30 desember, 2006

Gítarvillibráðaveisla

Ísskápurinn minn er fullur af góðgæti. Fór í 3 búðir í morgun til að útvega allt sem þarf fyrir villibráðaveislu gítarleikaranna á morgun. Ekki allt reyndar, sumt var þegar búið að skjóta og koma í hús. Restin af deginum fer svo í að safna matarlyst fyrir morgundaginn... og baka eina köku fyrir afmælisbarn morgundagsins.

Ég hlakka svoooooo til!

24 desember, 2006

Gleðileg jól


Gleðileg jól kæru bloggvinir!!

20 desember, 2006

Stilla


Komin í kyrrðina
í fjörðinn

fagra










(Fór upp í flugvélina í Borg Óttans, í grenjandi rigningu, roki og slagviðri. Lenti hérna í logni og stillu - og fjöllin orðin röndótt af snjóleysi)

19 desember, 2006

Less is more

Mottóið mitt hérna á síðunni er: "Meira er minna", en þar sem einn af fáum dyggum lesendum skildi ekki síðustu (þarsíðustu..?) færslu, þá hef ég ákveðið að brjóta mottóið. Svo Rakel, þessi er fyrir þig:

Þannig vill til að maðurinn minn er Gítaristi (sbr. alkohól-isti). Hann er mjög háður gítarnum sínum. Í bílnum, eftir langan dag í vinnunni, er það hugsunin um gítarinn (sem bíður hans heima),sem heldur honum vakandi á leiðinni. Ég heyri hann opna dyrnar, fara úr skónum, strunsa inn í herbergi (þar sem gítarinn sefur á daginn) og svo.... HEYRIST LAG!!!

OK, burtséð frá því sem þetta segir um okkar samband, hvað segir þetta þá um heimilislífið? Við erum búin að ræða þetta hjónin, og hann er búinn að játa það fyrir mér að hann sé háður gítarnum. Við erum að vinna í þessu í sameiningu..

En hvaðan kom þessi gítar.. eins gott að það fylgi með Rakel mín:

ÉG GAF HONUM HELVÍTIS GÍTARINN Í AFMÆLISGJÖF!!!!

...get bara sjálfri mér um kennt...

Hátíð í bæ!!

Hvað get ég annað sagt en: "jeyyy" og: "veiii", nú mega jólin koma. En ég er farin. Út á land, þar sem umferðin er ekki svona mikil. Jólastressið snýst meira um að hitta einhverja í bakaríinu og óska gleðilegra jóla. Innst inni er ég algjör smábærjarpía, kannski líka yst úti???

13 desember, 2006

Ég sé rautt (en þú?)


Stærðfræðin er farin að leka út úr eyrunum á mér. Ekki nógu mikið samt til að ég skilji allt. Það eina sem ég er þakklát fyrir í kvöld (fyrir utan börnin mín og manninn minn og fjölskylduna og ....) er að prófið skuli ekki vera á morgun. Það gefur mér tækifæri til að halda áfram að rota heilann, löngu hætt að brjót'ann. Vona að ég komist heil frá þessu því að ekki tekur skárra við!

En ég er ung og frísk og þetta er bara það eina sem ég get kvartað yfir, og því geri ég það!

11 desember, 2006

Ég fór að lær' á gítarinn...



Olive Oyl stendur á ganginum með töskurnar sínar og segir við Popeye (sjáið fyrir ykkur talblöðru): Ég get þetta ekki lengur, í hvert skipti sem ég opna spínatdós heyrist alltaf sama lagið!

Ég er aðeins farin að skilja hvernig henni líður. Í hvert skipti sem maðurinn minn kemur heim, heyrist lag. Reyndar ekki alltaf það sama....

Sótthiti

Það er til sms-blogg og mynda-blogg, hvenær verður til hugsanablogg? Þá verð ég nú aldeilis afkastamikill bloggari. Á andvökunóttum er ég snilldarbloggari, tala nú ekki um eins og í nótt þegar ég vaknaði klukkan fimm og vakti til að verða 7, með hita og kuldakrampa til skiptis. Þá var nú margt spekingslegt og djúpt sem rann í gegnum hugann. En ekki núna. Enda væri þetta kannski ekki eins spekingslegt og djúpt í dagsljósinu...

Ömurlegt að vera veikur í miðjum próflestri Ö - MUR - LEGT !!!

08 desember, 2006

Ljóð dagsins

Framan á Birtu er mynd af huggulegum konum sem eru annálaðar fyrir smartheit.
Eins og oft áður.
Þær eru að gefa fötin sín og mér sýnist að þær séu að hvetja fleiri til að gera slíkt hið sama. Er ekki viss, er ekki búin að lesa greinina inni í blaðinu.
Frekar en oft áður.
Kíki inn í skápinn minn, oflhlaðinn af fötum sem ég nota ekki. Nenni ekki að taka til og sortera og gefa.
Frekar en oft áður.
En það verður allavega bjart á tröppunum mínum í kvöld.
Sem aldrei fyrr.

Verði ljós!!

Já það er aldeilis stór dagur í húsinu!! Það er sko mættur rafvirki á tröppurnar sem ætlar að tengja nýja útiljósið OG setja tengi fyrir nýju útiseríuna sem við erum búin að kaupa. Þetta teljast stórfréttir á framtakslitla heimilinu sem er búið að vera útiljóslaust hátt í tvö ár.. og aldrei verið klesst neinni seríu á það utandyra.

Þó ég gleðjist mjög í hjarta mínu veit ég um annan sem gleðst líka innilega, og það er hann mágur minn sem er alltaf að skjóta því á mig hvað það sé dimmt og drungalegt að horfa hérna yfir til okkar. Bara af því að hann er svo duglegur sjálfur í seríunum. Bjartir dagar og bjartar nætur framundan.. JIBBÍÍÍÍ

06 desember, 2006

Uppgötvun dagsins

Mér finnst kleinuhringur vondur... JIBBÍ!!!!

Sagan af brauðinu dýra

Er allt að hækka eða er ég bara orðin svona nísk? Villtist inn í 10/11 í gær, hvað er eiginlega í gangi.. er þetta ekki verslunarKEÐJA? Þetta er eins og dýrasta sjoppa í miðjum óbyggðum. Meina sko, ef Pepsi dósin er á 150 kall þá getið þið bara reynt að giska hvað allt hitt kostaði. Svo er það Bakarameistarinn í Suðurveri, örugglega dýrasta bakarí á landinu, enda fer ég helst ekki þangað. Þar kostar ostaslaufa: ostur + hveiti + rafmagn = 185.-

Jájá, dýr myndi Hafliði allur. Mér líður eins og pabbanum í Djöflaeyjunni sem dró upp gamla, lúna veskið til að punga út fyrir ólíklegustu hlutum... með tregðu!

05 desember, 2006

Aðferðarfræði

Eftir að hafa verið úti öll kvöld frá þriðjudegi til laugardags (sko bæði meðtalin!!) í síðustu viku, fannst mér bara eins og ég væri komin í jólafrí á sunnudaginn. En það var nú ekki svo gott, þá tók námið við af fullum krafti.. ekkert jólastúss hér.

Þessi leiðinlega bloggfærsla er í boði aðferðarfræði, hvað getur maður verið annað en andlaus og leiðinlegur eftir allan þennan lestur!!

04 desember, 2006

Mjólkursleikir

.. er einn af jólasveinunum.. segir Stubbalingur. Passar svo sem vel við nöfnin á hinum sveinunum.

(Sirius Konsum Orange er rosalega gott)

01 desember, 2006

Meðal-ofurkona

Meðalmaðurinn hefur í mörgu að snúast þessa dagana. Aðallega við að uppfylla félagslegar væntingar og láta sjá sig á réttu stöðunum á réttum tíma. Svo miklar félagslegar skyldur, svo lítill tími til að sinna náminu *andvarp*. Sé fram á örlítið - ekki mikið samt- rólegri daga í næstu viku, svo róast þetta líklega eitthvað eftir því sem líður á desember og deyr væntanlega alveg undir áramótin. Je sjor...

Allavega verður morgundagurinn helgaður brúðkaupi krúttulegu mágkonunnar og hennar manni. Ekki leiðinlegt...

(Meðalmaðurinn tekur commenti Birgittu hérna á undan sem hreinu og tæru hrósi, finnst samt ennþá smartara að vera Meðalmaður en Ofurkona.. því að ofurkonan er jú orðin frekar þreytt en það hefur Meðalmaðurinn hins vegar alltaf verið.. ekkert nýtt undir sólinni)

27 nóvember, 2006

Mjúkt og loðið

Krúttlegasta sem ég veit (fyrir utan börnin mín) eru þessar Pöndur sem ég fann á síðunni hennar Sigurrósar.

Njótið!!

24 nóvember, 2006

Nælon hvað?

Hver fann eiginlega upp nælonsokkabuxur??? Það er eins og að fara í fangelsi að klæða sig í þetta helv*** Maður missir reyndar nokkur kíló af lærum og rassi (ekki að ég hafi endilega þurft þess) en í staðinn verður maginn bara meiri (ekki það sem ég var að sækjast eftir)

Minnir mig á atriði úr síðasta áramótaskaupi þegar tággrönn og hugguleg kona kom inn í verslun að máta föt og vildi alltaf minni og minni jakka og buxur.. endaði með því að hún var orðin eins og rúllupylsa. Þá er nú betra að sleppa nælondraslinu (já, hljómsveitinni líka) og halda sig við sína stærð...(nema að núna er ég föst í helv** sokkabuxunum, eins gott að ég þurfi ekki að pissa í kvöld)

23 nóvember, 2006

..og þessi má ekki gleymast..

"Pabbi.. komdu og sjáðu, ég er kominn með hár á fótana!!"
(sýnir pabbanum ljósan hárbrúsk á hnénu)

"Kannski er ég bara að verða pabbi!!!"

Stubbalingur syngur...

Hvert sem é' feeeeeer
Hvort sem þú lemur mig
...

Ég meina, hvað á barnið eiginlega að halda??

A og B

Ég hef oft heyrt foreldra kvarta yfir árrisulum börnum. Börnum sem eru rokin á lappir löngu fyrir dagrenningu og heimta athygli og ummönnun á svo ókristilegum tíma. Sjálf þekki ég varla þetta vandamál. Því fylgja kostir og gallar. Auðvitað er fínt að þurfa ekki að vakna eldsnemma um helgar og á frídögum, geta bara kúrt áfram með krílunum. En að þurfa að vekja lítinn Stubb óviljugan flesta morgna getur líka gert mann geðveikan. Uppgötvaði þetta bara í morgun þegar hann vaknaði sjálfur hálf-átta.. renndi sér fram úr rúminu, skaust á klósettið og sagðist svo vera svangur.

ÞVÍLÍKUR LÚXUS!!!!

Verð reyndar að viðurkenna að Stubbalingur hefur verið óvenju slæmur undanfarið, það fylgir oft veikindum, leikskólafríi og óreglu.. já og auðvitað þeim hæfileika að geta haldið sér vakandi á þrjóskunni einni saman kvöld eftir kvöld.

21 nóvember, 2006

I like being green

Dreif mig í að þrífa ofninn. Sem ég var að rífa grindurnar úr hliðunum finn ég eitthvað torkennilegt á þeim sem ekki á að vera þar. Eitthvað dökkgrænt sem hefur lekið og storknað og tveir litlir málmnhúðar fastir í græna jukkinu. Ekki svona spanskgrænt svo varla var þetta neitt sem kom úr ofninum sjálfum. Kallaði til únglínginn og skar hún fljótlega úr um málið (enda mun skynsamari en móðir sín).
Þetta var semsagt Geomac segulkubbur, enn fagurgrænn. Mætti halda að hér bjyggi lítill strákur með ríka tilaunaþörf!!

(Titill er fenginn að láni frá Fabúlu, lag á nýja disknum hennar...)

Ekki deyja í símann!!

..þetter á vinnustofu raftækjaverkstæðis ... Svarað er í símann og teknar vinnubeiðnir alla virka daga frá klukkan níu til tólf og eitt til þrjú. Vinsamlegast hringið á þeim tíma. *sagt með mjög drafandi rödd þreyttrar húsmóður sem er ekki alveg að nennissu*

20 nóvember, 2006

Mjótt mitti hvað??

Ef maður setur Kellog's special K í skál og mjólk út á, lætur það svo standa í klukkutíma eða svo, þá drekkur það í sig alla mjólkina og verður að þykku ólystugu mauki. Ætli það sé þetta sem gerist í maganum á okkur, kornfleksið bólgnar svo út að það er ekki pláss fyrir neitt meira í marga tíma á eftir.. og þess vegna á að heita að það sé GRENNANDI!! Sjensinn að maður falli fyrir svona auglýsingaskrumi..

