturfæturnar ofan í klósettinu, samt ekki ofan í vatninu, og framfæturna uppi á setunni. Sel það ekki dýrara en ég sá það. Treysti þessari nýju aðferð samt mátulega , heldur greip hana glóðvolga og setti hana út. Kettir míga úti, punktur!

25 nóvember, 2007

Ánægjustuðullinn

Var að uppgötva hvað ég er einfaldur persónuleiki. Ef þvottahúsið, eldhúsið og gólfin eru svona nokkurnvegin undir kontról, þá er ég glöð. Þegar allt er í drasli og allt er óhreint og eldhúsvaskurinn fullur og uppþvottavélin líka, þá fyllist ég óyndi. Eins og flestir vita þá er spakmælið: Sé konan ánægð er fjölskyldan ánægð, enn í fullu gildi. Ef ég fæ jafnframt lágmark tvo tíma á laugardegi og aðra tvo á sunnudegi til að sinna skólanum (fer eftir álagi), er ég meira til í að föndra með krökkunum, baka skonsur eða leika við þau.
Svona þarf nú lítið til að gleðja mig, enda er ég einföld sál! Vona bara að Gítarleikarinn lesi þetta....

24 nóvember, 2007

Stelitími

Rosalega er heimanámið mikill tímaþjófur. Ég sé kannski fyrir mér tveggja tíma lotu, vá, tveir tímar í friði og ró að læra.. svo set ég mér áætlun. Og kemst ekki yfir nema eitt atriði af 5. Ég er til dæmis búin að sitja í dútli og frágangi á verkefnum og áður en ég veit af er klukkutími liðinn.
Hlakka til að klára öll verkefnin og prófin og komast í jólafrí. Eða stússifrí. Þá ætla ég að mála og pússa og lakka og sauma gardínur og ganga frá fullt af lausum endum í íbúðinni - já og halda saumaklúbb og matarboð og baka með börnunum og úbbossí.. undirbúa jólin. Vona að ég komist yfir svona 1/5 af því sem ég ætla mér, þá er ég ánægð.

23 nóvember, 2007

Labbitúr í góða veðrinu.

Ég er búin að vera nokkuð dugleg að skilja bílinn eftir síðan ég tók mig á og hef notað (annað) hvert tækifæri til að ganga. En í morgun blöskraði mér svo veðrið að ég ræsti bílinn til að skutla Miðjukrúttinu mínu í skólann. Nú fer Únglíngurinn fram á sama trít.. en það er aðeins meira úr leið fyrir mig :S
Allavega, í sönnum anda Íslendings get ég endalaust býsnast yfir veðrinu..

21 nóvember, 2007

Drama hvað??

Sá þetta hjá henni Birgittu og það átti svo ótrúlega vel við hana, svo ég prófaði auðvitað líka. Hvet ykkur hin til að gera það sama..



Þú ert miðlungssteikt dramadrottning.





Ef dramadrottningar væru hamborgarar sem fengjust
"rare",
"medium rare",
"medium"
og "well done"
værir þú "medium". Miðlungssteiktar dramadrottningar eru konur meðalhófs. Þær eru skynsemisverur miklar, hafa sterka réttlætiskennd og vilja öllum vel. Í raun myndu flestar miðlungssteiktar dramadrottningar frekar vilja vera baunabuff en hamborgari því þá hefðu engin saklaus dýr þurft að líða fyrir samlíkinguna.



Miðlungssteiktar dramadrottningar hafa algera stjórn á dramatíska hluta heilans. Í raun verður sjaldan vart dramatískrar hegðunar hjá hinni miðlungssteiktu. Ekki einu sinni slæmur hárdagur getur raskað ró hennar.



Miðlungssteiktar dramadrottningar eru hæglátar, yfirvegaðar en fylgispakar. Þær eru trúar leiðtoga sínum sem er gjarnan léttsteikta dramadrottningin og fylgja henni oft í blindni. Þegar á reynir er hún hins vegar ekki tilbúin til að hvika frá sannfæringu sinni og á það til að vera samviska þeirrar léttsteiktu og halda henni á jörðinni.



Hversu mikil dramadrottning ert þú?

19 nóvember, 2007

Á öðrum degi í veikindum fékk Stubbalingur nóg af vídeóglápi og ákvað að taka til hendinn á heimilinu. Ekki var vanþörf á að skúra, enda húsmóðirin með eindæmum skúrilöt. Því tók drengurinn sig til og skúraði alla neðri hæðina, megnið af tímanum söng hann við vinnuna til að auka móður sinni yndi.

14 nóvember, 2007

Bílamál

Það vantar á rúðupissið hjá mér, búið að vanta örugglega í 2 vikur eða svo. En það skiptir engu máli því að það er alltaf rigning. Þegar ég fór í skólann um hádegi voru rúðurnar óhreinar. Þegar ég fór heim aftur var búið að rigna. Spurning um að fara að selja ódýrari bíla hérna í Borg Óttans þar sem þessi fítus er ekki til staðar.

13 nóvember, 2007

Umsátursástand

Hneta situr fyrir utan þvottahúsið og mænir á dyrnar. Bíður eftir að komast inn. Húsmóðirin hins vegar er að reyna að koma henni út úr húsi, til að komast í þvottahúsið án þess að hún fylgi með. Í þvottahúsinu er betri von um bráð en úti í garði. Ef hún nær sér í fugl er hins vegar meiri líkur að fjölskyldan verði flóabitin, sem við erum búin að fá nóg af.

Húsmóðirin er líka stirð í kropnnum og ósofin eftir tvær veikindanætur með Stubbaling. Hann er eins og lítill bakaraofn með hósta, ansi hrædd um að við þurfum að sleppa fimleikunum í dag, sem annars er hápunktur vikunnar. Þessa stundina fæ ég reglulega spurningar eins og:
"mamma, hvað þýðir "höbí-dí-von", en "skrf-er-jú", mamma veistu ekkert í útlensku"? Hann er nefnilega að horfa á Star Wars, en ég er að reyna að læra. Svo hef ég ekki sömu þolinmæði og Gítarleikarinn, sem horfir stundum með honum á myndirnar og þýðir jafn óðum.

11 nóvember, 2007

Allt í flækju


Flækjustigið á vinnuborðunum mínum er orðið ansi hátt, eiginlega of hátt til að það sé hægt að einbeita sér að öðru en blogg- og fréttalestri þar. Já, ég bý svo vel að hafa tvö vinnuborð, eitt fyrir bóklegt og annað fyrir verklegt. Þvílíkur lúxus. Veit ekki hvernig ég hefði farið að þessu öllu saman í Mávahlíðinni.

Væri snjallt af mér að nýta kvöldið í tiltekt á borðunum og mæta fersk á "vinnustaðinn" minn stundvíslega klukkan 8:30 - er jú grasekkja fram á miðvikudag.. eða var það fimmtudagur? Fyrst ætla ég samt að bjóða ungunum mínum út að borða, namminamminamm....
(myndin er að sjálfsögðu tekin af verklega borðinu)

Losna ekki við þetta lag af heilanum!

Sofandi hér liggur hann og litla hvílir sál
Svefninn hefur sigrað þetta undurfagra bál
Sængin felur hvíta kinn en litli nebbinn sést
Samt finnast mér þó bláu augun best.

Þetta lag flutti Ruth Reginalds þegar hún var lítið krútt. Ég heyrði það á Barnarásinni á fimmtudaginn og það situr fast. Ég er orðin leið á því og ákvað að færa það hingað.

08 nóvember, 2007

Ónotatilfinning

Verð bara að skrifa mig frá þessu sjokki, er alveg með hraðan hjartslátt og örugglega væg einkenni ofsahræðslu!
Únglingurinn minn hringdi í mig í skólann í morgun og sagði að það væri AFTUR kominn fugl í þvottahúsið. Ég bað hana að fara inn og opna þakgluggann og fara svo bara út aftur. Hún ætlaði nú ekki að þora, ég er auðvitað búin að smita hana af fuglafóbíunni , en herti upp hugann, hetjan mín!
Þegar ég kom heim var hún farin. Ég kíkti inn í þvottahús og sá hvorki kött né fugl, þorði samt ekki að loka glugganum alveg strax. Svo fóru að heyrast hljóð. Mér fannst eins og það kæmi úr herbergi Únglingsins og fékk alvega taugaáfall. Svo fannst mér eins og það kæmi innan úr veggnum og sá fyrir mér Starra, lifandi og dauða sem einangrun í fína húsið mitt. Ég hætti mér inn í Únglingaherbergið og gekk á hljóðið - fann sem betur fer ekki neitt, en hljóðið kom akkúrat frá veggnum sem liggur að þvottahúsinu.
Nújæja.
Ég fór niður, skellti mér í hettupeysu sem er rennd upp að höku og setti á mig hettuna. Síðan fór ég í vettlinga og uppreimaða skó og réðst til inngöngu. Upp við einn vegginn er reist stór masónít plata og þar á milli hafði ungaræksni dottið og komst hvorki lönd né strönd. Ég ýtti aðeins við plötunni, svo hann gat flogið upp - og beint í gluggann fyrir ofan, svo ég opnaði hann (þetta var sko hinn glugginn, ekki þakglugginn) og út flaug ógeðið. Er ekki frá því að þetta sé sami fuglinn og í gær, hann hafi kannski bara pompað þarna niður og Hneta ekki náð í stélið á honum. En allavega.