(..og hvað varð svo um litina hjá Blogger, get ekki séð að ég geti skreytt þessa færslu með kelloggsrauðu eins og ætlunin var þó)

19 nóvember, 2006

Skógarbjörn

Skógarbjörn
Langar svo að deila með ykku speki sem Anna Málfríður sendi mér, finnst þetta svo krúttlegt og eiga svo vel við.. gjörið svo vel:


Í þessu lífi er ég kona, í því næsta vil ég verða skógarbjörn..

Ef þú ert björn færðu að leggjast í dvala, þú gerir ekkert annað en að sofa í sex mánuði.. ég gæti lifað með því :)

Áður en þú leggst í dvala áttu að troða þig út af mat þangað til þú stendur á gati... ég gæti líka lifað með því :)

Ef þú ert kvenkynsbjörn þá fæðirðu ungana þína (sem eru á stærð við hnetu) á meðan þú sefur og þegar þú vaknar ertu komin með stálpuð sjálfbjarga bangsakrútt. Ég gæti sko alveg lifað með því!

Ef þú ert bjarnarmamma þá vita allir að þér er alvara. Þú abbast upp á þá sem abbast upp á ungana þína og ef ungarnir þínir eru eitthvað óþægir, þá abbastu upp á þá líka. Ég gæti lifað með þessu.

Ef þú ert björn þá BÝST maki þinn við því að þú vaknir urrandi og hann REIKNAR MEÐ því að þú sért loðin á leggjunum og með hátt hlutfall líkamsfitu.

Jebb, ég ætla að verða skógarbjörn ............

Búin að moka frá...

Buhuuuu... Besti dagur ársins og ég hef engan að leika við. Allt í lagi með stelpurnar sem eru hjá pabbanum og geta leikið úti að vild, verra með Stubbaling. Hann er veikur í dag, með magakvalir og hausverk. Klukkan er hálfsjö og hann var að sofna í annað skiptið síðan í morgun, þess á milli dormar hann í sófanum. Litla krúttið mitt. Eins og hann hefði nú haft gaman af að fara út á sleðann sinn, eða búa til snjókall í garðinum. En ansi er nú bakið mitt lélegt í mokstur..

16 nóvember, 2006

Pottaspjall

Einu sinni átti ég 3 potta. Einn stóran og þungan og svartan sem var góður í allt frá því að poppa í honum til þess að elda pottrétt. Einn lítinn til að sjóða snuð og egg og einn rauðan, emaleraðan sem ég erfði eftir afa og hitnaði alltaf svo á höldunum að það var erfitt að nota hann.. því var hann bara notaður í neyð, sem var sjaldan. Núna á ég nokkra fína potta og pönnur og eini gallinn við það er að það er alltaf einhver þeirra óhreinn og enginn nennir að þrífa hann. Stóri þungi potturinn og litli rauði eru niðri í geymslu. Sá litli er hjá systur í næstu götu, búin að vera í láni þar í líklega hálft ár og hún neitar að skila honum. Enda á ég annan. Nóg fyrir hverja fjölskyldu að eiga einn duddu/eggja pott. Sá sem á tvennt af svona óþarfa lánar auðvitað systur sinni annað.

15 nóvember, 2006

...æji, nenni ekkert að setja nýtt template, finnst þetta ennþá flottast...

Varúð, ekki fyrir fýlupúka

Hvernig fara þeir að þessu þarna í Tónastöðinni? Alltaf svo notalegt starfsfólk þar og svo gott andrúmsloft. Kallar og kellur að grúska í nótum, einhver að prófa gítar, annar að fikta í hljómborðum og brosandi starfsfólk að stússast inn á milli. Tíminn virðist bara standa í stað, ekkert stress og læti og leiðindi og enginn að flýta sér, maður dettur bara sjálfur í sama gírinn. Svo fær maður alltaf glaðlegt spjall við kassann í lokin...

(annars kalla ég Fýlupúka nammið alltaf Prumpupúka, fyrir því er gild ástæða!!)

Tilkynning

Pósturinn er kominn. Þar á meðal er tilkynning um að jólin byrji í IKEA. Mikið er nú gott að vita það, var einmitt farin að undrast um jólin, hvenær þau ætluðu eiginlega að byrja. Þá skelli ég mér bara í risastóra húsið í sænsku fánalitunum í Garðabænum og næ mér í mín jól, þegar mér hentar. Hvenær ætli það sé helst von á mátulega lítilli traffík?

12 nóvember, 2006

Kakó og romm

Fór á gamla Borgarspítalann í síðustu viku, nánar tiltekið háls-, nef- og eyrnadeild. Þar hangir uppi á vegg stórindis skápur úr gleri (plasti) þar sem eru til sýnis munir er fundist hafa og náðst úr innviðum fólks. Þarna kennir ýmissa grasa, títuprjónar, bein af öllum stærðum og gerðum, teningar og fleiri smáhlutir. Skemmtilegasti hluturinn, að mínu mati, náðist úr innviðum konu á níræðisaldri. Þetta var miði á stærð við lítið frímerki og þegar rýnt var í sást að á honum stóð:
Ægte
Jamaica
Rom
80%
Sú gamla hefur sko örugglega ekki ætlað að láta neitt fara til spillis!!

10 nóvember, 2006

Sparnaðarátak

Eftir miklar og endurteknar utanlandsferðir með tilheyrandi neyslu og óhóflegri eyðslu, er kominn tími á smá aðhald. Ég ákvað að hefja sparnaðinn formlega með því að kaupa ekki bókina um sparnað. Þar sparaði ég kr.3.990.- eða 2.490.- ef ég hefði keypt hana hjá Eddu-klúbbnum. Að sjálfsögðu hefði ég ekki keypt hana í klúbbnum svo þetta er glæsilegt start, búin að spara tæpar fjögurþúsund krónur í dag og get því slakað á það sem eftir er dagsins.

07 nóvember, 2006

Tölur...

- Mamma, ég fann nagl!! segir Stubbalingur og veifar framan í mig skrúfu
- Þessi er uppi hjá Guði af því að hann er brotinn, segir hann svo og setur brotna tölu upp á hillu.

Hann er nefnilega að leika sér með töluboxið hennar mömmu sinnar þessi ljúflingur.

01 nóvember, 2006

Félagsfrík

Lengsta staðlota á minni stuttu skólagöngu er lokið. Hjúkkitt. Ekki löng í dögum talið, heldur álagi. Hafa unnist margir sigrar á þessum fáu en löngu dögum. Ætla aldeilis að hafa það gott í góðra vina hópi næstu daga. Henríettur annað kvöld, Spörri og frú hinn daginn og besti saumó í heimi á laugardag fram á sunnudag. Svo nýt ég auðvitað fegurstu og yndislegustu barna þess á milli og í og með .. ekki af eða á... ætti samt eiginlega að vera að drekka rauðvín með B núna til að halda upp á gott vinnuframlag.

Svona vinnutörnum fylgir óhóflegt brauð og sælgætisát með tilheyrandi gosdrykkju. Það er ekki gott fyrir magann minn, held ég skipti yfir í áfengi... (langar samt í nammi núna, svona af gömlum vana)

31 október, 2006

Ljóð vikunnar

Þreytt og dofin
ekki illa sofin

...bara þreytt

27 október, 2006

Ég er bara fín eins og ég er!

Sá áhugaverðan þátt á skjá einum í vikunni sem hét: "How to look good Naked". Hann var á eftir American Next Top Model sem er einn af þessum mjónu, fegurðar þáttum. Þarna var loksins plötunni snúið við og spilað nýtt lag. Þáttastjórnandinn sem var ung, falleg, frumleg, skemmtileg... manneskja (held karlkyns). Hann var með konu með sér, líklega um þrítugt, tveggja barna móður. Hún var bara hugguleg, venjuleg manneskja, en alveg að drepast úr komplexum yfir að hún væri of feit, sem hún var nottla ekki. Hann kenndi henni að velja snið sem hentuðu hennar vaxtarlagi og kynnti hana fyrir töframætti réttra undirfata. Engin skurðaðgerð, vaxtarmótun, brjálæðisleg megrun, ekkert "farðuíræktinaogeyddurestinniaflífinuþar"bull. Bara að læra að sætta sig við sjálfan sig eins og maður er. (Svo framarlega nottla sem maður er ekki það feitur að það heftir líf manns). Fannst reyndar full langt gengið að birta nektarmyndir af konunni útum öll stræti og torg... en allavega, skemmtileg tilbreyting frá öllu fegurðar, megrunar, kjaftæðisbullinu.

25 október, 2006

Bakað báðum megin

Oft hef ég rekist á sniðug húsráð, sem ég ætla að tylla á bak við eyrað og nota þegar við á. En þetta er fokið út í veður og vind um leið, svo langt að ég leita ekki einusinni að þegar á þarf að halda. Nema eitt. Ég bakaði einhverntíma brauð.. líklega spelt brauð, og í uppskriftinni var talað um að gott væri að setja bökunarpappír ofan í formið. Þegar svona 10 - 15 mínútur eru eftir af baksturstímanum á að taka brauðið úr forminu og velta því á magann á bökunargrindinni. Með þessu móti fæst þessi fína skorpa allan hringinn! Hef nefnilega iðullega lent í því með speltbrauð, sem þurfa að bakast svo lengi, að þau eru crusty og fín að ofan en slepjuleg ofan í forminu En ekki lengur, því þökk sé... jájá, bara farin að hljóma eins og sjónvarpsmarkaðurinn.

Allavega, gott húsráð, mæli með því.

(búin að taka speltbrauðið úr ofninum, gott báðum megin!!)

22 október, 2006

Sannleiksfestin

Jæja, ekki var getraunin mín að rokka feitt. Það er þrennt sem getur komið til:
  • Enginn sem les bloggið mitt (nema nottla Birgitta.. "rokk-on Birgitta!!!"
  • Enginn sem þekkir þetta bull
  • Báðar ofantaldar ástæður

En ég bara heyrði þetta á útvarp Latabæ þarna fyrr um daginn, og mitt ótrúlega ljóða/lagaminni tók strax við sér og ég söng ósjálfrátt með. Skil ekkert í að ég skuli muna þetta, held að platan hafi ekki einusinni verið til á heimilinu. Minnir að hún hafi heitið "Sannleiksfestin" og fjallaði um þessa Herdísi eða Dísu, sem gat ekki hætt að ljúga. Pabbi hennar og mamma höfðu svo miklar áhyggjur að þau kölluðu til galdramann, sem ég held að hafi heitið Flosi en mér fannst alltaf eins og það væri sagt Glosi, og það er aðstoðarmaður hans sem segir söguna. Meira man ég ekki, nema eitthvað af textabrotum. Prófaði meira að segja að gúggla þetta orð, sannleiksfestin, en fann ekkert af viti.

En það er sama sagan með lagið þitt Birgitta, kannast við textann en ekki tilganginn. Finnst leiðinlegt að hafa klesst þessu á heilann á þér og vona að þú hafir beðið þess bætur hið fyrsta!

20 október, 2006

Manstu eftir þessu?

Ég heiti Herdís, ung og falleg er
ég á bolta og hoppa meðan sólin skín.
Ég er svaka lygin, annars er ég góð,
ég á vini þrjá sem heita: Magga, Siggi’ og Hlín.

Tra-lalla la-la, lalla-lalla la
Lalla-la-la lalla-la la lalla
Tra-lalla la-la, lalla-lalla la
Lalla-la-la lalla-la laaa

19 október, 2006

Warning!

You must have a sense of humor to use our products!

þetta stendur á sjampó brúsanum mínum. Kannski þess vegna sem það virkar svona illa fyrir mig.

Nick name

Var að labba með stúlkunni minni þegar bíll stövast við hliðana á okkur og út stígur kona. Hávaxin og röskleg með stutt ljóst hár. Stúlkan horfir á eftir konunni stökkva upp stiga og hverfa inn í íbúð, lítur þá á mig og segir með ljóma í augum:
"Mamma sástu? Þetta var alltídraslikonan!"

Vá en æðislegt viðurnefni, "allt í drasli konan".

Laufin vaðin upp að hnjám

Mætti konu með frostbólgnar kinnar og húfu ofan í augu.
Mætti manni með freðinn svip og axlirnar upp að eyrum.
Barnið var með rauðan nebba og litlu puttana dregna upp ermarnar á úlpunni.

Veðrið er bara þannig núna, það er sama hvað maður klæðir sig vel, kuldinn smýgur alltaf í gegn. Samt er nánast logn.

18 október, 2006

Eyrun mín..

..þola mun betur fótboltahávaða á vellinum heldur en fótboltahávaða í sjónvarpinu.