Ykkur finnst þetta kannski lítil og ómerkileg saga, en vitið þið ekki hvernig mér leið á eftir. Ég skellti aftur báðum gluggum á herberginu, hljóp út og skellti á eftir mér. Reif af mér hettu og vettlinga og hélt að hjartað ætlaði að hamast út úr brjóstinu á mér. Þessi samskipti mín við Starrana undanfarið hafa fyllt mig af svo mikilli fuglahræðslu að ég á líklega aldrei eftir að jafna mig. Núna klæjar mig allstaðar eins og ég sé nýbúin að fá fréttir af lúsafaraldri.
Spurning um að fara að leita sér að áfallahjálp?

Blámann

Nú þarf ég að leita ráða hjá ykkur, kæru lesendur!´
Málið er það að ég keypti mér þessar fínu gallabuxur í GAP þegar ég var í útlöndum. Snilldarbuxur og eins og sniðnar á mig. Nema, þær eru alveg dökkbláar og var varað við að þær gætu látið lit. Núna er ég búin að þvo buxurnar þrisvar eða fjórum sinnum og enn eru þær að lita. Hendurnar verða bláar og ekki get ég verið í ljósu að ofan. Tók líka eftir því áðan að eldhússtóllinn sem ég sit oftast í var kominn með bláa slikju, ekki gott. Vona að einhver kunni gott ráð!

07 nóvember, 2007

Sagan endalausa

Heyrast skruðningar úr þvottahúsi.
Húsmóðir kíkir inn fyrir.
Fugl í glugganum.
Lokað í hvelli.
Meiri skruðningar og læti.
Hvar er kötturinn?
Held að hann sé úti.
Hjúkkitt.
Kíkt inn 2 tímum síðar.
Skyldi húsmóðir ná að taka úr vél og stinga í þurrkara?
Á móti hennar skokkar kötturinn.
Með sælusvip.
Núna er trúlega lík í þvottahúsinu.
Og kötturinn allur í flóm.
Ojbarasta.
Vona að meindýraeyðirinn komst fyrir helgina.

Letihrúgan ég

Bíllinn minn hefur óneitanlega verið besti vinurinn undanfarnar vikur. Ég sem státa af því að búa nálægt leikskólanum og skólanum labba ekki lengra en út á gangstétt þar sem bíllinn er. Reyndar labba ég helst ekki í búð því að bakið mitt á erfitt með að bera þunga poka og ég versla alltaf svo hrikalega mikið.
Veðrið hefur auðvitað haft sitt að segja, t.d. býð ég ekki Stubbaling að labba með hann í leikskólann þegar honum er varla stætt í rokinu og regnið lemur líkamann. En ég er fullorðin, á föt og hef enga afsökun fyrir því að labba ekki í skólann sem er nánast í næsta húsi (allavega á Reykjavíkurmælikvarða). Í morgun var hið ljúfasta veður, aldrei slíku vant og við Stubbalingur fengum okkur göngutúr. Samt er ég þreytt og mygluð og langar mest að skríða upp í aftur. En, hér með lofa ég sjálfri mér því að ganga meira, allavega á meðan ekki er manndrápshálka - enginn er verri þótt hann vökni!

06 nóvember, 2007

Vetur úti..

..og núna ætla ég að fara að elda vetrarsúpuna góðu, skyldi hún verða jafn góð hjá mér og Syngibjörgu?

Hvusslags erðetta eiginlega?

Svo ég noti orð Tóta afa hérna í denn, þá er ég bara alveg BIT á þessu veðri. Hver dagurinn af öðrum tekur á móti manni með úrhellis rigningu, slagviðri og roki. Ég er ekki dyggur hlustandi veðurfrétta, en finnst ég alltaf heyra "búist er við stormi...", þegar ég kveiki á útvarpinu. Eins gott að ég komst aðeins í snjóinn þarna fyrir vestan, annars væri ég líklega farin að grænka á endunum.

Og þetta með að vera bit, eru fleiri sem kannast við þetta orðatiltæki? Man eiginlega bara eftir að hafa heyrt afa nota þetta.

01 nóvember, 2007

Varúð

Sem ég kúrði í turninum á Seljalandi í veðri svo brjáluðu að rúmið hristist, varð mér hugsað til starranna minna á Háteigsveginum. Sá þá fyrir mér í álíka veðri, fjúkandi til og frá, lamdir sundur og saman af hagléli og slyddu, frosnir á tá og trýni.
Frostbarðir fuglar. Hvergi skjól að fá.
Síðan ég kom heim um miðjan dag í gær, hef ég ekki heyrt eitt einasta fuglstíst. Held svei mér þá að mér hafi tekist að drepa þá með hugarorkunni einni saman.

...passið ykkur bara!!

30 október, 2007

Aflýst


Í gær þegar ég tók þessa skemmtilegu mynd var hið fínasta veður. Núna er hríðarbylur og vetrarlegt um að litast. Vona að ég komist heim á morgun, þarf að mæta í skólann eftir hádegi. Þangað til er bara framlenging á dekri :)

29 október, 2007

Andvaka kaka

Klukkan á tölvunni minni sýnir 23:12 og Lubbastingur enn í fullu fjöri. Held að Miðjunni minni hafi tekist að festa svefn þrátt fyrir non-stop spjall þarna inni í herbergi.. eða hvað, er hún kannski að tala við hann?
Allavega, hann segist ekki kunna neina aðferð sem virkar til að sofna. Þegar ég sagði honum að prófa að loka augunum og hugsa um eitthvað fallegt/gott/skemmtilegt. Þá sagði hann bara: "nei mamma, ég er búinn að prófa þá brellu og hún virkar ekki" og hvenær prófaðirðu hana, spurði ég, "Þegar Birgitta sagði mér frá henni fyrst og þá virkaði hún ekki heldur"!! Svo hann vakir bara áfram....

28 október, 2007

Bíó

Ísafjarðarletin hefur gripið mig. Það er svo notalegt að gera sem minnst hérna. Mamma og pabbi sjá um að ákveða hvað á að vera í matinn, kaupa í hann, elda, vaska upp.. ég tek bara þátt í því sem mig langar þá stundina. Kíki svo í bæinn, í heimsókn, í bók. Nema, að þegar mamma ákveður eitthvað, er eins gott að hlýða því og í dag bauð hún mér í bíó. Ég hristi af mér letigallann og druslaðist með henni. Sé sko ekki eftir því. Við fórum nefnilega að sjá Óbeislaða fegurð. Alger snilld, bara snilld, mæli með henni ef þið rekist einhversstaðar á hana. Takk fyrir bíóferðina mamma!

26 október, 2007

Skrítið

Gott að vera sest niður rúmlega 8 og byrjuð að læra, vitandi það að ég fer í skólann eftir hádegi og svo til Ísafjarðar. Jibbí. Skrítið samt að logga sig inn á WebCT og vera þar ein í báðum fögunum sem ég tek í fjarnámi. Bara eins og að sitja ein í kennslustofunni! En þetta er nú bara af því að Birgitta er fjórum tímum á eftir mér, svo að núna sefur hún sem fastast á sínu græna eyra.. eða var það blátt? Best að halda áfram að hlusta á fyrirlestur í setningafræði (birrrrr...)

Skítaveður, skítaveður, skítaveður - það verður orðið gott þegar ég flýg af stað með ungana mína seinnipartinn.

24 október, 2007

mmmmmmmmm

Mér finnst skinka vond. Slepjuleg og bragðlaus. Get hinsvegar alveg látið ofan í mig svokallaða lúxus-skinku og niðursneiddan hamborgarhrygg og þannig fínerí. Ég er lúxusdýr.

23 október, 2007

Jamm

Veturinn hefur hreiðrað um sig í kroppinum mínum. Ég vil bara vera í sokkabuxum, síðermabolum, ullarpeysum, þykkum sokkum og safna hári.. allstaðar. Munninn langar í sætt, magann langar í feitt. Heitt sviss miss og ristað brauð með miklum osti. Feitt kjöt með matarmiklum sósum. Fiskibollur með lauksmjöri og kartöflum. Ekkert grænt með því takk.
Svosem gott og blessað, mér er alltaf kalt svo það hentar mér vel að vera í hlýjum fötum. Öllu verra með mataræðið, kroppurinn minn hefur ekki yfir að ráða meltingarstarfsemi sem orkar svona. Húðin verður óhrein og maginn bólgnar með tilheyrandi óþægindum. Æji mér er illt í maganum. Koma tímar koma ráð, á meðan ég hlýði frekar munni og maga en heilanum, verð ég bara að lifa við þetta. Bon appetit!

Sumt er of gott til að stela því EKKI


Linda Evangelista:
„Það var Guð sem gerði mig svona fallega. Ef ég væri það ekki þá hefði ég orðið kennari."



...........og þá vitiði þið af hverju ég er í kennara-háskólanum!

22 október, 2007

Vá hvað tíminn flýgur. Október er bara að hverfa út í buskann, enda nóg að gera. Verkefnaskil, Ameríkuferð, staðlota, meiri verkefnaskil og svo er ég að fara til Ísafjarðar um næstu helgi með yngra hollið.. og þá er bara kominn nóvember. Ósköp verður nú notalegt að komast til mömmu og pabba.
Ójá...

21 október, 2007

Nína Rakel og Arna

Fékk svo góða heimsókn í vikunni. Veit ekki hvað það er með þessa litlu dömu, held að við hljótum að hafa verið systur í fyrra lífi, mér finnst ég eiga svo mikið í henni.

Náði m.a.s. þessari fínu mynd af þeim mæðgum saman.
Henni fannst Rökkvi auðvitað samt skemmtilegastur. Hann fékk að halda á henni áður en þær fóru heim.

Myndablogg frá Ameríku

Þetta er ekki bara garðurinn hennar Birgittu, heldur líka útsýnið úr lærdómsaðstöðunni hennar í Ameríku. Mesta furða að við lærðum ekki meira...