17 október, 2006

"Litli Pajero"

Hvaðan kemur orðið "barlómur"?
Ég giska á að það komi af mönnum sem sitja á börum og rekja raunir sínar fyrir barþjóninum. Svo hefur Lómurinn líklega þreytandi tón.
En ég hef allt of litla þekkingu á fuglum til að staðhæfa neitt um það. Enda átti þessi færsla að fjalla um gyllta frelsið sem Stubbalingur kallar ýmist "Litla Pajero"(frekar indjánalegt og krúttlegt) eða "Flotta Pajero".

Samt er gyllta frelsið sko enginn Hlúnkur eins og Pajero, enda eru þeir ekkert skyldir.

Ætli maður á fótboltaleik í fyrsta sinn á ævinni..

.. er eins gott að gera það bara með stæl. Fór á "El Camp Nou" og sá leik Barcelona-Sevilla s.l. sunnudag. Fannst eins og ég væri að ganga inn í bíómynd þegar við komum inn í risavaxna áhorfendastúkuna. Það fór eins og flestir höfðu spáð fyrir, upplifunin af því að vera þarna nægði til að halda mér vakandi án þess að ég tæki með mér bók að lesa. Skemmti mér meira að segja alveg konunglega. Býst samt ekki við að verða mætt út á Valsvöll um leið og tækifæri gefst með nesti og fána. Því síður er ég svo langt leidd í fótboltaáhuganum að ég ætli að lýsa fyrir ykkur leiknum (þó ég gæti það alveg, merkilegt nokk!!)

16 október, 2006

..samt finnst mér skemmtilegra í flugvél

Það sem er líkt með því að sitja í kirkju og í flugvél:
  • Sækir að mér þreyta
  • Lítið spennandi að borða og drekka
  • Farið út eftir sérstökum reglum, fremstir fyrst og svo koll af kolli (nema í flugvél þarf ekki að labba til baka til að komast út)
  • Grátandi smábörn
  • Óþægileg sæti (nema ef maður er heppinn eins og ég í dag og sleppur inn á "klassann"
  • Nálægð við Guð....

10 október, 2006

Gerfi eða Gervi?

Búin að vera tölvulaus síðan síðast. Hræðilegt í einu orði sagt. Merkilegt hvað maður getur orðið háður svona gerviþörfum eins og gsm síma og nettengingu. Eða er þetta gerfi? Ég er allavega að fara til Barcelona á morgun og gat ekki á heilli mér tekið í gær að komast ekki inn á uppáhaldssíðuna mína þessa dagana. Svona getur maður nú verið takmarkaður...

07 október, 2006

Laugardagur

Ég hef áður talað um það hér hvað ég er lítið fyrir að skúra. Allt í lagi að taka til, þurrka af, jafnvel taka til í skápum... en að skúra! Enda kemur það líka í ljós að það fylgja því aukaverkanir að vera með nýskúrað, allavega hjá mér. Aukaverkanir nýskúraðs gólfs eru "gólfníska". Ég verð einstaklega spör á gólfin mín. Lít alla hornaugum sem dirfast að stíga inn á gólfin mín í skóm og vill helst ekki að það sé borðað í íbúðinni. Ég er nefnilega að spara skúrið!

Er þá ekki eins gott að vera bara með óskúrað? Allir mega koma inn á skóm, svo framarlega sem þeir eru nokkurnveginn þurrir og það er líka allt í lagi að borða ristað brauð fyrir framan sjónvarpið. Gólfin mín eru allavega þannig að það sér ekki mikið á þeim, svo ég ætla bara að halda mig við að skúra einu sinni til tvisvar í mánuði. Þá varir gólfnískan ekki nema svona 3-4 daga í mánuði og ég get verið afslöppuð alla hina dagana. Snilldarráð fyrir skúrilata og skúriníska!

05 október, 2006

Snillingurinn ég!

Ætlaði nú ekki að klikka á því að mæta á fyrsta bekkjarfund haustsins hjá miðjubarninu, þó ekki væri nema vegna þess að tveir af þremur bekkjarfulltrúum eru mæður vinkvenna dóttur minnar.. vá! Var búin að setja miðann á ísskápinn (sem er m.a.s. búið að taka til á), taka frá kvöldið og biðja alla... ALLA í fjölskyldunni að muna þetta með mér. En ég mundi það sko bara alveg sjálf og engin minnti mig á.. dreif mig á samkomustaðinn og var mætt rúmlega 8, sko mig!!

En viti menn, fann engan sem ég kannaðist við. Svo ég hringdi heim og bað ektamakann um að kíkja á miðann fyrir mig. Jújú, fundurinn var klukkan átta í gær.. svo ég fékk engan kakóbolla heldur bara hundskaðist heim. Snillingurinn ég!

04 október, 2006

pirripirr

Þreytt í kvöld, af pirringi. Er búin að pirra mig svo mikið í dag og gær að ég er eiginlega búin með mánaðarskammtinn. Kannski bara eins gott, get eytt restinni af mánuðinum í eitthvað annað. Best að reyna að klára bara samviskubitspakkann í leiðinni, væri ágætt að vera laus við hann í smá tíma líka.

03 október, 2006

Ég er töffari

Stubbalingur bað mig að kaupa fyrir sig hermannaúlpu og hermannabol í útlöndum, af því að þá yrði hann sko mesti töffarinn! Mér fannst þetta ósköp krúttleg bón, í ljósi þess að hún var alfarið frá honum sjálfum. Ég sá hermannaúlpur, -húfur, -vettlinga, -buxur, -kuldaskó og -boli í Boston, en fékk mig ekki til að kaupa það. Mér finnst það of mikið steitment, ég er friðarsinni og vill að börnin mín séu það líka. Elskiði friðinni strjúkiði kviðinn, hvað svo sem það nú þýðir!

Hann fékk allavega ekkert hermanna frá mömmu sinni. Bara appelsínugulan Halloween-bol með silfurlitum graskerjum, sokkabuxur og HULK bíl... já og rauð kuldastígvél! Kystti mig og knúsaði, ægilega þakklátur og talaði ekki meira um hermanna eitthvað. Enda held ég að hann sé friðarsinni inn við bein og ég ætla að halda áfram að banna pabbanum að kaupa fyrir hann byssur. Hann verður bara að láta sér nægja þessar heimatilbúnu eitthvað lengur. Ég veit ég er leiðinleg mamma, ætla líka að halda því aðeins áfram....

02 október, 2006

Back from Boston

Mikið er til mikið af góðum mat í Boston, verst hvað það er alltaf mikið af honum og maður fær samviskubit yfir að klára ekki skammtinn. Eftirréttaspjaldið var alltaf hrikalega girnilegt, en þá höfðum við rænu á að panta einn eftirrétt og þrjár skeiðar.. nema nottla á Cheescake Factory, þar voru svo margar kökur sem við þurftum að smakka að í græðgiskasti urðu sneiðarnar þrjár. Hvað ég væri til í eina af þeim núna!

...og mætti svo Önnu Málfríði á ganginum í Leifsstöð kl. 6.05 í morgun, ég á leið heim frá Boston og hún á leið út til Köben. Fannst það merkilegt nokk í ljósi þess að við búum í sama hverfinu og hittumst aldrei!!

26 september, 2006

Allir að labba Laugaveginn!!!!!!!

Það verður seint sagt um Íslendinga að þeir séu félagsskítar. Það getur svo sem vel verið að þessi KárahnjúkaganganiðurLaugaveginnmeðÓmarRagnarssoníbroddifylkingar hafi verið vel og rækilega auglýst, veit ekkert um það (enda hef ég hvorki lesið blöð né horft á fréttir þessa vikuna) en það virðist allavega vera múgur og margmenni mætt á staðinn. Hvort sem það er 17. júní, Gay-Pride, Menningarnótt, tónleikar Sigurrósar á Klambratúni eða ofangreindur atburður sem fer fram þessa stundina, þá virðist allavega ekki vera hörgull á fólki, á öllum aldri, af öllum kynjum....

Ég bara uni glöð í minni fávisku og læt ekki sjá mig, enda er ég ekki mikil útilífvera og nýt þess að láta ekki sjá mig á manna(kraðrak) mótum. Þetta gæti líka skrifast á landsbyggðardurginn í mér, það er nefnilega aldrei.. leyfi mér að fullyrða ALDREI, svona mikið kraðrak á landsbyggðinni. Lifi félagsskíturinn!!

25 september, 2006

ZZZZZZZZ

Skil ekki hvað ég þreytt, klukkan bara rétt rúmlega 10, vikan nýhafin og ég er ekki útivinnandi (þó ég sé búin að afkasta ansi miklu í dag...)

...styttist í Boston, jeyyy

23 september, 2006

Bloggað gæti ég væri mér hlýtt

... en mér er bara eitthvað svo kalt, og orðin svo leið á að glósa.

22 september, 2006

Krósý

Enn og aftur hefnist mér fyrir að vera skynsamur súkkulaðigrís. Ég er nefnilega nógu skynsöm til að kaupa ekki nammi nema ég ætli mér að borða það, en stundum þegar ég ætla að borða það á ég það ekki til. Hagkaup er að auglýsa Ben & Jerry's.. helvískir, hef ekki enn fundið vonda tegund af þeim ís, held þó leitinni áfram.

Ætti eiginlega bara að fara að kúra hjá Stubbaling, erum bara tvö í kotinu í kvöld...

Z gildi

ohhhh.. ég verð svo pirruð þegar ég skil ekki eitthvað. Búin að hlusta 50 sinnum á sama fyrirlesturinn, kíkja yfir glósurnar mínar, skoða glærurnar, lesa umræður samnemenda... EN ER SAMT EKKI AÐ NÁ ÞESSU!!! Ég ætlaði líka að komast yfir svo mikið í dag en er bara föst í þessu sama, fikta mig afturábak og áfram... grrrrrr hrikalega er ég takmörkuð!!

21 september, 2006

Aðrir Sálmar

Stubbalingur er orðinn tónlistarspekúlant. Fékk um daginn gamalt tæki frá únglíngnum inn í herbergið sitt og er búinn að vera að prófa sig áfram. Pétur Pan, Berrössuð á Tánum.. þetta vanalega. Svo fór ég og keypti gamlan disk úr smiðju Harðar Torfa; Þel, einhvernveginn endaði sá í spilara Stubbalings og rúllaði þar í nokkra daga. En eitt kvöldið var Hörður týndur, nú var úr vöndu að ráða. Þá greip ég til disksins hana Þrastar Jóhannessonar; Aðrir Sálmar, og örlög fjölskyldunnar réðust á einu kvöldi. Diskinn hefur hann ekki skilið við sig síðan. Sofnar út frá honum á kvöldin, hlustar á 1-2 lög á morgnana, tekur hann með á leikskólann, labbar heim með hann í höndunum (mér er ekki treyst til að halda á honum) og það fyrsta sem gert er þegar komið heim er komið er að setja diskinn í. Svo er sumum lögum sleppt og önnur spiluð aftur og aftur, Gabríela fær t.d. aldrei að syngja, þegar kemur að hennar lögum heyri ég hann tauta; leiinlegt lag... og svo er skipt yfir á næsta. Þannig að ef börnin ykkar eru ekki mikið fyrir tónlist, prófið þá að skipta út Leikskólalögunum og setja almennilega tónlist í ...

Þröst á hvert heimili!!

Villumelding

Var eins og ráfandi sauður í rangri hjörð í gær. Fór í skólann í stærðfræðitíma og leið eins eitthvað vantaði, eitthvað alveg bráðnausynlegt til að lifa af innan þessara veggja, eitthvað sem ég er vön að vera með þarna en var ekki núna. Það sem vantaði var Birgitta, hún er nefnilega farin á vit hins ljúfa lífs í Vegas. En ég stóð mig bara vel á eigin fótum. Strunsaði inn í stofuna og fann mér vænleg fórnarlömb til að setjast hjá. Maður er nefnilega svolítið eins og aðskotadýr þarna í bekknum. En fórnarlömbin tóku mér vel og voru ekkert vond við mig. Hvað er þetta, ég tala bara um sauði og lömb, einhver sveitarómantík í góða veðrinu...

og að lokum... SKÁL BIRGITTA!!!!!

19 september, 2006

Leiðindapistill

Þegar ætlunin er að læra frá 9 - 16 er gott að skipta um umhverfi. Núna eru ég og tölvan mín komnar fram í stofu, þar er bjart og gott að vera. Eins er betra að standa upp og gera teygjuæfingar inn á milli heldur en að fara á bloggrúnt, þeir geta tekið svo mikinn tíma og maður verður latur á eftir. Til að nýta matmálstímann sem best prenta ég út glærur í leiðinni, prentarinn minn er frekar seinvirkur. Þær sem ég prentaði út núna áðan heita girnilegum nöfnum eins og : Z gildi, Fylgni, Aðhvarfsgreining, Marktektarpróf.. og fleira skemmtilegt.

Hrikalega verð ég nú andlaus af þessum lærdómi, þetta er leiðindapistill.

15 september, 2006

Syngjandi

Þekki kennara sem var að kenna 11-12 ára börnum síðasta vetur. Yndisleg kona, vanþakklátt starf. Náttúruunnandi, sér alltaf það góða í fari annarra. Las Litlu stúlkuna með eldspýturnar fyrir bekkinn á litlu jólunum, svo fallega að ég táraðist, hún reyndar líka. "Unglingarnir" skildu ekkert í þessari tilfinningasemi.

Sem ég gekk heim af leikskólanum í morgun, eftir að hafa skilað af mér Stubbaling, heyri ég óm af syngjandi börnum og staldra við. Kemur ekki þessi fyrrnefndi kennari, með fyrstubekkingana sína í tvöfaldri röð á eftir sér, leiðandi eitt krílið sér við aðra hönd og með lauflaðasýnishorn í hinni. Hún söng hástöfum í regnkápunni sinni og krílin tóku flestöll undir. Vona að þau kunni betur að meta hana en ungmennin í fyrra...

13 september, 2006

Lífsförunauturinn minn...

... á að vera:

- hlýr
- skemmtilegur
- lífsglaður
- skilningsríkur
- traustur
- fjölhæfur.. á ýmsum sviðum
- umhverfis- og rýmisgreindur
- rjóður í kinnum
- minn... alla leið!!

Minn ástkær uppfyllir öll þessi skilyrði og fleiri til. Heppni? Held ekki, bara vel valið!
Kominn tími til að ég hætti að pirra mig yfir smáatriðum eins og misjöfnum skítastuðli og einbeiti mér þess í stað að kostunum, þeir eru jú svo óendanlega margir!!

12 september, 2006

Svefnvenjur

Það er víst nógu slæmt að vera að borða kvöldmatinn sinn klukkan hálf-tíu þó maður fái sér ekki gos með. Held ég sleppi gosskammtinum í dag, eins og ég væri til í 1 glas af Pepsi-Max (á það ekki heldur til og nenni ekki í búðina)!!

En segið mér fróðir menn, er eðlilegt að Stubbalingur, 4 og hálfs árs, liggi andvaka í rúminu til að verða 10? Þó svo hann vakni ekki seinna en 7:30?. Nei maður bara spyr sig.

Stærðfræði er ógeð og ég nenni ekki meir þó ég sé ekki búin með það sem var sett fyrir morgundaginn, já ég veit að það er heil vika síðan. Só??????

Reikningsdæmi

Sit hér og reikna af mér rassinn, spennan í hámarki! Þetta með skort á stærðfræðiáhuga vil ég tengja áðurnefndum skorti á umhverfisgreind. Mér til tekna má þó teljast bæjarferð á hlúnknum s.l. fimmtudag, þar sem ég lagði í bílastæði í Kringlunni (fór bara nógu seint heim til að ég kæmist örugglega út úr stæðinu), OG niður í Borgartún á föstudaginn þar sem ég þurfti ekki bara að leggja heldur líka BAKKA ÚT ÚR STÆÐINU og það á háannatíma!!! Þetta sýnir mátt viljans yfir vanmættinum. Ég get það ef ég vil það. Kannski er ég líka smátt og smátt að efla umhverfisgreindina mína.

Held það bara!!

07 september, 2006

Krummi svaf í klettagjá

Hér er ritað við píanóundirleik. Mikið er dagurinn í dag góður og fagur. Hljóðfræðibækur á borðinu, ekki mjög tælandi þó. Enda erfitt að einbeita sér að hljóðfræði þegar Krummi lætur í sér heyra. Fyrir utan borar gamall maður í tröppurnar mínar öðru hvoru, þá líður mér eins og í tannlæknastofunni, engin undankoma. Nema það er undankoma.. út um útidyrnar, ætla að nota þær á eftir og sækja Stubbaling, kannski píanóleikarinn og jafnvel unglingurinn fái sér labbitúr með mér.. hver veit..

En mikið er gaman að eiga barn í tónlistarnámi, mæli með því :)

06 september, 2006

Foggy

Þar fór annars góður dagur í súginn. Mjög líklega einn af síðustu sumardögunum. Sól og milt veður, friðsælt og fagurt í Borg Óttans. En ekki í hausnum á mér, þar var sko þoka, rok og rigning. Hræðilegur hausverkur, stöðugur og óstöðvandi sem ekkert virkaði á. Reyndi öll góðu ráðin frá Stóru Systur og Birgittu. Verkjalyf, leggja sig, göngutúr, sturta (eins gott að maður er ekki útivinnandi). En kóræfingin var frábær. Hlakk til að mæta á næsta miðvikudag og vona að þá verði engin þoka í hausnum á mér.

Nú ætla ég að fara og sofa úr mér þokuna.

05 september, 2006

Speki að mínu skapi!

Að byrja að borða hollan mat krefst orku og hugsunar
en til baka kemur aukin orka og skýrari hugsun.

Pirringsplokk

Hvað er þetta með Íslendinga að þurfa alltaf að rífa alla úr skónum allsstaðar? Skil það svosem með leikskólann þar sem skottin eru að tipla á sokkunum á sömu göngum og foreldrar eru að vaða inn og út á skítugum bomsunum. En skrifstofur úti í bæ, eða heilsugæslustöðvar?? Mér finnst óþarfi að vera á sokkunum þegar ég hitti lækninn, ekki er skárra að vera í bláum plastskóm eins og einhver skurðstofuhjúkka.

Þegar það er sæmilega þurrt úti þá veð ég bara inn á skónum í opinberar stofnanir og skammast mín ekkert fyrir það. Það eru sjálfsögð mannréttindi að fá að vera í skónum þegar maður vill.

Svo að lokum er eins og talað út úr mínu hjarta það sem Alexía Björg segir í haus Blaðsins í dag:

Karlar eru nokkuð skemmtilegir en þeir hafa of háan skítaþröskuld!!!

04 september, 2006

Nei, þetta bara gengur ekki núna, mér dettur ekkert í hug.

30 ágúst, 2006

Viðtal

Það gerist reyndar æ sjaldnar með árunum, veit ekki ástæðuna, að ég detti ofan í Vikuna, Mannlíf og önnur "glans" tímarit. Ef ég er stödd á biðstofu og tíminn er knappur, leita ég oft í stuttu greinarnar, stuttu viðtölin; Prófillinn, Smámyndin, Uppáhalds.. eða hvað þetta allt heitir. Hefur þú einhverntíma spáð í hvað þetta eru fáránlegar upplýsingar sem viðkomandi er að gefa um sjálfan sig? Ég hef stundum prófað að spyrja sjálfa mig þessara sömu spurninga og stend yfirleitt á gati.. Prófum:

-Hver er uppáhalds árstíðin þín? (mjög vinsælt á haustin og vorin)
-Hvaða skónúmer notar þú?
-Hver er mesti hamingjudagur lífs þíns? (ósköp væri maður nú fátækur ef hann væri bara einn)
-Hver er uppáhalds maturinn þinn? (Hvað má nefna mörg atriði..)
-Hvað er uppáhaldsflíkin þín?
-Uppáhalds hljómsveitin?
-Uppáhalds lagið? (hægt að gera endalaust af uppáhaldsspurningum)
-Við hvaða aðstæður líður þér best?
-Hvert fórstu í sumarfrí?
-Hvað er besta fríið sem þú hefur nokkrum sinnum farið í?
-Hvernig eru nærbuxurnar þínar á litinn?
-Hvaða ilmvatn notar þú?

Svona er endalaust hægt að halda áfram. Til hvers að sanka að sér svona óþörfum upplýsingum um ókunnugt fólk? Enginn tilgangur í því fyrir mig allavega því að ég er búin að gleyma þessu um leið og ég legg frá mér blaðið og mér er mjög illa við að eyða tímanum til einskis. Ef það er gluggi á biðstofunni getur verið miklu skemmtilegra að horfa út um hann, velja sér manneskju á götunni og taka viðtal við hana í huganum.. búa til spurningar og svör sjálfur. Einnig er hægt að notast við aðra viðskiptavini á biðstofunni.. bara í huganum þó, annars halda allir að maður sé enn ruglaðri en maður er.. Þetta örvar ímyndunaraflið, nóg er nú mötunin samt.

Ekki þar fyrir, þér er alveg óhætt að halda áfram að lesa glanstímarit á biðstofunum, ég verð síðasta manneskjan til að býsnast yfir því. Er aðallega að koma með hugmyndir að afþreyingu fyrir sjálfa mig.

26 ágúst, 2006

Fyllibyttur og fleira gott fólk!

-Hann er fyllibytta, sagði stubbalingur.
-Nú...fyllibytta, hvað er það? Spurði pabbinn um leið.
-Það er maður sem drekkur of mikinn bjór, sagði sá litli, glaður að vita svarið.
-Og hver sagði þér það? þurfti mamman að vita, og ekki stóð á svari:
-Eva sagði mér það!!

En að öðru, rosalega getur verið gaman að elda. Dagurinn hjá mér er búinn að fara í smá tiltekt, smá innkaup og svo bara elda. Er búin að skera ferskan ananas og leggja í romm, fylla kjúklingabringur og búa til vinaigrette, sjóða eggaldin en á eftir að setja fyllinguna í það já og svo er ég hálfnuð með að útbúa deigið í grillbrauð.. best að halda á spöðunum. Að sjálfsögðu verður svo hlutverk húsbóndans að grilla herlegheitin. Held að það sé bara kominn tími á rauðvínsglas. Gaman er að elda góðan mat en enn betra að fá góða gesti til að ét'ann. Gleðilegt laugardagsköld!!

24 ágúst, 2006

Frísk

Henda, henda, henda... gefa, gefa, gefa - Til hvers í ósköpunum er ég búin að vera að geyma þetta? Já rétt til getið. Tók geymsluna í nefið. Næst þegar ég tek til í henni verður það við flutninga, langar í stærra og garð (well, who doesn't?)

Er orðin sannfærð um að þetta var magapest sem lagðist einnig á sálina. Ótrúlegt hvað maður verður druslulegur þegar eitt líffæri er í ólagi. Ætla að fá mér langa pásu í veikindum núna og vera frísk a.m.k. fram yfir jól!

23 ágúst, 2006

Sko mig!

Ég er aðeins að koma til. Það birtir, hægt og hægt. Samt er ég ekki búin að fá mér neitt súkkulaði.. sko mig! Reyndar súkkulaðiköku og -kex, sko mig! Ekki búin að afskrifa súkkulaði ennþá samt, sko mig! . Eldaði meira að segja kvöldmat, sko mig!

Hljómar svo asnalega þegar maður skrifar þetta svona oft, sko mig! Skómig. Hlakka til þegar ég verð aftur full af orku, þá verður sko aldeilis sko mig!!!!

22 ágúst, 2006

Mig langar

- að vera í góðu skapi
- að vera uppfull af orku
- að líða vel í maganum
- í nammi
- að vera aaaaaaaaalein
- að fara í heimsókn
- í bíl
- að vera í góðu skapi

Ég er frek og krefjandi

21 ágúst, 2006

Sviðsskrekkur

Á einhver birgðir af skapvonskupillum? Þá meina ég þessar sem hafa hemil á skapvonskunni. Endilega látið mig vita!!!

Langdregin spenna

Jiminn einasti. Hef lokið við bókina. Tók ekkert svo langan tíma, enda einstaklega spennandi flétta í spennubók. En þvílíkt orðagjálfur, smáatriðin ýkt og hverri einustu smápersónu lýst ofan í kjölinn, útliti sem innræti. Þýðingin þótti mér skrýtin. Má til með að koma með dæmi:

- Ólíkt stóru systur sinni var hún dökkhærð með stuttar strípur í alveg einstæðri klippingu.

Á einum stað í bókinni fyllist söguhetjan "úrræðakvíða" og klippingar eru höfundi hugleiknar þar sem karlpersónu er líst sem mjög myndarlegum með "glæsilega klippingu". Hefði eiginlega átt að vera með gula post-it miða þegar ég las bókina til að finna aftur alla staðina sem ég hló sem mest að.

Höfundur bókarinnar er sænsk og heitir Camilla Lackerberg (kann ekki að gera tvær bollur yfir a-ið). Ég hef lesið þónokkuð eftir landa hennar Lizu Marklund og þetta með smáatriðin og mannlýsingarnar virðist vera sér sænskt fyrirbrigði. Þá er gott að kunna að renna hratt í gegnum bullið til að ná aðalatriðunum án þess að spennnan detti. Ég er greinilega snillingur í því!!

18 ágúst, 2006

Liggaliggalá!