Stóðum okkur aðeins betur inni á Manhattan heldur en í moll-leiðangrinum okkar.






Það er miklu skemmtilegra að ráfa á milli búða í miðbænum og kíkja svo á pöbb til að hvíla lúna fætur áður en haldið er áfram.






Fengum okkur að borða á Bubba Gump Shrimps. Minnir að maturinn hafi verið fínn, en kokkteilarnir voru geðveikir!!

17 október, 2007

Stubbalingur og Stubbalína



Mátti til með að setja inn þessa mynd sem ég fékk senda frá leikskólanum. Þvílík innlifun!

16 október, 2007

sungið við undirleik

"sorpritin selja ófarir náungans" syngur Stubbalingur inni í herbergi á milli þess sem hann hnerrar. Aðrir sálmar aftur komnir í uppáhald. Ákvað að hafa hann heima þar sem hann hóstaði í alla nótt og það á víst að vera mjög kalt í dag. Honum leist vel á það, takk fyrir að leyfa mér að vera heima elsku mamma mín! Gott að honum leiðist ekki einum með mömmu gömlu.

..veit að þið eruð orðin leið á þessum fuglafærslum..

..en ef ég ætti haglabyssu (og kynni á hana) myndi ég sko stökkva út á svalir núna og skjóta alla starra sem ég sæi til. Friðaðir hvað! Ég þoli ekki að heyra þetta tísta hérna innan um allt þakskegg hjá mér. Sérstaklega ekki eftir að ég komst að því að þeim tekst að troða sér með þakskegginu inn í þvottahúsið (sem er auðvitað ekki frágengið). Við Hneta erum saman í liði og hún náði einum þannig og í sameiningu tókst okkur að hrekja hinn út sömu leið. Eftir þetta er alltaf kyrfilega lokað inn í þvottahús.
Djö*** ófriður af þessu liði!!

15 október, 2007

Sykursjokk

Vá hvað ég svaf illa í nótt. Vaknaði og bylti mér og dreymdi mikið, var á fullu að flytja, klára og skila verkefnum. Þetta er það sem hann Tóti afi heitinn kallaði "draumarugl". En mér hefndist semsagt fyrir allt sykurátið í gær og byrja daginn í dag full fyrirheita. Kannski ég reyni bara að taka einn dag í einu.

Í dag ætla ég ekki að borða sykur (nema sem hluta af eðilegum matarskammti).

14 október, 2007

Snilldartaktar!

Byrjaði daginn á bakstri fyrir afmæli minnar kæru frænku. Agalega fín ostakaka með oreo kexi, smjöri og pecan hnetum í botninum. Ofan á það fer skyr, rjómi, rjómaostur og vanillubúðingur eftir kúnstarinnar reglum. Allt fer þetta í réttum lögum ofan í gamla lúna smelluformið mitt. Sem ég er að forfæra gúmmulaðið af eldhúsbekknum yfir í ísskápinn, verður mér á að reka puttann lítillega upp undir botninn á forminu. Við það gerir tertan sér lítið fyrir og hoppar upp úr forminu og skellur á gólfinu..

AAARRRRGGGHHHH!!

En betur fór en á horfðist. Ég hafði nefnilega sett ríkulega af bökunarpappír í botninn og það fór ekki svo mikið sem sletta út fyrir hann. Svo ég raðaði tertunni eftir bestu getu ofan af pappírnum og í formið aftur og inn í ísskáp. Hef ekki treyst mér enn til að skoða hvort hún er afmælishæf.
Get ekki annað en pælt í hvort að ég hafi verið skjálfhent af völdum morgunverðarins. Hann samanstóð af einu súkkulaðihúðuðu oreo kexi (hefðu orðið fleiri ef fjölskyldan hefði ekki fengið sinn skammt og restin farið í kökuna), tveim lúkum af Hrís kúlum og einni eða tveim að súkkulaðirúsinum. Svo sleikti ég auðvitað restina innan úr skyr/rjóma/vanillubúðings/rjómaosts skálinni og hvolfi í mig úr tveim vatnsglösum með þessu. Kannski ekki það staðbesta, en vatnið er allavega hollt!

Annars bara óska ég afmælisstelpum dagsins innilega til hamingju, en það eru:
Eva Baldursdóttir 10 ára
Anna Borg Friðjónsdóttir 13 ára
Kartín María Gísladóttir 16 ára.

Allt rosalega flottar stelpur!!!

12 október, 2007

Úr fuglahúsinu

Ég veit að málshátturinn: betri er einn fugl í hendi en tveir í skógi, er ekki beint um fugla heldur meira svona myndlíking. Ég vil samt breyta honum í: betri er enginn fugl í húsi en hundrað í skógi, og þá er ég að meina fugla hundraðprósent.. engin myndlíking. Er að bræða með mér hvort ég eigi að herða mig upp og hleypa út úr arninum eða bara bíða eftir Gítarleikaranum...