Ég er búin að skrá mig í kórinn sem ég komst ekki í s.l. vetur sökum anna - og fæ meira að segja 1 stk. einingu fyrir. Jiiiii hvað það verður gaman að far í kór.. loksins... Skora á þig Birgitta!!

17 ágúst, 2006

Konur eru frá MARS

Ég get alveg sleppt því að borða súkkulaði, það er EKKERT MÁL - svo framarlega sem það er ekki til á heimilinu. Ég get sleppt því að kaupa súkkulaði þegar ég fer í búðina, ég get sleppt því að fara sérferð í sjoppuna til að kaupa mér súkkulaði, en ef ég veit af súkkulaði í íbúðinni er ég friðlaus.. þangað til það er búið. Ég t.d. keypti of mikið mars í ostakökuna í gær. Það er búið að öskra á mig síðan ég vaknaði í morgun, svo ég át það í eftirmat núna áðan, fari það og veri. Núna er mér illt í maganum með loðnar tennur og sykurbindindi dagsins ónýtt. En ég byrja bara aftur á morgun :)

Heimaleikur

Ótrúlega gott að vera ein heima. Kom heim áðan, opnaði með lyklinum og hleypti mér inn. Eins og það er gaman þegar einhver tekur á móti manni þá er líka svo ljúft að geta stundum verið bara einn. Ekki það að ég sé að gera eitthvað sérstakt, kann bara að meta þetta þar sem það gerist svo sjaldan.

Nú þegar stubbalingur er byrjaður aftur í leikskólanum finnst mér ég vera að fá ljúflinginn minn til baka. Eftir tveggja mánaða sumarfrí er bara fínt að komast aftur í reglulegt prógramm. Hann er hættur að mótmæla öllu sem sagt er við hann, borðar matinn sinn og leikur í dótinu sínu (pissar m.a.s. inni!!). Ég hef aldrei séð þáttinn um hana Súper Nanný en hef heyrt af honum sögur, held að besta ráðið fyrir þessu ómögulegu börn sé hreinlega að skrá þau á leikskóla. Það þarf ekki einusinni að vera allur dagurinn, bara svona 5-6 tímar á dag og geðheilsunni er borgið!!

14 ágúst, 2006

Stökkbreytur

Flestar konur sem ég þekki eru það hæfileikaríkar að geta verið með mörg járn í eldinum í einu. Þær eru að fylgjast með barninu í baði, elda matinn, ganga frá þvottinum og fylgjast með fréttunum allt í einu. Það þekkja allir svona dæmi og þetta er orðin svo fræg staðreynd að það hafa verið skrifaðar margar greinar og bækur um fyrirbærið og jafnvel búnir til heilu sjónvarpsþættirnir um þetta efni. Merkilegt nokk!!

En þar sem ég var á ljóshraða að undirbúa afmæli í gær, útbúa heita réttinn, fylgjast með kökunni í ofninum og gera túnfisksalat, þá skaut því upp í huga mér hvað kvenbúkurinn er í raun illa útbúinn. Miðað við allt sem fram fór í huganum á mér á þessum tíma, hefði ég alveg getað notast við a.m.k. 2 hendur í viðbót.

Maðurinn minn stendur í þeirri meiningu að mannslíkaminn sé enn að þroskast og hann eigi stöðugt eftir að laga sig að aðstæðum. Hann telur t.d. að einn daginn eigi eftir að fæðast stökkbreytt barn sem verður gætt þeim hæfileika að geta lokað eyrunum (án þess að nota hendurnar). Miðað við hvernig þjóðfélag karla og kvenna hefur fúnkerað í áraraðir og erfitt virðist vera að breyta, þá mundi ég halda að stökkbreytingin yrði þannig að litlir strákar fæðast með loku sem þeir geta skotið fyrir eyrun að eigin vild og litlar stelpur fæðast með fjórar hendur.

12 ágúst, 2006

..og ein fyrir þá sem fylgjast með Magna

Gestur:Jæja, sáuð þið Magna, hafið þið verið að fylgjast með honum?
Stubbalingur að ganga framhjá: Nei, Magni er á Ísafirði.

(hey mamma, rock superstar nova er í sjónvarpinu!)

Sögur af Stubbaling

Stubbalingur við mömmu sína: Hey, á ég að segja þér brandara? Sko, það var maður sem hitti annan mann og þá sagði hinn maðurinn: hey, hvaða bóla er á þér? Þá fer hinn maðurinn að gá alveg:"hvar, hvar, hvar, hvar" (á meðan hann segir þetta klappar hann með flötum lófum um allt andlitið á sér), þá segir hinn maðurinn, æ nei, þetta er bara hausinn á þér!

Amma og afi Stubbalings voru að koma keyrandi frá Ísafirði og voru svo sæt að kippa með sér hjólinu hans sem hafði orðið eftir þar. Stubbalingur er að koma gangandi heim til sín með uppáhaldsfrænkunum og rekur augun í hjólið fyrir utan húsið: Hey, hjólið mitt er komið! Rétt í sama mund rekur hann augun í tvö önnur hjól, aðeins stærri og segir þá: Nei sjáðu, amma og afi hafa komið hjólandi frá Ísafirði!!!

Það er ekki eins og blessaður drengurinn sé búinn að keyra örugglega tíu sinnum þessa leið, fram og til baka!!

11 ágúst, 2006

Tiltekt

Ég er ekki skúringartýpan. Ekki týpan sem finnst ekkert mál að "renna yfir gólfin", mér finnst það nefnilega meiriháttar aðgerð. Heyri stundum konur segja si svona: Þegar ég kom heim úr vinnunni blöskraði mér svo draslið að ég tók til í eldhúsinu, þurrkaði af öllu, ryksugaði og skúraði gólfin. Jiminn góður, þetta er spurning um svona minnst 10 tíma prósess hjá mér og alls ekki verkefni sem ég skutla mér í eftir vinnu. Mér finnst allt í lagi að þurrka af og taka til, píni mig stundum til að ryksuga en þá er líka nóg komið, meika ekki að skúra. Enda er parketið mitt alveg einstaklega vel með farið, skítablettir og ryk fara nefnilega mun betur með parkett en skúringaruskan.

Síðan ég kom heim eftir sex vikna útlegð í sveitinni hef ég verið haldin tiltektarveikinni. Hjá mér felst hún einna helst í því að því meira sem ég tek til, því meira drasl verður í kringum mig. Ég þarf nefnilega að rífa út úr öllum skápum og breyta skipulaginu í leiðinnni þegar ég er í þessum ham. Þetta herjar yfirleitt á mig í nokkra daga (uppsveifla) svo þegar ég sé að ekkert haggast gefst ég upp og leggst í leti (niðursveifla). Með reynslunni hef ég lært að best er að leyfa letinni að ríkja um stund. Ég lenti nefnilega í því eftir síðasta kast að fá svo hrikalega í bakið að ég hélt ég væri bara á leið í aðgerð...

Besta leiðin til að halda bakheilsu meðfram tiltektarveikinni er semsagt að hvíla sig inn á milli (t.d. með því að setjast við tölvuna), eiga letidag og síðast en ekki síst; sleppa því að skúra. Verð samt að ljúka þessari tiltekt áður en haustið fellur á með sínar skyldur... og geymslan er enn eftir.

10 ágúst, 2006

Lægð

Hef ákveðið að gera ekkert í dag nema ég nenni því, það er sko bara ofdekur! Fór með stubbaling hálfvælandi á leikskólann í morgun, býst við að ná honum ekki með mér heim á eftir. Við krúsímús löbbuðum svo í myndavélaland og sóttum tvær filmur í framköllun og fórum með eina. Settumst svo inn í bakarí og fengum okkur morgunkaffi. Ósköp var það nú notalegt.

Síðan þá hef ég ekki gert baun. Langaði mest að fara í vídeóleiguna og ná mér í mynd til að liggja yfir í letikastinu mínu, en fannst það slæm fyrirmynd fyrir ungviðið sem er að leika sér. Þær færðu mér hálfa samloku (hornskorna) með pítusósu og gúrku á diski, og ribena djús í glasi inn í tölvu áðan, í forrétt fékk ég örbylgjupopp í poka. Núna eru þær að búa til kókoskúlur svo að ég veit hvað ég fæ í eftirrétt... namminamm!! Bestu frænkur í heimi, ekki spurning. Þær eru líka svo dæmalaust fegnar að fá loksins að leika sér saman bara tvær, stubbalingur ekki að heimta að fá að vera með og stelpurnar í nágrannahlíðinni fjarri góðu gamni. Ég ætla að lauma mér inn í sófa með bókina mína og halda áfram að vera löt í svona klukkutíma í viðbót.

Það er gott að gera ekki neitt....

09 ágúst, 2006

Híhíhohohaha

Stundum þarf ég bara frið og ró. Núna til dæmis er það bara alls ekki í boði, akkúrat þegar ég væri mest í stuði til að kasta mér út af og gleyma mér.

Stubbalingur byrjar aftur í leikskólanum á morgun eftir langt sumarfrí. Það verður ágætis hvíld fyrir okkur bæði. Þá ætla ég að fá mér góðan göngutúr og reyna að viðra úr mér ólundina - kannski verður hressilegt Reykjavíkurrok í boði!! Held ég sé komin með inniveikina.

08 ágúst, 2006

Teningunum hefur verið kastað

Hringdi í vinnuna í dag og lét vita að mín væri ekki að vænta þar í haust. Bossinn var nottla upptekinn svo ég talaði við deildarbossinn (sem er reyndar uppáhalds hjá mér) og hún ætlaði að tala við Bossinn og heyra aftur í mér á morgun. Ó mæ hvað það verður ljúft að geta sinnt náminu á morgnana þegar börnin eru í skólanum........

Kláraði að lesa Dóttir Ávítarans í gærkvöldi, hún var mjög fljótlesin eftir bókina á undan, Sushi for Beginners. Enda er sú bók tæpar 600 bls. og stafirnir litlir. Enn eru einhverjar bækur í skúffunni og á náttborðinu sem bíða lestrar, eins gott að drífa sig áður en námsbækurnar fara að hrúgast inn. Svo sit ég bara hérna og skrifa þegar ég ætti að vera að lesa......farin........

Bleikt

Stelpurnar mínar hafa aldrei verið mikið fyrir bleikt, hvorug þeirra. Sem ég hef alltaf verið mjög sátt við því að mér fannst bleikt alltaf hræðilega væminn og leiðinlegur litur... jájá, sjálfsagt hef ég átt minn þátt í því að þær voru ekkert mikið að heimta bleikt. Núna erum við að lagfæra herbergi frumburðarins og þar sem hún er stödd í öðrum landshluta treysti hún móður sinni til að velja lit á herbergið. Hún vildi fá það hvítt og einn vegg bleikan.. BLEIKAN... Hún lýsti fyrir mér bleika litnum með því að vitna í púða og sitthvað fleira og ég af stað í málningarbúðina.

Mikið hlakka ég nú til að prinsessan mín komi heim og flytji inni í fína herbergið sitt með tyggjókúlubleika veggnum. Og mikið held ég að hún eigi eftir að vera ánægð og knúsa mig mikið.. ef ekki verður hún bara sjálf að mála yfir bleika vegginn. (Það er enginn litur í litakortinu hérna á blogginu nægilega bleikur, verð að láta þennan duga)

Miss you baby!!

04 ágúst, 2006

frh...

Las um daginn pistil í einhverju blaði þar sem höfundur kvartaði sárlega undan þáttum sem aldrei taka enda. Nefndi hann t.d. Lost, uppáhaldsþáttinn minn, 24, sem ég hef aldrei séð og Prison Break sem ég hef bara séð 1 þátt af. Hann sagðist alltaf verða fyrir vonbrigðum með lokaþáttinn þar sem hann vísaði bara í eitthvað meira og aldrei tækist að ljúka sögunni og koma upp um aðalplottið. Einnig nefndi téður pistlahöfundur bíómyndina Pirates of the Carribean, Dead Man's Chest, sem dæmi um þetta og sagðist hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með hana.

Þessi pistill rifjaðist upp fyrir mér í gærkvöldi þegar ég fór að sjá þessa mynd. Eftir að hafa séð myndina og fylgst spennt með Lost á ég eitt heilræði í fórum mínum fyrir þennan vonsvikna mann sem hann ætti að hafa í huga næst þegar hann fylgist með framhaldsþætti/bíómynd:

It's the Journey, not the Destination!

03 ágúst, 2006

Hár...