Ást í poka

Ég spurði stubbaling af hverju hann ætlaði að giftast Snædísi og það stóð ekki á svari. Af því að hún er sæt og skemmtileg. Og er það ekki bara besta ástæða í heimi?

10 október, 2007

Áminning

Iðullega verða utanlandsferðir mér sem kennslustund í kurteisi. Ekki það að ég sé neitt sérlega ókurteis ung kona. Þegar ég kem á kassa í Bónus með yfirfullafimmmannafjölskyldukörfu, þá hleypi ég bólugrafna unglingnum með kók og samloku fram fyrir mig. Eða heilsufríkinu sem er með Egils Kristal og orkustöng. En ég er samt íslenskur víkingur í vígaham inn við beinið. Þegar ég er í matvöruverslun er þetta hugsanagangurinn:
- æji ég dríf mig bara og verð komin á kassann á undan
- hann hlýtur að víkja, ég er að flýta mér
- heilsa sko ekki ókunnugum
- spjalla ekki við manninn á kassanum því að við erum bæði að flýta okkur svo mikið
- bið engan um aðstoð og aðstoða engan á móti.
Í Bandaríkjunum virðist þetta vera allt öðruvísi. Þar er innkaupaferð í matvörubúðina meira eins og gönguferð í garðinum. Ekkert leiðinlegt sem maður þarf að drífa af. Allir brosa og enginn er í kerrukappakstri. Hvað þá þetta stress að drífa sig að henda öllu sem hraðast ofan í pokann til að næsti komist að. Sinn er siður í landi hverju, þannig er þetta bara! Mér sýndist þeir reyndar lítið skárri en við í umferðinni blessaðir Bandaríkjamennirnir, en það er annar handleggur.

03 október, 2007

Ferðalag og klipping





Skrítið að knúsa krúttin sín í morgun og vita að maður fær ekki að knúsa þau aftur fyrr en eftir 6 daga, vá.. ekki fyrr en næsta þriðjudag! En þau verða í góðum höndum, og ég líka.

Fór með yngri krúttin í klippingu í gær og tók fyrir/eftir myndir. Miðjukrúttið fékk reyndar fastar fléttur eftir klippinguna svo það sést ekki alveg hvað það var tekið mikið af hárinu á henni. Stubbalingur fékk gel. Best ég skelli inn myndunum...

02 október, 2007

Pomppp...


Málarinn er að vinna niðri og hóaði í mig áðan til að spyrja hvort við værum búin að breyta arninum í fuglabúr. Og viti menn, litla stýrið hafði ratað niður. Ekki eins fjörmikill að klessa á glerið eins og sá fyrri, enda þrekaður eftir tveggja daga veru í rörunum. Tók því ekki að grilla hann svo við slepptum honum út. Jæja, hvenær skyldi svo næsti detta niður...



(Þessi kom m.a. þegar ég gúgglaði starra. Aldrei mundi ég skýra son minn Starra)

Vængjasláttur í stromprennum

Við Hneta erum alveg með það á hreinu að það er óvættur í strompnum. Hneta er mikill veiðiköttur og veit sínu viti í þessum málum. Þetta er meira svona tíst og þrusk en strigabassa ho-ho-hó, svo jólasveinninn er ekki inni í myndinni. Gítarleikarinn verður settur í nefnd á meðan ég hef það gott í NY.

Þeir sem vilja fleiri sögur af Hnetu er bent á að lesa tvær færslur á þessari síðu. Önnur heitir: Kisa mín og hin: Ég vatna músum. Snilldarfærslur!

01 október, 2007

Til Birgittu í USA

Ég er í textíláfanga í vetur sem heitir vélsaumur og efnisfræði. Þar hafa verið lögð fyrir okkur ýmis skemmtileg verkefni sem við höfum leyst með aðstoð saumavélarinnar. Eitt af verkefnunum var að gera dýr eða fígúrur sem gætu hentað fyrir börn á yngsta stigi og upp úr, úr mismunandi efni og með mismunandi aðferðum. Ég ákvað að gera drauga. Hana Birgittu í Ameríku langaði svo að sjá hvað ég var alltaf að bardúsa í saumavélinni svo ég skelli hérna mynd af draugakrúttunum mínum.

Þarna sitja þeir allir stilltir og prúðir í stofuglugganum í risinu. Flott útsýni.
Önnur uppstilling, þarna hanga þeir sem eiga að hanga, hinir sitja sem fastast.
Þarna var Rauði draugurinn kominn í fýlu og vildi ekki vera á fleiri myndum, svo þú sérð hvað hann er huggulegur að aftan.

Svo sjáumst við bara eftir 2 daga Birgitta mín. Varstu ekki örugglega búin að taka upp rauðvínsglösin?






(Hver er sætastur?)

hrollllllur..

Jább, er orðin nokkuð viss um að strompurinn sé stíflaður af ógeði. Líklega ekki eins skynsömu og fyrra eintakinu þar sem þetta ratar ekki niður í kamínuna, sem er líklega eina leiðin út. Ojbarasta. Þurfti að henda Hnetu út því að hún pissaði á gólfið. Margt að gerast í morgunsárið.

The Birds 2?

Ætla rétt að vona að það sé ekki einhver ógeðsfuglinn búinn að finna sér leið inn til mín. Þá tryllist ég. Er búin að heyra einhver dularfull hljóð hérna uppi í risi í morgun. Tvisvar. Finn samt ekki neitt. Hneta var líka mjög skrítin í morgun og starði í sífellu upp eftir kamínunni. Ég sá nú ekkert þar, kannski eitthvað ógeðið sé fast í strompnum. Ef svo er, þá fær Gítarleikarinn sko að grilla það á morgun þegar hann kemur frá útlöndum. Sko eins gott að kenna þessu liði í eitt skipti fyrir öll, hvað það getur haft í för með sér að villast inn til Geðveiku Hitchcock Húsmóðurinnar. Læt vita ef eitthvað markvert gerist. Vonandi ekki.

29 september, 2007

Aðlögunarhæfni

Það er ekki langt síðan ég komst bara þokkalega af með að fara í sturtu annan hvern dag. Það kom jafnvel fyrir að það liðu hátt í 3 dagar á milli baðferða. Og ég var bara ekkert skítug eða illa lyktandi þrátt fyrir það (held ég..) En eftir að sturtan okkar komst loksins í lag, er ég ómöguleg ef ég fer ekki í sturtu minnst einu sinni á dag. Merkilegt.

26 september, 2007

Brúðarbjöllur hljóma...

Stubbalingur sagði mér áðan í bílnum að hann væri ekki enn búinn að læra nýja heimilisfangið sitt. Svo ég sagði honum það og hann endurtók nokkrum sinnum upphátt. Hann þarf sko að vita, svo hann geti sagt Snædísi. Þá gæti hún nefnilega fundið símanúmerið hans og hringt í hann ef hún ákveður hvenær þau ætla að giftast. Svo ætlar hann að fá hennar heimilisfang til að geta gert það sama ef hann ætlar að ákveða dagsetninguna.
"Núna er ég nefnilega búinn að ákveða að ég ætli að giftast Snædísi, það er svo gott að vera búinn að ákveða hverjum maður ætlar að giftast nefnilega"! Og þar hafið þið það!

23 september, 2007

Friður og ró

Gott að koma heim. Samt er allt í drasli. Þarf að fara að eyða eins og einni helgi heima hjá mér og sjá hvort að draslið minnki ekki. Gæti virkað.

19 september, 2007

Teflt á tæpasta vað

Já, ég lifi hættulegu lífi. Ég hef nefnilega bitið það í mig að áframsenda aldrei póst sem hótar mér óhamingju, örkumli og vinamissi, áframsendi ég hann EKKI. Samt er ég mjög hamingjusöm, á fullt af vinum og nóg af peningum. En ef það fer að halla á ógæfuhliðina hjá mér, þá vitið þið hvers vegna....

18 september, 2007

Klikkun

Stend hérna yfir pottunum á þriðjudegi að malla gúllas ofan í ungana mína, er að spá í að skella í kartöflumús líka, nei ekki úr pakka! Gítarleikarinn í útlöndum, eflaust farinn út að borða á einhvern ægilega flottan stað og þarf hvorki að elda né vaska upp. En, mest langar mig í rauðvínsglas. Hvort er ég klikkuð eða rugluð? Eða var ég kannski Frakki í fyrra lífi? Tekur því allavega ekki að opna flösku fyrir mig eina svona á þriðjudegi, bíð með það eitthvað frameftir vikunni.
Og er ekki Nigella farin að elda í sjónvarpinu mínu, ekki var það nú til að minnka löngunina. Hún er nefnilega einstaklega rauðvínsleg kjellan!