... er höfuðprýði - en hvergi annarsstaðar. Konur eiga að vera með sítt og mikið hár, fagurlitað og ræktarlegt með glans. En afhverju vex hár undir höndunum á okkur? Hvaða tilgangi þjónar það? Ekki er það til að halda á okkur hita því að undir höndunum er hvort eð er alltaf hlýtt og notalegt eins og á öðrum loftlausum stöðum. Öðru máli gegnir um útlimina, það er alveg hægt að færa rök fyrir því að hár á löppum haldi hita, en til hvers er ég með 2-3 strá á stóru tánni? Oft hef ég tuðað yfir því hvers vegna ég þurfi að raka mig undir höndum og vaxa á mér leggina á meðan maðurinn minn getur gengið um kafloðinn (m.a.s. á bakinu) án þess að neinn geri athugasemd. Ég er samt allt of mikil pempía til að fara í hárkeppni við hann - enda er ég ekki, þrátt fyrir allt, loðin á bakinu og mundi því eflaust tapa.

Svo fór ég í handsnyrtingu í fyrsta skipti á ævinni um daginn. Vissi bæ ðö vei ekki að til væru svona margar tegundir af kremum og skrúbbum sérhönnuðum fyrir neglur. Mér fannst ég agalega fín og flott, með nýpússaðar og lakkaðar neglur og steinhætti að kroppa og naga. En hvað er eiginlega í gangi.. ég hef ekki undan að pússa þær niður, ekki má víst klippa þær. Neglurnar mínar eru í þvílíkum vaxtarkipp að þær bara lengjast og lengjast því að ekki nenni ég að vera sípússandi, hef sko nóg annað að gera!! Æji, nóg komið af fegurðarraunum í bili, en þá er það spurning dagsins:

Á ég að hætta í vinnunni?

02 ágúst, 2006

Kostakaup

Núna á ég svo fínan búrhníf að ég sker mig í hvert skipti sem ég elda. Kostirnir við beittan hníf: fljótlegra og skemmtilegra að saxa, ókostirnir: litlir skurðir á puttum.

Held ég fái mér bara vettlinga með góðu gripi, samt ekki gúmmíhanska.

01 ágúst, 2006

Hunang

Jibbí!!!
Ég er aftur komin í fast netsamband. Þetta var erfið afeitrun og virkaði ekki neitt. En núna er ég að fara að þrífa í öðru húsi, ég sem þríf helst ekki heima hjá mér vegna bakverkja - best að panta að fá að vera í afþurrkunardeildinni, skúringar eru killer!!

17 júní, 2006

mamma, pabbi, börn og bíll

Sögusvið: strákabíllinn 17.júní. Litli prinsinn situr í aftursætinu, vandlega festur í bílstólinn eins og lög gera ráð fyrir. Sætu systurnar eru þar líka í sínum beltum og mamman og pabbinn frammí, einnig í sínum beltum. Strákabíllinn rennir framúr strætisvagni. Litli prinsinn hefur orðið:

"Mamma, veistu hvað ég sá núna áðan í strætó? Það var kona á nærbuxunum að troða miða í rassinn á sér, mér finnst það ógisssslegt".

Hefur ÞÚ séð auglýsingarnar frá ogvodafone sem eru úti um allt? Kannski ekki svo erfitt að misskilja þær...

16 júní, 2006

Jahérna

Þetta hljómar eins og ég sé öfundsjúk út í gítar, skyldi þó aldrei vera. Held ég drífi mig bara út í sólina og góða veðrið og hugsi minn gang.

15 júní, 2006

Áhugamál

Maðurinn minn elskar vinnuna sína. Hann talar aldrei um að nenna ekki, alltaf spenntur að mæta á morgnana, alltaf erfitt að slíta sig frá henni. Oft skýst hann um helgar til hennar, mörg kvöld fara líka í hana.

Mér var farið að blöskra. Ef hann var ekki í vinnunni, sat hann heima í tölvunni. Að setja upp Excel-skjöl, búa til Power-Point sýningar eða bara skoða stöðuna á mörkuðunum og setja sig inn í málin. Ég tók þá ákvörðun að gefa honum áhugamál. Þegar næsta afmæli rann upp fékk ég mann með viti til að velja fyrir mig gítar fyrir byrjanda, þó nægilega góðan til að endast eitthvað. þarna renndi ég blint í sjóinn, en það sem ég hitti í mark - ó mæ -

Síðan er liðið 1 ár og 4 mánuðir og hann hefur tekið miklum framförum. Maðurinn sem valdi gítarinn er fjarkennari, ég er aðstoðarkennari en aðalkennarinn er netið (reyndar kemur Bubbi sterkur inn þessa dagana). Hann er orðinn þokkalega partýfær og æfir sig öllum stundum.

Stundum langar mig mest til að sturta helvítis gítarnum niður í klósettið...

14 júní, 2006

....

Síðasta einkunnin er komin en heilsan er farin. Leiðinlegt að eyða fríinu í veikindi, ekki að það sé hægt að vera úti í sólbaði svosem.. Svo ég er bara slöpp og fúl og hugsa um allt sem ég þarf og mig langar til að gera, annað en að liggja útaf og lufsast um íbúðina. Yngri börnin bæði komin í frí og lufsast með mér, hanga í tölvu og leikjatölvu - slæmt uppeldi! Kláraði allavega Ruth Rendell á milli höfuðverkjakasta og get farið að byrja á einhverju öðru úr bókabunkanum sem bíður á borðinu (ofstuðlun?).

Svo fæ ég engin comment af því að tryggi lesandinn er í útlöndum og kemst ekki í tölvu, nema að það sé bara út af því að ég er svo andlaus og leiðinileg - gæti líka alveg komið til greina!

12 júní, 2006

Mér finnst rigningin ekki góð!!

það er einstaklega ókvenlegt að vera kvefaður. Það suðar svo mikið inni í eyrunum á mér að ég er að missa heyrn, sjónin er farin að daprast og nefið á mér.. ó mæ. Ég sem er að fara til saumakonunnar á eftir með fína kjólinn minn til að láta hana fiffa hann pínulítið. Næ kannski bara að kúra og lesa í hálftíma áður en ég sæki krúttann, hann fær nefnilega að fara með!! En sá lúxus að vera í fríi...

..og enn bíð ég eftir síðustu einkunninni, átti að koma á föstudaginn, á föstudaginnn kom tilkynning um að hún kæmi á mánudaginn - og núna er klukkan orðin þrjú!!

11 júní, 2006

Þrútið var loft og þungur sjór

Ég er ekki mikið útivistarfólk. Tek mig samt til öðru hvoru, skelli í nestisbox og dreg fjölskylduna út fyrir bæjarmörkin. Miðað við hvað þetta gerist sjaldan, er alveg með ólíkindum hvað við fáum oft vont veður. Mér er minnistæð ein fjöruferðin okkar sem varla var stætt í fjöru fyrir roki af hafi og börnin mín fuku út um allar trissur. En semsagt: Ákváðum í gær að skreppa á Stokkseyri í dag og skoða Ævintýragarðinn. Loftið var svo sannarlega þrútið og þokudrungað vorið þegar ég stóð í eldhúsinu í morgun og smurði samlokur.. og auðvitað hellirigndi allan tímann og við slaufuðum ferðinni í Ævintýragarðinn! Kíktum þó ofan í Kerið og borðuðum nestið í Laugarvatnshelli. Hættum okkur ekki út úr bílnum á Þingvöllum því að þar var slagviðri.

Keypti mér brúnkukrem í Body Shop í gær, hef ekki enn játað mig sigraða í keppninni, enda nægur tími til stefnu.. Bestu kveðjur til Mallorca!!

07 júní, 2006

Buhuuu...

Netkærastan mín er að fara til útlanda á morgun, hvernig á ég að fara að? Hey.. viltu koma í brúnkukeppni Birgitta? þá hef ég að einhverju að stafna á meðan þú ert í burtu.

Æji samt, frekar vonlaust fyrir mig, ekki bara vegna alræmds sólarleysis á Íslandi yfirhöfuð. Gæti eiginlega alveg eins skorað á þig í krullukeppni... Hmmmm.. En allavega. góða ferð, hlakka til að sjá þig á Ísafirði - ekki seinna en í Júlí!!!

06 júní, 2006

Sé ekki skóginn fyrir trjám

það er nefnilega málið, hefur alltaf verið minn akkilesarhæll. Uppgötvaði í vetur að það er til enn flottara nafn yfir þetta vandamál, nefnilega skortur á Umhverfisgreind, hef notað það óspart síðan. Ég þekki enn ekki í sundur hægri og vinstri (þarf ýmist að máta mig við píanóið eða skoða þumalfingurna til að fatta hvort er hvað), og ekki veit ég enn í hvaða átt norður, suður, austur eða vestur er. Bíð eftir að uppgötva einhverja aulareglu til að nota við það.. Ég er glötuð í landafræði og er nýbúin að fatta hvar Egilsstaðir eru á landakortinu.

Mamma segir, að það sé óþarfi að vera góður í öllu og verkaskiptingu á heimilinu ætti að miða við það að hver geri það sem hann er góður í, nokkuð góð regla. Ef ég er góð í að elda en léleg í að vaska upp, sé ég bara um að eldamennskuna. Það er verst að ég er svo assgoti góð í öllum húsverkum, svo ég er farin að sjá að það er erfitt að heimfæra þessa reglu upp á mitt heimilishald. Samkvæmt þessu á tilvonandi eiginmaðurinn að sjá um að finna stystu leiðina á staðinn, skipuleggja ferðalögin og sjá um heimilisbókhaldið. Hann nennir reyndar ekki að sjá um heimilisbókhaldið (ekki ég heldur) en hann er alveg til í hitt. Þannig að... eldhúsið er á mér, ferðalögin á honum. Hvað er ég þá að gera til að kenna dætrum mínum jafnrétti í verki - nákvæmlega ekki neitt! Það er nefnilega ekki nóg að kenna jafnrétti í orði, það verður að vera á borði líka. Ef þú vilt að dæturnar og synirnir læri að mamma og pabbi séu jöfn, keyrðu þá fjölskyldubílinn.. ekki bara þegar pabbi er fullur!

Piff.. virkar ekki hjá mér (af því að ég rata ekki neitt), held ég læri frekar á borvélina, er örugglega með betri fínhreyfingar en kallinn. Umhverfisgreind er þó hægt að þjálfa, það er ég byrjuð að gera. Alltaf að skoða heimskortið og Íslandskortið, svo er ég meira að segja farin að rata í Árbæinn...

Bubbi kominn á fóninn, flottasta afmælisveisla sem ég hef farið í!!

31 maí, 2006

Ég er ...

.. bakveik, fótalúin og löt - já og gráðug líka!

18 maí, 2006

Allt að gerast..

.. í maí, og mig sem langar mest að leggjast upp í rúm og sofa í jafnmörg ár og Þyrnirós. Fyrir utan fimleikasýningu og próflokadjamm er það vorferð og sveitaferð og óvissuferð og skólaafmæli og gagnfræðingaafmæli.

Og þvotturinn hleðst upp

17 maí, 2006

Kringlan.. allt á einum stað!

So true, so true!! og öll vandamálin leyst. Er hérmeð hætt að eltast við íþróttabúðir, þar fæst ekkert sem mig vantar eða langar í. Fékk þessar fínu svörtu leggins í Sock-Shop og einlita hlýraboli í Du Pareil au Meme, fimleikaprinsessan tilbúin fyrir laugardaginn. Bolir í íþróttabúðum eru allir útbíaðir í allskonar auglýsingum og merkjum og svo fást misljótar joggingbuxur í stíl - viljum ekki svoleiðis takk -

Lengi Lifi Kringlan (troðfull af atkvæðaveiðurum að gefa mis-óspennandi drasl í áróðursskyni)

16 maí, 2006

A.M.

Aðgerð magaminnkun hófst með stæl. Kláraði gulrótarkökuna síðan í gær, fékk mér sneið af bláberjabökunni og fann einn súkkulaðimola - kláraði hann að sjálfsögðu líka. Herlegheitunum skolaði ég niður með eplasafa.

Fatakrísa í gangi eins og oft, fimleikasýning á laugardaginn og við höfum ekki enn fundið réttu buxurnar, ekki er tekið í mál að vera í afklipptum sokkabuxum þó svo að það hafi verið þjálfarinn sem stakk upp á því. Svo ég má nota minn dýrmæta tíma, sem á að fara í lærdóm, í að þræða útilífsbúðir. Keypti vitlausar buxur í dag, of stuttar, í það fór dýrmætur tími sem ég nennti hvort eð er ekki að eyða í lærdóm. Nett spennufall og puttalömun. Held ég reyni að koma smá skipulagi á líf mitt áður en ég kasta mér - oooooo hvað ég hlakka til.

14 maí, 2006

Have you ever seen the rain...

You Are Rain
You can be warm and sexy. Or cold and unwelcoming.Either way, you slowly bring out the beauty around you.
You are best known for: your touch
Your dominant state: changing
What Type of Weather Are You?