Fuglakvak í morgunsárið

Fuglar eru ógeð, eða það finnst mér allavega. Ástæðan fyrir þessari skoðun minni er sú að í ófrágengna þakskegginu á nýja húsinu okkar eru heilu hrúgurnar af starrahreiðrum. Þeir sem til þekkja vita sjálfsagt að þeim fylgja lýs. Fyrstu bitin fékk ég í sumar þegar ég var að mála svaladyrnar. Síðan hef ég verið bitin reglulega en hef ekki getað rakið þau bit til útiveru, því miður. Ég veit ekki hvar þetta ógeð kemst inn í íbúðina mína, en ég hef fundið það út að það er einhversstaðar á neðri hæðinni, merkilegt nokk. Líklega í gegnum óþéttu og ónýtu gluggana (fyrirgefið, sagði ég "nýja" húsið okkar...). Svo að þegar ég vakna klukkan 6 á morgnana við fuglakvak rétt fyrir utan gluggann, þá fer um mig ógeðshrollur.
Tók þó steininn úr núna í morgun. Er búin að vera að heyra óvenju hátt í einhverri skríkjunni. Sem ég labba niður á neðri hæð, sé ég útundan mér hreyfingu í fínu kamínunni okkar. Í henni eru gluggar á þrjá vegu og starrafíflið skemmti sér við að klessa á þá til skiptis. Ógeðshrollur dauðans. Hvernig í andsk** á ég að koma vibbanum út?
Vopnuð pappakassa (jújú, nóg af þeim hérna) opnaði ég glerhurðina. Litla fíflið fattaði ekki að ég var að reyna að bjarga því með að koma því ofan í kassann, svo það flaug bara á sótugt bakið í ofninum, aftur og aftur. Loks smeygði hann sér fram hjá mér og kassanum og tók stefnuna beint á ... neinei, auðvitað ekki svaladyrnar sem ég var búin að opna, heldur háa gluggann beint á móti.
KRASSSSS.. árekstur við gluggann og lending á Pet Shop dótinu í gluggakistunni sem Stubbalingur og Miðjubarnið voru búin að raða svo fínt upp. Ekki ætlaði ég að fara að koma við þennan viðbjóð berum höndum, ábyggilega allur í lús og ógeði. Eftir smá stympingar og nokkrar klessur á stóru stofugluggana mína, tókst mér að beina illfyglinu út um svaladyrnar.

Spurning um að hringja í Blikkarann og heimta afslátt, strompurinn sem hann kom upp fyrir einhverja hundraðþúsundkalla er ekki fuglaheldur!

(Náðist ekki mynd af illfyglinu í ofninum, í glerinu speglaðist bara óttaslegið og ógeðsgrett andlit húsfreyjunnar með pappakassann)

Bros dagsins

17 september, 2007

Ellin farin að færast yfir?

Ó mig auman. Ósköp er ég þreytt og rytjuleg í dag. Bakið er lúið og geyspinn ekki langt undan. Ekki alveg mín deild að sofa uppi á sviði, á dýnu sem er 150 cm á lengd, með 4 konur í kringum mig og 15 ellefu ára stelpur á næsta palli. Vaknaði við minnsta hóst og brölt. Best að vinna í að ná upp svefninum fljótlega. Ekki hægt að vera svona.

13 september, 2007

Litagleði


Ósköp var ljúft að koma út í morgun, engin rigning sem lamdi andlitið og ekkert rok sem skók líkamann. Notalegt að labba í skólann í fylgd Miðjubarnsins, við erum svo heppnar að skólarnir okkar eru á sama punktinum. Hún var eins og lítið litaspjald, í gulu buxunum sínum, grænum regnstakk með neongræna húfu og græna skólatösku, skórnir túrkisbláir. Enda er hún mikið fyrir glaðlega liti og grænt er uppáhaldsliturinn hennar. Mamman í öllu grænu nema skónum sem eru appelsínugulir. jájá, skrautlegar mæðgur. Myndina af þessum fallegu berjum tók ég hins vegar úti í garði hjá mér í vikunni.

12 september, 2007

Innkaupalistinn

Húsmóðirin og Únglíngurinn sátu við eldhúsborðið og settu saman innkaupalista fyrir afmæli. Stubbaling sárvantaði athygli svo hann dró stóra hægindastólinn að endanum á borðinu og tók að hoppa í honum af öllum kröftum. Sem hann veit að hann má ekki. Húsmóðirin ákvað að vera ekki með neitt hálfkák og tuð, heldur áminna á áhrifaríkan hátt. Hún lagði frá sér pennann, leit upp, og horfði beint á Stubbinn og sagði mjög ákveðið: Rjómi, RJÓMI!! þú veist þú mátt ekki... Svo sprungum við öll úr hlátri.

Hver var það aftur sem sagði að konur gætu gert tvennt í einu?

07 september, 2007

Superwoman

Ég er búin að vera í leiðindagír undanfarna daga. Nenni ekki neinu. Þegar ég ætla að hrista þetta af mér og gera eitthvað, fer tíminn í að pirra mig yfir því sem þarf að gera ÁÐUR en ég geri það sem ég get gert. Svo ég geri bara ekki neitt. Er búin að hanga þeim mun meira í tölvunni, eins og lesendur hafa líklega orðið varir við. Veit að þetta bráðnar af mér á morgun, þá fletti ég upp skyrtunni og stóra essið á bringunni kemur í ljós, gleraugun hrökkva af nefinu á mér og lærin verða vöðvastælt. Þá verður sko tekið á málunum. Þangað til ætla ég að hanga í tölvunni og borða allt súkkulaði og allan ís sem ég finn í íbúðinni. Jebb, thank God it's Friday!!