11 maí, 2006

Mér leiðast kosningar..

... kannski vegna þess að ég hef jafn mikinn áhuga á þeim og fótboltaleik, eða umstangið og umfjöllunin sem fylgir, brrrrrr

Reyndar fer allt einstaklega mikið í taugarnar á mér þessa dagana, en það er bara mitt vandamál (og Birgittu sem fær allt beint í æð). Sé í hillingum fram á daga sem ég get komið heim úr vinnunni og gert bara það sem mig langar, eða ekkert ef mig langar - að ég tali nú ekki um þegar ég þarf bara yfirhöfuð ekki að fara í vinnuna og get bara alið á eigin leti og ómennsku. Það verða ljúfir tímar...

05 maí, 2006

Kjúklingur Piparsveinsins

"Önnum kafnir ungir menn hafa sjaldan mikinn tíma fyrir eldamennskuna. Oftar en ekki er kunnáttan af enn skornari skammti. Til að galdra fram góðan mat þarf hvorugt"
(Fréttablaðið, 05.04 2006)
Í framhaldi þessarar snilldar er svo uppskrift af girnilegum kjúklingarétti. Af hverju þurfti það að vera ungir menn? Af hverju ekki kjúklingur piparkonunnar? Vinkona mín er piparsveinn, býr ein með kisunni sinni. Ég kalla hana piparsvein núna af því að það er ekki til neitt orð yfir klárar, fallegar, sjálfstæðar konur sem búa einar (nema þá piparjúnka, sem er yfirleitt notað í niðrandi merkingu). Hvað þá að nokkur leggi það á sig að tileinka þeim girnilegan kjúklingarétt. Enda er gert ráð fyrir því að hver kona kunni að elda, ekki bara kunni, heldur nenni líka. Piparsveinavinkonan mín nennir sárasjaldan að elda, ég mundi ekki nenna að elda fyrir mig eina og kisuna mína. Ætli ég færi ekki bara út að borða - fengi mér hvítvínsglas með -

04 maí, 2006

Af fóstrum og öðru góðu fólki

Einkasonur minn ætlar að flytja á leikskólann. Það er sko allt í lagi að sofa þar af því að fóstrurnar eiga heima þar og gista því líka. Þær sofa lengst niðri í kjallara, þar búa þær sér til holur til að sofa í. Ég skil hann vel, á leikskólanum er gott að vera. Þar lærir maður bílareglur (umferðarreglurnar) og leyndarmál (táknmál). Á heimleið í dag benti hann mér meira að segja á hlera í gangstéttinni og sagði mér að þetta væri einmitt svona hola eins og fóstrurnar svæfu í!! Svo er líka ofarlega á óskalistanum að búa hjá frænku í næstu götu, heimasætan getur lesið fyrir hann á kvöldin, að hans sögn. Svona kann hann nú að meta fjölskylduna sína, þetta yndi. Þarf að rjúka..........

03 maí, 2006

Timburmenn

Ég mun aldrei aftur láta skyr inn fyrir mínar varir og hvað þá ofan í maga. Fráhvarfseinkennin eru enn verri en brjóstsviðinn í gær.

02 maí, 2006

Skyrandstæðingar landsins sameinist!!

Hvað er þetta með þessa skyrdýrkun landans alltaf hreint! Hef ekki heyrt um neinn nema mig sem getur ekki étið skyr. Svo hollt og fitulítið og gott og fljótlegt.. ókei, það er gott, ég viðurkenni það, en hvað það fer illa í mig, ó mæ ó mæ. Geri alltaf tilraun öðru hvoru - fannst komið ansi langt síðan ég hafði smakkað síðast svo ég fékk mér peruskyr áðan, mjög bragðgott. En ég er búin að vera með meltingartruflanir og brjóstsviða og ógeð síðan og það verður líklega eitthvað viðloðandi fram á kvöld. Ekki gott að læra stærðfræði með brjóstsviða, nóg er nú ógeðið samt.

Sumarið er komið.. vissuði það?

01 maí, 2006

Tómleikatilfinning..

.. af því að ég er búin með bókina. Hvernig á maður að taka því þegar fólk sem hefur verið svo stór partur af lífi manns, hverfur allt í einu á braut? Gengur þetta upp hjá Katherine og Joe Roth? Mun Tara ná sér í lífsförunautinn sem hún þráir svo mjög? Á Fintan eftir að ná sér af krabbameininu og mun Sandro halda sambúðina út þrátt fyrir öll vandamálin? Það er eins og búið sé að draga fyrir gluggann sem ég er búin að vera að kíkja í gegnum og nú get ég ekki hætt að hugsa um fólkið fyrir innan. Kannski er framhald.. þó ég efist um það. Þetta er ekki svoleiðis bók. En þá er bara að finna sér nýja vini, sagan af Pí er komin á náttborðið. Það besta við að vera í skóla er að það gefst svo lítill tími til lesturs að bækurnar endast ótrúlega lengi. Stundum er það samt ókostur.

Að öðru.. ansi lærir maður nú vel þegar tölvan er ekki nettengd, það fækkar freistingunum! Gallinn er að lærdómspartnerinn hverfur í leiðinni - það er mjööööög erfitt- En ég er allavega komin í gírinn, stærðfræði rúlar!!

24 apríl, 2006

Veðurguðirnir hljóta að vera geggjaðir..

... það snjóar allavega fyrir utan gluggann minn, og ég með öll stóru orðin um að nú sé veturinn endanlega farinn. Greit!!!

Tilbrigði við vor

.. og þar með lýkur síðasta innskoti vetrarins. Það var óneitanlega fallegt að koma út klukkan hálf-sex í morgun, blankalogn og hvítt yfir öllu, öll tré hvít. Vitandi það að þetta myndi varla endast út daginn sópaði ég glöð af bílnum. þegar ég labbaði heim klukkan að verða 2 í dag var líka allur snjórinn farinn.

Únglíngurinn minn fór með vetrinum, ástæðan fyrir því að ég var svona óvenju snemma á fótum. Vona að veðrið leiki við hana þessa viku í Danaveldi. Ef þú lest þetta mín kæra, þá bið ég kærlega að heilsa Ninu og fjölskyldunni hennar, vona að þau séu góð við þig :)

21 apríl, 2006

Ég er....

...semsagt steiktur kjúklingur sem villist inn í útihús og deyr!!!

Þetta er nú meira bullið!!

Marta --
[noun]:

A person who falls into an outhouse and dies

'How" will you be defined in the dictionary?' at QuizGalaxy.com


og svo þetta...

Hlín --
[adjective]:

Tastes like fried chicken

'How" will you be defined in the dictionary?' at QuizGalaxy.com

19 apríl, 2006

Voróróleiki

Voðalegur pirringur er þetta inní mér. Stressa mig yfir öllu og engu, aðallega engu. Finnst stöðugt eins og ég eigi að vera að gera eitthvað annað, sé að gleyma einhverju. Samt er enn langt í próf og róleg helgi framundan. Ætli það hafi ekki verið akkúrat þessi tilfinning sem fékk mig til þess, fyrir 10 árum síðan, að lofa sjálfri mér að ég færi aldrei aftur í skóla - mér hefnist fyrir að svíkja sjálfa mig! Það eru semsagt að verða komin 10 ár síðan ég útskrifaðist úr píanókennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík. Þá var ég með stutt hár og gleraugu, einhverjum kílóum léttari en í dag en samt komin rúmlega 6 mánuði á leið. Held ég fari á róandi áður en skólinn byrjar næsta haust, svo ég drepi mig ekki alveg á þessu stússi. Svo fer ég til Maríunnar minnar á laugardaginn, þessi elska ætlar að bjarga geðheilsunni fyrir horn.

Svo lifi ég bara á því að þessu verður brátt lokið í bili og ég kemst í langþráð sumarfrí, en núna ætla ég að elda Lasagne - með kotasælu ;)

11 apríl, 2006

Pökkun

Ég er að fara að pakka niður, eina (ísafjarðar)ferðina enn. Það er gaman á Ísafirði, þar er gott að vera. Ætla að að sinna börnunum mínum... (læra smá)

pakkipakk, verð að muna eftir páskaeggjunum sem eru uppi á skáp!

09 apríl, 2006

súkkulaðisúkkulaðisúkkulaðisjúkur

Ég hef alltaf átt erfitt með að standast súkkulaði, var það ekki Oscar Wilde sem sagði að freistingar væru til að falla fyrir þeim? Hefði samt betur sleppt því að opna þennan risa konfektkassa sem Nina færði okkur frá Danmörku, allavega rétt á meðan það var bara smærri útgáfan af fjölskyldunni viðstödd. En kassinn er kominn upp á skáp, ef þig langar í mola neyðist þú til að kíkja í kaffi. Einn kaldan vetrarmorgun var ég stödd í Leifsstöð með ástmanni mínum á leið til útlanda, bara við tvö. Hann var í símanum (o.k. þrjú!!) og ég að rápa í búðirnar. Ég nennti því nú ekki lengi og keypti mér ekkert súkkuðlaði, af því að mig langaði heldur til að setjast á barinn og fá mér hvítvínsglas. Ég leit stolt á það sem þroskamerki, og geri enn...

...oft langar mig í súkkulaði bara af gömlum vana, old habits die hard...

Hmmm

Your Birthdate: March 14
You work well with others. That is, you're good at getting them to do work for you.It's true that you get by on your charm. But so what? You make people happy!You're dynamic, clever, and funny. And people like to have you around.But you're so restless, they better not expect you to stay around for long.
Your strength: Your superstar charisma
Your weakness: Commitment means nothing to you
Your power color: Fuchsia
Your power symbol: Diamond
Your power month: May
What Does Your Birth Date Mean?

05 apríl, 2006

Móðir, kona, meyja

Finnst ég vera farin að halda framhjá fjölskyldunni minni með tölvunni minni. Ekki góð þróun. Ég hætti á sínum tíma að misnota sjónvarpstækið, hlýt að geta breytt þessari þróun líka.

Ætla ekkert að halda áfram með færslu gærdagsins.. hún var eitthvað svo leiðinleg. Ætla bara að halda áfram að vera góð móðir og ekki með samviskubit. Skil bara ekki hvað dætur mínar geta stundum rifist mikið, eins og þær eiga góða móður...

04 apríl, 2006

Jájájá...

Eftir að börnin mín fæddust hef ég aldrei verið í fullri vinnu. Ýmist í námi eða hlutastarfi. Þegar ég var einstæð móðir vann ég rúmlega 80%, fyrir utan svörtu vinnuna. Oft á tíðum hef ég hálfpartinn verið að afsaka mig fyrir að hafa svona lítið fyrir stafni á meðan vinkonurnar voru á fullu í námi, framapoti og barneignum (þær byrjuðu svo seint að eiga börn - eða ég svo snemma).

Allt er breytt. Ég er í erfiðri taugatrekkjandi vinnu, kem skapvond heim og fer þá beint inn í herbergi að læra. Ég er orðin allt sem ég ætlaði mér ekki.... meira seinna, er að fara að sjá söngleikinn í Hlíðaskóla, það verður nú gaman!

Meira danskt..

Únglínar, únglíngar...

Hrúga í skólanum, tveir á heimilinu... Ferðin í Bláa Lónið í morgun fór auðvitað þannig að dönsku krakkarnir héldu sig saman og þeir íslensku héldu sig saman. En ekki hvað? Vitiði til, ég mundi sko skrifa þessa færslu á dönsku ef ég hefði danska stafi í tölvunni minni! Ég ætla allavega að undirbúa dönskukennslu fyrir únglíngahrúguna í skólanum fyrir morgundaginn.

...styttist í föstudaginn :)

03 apríl, 2006

Danskir dagar

Æ hvað maður er fatlaður að geta ekki talað dönsku almennilega. Get svona bjargað mér, ekki meira en það, finnst vanta fulllllllt af orðum í orðaforðann, skyldi það vera æfingaleysi? Mamma var nú dugleg að pota að mér bókum á dönsku hérna í eina tíð, ég meira að segja las þær. Hef alltaf verið mjög hlýðin dóttir.. er það ekki mamma?

En ungu dömurnar eru allavega farnar í bíó, mín var alveg að deyja úr vandræðagangi áðan og sú danska líka. Ekki lagaðist það þegar Óli dró fram myndaalbúmin og vildi endilega fara að sýna stúlkunni myndir. Þetta verðu skemmtileg vika. Dansk og dejlig.

Hilsen P.Jensen
(nei sko nú verðurðu að fara að segja mér söguna frú B!!)

31 mars, 2006

Skortur á framtaksleysi

Vinkona mín var einusinni að vinna hjá verkalýðsfélagi úti á landi. Það átti litla íbúð í Reykjavík sem var leigð út til félagsmanna og starfsfólks. Dag einn var hún send við annan mann til borgarinnar, það átti að flikka aðeins upp á íbúðina - kaupa nýjar gardínur, sængurföt - svona aðeins að gera huggulegt. Þetta þótti nú bara spennandi verkefni, ágætis tilbreyting frá amstri hversdagsins. Stúlkan sem send var með í för var rólyndismanneskja - bauð af sér góðan þokka. Til að gera langa sögu stutta, var þessi stúlka algerlega frumkvæðislaus. Hún beið alltaf eftir að vinkonan ákvæði hvert ætti að fara hvað ætti að gera, hvað ætti að kaupa, borða, drekka.... bara allt. Vinkona mín var orðin mjög þreytt á þessu, enda sjálfstæð kona sem vill ekki stjórna öðrum, heldur sjá frumkvæði og framtakssemi í einstaklingnum. Hún ákvað að gera eitt lokapróf. Þær fóru í bíó og vinkonan ákvað að standa ekki upp úr sætinu eftir að myndinni lauk á undan stúlkunni, já svona var þetta orðið slæmt. Skemmst er frá því að segja að vinkonan gafst upp, hún ætlaði nú ekki að sitja í bíóinu langt fram yfir miðnætti.

Núna er ég í þessari aðstöðu. Sit uppi með að vinna mjög langdregið, vandasamt og erfitt verkefni með nákvæmlega svona manneskju. Sem betur erum við ekki bara tvær. Annars sæti ég ennþá í bíóinu, ég get verið svo þrjósk þegar ég bít eitthvað í mig.

Þetta sá ég heima hjá Birgittu um daginn, verð að koma því á framfæri:
það tekur aðeins um 20 mínútur að lækna nærsýni og fjarsýni,
væri ekki frábært ef það tæki líka 20 mínútur að lækna þröngsýni og skammsýni!

Lifið heil, sjálfstæð, ákveðin og skapandi

28 mars, 2006

103

Vá, allt í einu er teljarinn kominn yfir hundrað! Gleymi honum alltaf þarna neðst á síðunni. Kann ekki að setja hann á betri stað, eins og ég hafði nú mikið fyrir því að pota honum inn á síðuna. Ef einhver af þessum 3 lesendum er með imbahelda aðstoð.. þá bara já takk :)

Í dag heiti ég Júlía

Neinei, er ekki starfsorkan bara alveg að drepa mann eftir spennandi dag í vinnunni. Nei einmitt ekki. Er bara þreytt. Búin að kaupa í matinn og elda matinn, búin að sækja á leikskólann, skutla í fimleika og knúsa börnin, búin að skrifa dagbókina, á eftir að lesa kristinfræðina.. vei.. en það sem verra er, er ekkert byrjuð á verkefninu um Bernstein og Bordieu. Held ég byrji ekki úr þessu, er farin að þjást af sjónvarpsglápsskorti. Held ég bæti úr því í kvöld. Svo er BH ekki viðlátin, held að ég sé orðin háð henni, get bara ekki lært ef hún er ekki að læra líka, fínt að eiga það í afsökunarbankanum! Held það bara.. sjónvarpsgláp í kvöld, best væri þó að hafa ís til að narta í með...
Mér finnst Júlía svo fallegt nafn, held að það henti mér í dag að heita Júlía, maður verður svo þolinmóður og mjúkur að innan þegar maður heitir Júlía. Hefur þú prófað það?

27 mars, 2006

Undirbúningsvinna

Skyldi ég einhverntíma eiga eftir að verða kennari? Finnst bara að þegar maður fer í fyrsta skipti að kenna eigi maður að fá í hendurnar krúsídúllur í 2.bekk (veit þær geta líka verið óþekkar, krúsídúllurnar) sem finnst ennþá spennandi að vera í skóla. Held að verðandi unglingarnir okkar Birgittu eigi eftir að færa sig upp á skaftið eftir því sem líður á tímann, en þá er bara að vera tilbúinn að stíga á þá.. er það ekki? Ég er sko ekkert hrædd við verðandi unglinga, er miklu þrjóskari, frekari, lífsreyndari og skemmtilegri en þeir allir til samans - hljómar eins og ég sé að reyna að sannfæra einhvern hérna -

Nótta góð...

22 mars, 2006

Langir dagar

Mér leiðist þegar fólk þarf alltaf að vera að tala um hvað það er mikið að gera hjá því. Ætla mér ekki að detta sjálf í þann pytt, gæti orðið erfitt að komast upp úr honum. Þekki konuna í risinu lítillega og þá sjaldan ég rekst á hana er hún alltaf á innsoginu yfir því hvað sé mikið að gera hjá henni, hún er nefnilega í háskólanum og virðist bara vera í endalausum prófum. Þekki fleiri með þessa veiki, á misháu stigi. Svo þekki ég líka fólk sem er alltaf á fullu en kvartar aldrei, tekur bara því sem að höndum ber með bros á vör. Veit ekki hvorum hópnum ég tilheyri þar sem fjarlægðin er svo lítil.

En undanfarna daga hef ég þó verið að kvarta undan of fáum tímum í sólarhring viðurkenni það alveg. Held ég fari bara að hringja í konuna í risinu, svei mér þá....

18 mars, 2006

enn um kosti

Minn stærsti kostur er óendanleg þolinmæði. Ég hef skilning þegar aðrir eru að pirrast yfir fólki sem er erfitt í umgengni, ég geri það alveg sjálf, en mér finnst ekki taka því að láta það ergja mig inn að beini. Það er líka mjög erfitt að reita mig til reiði. Það er líklega fylgifiskur þolinmæðinnar.

En eins og með flesta kosti, er þetta líka ókostur. Með því að sýna endalausa þolinmæði býður maður fólki að ganga á lagið. Það er ekki gott. Það er líka nauðsynlegt að geta staðið upp og sagt nú er nóg komið, þegar nóg er komið! Það er líka gott að bera málefni undir fólk sem er traustsins vert, vega og meta þeirra skoðun til að fá aðra hlið á málinu. Það er fátt jafn dýrmætt í lífinu og góður vinur, svo mikið er víst.

17 mars, 2006

Pepp

Ég er snillingur!! ótrúlega klár og sniðug, góð í eiginlega öllu sem ég tek mér fyrir hendur. Verst hvað mér er illt í maganum...

15 mars, 2006

Dagdraumar

Mundi örugglega henta mér að vera nunna, búa í klaustri, mála á kerti, rækta grænmeti og syngja. Þá eru alltaf ákveðnir matmálstímar og þvottadagar og allt í skorðum, sem ég mundi ekki þurfa að búa til sjálf. Held að það henti mér að vera í ramma þó ég geti ekki smíðað hann hjálparlaust. Er búin að biðja um aðstoð við rammasmíði hjá góðri vinkonu sem segist halda uppi Hitlers aga á sínu heimili. Hún vildi ekki hjálpa mér. Mundi samt ekki nenna að safna péning, boða guðsblessun eða iðka trúna, svo klaustrið er sennilega útúr myndinni. Held að ég mundi sakna Óla, þrátt fyrir allt, og auðvitað barnanna... enn meira útúr myndinni.

Kaupi mér bara gamalt niðurnítt hús, með þykkum útveggjum, verð með fífla og sóleyjar í glugganum sem börnin hafa fært mér syngjandi í sólskininu. Ég inni að baka eplaköku (úr eplunum sem vaxa á trjánum fyrir utan gluggann) á meðan þau skottast úti hlæjandi. Svo kemur Óli heim af akrinum, útitekinn og hraustlegur þegar ég er tilbúin með ferskt salat, speltbrauð og gufusoðinn lax sem hann veiddi í gær...

... og ég náföl með bauga af allri inniverunni og eldamennskunni - það er eitthvað sem er ekki alveg að ganga upp í þessari draumsýn. Ég veit alveg hvað það er
ÉG ER ALLT OF HE.... RAUNSÆ!!!!

11 mars, 2006

Plogg

Æ mér finnst bara miklu skemmtilegra að lesa annarra manna blogg en að skrifa mitt eigið. Ætli það sé vegna þess að ég tjái mig svo mikið dags daglega en gefi mér engan tíma til að hlusta á aðra? Held nú ekki... kannski er ég bara svona hugmyndasnauð.

07 mars, 2006

Fargan

Hvað er eiginlega með þetta dagblaðafargan inn á heimilin. Er þetta eitthvað sem tíðkast í hinum siðmenntaða heimi eða er þetta bara svona hjá okkur hérna á Íslandi? Hver er eiginlega meiningin með að senda manni ekki bara eitt frítt blað óumbeðið, heldur tvö!!! Svo þáðum við fría mogga-áskrift í mánuð og maður er hreinlega að drukkna. Fyrir nú utan alla yndislegu auglýsingabæklingana......

02 mars, 2006

Lítill fugl

Ég man ekkert hvað ég var gömul, en afmælið var í fullum gangi þegar mamma náði í mig og sagði mér að koma og heilsa upp á ömmu. Amma var komin í afmælið og sat frammi í eldhúsi með kaffibollann. Amma faðmaði mig að sér og óskaði mér til hamingju með afmælið, rétti mér svo afmælispakka eins og lög gera ráð fyrir. Ég opnaði pakkann og í honum var Barbie-dúkka. Ég varð svo himinsæl og glöð, flaug upp um hálsinn á ömmu og spurði hana, hvernig vissir þú að þetta var það sem mig langaði mest í? Og amma svarði að það hefði lítill fugl hvíslað því að henni, það fannst mér skrítið...

Ég man ekki til þess að hafa eignast Barbie-dúkku, hvorki fyrr né síðar, getur samt vel verið þar sem ég er ekki mjög minnug manneskja. En þessi var allavega alveg spes. Hún var með liðamót og beygjufætur og svo var hún líka dökk á hörund með kolsvart sítt hár, ótrúlega flott!! En kannski er það líka af því að ég átti svo yndislega ömmu...

19 febrúar, 2006

Látalæti...

Svo standa þau á tröppunum (gerist sem betur fer ekki oft) eins og allt sé bara í himnalagi. Brosa sínu blíðasta. Ég er svo vel upp alin, brosi bara á móti og tala út í bláinn eins og þau. Um hluti sem skipta engu máli. Hvað er hún svona veik, æ æ, bið að heilsa henni. Bið að heilsa hvað, hún er 10 skref frá þér, afhverju kíkir þú ekki bara inn til hennar og heilsar upp á hana, spyrð hvernig henni líði? En ég segi það ekki, enda ekki mitt hlutverk, tek ekki þátt í þessari vitleysu.

15 febrúar, 2006

Skrítið

Skrítið. Ég hélt að þegar ég mundi byrja að blogga yrði ég óstöðvandi snilldarpenni. Það er nú ekki alveg að gerast. Held að ástæðan fyrir því sé sú að ég fæ bestu hugmyndirnar þegar ég ligg andvaka í rúminu á kvöldin. Eða get ekki sofið fyrir verk í bakinu eða hnénu..þetta hljómar full ellilega..

Allavega, hlýtur bara að koma að því einn daginn. En mín ástkæra systir á afmæli í dag, til hamingju með það mín kæra!! Búin að fara í kræsingar og kö.... segi ekki meira, af tillitssemi við einu manneskjuna sem veit að ég er bloggari, því að ég veit að hún les þetta.... hellúúú...

14 febrúar, 2006

Heimanám

Erfiðir svona dagar. Búin að skipuleggja hann út í æsar en langar svo ekki að framfylgja skipulaginu, hangi bara á netinu og eyði tímanum sem átti að fara í heimanám, svo að ég komist fyrr á næsta lið, sækja drenginn og drenginn í næsta húsi og fara með þá báða í næsta hús. Það verður nú gaman fyrir þá. Best að fá sér bara harðfisk með smjöri og athuga hvort heimanámsandinn komi ekki yfir mig, best er þó að drekka kók með harðfiski og smjöri en það á ég ekki í ísskápnum...sem betur fer...

10 febrúar, 2006

Þegar amma kom í heimsókn

Amma(60): Náðu nú í tannþráð fyrir ömmu
Drengur(4): Mamma!! Hvar er tannFRáður?
Mamma(36): Hérna er tannÞRáður, gefðu ömmu
Drengur(4): Nei mamma, tannFRRRáður, eins og FRRRRóði....

Algjör snilld þessi drengur...

09 febrúar, 2006

Klukkan

Hmmmm, hvað er þetta með þessa blessaða klukku, eitthvað vitlaust hjá mér...

Dagurinn í dag

Þegar ég labbaði í vinnuna í morgun var kalt...
Þegar ég horfði út um gluggann í vinnunni snjóaði...
Þegar ég labbaði heim úr vinnunni rigndi...

...og ég sem vinn bara frá 8-2